Þjónaðu Jehóva áfram með stöðugu hjarta
„Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt.“ — SÁLMUR 57:8.
1. Hvers vegna getum við haft sömu sannfæringu og Davíð?
JEHÓVA getur gert okkur stöðug í hinni sannkristnu trú þannig að við höldum okkur við hana sem vígðir þjónar hans. (Rómverjabréfið 14:4) Þess vegna getum við haft sömu sannfæringu og sálmaritarinn Davíð er hann söng: „Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð.“ (Sálmur 108:2) Ef hjarta okkar er stöðugt langar okkur til að lifa eftir vígsluheitinu við Guð. Og með því að treysta á styrk hans og leiðsögn getum við verið óbifanleg, einbeitt, ráðvönd og stöðug í trúnni, ‚síauðug í verki Drottins.‘ — 1. Korintubréf 15:58.
2, 3. Hvað er fólgið í hvatningu Páls í 1. Korintubréfi 16:13?
2 Hvatning Páls postula til fylgjenda Jesú í Korintuborg á einnig fullt erindi til kristinna manna nú á tímum. Hann sagði: „Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.“ (1. Korintubréf 16:13) Þessi fyrirmæli standa í nútíð í grískunni og gefa til kynna áframhaldandi verknað. Hvað er fólgið í þessari hvatningu?
3 Við getum ‚vakað‘ andlega með því að standa gegn djöflinum og halda okkur nálægt Guði. (Jakobsbréfið 4:7, 8) Með því að reiða okkur á Jehóva getum við varðveitt eininguna og ‚verið stöðug í kristinni trú.‘ Við erum ‚karlmannleg‘ með því að boða fagnaðarerindið hugrökk í þjónustu Guðs — og það gildir einnig um hinar mörgu konur á meðal okkar. (Sálmur 68:12) Við verðum ‚styrk‘ ef við treystum að faðirinn á himnum veiti okkur kraft til að gera vilja sinn. — Filippíbréfið 4:13.
4. Hver var undanfari þess að við tókum kristinni skírn?
4 Við tókum afstöðu með hinni sönnu trú þegar við vígðumst Jehóva skilyrðislaust og gáfum tákn um það með niðurdýfingarskírn. En hver var undanfari skírnarinnar? Fyrst byggðum við upp nákvæma þekkingu á orði Guðs. (Jóhannes 17:3) Það leiddi af sér trú og varð okkur hvati til þess að iðrast, að sjá innilega eftir því sem við höfðum gert rangt. (Postulasagan 3:19; Hebreabréfið 11:6) Síðan tókum við sinnaskiptum af því að við snerum baki við röngum verkum og tókum að lifa í samræmi við vilja Guðs. (Rómverjabréfið 12:2; Efesusbréfið 4:23, 24) Í kjölfarið vígðum við okkur Jehóva heilshugar í bæn. (Matteus 16:24; 1. Pétursbréf 2:21) Við báðum hann að gefa okkur góða samvisku og létum skírast til tákns um að við hefðum vígst honum. (1. Pétursbréf 3:21) Með því að hafa þessi skref í huga minnum við okkur á að við þurfum að leggja okkur stöðugt fram við að lifa í samræmi við vígsluheitið og halda áfram að þjóna Jehóva með stöðugu hjarta.
Haltu áfram að leita nákvæmrar þekkingar
5. Af hverju ættum við að halda áfram að innbyrða biblíuþekkingu?
5 Við verðum að halda áfram að byggja upp trústyrkjandi biblíuþekkingu til að lifa í samræmi við vígsluheitið við Guð. Manstu hvílíkt yndi þú hafðir af andlegu fæðunni þegar þú kynntist sannleika Guðs í byrjun? (Matteus 24:45-47) Þessar „máltíðir“ voru bæði ljúffengar og andlega nærandi. Núna er nauðsynlegt að halda áfram að innbyrða kjarnmikla andlega fæðu til að varðveita stöðugt hjarta sem vígður þjónn Jehóva.
6. Hvernig kann þér að hafa verið hjálpað að meta sannleikann að verðleikum?
6 Það kostar vinnu að auka biblíuþekkingu sína. Þetta er eins og leit að fólgnum fjársjóðum — það kostar erfiði og áreynslu. En „þekking á Guði“ er ríkuleg umbun! (Orðskviðirnir 2:1-6) Þegar boðberi Guðsríkis byrjaði að aðstoða þig við biblíunám notaði hann kannski bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Oft tók það talsverðan tíma að fara yfir einstaka kafla, kannski meira en eina námsstund. Þú hafðir gagn af því að fletta upp á ritningarstöðum og ræða um þá. Þú fékkst skýringar á því sem þér fannst torskilið. Sá sem leiðbeindi þér við biblíunámið var vel undirbúinn, bað um anda Guðs og hjálpaði þér að meta sannleikann að verðleikum.
