Trúfastar kristnar konur eru verðmætir þjónar Guðs
„Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 31:30.
1. Hvernig er viðhorf Jehóva til fegurðar ólíkt viðhorfi heimsins?
HEIMURINN leggur mikla áherslu á ytra útlit og gerir sérstakar kröfur til kvenna að þessu leyti. En Jehóva horfir fyrst og fremst á hinn innri mann, og fegurð hans getur aukist með aldrinum. (Orðskviðirnir 16:31) Biblían beinir eftirfarandi orðum til kvenna: „Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.“ — 1. Pétursbréf 3:3, 4.
2, 3. Hvernig stuðluðu konur á fyrstu öldinni að framgangi fagnaðarerindisins og hvernig hafði þessu verið spáð?
2 Margar konur, sem nefndar eru í Biblíunni, sýndu þetta lofsverða viðhorf. Á fyrstu öldinni fengu sumar þeirra að þjóna Jesú og postulunum. (Lúkas 8:1-3) Seinna tóku kristnar konur þátt í boðunarstarfinu af miklu kappi, aðrar studdu forystumenn frumkristna safnaðarins eins og Pál postula og sumar sýndu einstaka gestrisni og buðu jafnvel fram heimili sitt fyrir safnaðarsamkomur.
3 Í Biblíunni var sagt fyrir að konur myndu gegna mikilvægu hlutverki í fyrirætlun Jehóva. Í Jóel 3:1, 2 var því til dæmis spáð að konur jafnt sem karlar og ungir sem aldnir fengju heilagan anda og tækju þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið. Spádómurinn tók að uppfyllast á hvítasunnu árið 33. (Postulasagan 2:1-4, 16-18) Fyrir kraftaverk fengu sumar andasmurðar konur sérstakar gjafir eins og spádómsgáfu. (Postulasagan 21:8, 9) Með kostgæfni sinni í boðunarstarfinu stuðlaði þessi fjölmenni her trúfastra systra að því að kristnin breiddist fljótt út á fyrstu öldinni. Árið 60 gat Páll postuli meira að segja skrifað að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum“. — Kólossubréfið 1:23.
Hrósað fyrir hugrekki, kostgæfni og gestrisni
4. Af hverju hafði Páll gilda ástæðu til að hrósa mörgum konum í frumkristna söfnuðinum?
4 Páll postuli var sérstaklega þakklátur fyrir starf vissra kvenna í þágu fagnaðarerindisins. Kristnir umsjónarmenn nú á dögum hugsa eins og meta að verðleikum starf kostgæfra kvenna í söfnuðinum. Meðal þeirra kvenna, sem Páll nafngreindi, voru ‚Trýfæna og Trýfósa, sem lögðu hart á sig fyrir Drottin,‘ og ‚Persis, hin elskaða, sem mikið starfaði fyrir Drottin‘. (Rómverjabréfið 16:12) Hann skrifaði einnig að Evodía og Sýntýke hefðu ‚barist með sér við boðun fagnaðarerindisins‘. (Filippíbréfið 4:2, 3) Og Priskilla (Priska) þjónaði með honum ásamt Akvílasi, eiginmanni sínum. Þau hjónin stofnuðu jafnvel „lífi sínu í hættu“ fyrir Pál og þess vegna skrifaði hann: „Ég [votta] þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.“ — Rómverjabréfið 16:3, 4; Postulasagan 18:2.
5, 6. Á hvaða hátt er Priskilla fyrirmynd kristinna kvenna nú á dögum?
5 Hvað stuðlaði að kostgæfni og hugrekki Priskillu? Við finnum vísbendingu um það í Postulasögunni 18:24-26. Þar er sagt frá Apollósi, sem var mjög góður ræðumaður, en Priskilla hjálpaði eiginmanni sínum að skýra nánar fyrir honum ný sannindi. Þetta sýnir okkar að Priskilla var greinilega duglegur nemandi í orði Guðs og kenningu postulanna. Það hjálpaði henni síðan að þroska með sér eftirsóknarverða eiginleika sem gerðu hana dýrmæta í augum Guðs og eiginmanns síns og mikils metna í frumkristna söfnuðinum. Nú á dögum er einnig að finna margar iðnar og verðmætar systur sem eru kostgæfnir biblíunemendur og innbyrða andlegu fæðuna sem Jehóva veitir okkur fyrir milligöngu ‚hins trúa ráðsmanns‘. — Lúkas 12:42.
