Þeir sem berjast gegn Guði geta ekki sigrað!
„Þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig.“ — JEREMÍA 1:19.
1. Hvaða verkefni fékk Jeremía og hve lengi starfaði hann?
JEHÓVA skipaði hinn unga Jeremía spámann þjóðanna. (Jeremía 1:5) Það var í stjórnartíð hins góða Jósía konungs í Júda. Spámannsþjónusta Jeremía spannaði einnig hið róstusama tímabil áður en Babýloníumenn hertóku Jerúsalem og fluttu fólk Guðs í útlegð. — Jeremía 1:1-3.
2. Hvernig styrkti Jehóva Jeremía og hverju jafngilti það að berjast gegn spámanninum?
2 Dómsboðskapurinn, sem Jeremía var falið að flytja, hlaut að vekja andstöðu svo að Guð bjó hann undir það sem verða vildi. (Jeremía 1:8-10) Það styrkti hann að heyra Jehóva segja: „Þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig.“ (Jeremía 1:19) Að berjast gegn Jeremía jafngilti því að berjast gegn Guði. Núna hefur Jehóva spámannlegan þjónshóp sem vinnur sams konar verk og Jeremía og boðar djarflega spádómsorð Guðs. Þessi boðskapur snertir alla menn og þjóðir annaðhvort til góðs eða ills, allt eftir því hvernig honum er tekið. Líkt og á tímum Jeremía eru til menn sem berjast gegn Guði með því að standa gegn þjónum hans og því starfi sem hann hefur falið þeim.
Þjónar Jehóva sæta árásum
3. Hvers vegna hafa þjónar Jehóva sætt árásum?
3 Fólk Jehóva hefur sætt árásum frá því snemma á 20. öld. Víða um lönd hafa illskufullir menn reynt að hindra, já, bæla niður boðun fagnaðarerindisins um Guðsríki að undirlagi djöfulsins, erkióvinar okkar er „gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (1. Pétursbréf 5:8) Eftir að „tímar heiðingjanna“ enduðu árið 1914 setti Guð son sinn í embætti sem nýjan konung jarðar og fyrirskipaði honum að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna.‘ (Lúkas 21:24; Sálmur 110:2) Kristur beitti valdi sínu, úthýsti Satan af himnum og takmarkaði umsvif hans við nágrenni jarðar. Djöfullinn veit að tíminn er naumur og lætur reiði sína bitna á smurðum kristnum mönnum og félögum þeirra. (Opinberunarbókin 12:9, 17) Hvaða afleiðingar hafa endurteknar árásir fjandmanna Guðs haft?
4. Hvaða prófraunir mátti fólk Jehóva þola á dögum fyrri heimsstyrjaldar en hvað gerðist árið 1919 og 1922?
4 Trú smurðra þjóna Jehóva var reynd á marga vegu í fyrri heimsstyrjöldinni. Þeir voru hæddir og rægðir, sættu skrílsárásum og misþyrmingum, og voru ‚hataðir af öllum þjóðum‘ líkt og Jesús hafði sagt fyrir. (Matteus 24:9) Mitt í stríðsæsingnum beittu óvinir Guðsríkis sams konar bragði og beitt var gegn Jesú Kristi. Þeir stimpluðu þjóna Jehóva ranglega sem uppreisnarmenn og greiddu hinu sýnilega skipulagi hans högg í hjartastað. Í maí 1918 var gefin út handtökuskipun á hendur forseta Varðturnsfélagsins, J. F. Rutherford, og sjö nánustu samstarfsmönnum hans. Áttmenningarnir hlutu þunga fangelsisdóma og voru sendir í alríkisfangelsið í Atlanta í Georgíu. Níu mánuðum síðar var þeim sleppt úr haldi. Í maí 1919 úrskurðaði áfrýjunarréttur að sakborningarnir hefðu ekki fengið óhlutdræg réttarhöld og dóminum var því hnekkt. Málinu var vísað aftur til meðferðar í undirrétti en síðar drógu yfirvöld lögsóknina til baka og bróðir Rutherford og félagar hans fengu fulla uppreisn æru. Þeir héldu áfram þar sem frá var horfið og mótin í Cedar Point í Ohio árið 1919 og 1922 gáfu prédikunarstarfi Guðsríkis byr undir báða vængi.
