Hógværð — mikilvæg fyrir kristinn mann
„Íklæðist . . . hógværð.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:12.
1. Að hvaða leyti er hógværð sérstæður eiginleiki?
ÞEGAR milt er í veðri er þægilegt að vera úti og njóta blíðunnar. Að sama skapi er þægilegt að umgangast hógværan mann. En spekingurinn Salómon sagði að ‚mjúk tunga gæti mulið bein.‘ (Orðskviðirnir 25:15) Hógværð er sérstæð að því leyti að í henni sameinast styrkur og þægilegt viðmót.
2, 3. Hvernig tengist hógværð heilögum anda og um hvað fjöllum við í þessari grein?
2 Páll postuli nefndi hógværð sem hluta af ‚ávexti andans‘ eins og hann lýsir honum í Galatabréfinu 5:22, 23. Gríska orðið, sem þýtt er „hógværð“ í 23. versi, er stundum þýtt „mildi“ eða „blíða.“ Reyndar eiga fá önnur tungumál nákvæmt jafngildi gríska orðsins vegna þess að það lýsir innri mildi og góðlyndi en ekki ytri blíðu eða gæsku; það er notað um hjarta- og hugarástand en ekki hegðun eða framkomu.
3 Við skulum skoða fjögur dæmi úr Biblíunni til að glöggva okkur betur á merkingu og gildi þess sem við köllum hógværð. (Rómverjabréfið 15:4) Þannig getum við skýrt betur fyrir sjálfum okkur hvað sé fólgið í hógværð, hvernig við verðum hógvær og hvernig hún birtist í öllum samskiptum okkar við aðra.
‚Dýrmæt í augum Guðs‘
4. Hvernig vitum við að hógværð er dýrmæt í augum Jehóva?
4 Þar eð hógværð er hluti af ávexti anda Guðs er rökrétt að hún sé nátengd hinum einstaka persónuleika hans. Pétur postuli skrifaði að ‚hógvær og kyrrlátur andi‘ sé ‚dýrmætur í augum Guðs.‘ (1. Pétursbréf 3:4) Hógværð er einn af eiginleikum Jehóva svo að hann metur hana mikils. Það er í sjálfu sér góð ástæða fyrir alla þjóna Guðs til að tileinka sér hógværð. En hvernig sýnir alvaldur Guð, æðsta yfirvald alheimsins, hógværð?
5. Hvaða möguleika höfum við vegna þess að Jehóva er mildur og hógvær?
5 Fyrstu hjónin, Adam og Eva, óhlýðnuðust vísvitandi skýru banni Guðs við því að borða ávöxtinn af skilningstrénu góðs og ills. (1. Mósebók 2:16, 17) Með því að óhlýðnast af ásettu ráði kölluðu þau synd, dauða og sambandsleysi við Guð yfir sig og ófædda afkomendur sína. (Rómverjabréfið 5:12) Þó að það hafi verið fullkomlega réttlætanlegt af Jehóva að dæma þau sýndi hann ekki þá hörku að afskrifa mennina sem forherta og óforbetranlega. (Sálmur 130:3) Hann vildi ekki vera strangur og kröfuharður heldur var hann miskunnsamur og bauð syndugum mönnum upp á leið til að koma til sín og hljóta velvild sína. Þannig sýndi hann af sér mildi og hógværð. Með því að gefa son sinn Jesú Krist sem lausnarfórn gerir Jehóva okkur kleift að nálgast hið mikla hásæti sitt án ótta eða kvíða. — Rómverjabréfið 6:23; Hebreabréfið 4:14-16; 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10, 18.
6. Hvernig sýndi Jehóva mildi og hógværð í samskiptum við Kain?
6 Jehóva sýndi mildi og hógværð löngu áður en Jesús kom til jarðar. Það var þegar Kain og Abel, synir Adams, færðu honum fórnir sínar. Jehóva sá hvað bjó í hjörtum þeirra og hafnaði fórn Kains en „leit með velþóknun“ til Abels og fórnar hans. Velvild Guðs í garð hins trúa Abels vakti harkaleg viðbrögð hjá Kain. „Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur,“ segir frásagan. Hvernig brást Jehóva við? Móðgaðist hann yfir rangri afstöðu Kains? Nei, hann spurði Kain mildilega hvers vegna hann reiddist svona og skýrði jafnvel fyrir honum hvernig hann gæti orðið „upplitsdjarfur.“ (1. Mósebók 4:3-7) Jehóva er sannarlega ímynd mildi og hógværðar. — 2. Mósebók 34:6.