7. Hvernig verða menn hæfir til að kenna öðrum orð Guðs?
7 Það er viðeigandi að leggja þetta á sig því að Páll skrifaði: „Sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum.“ (Galatabréfið 6:6) Gríski textinn gefur hér til kynna að hinum ‚uppfræddu‘ sé innprentað orð Guðs. Kennslan, sem þú færð, gerir þig hæfan til að kenna öðrum. (Postulasagan 18:25) Til að lifa dyggilega eftir vígsluheiti þínu þarftu að halda þér andlega hraustum og staðföstum með því að nema orð Guðs jafnt og þétt. — 1. Tímóteusarbréf 4:13; Títusarbréfið 1:13; 2:2.
Mundu eftir iðrun þinni og sinnaskiptum
8. Hvernig er hægt að lifa guðrækilega?
8 Manstu hvílíkur léttir það var fyrir þig að kynnast sannleikanum, iðrast og skynja að Guð hefði fyrirgefið þér vegna trúar þinnar á lausnarfórn Jesú? (Sálmur 32:1-5; Rómverjabréfið 5:8; 1. Pétursbréf 3:18) Ekki viltu snúa aftur út í syndugt líferni. (2. Pétursbréf 2:20-22) Reglulegt bænasamband við Jehóva er eitt af því sem þarf til að lifa guðrækilega og í samræmi við vígsluheit sitt og þjóna Jehóva áfram í trúfesti. — 2. Pétursbréf 3:11, 12.
9. Hvaða braut ættum við að fylgja eftir að hafa snúið baki við syndugu líferni?
9 Eftir að hafa tekið sinnaskiptum og snúið baki við syndugu líferni þarftu að leita hjálpar Guðs að staðaldri til að þjóna honum með stöðugu hjarta. Þetta er eins og þú hafir verið á rangri leið en komist inn á réttu leiðina eftir að hafa skoðað nákvæmt vegakort. Villstu ekki núna. Haltu áfram að leita leiðsagnar Guðs og vertu ákveðinn í að halda þig á veginum til lífsins. — Jesaja 30:20, 21; Matteus 7:13, 14.
Gleymdu aldrei vígslu þinni og skírn
10. Hvað ættum við að hafa hugfast í sambandi við vígslu okkar við Guð?
10 Hafðu hugfast að þú vígðir þig Jehóva í bæn með það fyrir augum að þjóna honum dyggilega að eilífu. (Júdasarbréfið 20, 21) Vígsla merkir að taka frá eða aðgreina í helgum tilgangi. (3. Mósebók 15:31; 22:2) Vígsla þín var hvorki tímabundinn samningur né skuldbinding við menn. Þú vígðir þig Drottni alheims til frambúðar og þarft að sýna honum hollustu ævilangt. Hvort sem við ‚lifum eða deyjum tilheyrum við Jehóva.‘ (Rómverjabréfið 14:7, 8) Hamingja okkar er undir því komin að lúta vilja hans og halda áfram að þjóna honum með stöðugu hjarta.
11. Hvers vegna ættirðu að muna eftir skírn þinni og þýðingu hennar?
11 Mundu alltaf eftir skírn þinni sem var tákn um heilshugar vígslu við Guð. Þú varst ekki þvingaður til að skírast heldur tókst sjálfur ákvörðun um það. Ertu staðráðinn í því núna að beita vilja þínum í samræmi við vilja Guðs það sem eftir er ævinnar? Þú baðst Guð að gefa þér góða samvisku og lést skírast til tákns um að þú hefðir vígst honum. Varðveittu góða samvisku með því að lifa eftir vígsluheiti þínu og þá máttu treysta á ríkulega blessun Jehóva. — Orðskviðirnir 10:22.
Vilji þinn skiptir máli
12, 13. Hvernig er okkar eigin vilji tengdur vígslu og skírn?
12 Með því að vígjast og skírast hafa milljónir manna um heim allan hlotið mikla blessun. Þegar við skírumst niðurdýfingarskírn til tákns um að við höfum vígst Guði deyjum við gagnvart fyrra líferni en við deyjum ekki gagnvart vilja okkar. Við beittum einmitt vilja okkar þegar við vígðumst Guði í bæn og létum skírast, eftir að hafa fræðst og tekið trú. Til að vígjast Guði og láta skírast þurfum við að komast að raun um hver sé vilji hans og velja síðan að fara eftir honum. (Efesusbréfið 5:17) Þannig líkjum við eftir Jesú sem beitti vilja sínum er hann lagði frá sér smíðaverkfærin, lét skírast og helgaði sig því algerlega að gera vilja föður síns á himnum. — Sálmur 40:8, 9; Jóhannes 6:38-40.