5. Hvað máttu vottar Jehóva þola í Þýskalandi á nasistaárunum?
5 Á fjórða áratugnum komu einræðisstjórnir fram á sjónarsviðið og með bandalagi Ítalíu, Japans og Þýskalands urðu Möndulveldin til. Snemma á þeim áratug brutust út grimmilegar ofsóknir gegn þjónum Guðs, einkum í Þýskalandi nasista. Starf þeirra var bannað, leitað í húsum, húsráðendur handteknir og þúsundir sendar í fangabúðir fyrir að vilja ekki afneita trú sinni. Baráttan gegn Guði og fólki hans miðaði að því að afmá votta Jehóva í þessu einræðisveldi.a Þegar vottarnir leituðu til þýskra dómstóla til að berjast fyrir réttindum sínum sendi dómsmálaráðuneyti Þriðja ríkisins frá sér ítarlega álitsgerð til að tryggja að þeim yrði ekki ágengt. Þar stóð: „Dómstólarnir mega ekki bregðast vegna ‚lagalegra‘ formsatriða, heldur leita leiða til að uppfylla æðri skyldur sínar þrátt fyrir lögformlega erfiðleika.“ Þetta þýddi að réttvísi var ekki að fá. Nasistar héldu því fram að starfsemi votta Jehóva væri fjandsamleg og ‚truflaði uppbyggingu þjóðernissósíalismans.‘
6. Hvaða tilraunir voru gerðar til að stöðva starf okkar í síðari heimsstyrjöldinni og á árunum þar á eftir?
6 Í síðari heimsstyrjöldinni voru hömlur og bönn sett á fólk Guðs í Ástralíu, Kanada og í öðrum ríkjum breska samveldisins í Afríku, Asíu og á eyjum Karíba- og Kyrrahafs. Í Bandaríkjunum gripu áhrifamiklir óvinir og óupplýstir menn til þess ráðs að búa vottunum „tjón undir yfirskini réttarins.“ (Sálmur 94:20) Vottarnir börðust fyrir dómstólum í fánahyllingarmálum og gegn reglugerðum bæjarfélaga sem bönnuðu prédikun hús úr húsi, og hagstæðir dómsúrskurðir styrktu trúfrelsi jafnt og þétt. Svo er Jehóva fyrir að þakka að óvinirnir báru ekki sigur úr býtum. Þegar stríðinu lauk í Evrópu var bönnunum aflétt. Þúsundum votta í fangabúðum var sleppt úr haldi en baráttan var ekki á enda. Strax í kjölfar síðari heimsstyrjaldar hófst kalda stríðið og þjóðir Austur-Evrópu tóku að þjarma að fólki Jehóva. Yfirvöld gripu til aðgerða til að trufla og stöðva boðunarstarf þeirra, biblíuritaútgáfu og mótshald. Margir voru fangelsaðir eða sendir í þrælkunarbúðir.
Áfram með prédikunarstarfið!
7. Hvað hafa vottar Jehóva upplifað í Póllandi, Rússlandi og víðar á síðustu árum?
7 Er áratugirnir liðu varð boðunarstarfið frjálsara. Pólland leyfði að haldin væru eins dags mót árið 1982 þótt kommúnistar væru enn við völd. Alþjóðleg mót voru síðan haldin þar árið 1985 og enn fjölmennari alþjóðamót fylgdu í kjölfarið árið 1989 sem þúsundir Rússa og Úkraínumanna sóttu. Sama ár var vottum Jehóva veitt lagaleg viðurkenning í Ungverjalandi og Póllandi. Haustið 1989 féll Berlínarmúrinn. Nokkrum mánuðum síðar var vottunum veitt lagaleg viðurkenning í Austur-Þýskalandi og stuttu eftir það var alþjóðamót haldið í Berlín. Í upphafi síðasta áratugar 20. aldar var reynt að komast í samband við bræðurna í Rússlandi. Leitað var til embættismanna í Moskvu og árið 1991 fengu vottar Jehóva lögskráningu. Síðan þá hefur starfið aukist gríðarlega í Rússlandi og einnig í lýðveldum Sovétríkjanna fyrrverandi.
8. Hvað gerðist hjá fólki Jehóva á 45 ára tímabili frá lokum síðari heimsstyrjaldar?
8 Þegar ofsóknum linnti sums staðar mögnuðust þær annars staðar. Á 45 ára tímabili frá lokum síðari heimsstyrjaldar neituðu fjölmörg ríki að veita vottum Jehóva lagalega viðurkenningu. Starfsemi þeirra var auk þess bönnuð í 23 löndum í Afríku, 9 í Asíu, 8 í Evrópu, 3 í Rómönsku Ameríku og á 4 eyríkjum.