6 Akvílas og Priskilla voru einstaklega gestrisin. Páll gisti á heimili þeirra þegar hann vann með þeim við tjaldgerð í Korintu. (Postulasagan 18:1-3) Þegar þau hjónin fluttu síðan til Efesus og seinna til Rómar héldu þau áfram að sýna kristna gestrisni og buðu jafnvel fram heimili sitt fyrir safnaðarsamkomur. (Postulasagan 18:18, 19; 1. Korintubréf 16:8, 19) Nýmfa og María, móðir Jóhannesar Markúsar, buðu einnig fram heimili sín sem samkomustaði. — Postulasagan 12:12; Kólossubréfið 4:15.
Verðmætar konur nú á dögum
7, 8. Hvaða lofsverða þjónustu hafa margar kristnar konur nú á dögum innt af hendi og um hvað geta þær verið vissar?
7 Trúfastar kristnar konur nú á dögum gegna einnig lykilhlutverki í fyrirætlun Guðs, sérstaklega í tengslum við boðunarstarfið. Þessar systur hafa áunnið sér einstaklega gott mannorð. Gwen þjónaði Jehóva trúfastlega í meira en 50 ár eða þangað til hún lést árið 2002. „Í bænum okkar var Gwen þekkt fyrir að vera kostgæfin í boðunarstarfinu,“ segir eiginmaður hennar. „Í hennar augum áttu allir möguleika á að kynnast kærleika Guðs og fræðast um loforð hans. Hún sýndi trúfesti við Guð, skipulag hans og fjölskylduna og uppörvaði okkur þegar við vorum niðurdregin. Þetta hefur hjálpað mér og börnunum sérstaklega mikið þennan verðmæta og ánægjulega tíma sem við höfum átt saman. Við söknum hennar sárt.“ Gwen og eiginmaður hennar voru gift í 61 ár.
8 Tugþúsundir kristinna kvenna, bæði giftra og einhleypra, þjóna sem brautryðjendur og trúboðar. Þær eru sáttar við að hafa aðeins brýnustu nauðsynjar og boða fagnaðarerindið um ríkið hvort sem er í iðandi stórborgum, á einangruðum svæðum eða öllu þar á milli. (Postulasagan 1:8) Margar þeirra hafa fórnað því að eignast heimili eða börn til að geta þjónað Jehóva betur. Sumar styðja dyggilega eiginmenn sína sem eru farandhirðar og þúsundir systra þjóna á Betelheimilum víðsvegar um heiminn. Það má með vissu segja að þessar fórnfúsu konur séu hluti af ‚gersemum allra þjóða‘ sem fylla hús Jehóva dýrð. — Haggaí 2:7.
9, 10. Hvernig hafa sumir hrósað eiginkonum sínum og mæðrum fyrir það góða fordæmi sem þær sýna?
9 Auðvitað þurfa margar kristnar konur að annast fjölskyldu en þær setja samt hagsmuni Guðsríkis framar öðru. (Matteus 6:33) Einhleyp brautryðjandasystir skrifaði: „Óhagganleg trú móður minnar og gott fordæmi hennar átti stóran þátt í því að ég gerðist brautryðjandi. Hún var einn besti brautryðjendafélagi minn.“ Kristinn maður segir um eiginkonu sína en saman eiga þau fimm uppkomnar dætur: „Heimili okkar var alltaf hreint og snyrtilegt. Bonnie hafði það einfalt og fyllti það ekki af óþarfa hlutum. Það auðveldaði fjölskyldunni að einbeita sér að andlegum verkum. Ég gat unnið hlutastarf í 32 ár vegna þess að hún lagði sitt að mörkum til að fara skynsamlega með fjármuni. Þetta gerði mér kleift að nota meiri tíma með fjölskyldunni og til að sinna andlegum málum. Hún kenndi stelpunum einnig vinnusemi. Hún á mikið hrós skilið.“ Þau hjónin þjóna nú við höfuðstöðvar Votta Jehóva.
10 Eiginmaður skrifaði um eiginkonu sína eftir að börnin voru vaxin úr grasi: „Það sem ég dáist mest að í fari Susan er sterkur kærleikur hennar til Guðs og fólks almennt og hvað hún er skilningsrík, samúðarfull og heiðarleg. Hún hefur alltaf haft þá skoðun að Jehóva eigi skilið að fá það albesta sem við getum gefið og þessa meginreglu heimfærir hún á sjálfa sig í þjónustunni við Guð og í móðurhlutverkinu.“ Með stuðningi konu sinnar hefur þessi eiginmaður getað sinnt mörgum verkefnum innan safnaðarins, þar á meðal að leysa farandhirðinn af í forföllum, þjóna í spítalasamskiptanefndinni og þjóna sem öldungur og brautryðjandi. Konur sem þessar eru mjög dýrmætar í augum eiginmanna sinna og trúsystkina og sérstaklega í augum Jehóva. — Orðskviðirnir 31:28, 30.