13 Það var vilji Jehóva að sonur hans ‚fullkomnaðist með þjáningum.‘ Jesús þurfti þess vegna að beita eigin vilja til að þola þjáningarnar trúfastlega. Hann bar því fram „með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp . . . og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ (Hebreabréfið 2:10, 18; 5:7, 8) Ef við berum sams konar lotningu fyrir Guði getum við líka verið örugg um að ‚fá bænheyrslu,‘ og getum treyst því að Jehóva geri okkur staðfasta sem vígða votta sína. — Jesaja 43:10.
Þú getur varðveitt stöðugt hjarta
14. Af hverju ættum við að lesa daglega í Biblíunni?
14 Hvað getur hjálpað þér að varðveita stöðugt hjarta og lifa eftir vígsluheiti þínu við Guð? Lestu daglega í Biblíunni til að bæta jafnt og þétt við þekkingu þína á orði Guðs. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hvetur okkur stöðugt til þessa af því að við þurfum að halda áfram að ganga í sannleika Guðs til að lifa í samræmi við vígsluheit okkar. Ef skipulag Jehóva héldi vísvitandi fram falskenningum væri vottum Jehóva og þeim sem þeir prédika fyrir aldrei ráðlagt að lesa í Biblíunni.
15. (a) Hvað ættirðu að íhuga þegar þú tekur ákvarðanir? (b) Hvers vegna má segja að veraldleg vinna sé aukastarf í augum kristins manns?
15 Þegar þú tekur ákvarðanir þarftu alltaf að íhuga hvaða áhrif þær hafi á vígsluheit þitt við Jehóva. Þetta geta verið ákvarðanir tengdar vinnu. Leitast þú við að láta vinnuna hjálpa þér að efla sanna guðsdýrkun? Það er almenn reynsla vinnuveitenda að vottar Jehóva séu áreiðanlegir og duglegir starfsmenn en jafnframt er eftir því tekið að vottarnir eru ekki metorðagjarnir og reyna ekki að komast áfram í heiminum eða keppa ekki við aðra um ábatasömustu stöðurnar. Ástæðan er sú að vottarnir sækjast ekki eftir auðlegð, frægð, frama eða völdum. Þeir sem lifa eftir vígsluheiti sínu við Guð leggja aðaláhersluna á að gera vilja hans. Þeir líta á vinnuna sem aukastarf, sem leið til að sjá sér farborða. Hin kristna þjónusta er aðalstarf þeirra líkt og var hjá Páli postula. (Postulasagan 18:3, 4; 2. Þessaloníkubréf 3:7, 8; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Lætur þú hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir í lífinu? — Matteus 6:25-33.
16. Hvað geturðu gert ef óhóflegar áhyggjur gera þér erfitt fyrir að lifa eftir vígsluheiti þínu?
16 Sumir voru næstum að drukkna í áhyggjum áður en þeir kynntust sannleikanum. En guðsríkisvonin fyllti hjörtu þeirra gleði, þakklæti og kærleika til Guðs. Að hugleiða hina margvíslegu blessun, sem þeir hafa notið síðan, getur hjálpað þeim að lifa eftir vígsluheiti sínu við Jehóva. En hvað þá ef óhóflegar áhyggjur af vandamálum, sem fylgja lífinu í þessu heimskerfi, virðast ætla að kæfa „Guðs orð,“ líkt og þyrnar geta kæft ungplöntur svo að þær ná ekki þroska? (Lúkas 8:7, 11, 14; Matteus 13:22; Markús 4:18, 19) Ef þú skynjar að þetta er að byrja að gerast hjá þér eða fjölskyldunni skaltu varpa áhyggjum þínum á Jehóva og biðja hann að hjálpa þér að vaxa í kærleika og þakklæti. Ef þú varpar byrðum þínum á hann heldur hann þér uppi og gefur þér kraft til að halda áfram að þjóna sér með gleði og stöðugu hjarta. — Sálmur 55:23; Filippíbréfið 4:6, 7; Opinberunarbókin 2:4.
17. Hvernig er hægt að standast erfiðar prófraunir?
17 Haltu áfram að biðja reglulega til Jehóva Guðs, rétt eins og þú baðst þegar þú vígðist honum. (Sálmur 65:3) Þegar þú verður fyrir alvarlegri prófraun eða freistingu til að gera eitthvað rangt skaltu leita leiðsagnar Guðs og biðja hann að hjálpa þér að fylgja henni. Hafðu hugfast að þú þarft að sýna trú því að lærisveinninn Jakob skrifaði: „Ef einhvern yðar brestur visku [til að standast prófraun], þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá [Jehóva].“ (Jakobsbréfið 1:5-8) Ef prófraunin virðist óyfirstíganleg megum við treysta þessu: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ — 1. Korintubréf 10:13.