9. Hvað hafa þjónar Jehóva mátt þola í Malaví?
9 Vottar Jehóva í Malaví máttu þola hrottalegar ofsóknir frá árinu 1967 fyrir að neita að kaupa flokksskírteini stjórnmálaflokksins vegna sannkristinnar hlutleysisafstöðu sinnar. (Jóhannes 17:16) Eftir fund Kongressflokks Malaví árið 1972 hófst hrottaskapurinn á ný. Bræðurnir voru hraktir frá heimilum sínum og þeim neitað um vinnu. Þúsundir flýðu land til að forða lífi sínu. En báru þeir sem börðust gegn Guði og fólki hans sigur úr býtum? Alls ekki. Mikil umskipti áttu sér stað og árið 1999 var hámarkstala boðbera í Malaví 43.767 og meira en 120.000 sóttu umdæmismótin þar í landi. Ný deildarskrifstofa hefur verið byggð í höfuðborginni.
Þeir leita að átyllu
10. Til hvaða bragða hafa andstæðingar fólks Guðs gripið nú á tímum líkt og á tímum Daníels?
10 Fráhvarfsmenn, klerkar og fleiri þola ekki að heyra boðskapinn sem við flytjum frá orði Guðs. Undir þrýstingi frá trúaröflum í kristna heiminum leita andstæðingar ‚lagalegra leiða‘ til að réttlæta baráttu sína gegn okkur. Hvaða brögðum er stundum beitt? Nú, til hvaða aðgerða gripu samsærismenn gegn spámanninum Daníel? Við lesum í Daníel 6:5, 6: „Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum. Þá sögðu þessir menn: ‚Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans.‘“ Andstæðingar nútímans leita líka að átyllu. Þeir kvarta hástöfum um „hættulegar trúarreglur“ og reyna að skipa vottum Jehóva í flokk með þeim. Þeir beita rangfærslum, dylgjum og hreinum ósannindum til að ráðast á tilbeiðslu okkar og fastheldni við meginreglur Guðs.
11. Hvað hafa sumir andstæðingar votta Jehóva fullyrt ranglega?
11 Trúarleg og pólitísk öfl í sumum löndum vilja ekki viðurkenna að við stundum ‚hreina og flekklausa guðrækni fyrir Guði.‘ (Jakobsbréfið 1:27) Andstæðingar fullyrða að við séum ekki „þekkt trúarbrögð,“ jafnvel þótt kristilegt starf okkar fari fram í 234 löndum. Skömmu fyrir alþjóðlegt umdæmismót árið 1998 hafði dagblað í Aþenu eftir klerkum grísku rétttrúnaðarkirkjunnar að „[vottar Jehóva] væru ekki ‚þekkt trúfélag,‘“ þrátt fyrir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu um hið gagnstæða. Fáeinum dögum síðar hafði annað dagblað þar í borg þetta eftir talsmanni kirkjunnar: „[Vottar Jehóva] geta ekki verið ‚kristinn söfnuður‘ af því að þeir eiga ekkert sameiginlegt með hinni kristnu trú á persónu Jesú Krists.“ Þetta er með ólíkindum! Enginn annar trúarhópur leggur meiri áherslu á að líkja eftir Jesú en vottar Jehóva!
12. Hvað verðum við að gera þegar við eigum í andlegum hernaði?
12 Við reynum að verja og staðfesta fagnaðarerindið með lögum. (Filippibréfið 1:7) Og við ætlum ekki að slaka á fastheldni okkar við réttlætisstaðla Guðs. (Títusarbréf 2:10, 12) ‚Við gyrðum lendar okkar og tölum allt sem Guð býður okkur,‘ líkt og Jeremía gerði, og leyfum ekki þeim sem berjast gegn honum að skjóta okkur skelk í bringu. (Jeremía 1:17, 18) Heilagt orð Jehóva hefur skýrlega afmarkað réttu stefnuna sem við eigum að taka. Við viljum aldrei styðjast við veikan ‚mannlegan mátt‘ eða leita ‚skjóls í skugga Egyptalands,‘ það er að segja þessum heimi. (2. Kroníkubók 32:8; Jesaja 30:3; 31:1-3) Við eigum í andlegu stríði og verðum að halda áfram að ‚treysta Jehóva af öllu hjarta, leyfa honum að stýra skrefum okkar og reiða okkur ekki á eigið hyggjuvit.‘ (Orðskviðirnir 3:5-7) Allt verk okkar verður „til ónýtis“ nema hann styðji okkur og verndi. — Sálmur 127:1.