Hógværð er aðlaðandi og hressandi
7, 8. (a) Hvernig getum við fengið innsýn í hógværð Jehóva? (b) Hvað segja orðin í Matteusi 11:27-29 um Jehóva og Jesú?
7 Einhver besta leiðin til að fá innsýn í einstæða eiginleika Jehóva er að kynna sér ævi og þjónustu Jesú Krists. (Jóhannes 1:18; 14:6-9) Á öðru þjónustuári sínu vann Jesús mörg kraftaverk í Kórasín, Betsaídu, Kapernaum og nágrenni. En flestir voru hrokafullir og áhugalausir og vildu ekki trúa. Hvernig brást Jesús við? Hann benti þeim ákveðið á hvaða afleiðingar trúleysi þeirra myndi hafa en var djúpt snortinn af andlegri neyð hins óbreytta almúga, ʽam haʼarets, á meðal þeirra. — Matteus 9:35, 36; 11:20-24.
8 Það sýndi sig síðar að Jesús ‚þekkti föðurinn‘ fullkomlega og líkti eftir honum. Hann bauð almúgafólki hlýlega: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ Þessi orð voru einkar hughreystandi og endurnærandi fyrir kúgaða og undirokaða. Þau höfða jafnvel sterkt til okkar sem nú lifum. Ef við íklæðumst hógværð verðum við í hópi þeirra „er sonurinn vill opinbera“ föður sinn. — Matteus 11:27-29.
9. Hvaða eiginleiki helst í hendur við hógværð og hvernig er Jesús gott dæmi um það?
9 Auðmýkt og ‚lítillæti‘ eru nátengd hógværð. Drambsemi rekur menn hins vegar til að upphefja sig og gerir þá oft hranalega og harðbrjósta. (Orðskviðirnir 16:18, 19) Jesús sýndi af sér auðmýkt allan tímann sem hann þjónaði á jörðinni. Hann var gerólíkur valdhöfum heimsins þegar hann reið inn í Jerúsalem sex dögum fyrir dauða sinn og var hylltur sem konungur Gyðinga. Hann uppfyllti þar messíasarspádóm Sakaría er sagði: „Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.“ (Matteus 21:5; Sakaría 9:9) Daníel, spámaðurinn trúi, sá Jehóva í sýn þar sem hann fékk syni sínum stjórnvald í hendur. En í fyrri spádómi kallaði hann Jesú „hinn lítilmótlegasta meðal mannanna.“ Ljóst er að hógværð og auðmýkt haldast í hendur. — Daníel 4:17; 7:13, 14.
10. Af hverju er kristileg hógværð ekki veikleikamerki?
10 Hin ánægjulega hógværð Jehóva og Jesú auðveldar okkur að nálgast þá. (Jakobsbréfið 4:8) Hógværð er ekkert veikleikamerki. Fjarri því. Jehóva er alvaldur Guð og er gríðarlega máttugur og öflugur. Reiði hans blossar gegn ranglæti. (Jesaja 30:27; 40:26) Jesús var líka einbeittur og óhagganlegur, jafnvel þegar Satan djöfullinn gerði atlögu að honum. Hann umbar ekki ólögleg viðskipti trúarleiðtoganna. (Matteus 4:1-11; 21:12, 13; Jóhannes 2:13-17) En hann var mildur gagnvart brestum lærisveina sinna og þolinmóður gagnvart veikleikum þeirra. (Matteus 20:20-28) Biblíufræðingur lýsir hógværð ágætlega er hann segir: „Að baki hógværðinni býr styrkur stálsins.“ Sýnum af okkur hógværð eins og Kristur.
Hógværastur samtíðarmanna
11, 12. Hvers vegna er hógværð Móse einstæð í ljósi uppeldis hans?
11 Móse er þriðja dæmið um hógværð sem við skoðum. Biblían segir hann hafa verið ‚einkar hógværan, framar öllum mönnum á jörðu.‘ (4. Mósebók 12:3) Þessi lýsing var skráð vegna innblásturs frá Guði. Hin einstæða hógværð Móse gerði hann móttækilegan fyrir handleiðslu Jehóva.