18. Hvað getum við gert ef alvarleg, leynd synd dregur úr einbeitni okkar að lifa eftir vígsluheitinu við Jehóva?
18 Hvað áttu að gera ef þú hefur syndgað alvarlega í leyni og samviskan nagar þig svo að þú ert að veikjast í þeim ásetningi að lifa eftir vígsluheiti þínu við Guð? Ef þú iðrast geturðu treyst því að Jehóva ‚fyrirlítur ekki sundurmarið og sundurkramið hjarta.‘ (Sálmur 51:19) Leitaðu hjálpar safnaðaröldunganna, vitandi að þeir eru kærleiksríkir, líkja eftir Jehóva og gera ekki lítið úr löngun þinni til að eignast aftur gott samband við föður þinn á himnum. (Sálmur 103:10-14; Jakobsbréfið 5:13-15) Eftir að þú hefur endurheimt andlegan styrk og stöðugt hjarta geturðu látið fætur þína ganga beinar brautir og lifað eftir vígsluheiti þínu við Guð. — Hebreabréfið 12:12, 13.
Haltu áfram að þjóna Jehóva með stöðugu hjarta
19, 20. Hvers vegna verðum við að halda áfram að lifa í samræmi við vígsluheit okkar?
19 Við lifum á erfiðum tímum og verðum að leggja hart að okkur til að lifa eftir vígsluheitinu og til að halda áfram að þjóna Guði með stöðugu hjarta. Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Þetta eru ‚síðustu dagar‘ og endirinn getur komið hvenær sem er. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Og enginn getur gengið að því vísu að vera lifandi á morgun. (Jakobsbréfið 4:13, 14) Það er því mikilvægt að halda áfram að lifa eftir vígsluheiti sínu núna.
20 Pétur postuli lagði áherslu á þetta í síðara bréfi sínu. Hann benti á að rétt eins og hinir óguðlegu fórust í flóðinu, eins verði hinni táknrænu jörð, það er að segja óguðlegu mannfélagi, eytt á ‚degi Jehóva.‘ Því bætti hann við: „Hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni.“ Og hann hvatti trúbræður sína: „Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu [falskennara og óguðlegra manna] og fallið frá staðfestu yðar.“ (2. Pétursbréf 3:5-17) Það væri sorglegt ef skírður einstaklingur varðveitti ekki stöðugt hjarta, leiddist af réttri braut og týndi lífi.
21, 22. Hvernig hefur Sálmur 57:8 ræst á Davíð og á sannkristnum mönnum?
21 Þú getur styrkt þann ásetning að lifa í samræmi við vígsluheitið við Guð með því að hafa skírnardaginn í huga og leita hjálpar Guðs til að gleðja hjarta hans með orðum þínum og verkum. (Orðskviðirnir 27:11) Jehóva bregst aldrei fólki sínu og við ættum vissulega að vera honum trú. (Sálmur 94:14) Hann sýndi miskunn og meðaumkun er hann ónýtti áform óvina Davíðs og frelsaði hann. Davíð var honum þakklátur og lýsti yfir hve stöðugur og óhagganlegur kærleikurinn til frelsara síns væri. Hann söng með sterkri tilfinningu: „Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.“ — Sálmur 57:8.
22 Sannkristnir menn eru óhagganlegir í guðrækni sinni líkt og Davíð. Með stöðugu hjarta þakka þeir Jehóva frelsun hans og vernd og syngja honum fagnandi lof. Ef hjarta þitt er stöðugt treystir það Guði, og með hjálp hans geturðu lifað eftir vígsluheiti þínu. Þú getur verið eins og ‚hinn réttláti‘ sem sálmaritarinn söng um: „Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir [Jehóva].“ (Sálmur 112:6, 7) Í trú á Guð og fullu trausti til hans geturðu lifað eftir vígsluheiti þínu og þjónað Jehóva áfram með stöðugu hjarta.
Manstu?
• Hvers vegna ættum við að halda áfram að drekka í okkur nákvæma biblíuþekkingu?
• Hvers vegna ættum við að muna eftir iðrun okkar og sinnaskiptum?
• Hvaða gagn höfum við af því að muna eftir vígslu okkar og skírn?
• Hvað hjálpar okkur að þjóna Jehóva áfram með stöðugu hjarta?
[Myndir á blaðsíðu 28]
Viðheldurðu andlegri heilsu þinni með því að lesa daglega í orði Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Með því að líta á hina kristnu þjónustu sem aðalstarf auðveldarðu þér að þjóna Jehóva áfram með stöðugu hjarta.