Ofsóttir en gefa sig hvergi
13. Hvers vegna má segja að hin djöfullega árás á Jesú hafi misheppnast?
13 Jesús er besta fordæmið um ósveigjanlega hollustu við Jehóva, en hann var ranglega sakaður um að fara með uppreisnaráróður og reyna að raska ríkjandi skipan. Pílatus var fús að sleppa honum eftir að hafa kynnt sér mál hans. En að áeggjan trúarleiðtoganna heimtaði mannfjöldinn hástöfum að Jesús yrði staurfestur þótt saklaus væri og bað um að Barabbasi, dæmdum uppreisnarmanni og morðingja, yrði sleppt úr haldi í staðinn. Pílatus reyndi aftur að telja hinum óbilgjörnu andstæðingum hughvarf en lét að lokum undan háreysti almennings. (Lúkas 23:2, 5, 14, 18-25) Þótt sonur Guðs dæi saklaus á kvalastaur misheppnaðist þessi djöfullega árás algerlega því að Jehóva reisti hann upp frá dauðum og hóf hann upp til hægri handar sér. Og á hvítasunnudeginum árið 33 var heilögum anda úthellt fyrir atbeina hins dýrlega Jesú og kristni söfnuðurinn var stofnsettur sem var „ný sköpun.“ — 2. Korintubréf 5:17, NW; Postulasagan 2:1-4.
14. Hvað gerðist þegar trúarleiðtogar Gyðinga gripu til aðgerða gegn fylgjendum Jesú?
14 Skömmu síðar höfðu trúaröflin í hótunum við postula Krists, en þeir hættu ekki að tala það sem þeir höfðu séð og heyrt heldur báðu: „[Jehóva], lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ (Postulasagan 4:29) Jehóva svaraði bæn þeirra með því að fylla þá heilögum anda og styrkja þá til að halda boðuninni óttalaust áfram. Áður en langt um leið var þeim aftur fyrirskipað að hætta að prédika en Pétur og hinir postularnir svöruðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Hótanir, handtökur og hýðingar gátu ekki komið í veg fyrir að þeir færðu út kvíarnar í þjónustu sinni.
15. Hver var Gamalíel og hvaða ráð gaf hann andstæðingum fylgjenda Jesú?
15 Hvernig brugðust trúarleiðtogarnir við? „Þeir [fylltust] bræði og hugðust deyða [postulana].“ En þar var viðstaddur farísei og lögmálskennari, Gamalíel að nafni, sem virtur var af öllum. Hann lét færa postulana út úr sal æðstaráðsins stundarkorn og ráðlagði þessum trúarlegu andstæðingum þeirra: „Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn. . . . Nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu, en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð.“ — Postulasagan 5:33-39.
Engin vopn gegn okkur verða sigurvænleg
16. Lýstu með eigin orðum loforði Jehóva til þjóna sinna.
16 Þetta voru góð ráð sem Gamalíel gaf. Við erum þakklát þegar menn taka upp hanskann fyrir okkur og fyrir það að óhlutdrægir dómarar skuli hafa varið trúfrelsi. Fastheldni okkar við orð Guðs fellur auðvitað ekki í kramið hjá klerkum kristna heimsins og öðrum leiðtogum Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 18:1-3) Þótt þeir og fylgismenn þeirra haldi áfram að berjast gegn okkur höfum við þetta loforð: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna [Jehóva] og það réttlæti, er þeir fá hjá mér — segir [Jehóva].“ — Jesaja 54:17.
17. Hvers vegna getum við verið hugrökk þótt andstæðingar berjist gegn okkur?
17 Óvinir okkar berjast gegn okkur að ástæðulausu en við missum ekki kjarkinn. (Sálmur 109:1-3) Við munum aldrei leyfa þeim sem hata sannleikann og biblíuboðskap okkar að hræða okkur til að slaka á trúnni. Þótt við búumst við að andleg barátta okkar eigi eftir að harðna vitum við hver útkoman verður. Líkt og Jeremía fáum við að kynnast af eigin raun uppfyllingu spádómsorðanna: „Þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig — [Jehóva] segir það.“ (Jeremía 1:19) Já, við vitum að þeir sem berjast gegn Guði geta ekki sigrað!
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „Faithful and Fearless in the Face of Nazi Oppression“ í Varðturninum 1. apríl 2000 (enskri útgáfu), bls. 24-8.
Hvert er svar þitt?
• Hvers vegna hafa þjónar Jehóva sætt árásum?
• Með hvaða hætti hafa andstæðingar barist gegn fólki Jehóva?
• Hvers vegna getum við treyst því að þeir sem berjast gegn Guði geti ekki sigrað?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Jehóva hét Jeremía að vera með honum.
[Myndir á blaðíðu 27]
Bræður sem lifðu fangabúðavistina af.
[Myndir á blaðíðu 27]
Skrílsárásir á votta Jehóva.
[Myndir á blaðíðu 27]
J. F. Rutherford og félagar.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Andstæðingar Guðs höfðu ekki betur gegn Jesú.