12 Móse ólst upp við óvenjulegar aðstæður. Foreldrar hans voru trúfastir Hebrear og Jehóva bjó svo um hnútana að hann héldi lífi á tímum svika og morða. Fyrstu æviárin var Móse í umsjá móður sinnar sem fræddi hann vel um Jehóva, hinn sanna Guð. Síðan var hann tekinn af heimili sínu og fluttur í umhverfi sem hefði tæplega getað verið ólíkara æskuheimilinu. Kristni píslarvotturinn Stefán sagði að ‚Móse hefði verið fræddur í allri speki Egypta‘ og bætir við að hann hafi verið „máttugur í orðum sínum og verkum.“ (Postulasagan 7:22) Trú Móse sýndi sig þegar hann varð vitni að því ranglæti sem bræður hans máttu þola af hendi verkstjóra faraós. Eftir að hann drap Egypta sem hann sá misþyrma hebreskum manni varð hann að flýja frá Egyptalandi til Midíanslands. — 2. Mósebók 1:15, 16; 2:1-15; Hebreabréfið 11:24, 25.
13. Hvaða áhrif hafði 40 ára dvöl í Midían á Móse?
13 Móse var fertugur er hann flúði og þurfti þá að bjarga sér sjálfur úti í eyðimörk. Í Midían hitti hann fyrir sjö dætur Regúels og hjálpaði þeim að brynna fénaði hans sem var mikill. Dæturnar komu heim og sögðu Regúel fagnandi frá því að „egypskur maður“ hefði hjálpað þeim gegn hjarðmönnum sem gerðu þeim lífið leitt. Að boði Regúels settist Móse að hjá fjölskyldunni. Hann fylltist ekki beiskju þrátt fyrir mótlætið og hann lærði að laga sig að nýjum lífsstíl og umhverfi. En aldrei dvínaði löngun hans að gera vilja Jehóva. Hann kvæntist Sippóru, ól upp syni sína og gætti fénaðar Regúels í 40 ár. Á þessum löngu árum fágaðist sá eiginleiki hans sem átti eftir að einkenna hann öðru fremur. Móse lærði hógværð af andstreyminu. — 2. Mósebók 2:16-22; Postulasagan 7:29, 30.
14. Lýstu atviki sem er til dæmis um hógværð Móse.
14 Hógværðin var áfram aðalsmerki Móse eftir að Jehóva skipaði hann leiðtoga Ísraelsmanna. Ungur maður kom til hans og skýrði honum frá því að Eldad og Medad væru að spá í herbúðunum — og þeir höfðu ekki einu sinni verið viðstaddir þegar Jehóva úthellti anda sínum yfir 70 öldunga sem áttu að aðstoða Móse. „Móse, herra minn, bannaðu þeim það!“ sagði Jósúa. En Móse svaraði hógværlega: „Tekur þú upp þykkjuna fyrir mig? Ég vildi að allur lýður Drottins væri spámenn, svo að Drottinn legði anda sinn yfir þá.“ (4. Mósebók 11:26-29) Með hógværðinni dró Móse úr spennunni.
15. Hvers vegna er fordæmi Móse til eftirbreytni, þó að hann hafi verið ófullkominn?
15 Einu sinni virðist hógværðin hafa brugðist Móse er hann gaf Jehóva ekki dýrðina vegna kraftaverks í Meríba nálægt Kades. (4. Mósebók 20:1, 9-13) En þó að Móse væri ófullkominn var trú hans óbifanleg og hún hélt honum uppi alla ævi. Og hin einstaka hógværð hans höfðar til okkar enn þann dag í dag. — Hebreabréfið 11:23-28.
Harka eða hógværð
16, 17. Hvernig er frásagan af Nabal og Abígail okkur til viðvörunar?
16 Eitt dæmi til varnaðar má nefna frá tímum Davíðs, skömmu eftir að Samúel spámaður dó. Þar áttu í hlut hjónin Nabal og Abígail. Ekki verður annað sagt en að þau hafi verið ólík! Abígail var „kona vitur“ en maður hennar var „harður og illur viðureignar.“ Menn Davíðs höfðu gætt fénaðar Nabals fyrir þjófum og fóru fram á smávegis af matvælum sem endurgjald. Nabal hafnaði beiðninni ruddalega. Davíð reiddist réttilega og gerði út sveit manna gyrta sverðum til að berjast við Nabal. — 1. Samúelsbók 25:2-13.