Ekkjur og einhleypar konur
11. (a) Hvernig hefur Jehóva sýnt að honum er umhugað um trúfastar konur og þá sérstaklega ekkjur? (b) Um hvað geta kristnar ekkjur og aðrar trúfastar systur, sem eru einar, verið vissar?
11 Jehóva hefur oft sýnt að honum er umhugað um velferð ekkna. (5. Mósebók 27:19; Sálmur 68:6; Jesaja 10:1, 2) Hann hefur ekki breyst. Og hann sýnir ekki bara ekkjum einlægan áhuga heldur einnig einstæðum mæðrum og konum sem hafa valið að vera einhleypar eða hafa ekki fundið kristinn eiginmann við hæfi. (Malakí 3:6; Jakobsbréfið 1:27) Ef þú ert ein þeirra sem þjóna Jehóva trúfastlega án stuðnings kristins eiginmanns geturðu verið viss um að þú ert dýrmæt í augum Guðs.
12. (a) Hvernig sýna sumar kristnar systur Jehóva trúfesti? (b) Við hvað þurfa sumar trúsystur okkar að kljást?
12 Tökum sem dæmi trúsystur okkar sem hafa ekki gifst vegna þess að þær fara trúfastlega eftir leiðbeiningum Jehóva um að giftast aðeins „í Drottni“. (1. Korintubréf 7:39; Orðskviðirnir 3:1) Orð Guðs fullvissar þær um að Jehóva sé „trúr hinum trúa“. (2. Samúelsbók 22:26, Biblíurit, ný þýðing 1994) En mörgum þeirra finnst erfitt að vera einhleypar. Systir nokkur segir: „Ég einsetti mér að giftast aðeins í Drottni en hef fellt mörg tár þegar ég horfi á vinkonur mínar giftast góðum kristnum mönnum á meðan ég held áfram að vera ein.“ Önnur systir segir: „Ég hef þjónað Jehóva í 25 ár. Ég er staðráðin í því að vera honum trú, en einmanaleikinn gerir mig oft dapra.“ Hún bætir við: „Systur eins og ég vilja gjarnan fá smáuppörvun.“ Hvernig getum við hjálpað trúföstum systrum eins og þessum?
13. (a) Hvað getum við lært af fordæmi þeirra sem heimsóttu dóttur Jefta? (b) Á hvaða fleiri vegu getum við sýnt umhyggju okkar í garð einhleypra systra í söfnuðinum?
13 Við skulum skoða eitt dæmi frá biblíutímanum. Þegar dóttir Jefta afsalaði sér möguleikanum á að eignast eiginmann gerði fólk sér grein fyrir því að þetta var mikil fórn. Hvað var gert til að uppörva hana? „Ár frá ári [fóru] Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.“ (Dómarabókin 11:30-40) Við ættum einnig að hrósa einhleypum systrum sem hlýða lögum Guðs trúfastlega.a En við getum líka sýnt umhyggju okkar með öðrum hætti. Í bænum okkar getum við beðið Jehóva um að styrkja þessar kæru systur svo að þær haldi áfram að þjóna honum trúfastlega. Þær eiga skilið að heyra að bæði Jehóva og öllum söfnuðinum þyki innilega vænt um þær og kunni að meta starf þeirra. — Sálmur 37:28.
Einstæðar mæður geta náð árangri
14, 15. (a) Af hverju ættu einstæðar mæður í söfnuðinum að biðja Jehóva um hjálp? (b) Hvernig geta einstæðar mæður breytt í samræmi við bænir sínar?
14 Einstæðar mæður í söfnuðinum þurfa líka að glíma við ýmsa erfiðleika. En þær geta snúið sér til Jehóva og beðið hann að hjálpa sér að ala börnin upp í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Ef þú ert einstæð móðir geturðu auðvitað ekki bæði sinnt móður- og föðurhlutverkinu að öllu leyti. En Jehóva hjálpar þér að sinna öllum skyldum þínum ef þú ákallar hann í trú. Lýsum þessu með dæmi: Ímyndaðu þér að þú búir í hárri blokk og sért að burðast heim með þungan innkaupapoka. Myndirðu klöngrast upp stigana ef þú vissir að það væri lyfta í blokkinni? Auðvitað ekki. Á sama hátt skaltu ekki reyna að bera ein þungar tilfinningalegar byrðar þegar þú veist að þú getur beðið Jehóva að hjálpa þér. Hann býður þér meira að segja að ákalla sig. Í Sálmi 68:20 segir: „Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag.“ Í 1. Pétursbréfi 5:7 er þér líka boðið að varpa öllum áhyggjum þínum á Jehóva ‚því að hann ber umhyggju fyrir þér‘. Þegar vandamál og áhyggjur íþyngja þér skaltu því létta byrðinni af sjálfri þér og setja hana yfir á himneskan föður þinn „án afláts“. — 1. Þessaloníkubréf 5:17; Sálmur 18:7; 55:23.