17 Er Abígail frétti hvað gerst hafði tók hún í flýti til brauð, vín, kjöt, rúsínukökur og fíkjukökur og hélt af stað til fundar við Davíð. „Sökin hvílir á mér, herra minn!“ sagði hún með bænarrómi. „Leyf ambátt þinni að tala við þig og hlýð á orð ambáttar þinnar.“ Hógværð Abígail mildaði hjarta Davíðs. Eftir að hafa hlustað á skýringu hennar sagði hann: „Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund. Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld.“ (1. Samúelsbók 25:18, 24, 32, 33) Harka Nabals dró hann síðar til dauða en mannkostir Abígail urðu til þess að Davíð tók sér hana fyrir konu. Hógværð hennar er öllum þjónum Jehóva góð fyrirmynd. — 1. Samúelsbók 25:36-42.
Stundaðu hógværð
18, 19. (a) Hvað gerist þegar við íklæðumst hógværð? (b) Hvernig getum við rannsakað okkur?
18 Kristnir menn verða að stunda hógværð. Hógværð er ekki aðeins mild framkoma heldur aðlaðandi skapgerðareinkenni sem hefur góð áhrif á aðra. Vera kann að við höfum verið hranaleg og óvingjarnleg áður fyrr. Síðan kynntumst við sannleika Biblíunnar, breyttum okkur og urðum þægilegri og viðkunnanlegri í viðmóti. Páll nefndi þessa breytingu er hann hvatti trúsystkini sín: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) Biblían líkir þessari breytingu við það að grimm villidýr — úlfar, pardusdýr, ljón, birnir og höggormar — breytist í friðsöm húsdýr eins og lömb, kiðlinga, kálfa og kýr. (Jesaja 11:6-9; 65:25) Slík er breytingin að hún vekur undrun þeirra sem til sjá. En við þökkum breytinguna anda Guðs því að hógværð er einn af einstæðum ávöxtum hans.
19 Ber að skilja það svo að eftir að við höfum einu sinni breytt okkur þurfum við ekki að hugsa um það meir að vera hógvær? Nei, það er ekki nóg að kaupa sér ný föt — við þurfum líka að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Ef við rýnum í orð Guðs og hugleiðum dæmin, sem það segir frá, getum við séð sjálf okkur í nýju og hlutlausu ljósi. Innblásið orð Guðs er eins og spegill sem við getum skoðað okkur í. Hvað sýnir hann um okkur? — Jakobsbréfið 1:23-25.
20. Hvernig getum við sýnt af okkur hógværð?
20 Skapgerð fólks er mismunandi. Þjónar Guðs eiga misauðvelt með að sýna hógværð. Hvað sem því líður þurfa allir kristnir menn að rækta með sér ávöxt anda Guðs, þar á meðal hógværðina. Páll hvatt Tímóteus hlýlega: „Stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.“ (1. Tímóteusarbréf 6:11) Að „stunda“ lýsir áreynslu. Í einni biblíuþýðingu er talað um að ‚einsetja sér.‘ (J. B. Phillips. New Testament in Modern English) Ef þú leggur þig fram við að hugleiða hin góðu dæmi, sem orð Guðs segir frá, geta þau orðið hluti af sjálfum þér, rétt eins og þau séu ígrædd. Þá geta þau mótað þig og leiðbeint þér. — Jakobsbréfið 1:21.
21. (a) Hvers vegna eigum við að stunda hógværð? (b) Um hvað er fjallað í greininni á eftir?
21 Framkoma okkar við aðra sýnir ágætlega hve vel okkur tekst að sýna hógværð. „Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal?“ spyr lærisveinninn Jakob. „Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.“ (Jakobsbréfið 3:13) Hvernig getum við sýnt þennan eiginleika á heimili okkar, í boðunarstarfinu og í söfnuðinum? Í greininni á eftir eru gefin ýmis góð ráð.
Til upprifjunar
• Hvað hefurðu lært um hógværð af
• Jehóva?
• Jesú?
• Móse?
• Abígail?
• Af hverju þurfum við að stunda hógværð?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Hvers vegna hafði Jehóva velþóknun á fórn Abels?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Jesús sýndi fram á að hógværð og lítillæti haldast í hendur.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Móse er afbragðsdæmi um hógværan mann.