15 Tökum dæmi. Ef þú ert móðir hefurðu örugglega áhyggjur af þeim áhrifum sem jafnaldrar geta haft á börnin í skólanum og þú veist að þar getur reynt á ráðvendni þeirra. (1. Korintubréf 15:33) Þessar áhyggjur eru skiljanlegar. En þú ættir líka að tala um þær í bænum þínum. Þú gætir meira að segja nefnt þetta í bæn með börnunum áður en þau fara í skólann, kannski eftir að þið hafið farið saman yfir dagstextann. Einlægar og hnitmiðaðar bænir geta haft geysimikil áhrif á börnin. Og umfram allt geturðu fengið blessun Jehóva ef þú sýnir þolinmæði og reynir eftir fremsta megni að brýna orð hans fyrir börnum þínum. (5. Mósebók 6:6, 7; Orðskviðirnir 22:6) Mundu að „augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra“. — 1. Pétursbréf 3:12; Filippíbréfið 4:6, 7.
16, 17. (a) Hvernig lýsti kristinn maður kærleika móður sinnar? (b) Hvaða áhrif hafði andlegt hugarfar móðurinnar á börnin?
16 Tökum Ólivíu sem dæmi en hún er sex barna móðir. Maður hennar var ekki í trúnni og yfirgaf fjölskylduna stuttu eftir að yngsta barnið fæddist. En hún var tilbúin að axla þá ábyrgð að kenna börnunum vegi Guðs. Darren, sonur hennar, var 5 ára þegar þetta gerðist og það sem gerði illt verra var að hann fékk alvarlegan sjúkdóm sem hrjáir hann enn þann dag í dag. Nú er hann 31 árs og þjónar sem safnaðaröldungur og brautryðjandi. Hann lítur til baka og segir: „Ég man enn þá eftir því þegar ég lá í spítalarúminu og beið óþreyjufullur eftir mömmu. Hún sat hjá mér á hverjum degi og las í Biblíunni fyrir mig. Síðan söng hún ríkissönginn ‚Við þökkum þér, Jehóva‘.b Þetta er enn þá uppáhaldsríkissöngurinn minn.“
17 Ólivíu vegnaði vel sem einstæðri móður af því að hún treysti Jehóva og elskaði hann. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Afstaða hennar sést til dæmis á þeim markmiðum sem hún hvatti börnin til að setja sér. „Mamma hvatti okkur alltaf til að stefna að þjónustu í fullu starfi,“ segir Darren. „Árangurinn er sá að ég og fjórar af fimm systrum mínum erum í fullu starfi. En mamma hrósaði sér aldrei af þessu við aðra. Ég reyni eftir bestu getu að líkja eftir góðum eiginleikum hennar.“ Auðvitað ákveða ekki öll börn að þjóna Guði eins og börnin hennar Ólivíu en þegar móðir reynir eftir fremsta megni að fara eftir meginreglum Biblíunnar getur hún treyst því að Jehóva styður hana og leiðbeinir henni. — Sálmur 32:8.
18. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta kristna söfnuðinn?
18 Jehóva notar einnig kristna söfnuðinn til að styðja fólk sitt því að þar fáum við reglulega andlega fæðu, getum nálgast trúsystkin okkar og fáum hjálp andlega þroskaðra umsjónarmanna. (Efesusbréfið 4:8, NW) Öldungar ættu að vinna trúfastlega að því að byggja upp alla í söfnuðinum en sinna sérstaklega ‚munaðarlausum og ekkjum í þrengingum þeirra‘. (Jakobsbréfið 1:27) Vertu því nátengd söfnuðinum og einangraðu þig aldrei. — Orðskviðirnir 18:1; Rómverjabréfið 14:7.
Fegurð undirgefninnar
19. Af hverju má segja að eiginkona sé engan veginn lægra sett þótt hún sé eiginmanni sínum undirgefin, og hvaða dæmi í Biblíunni styður þetta?
19 Jehóva skapaði konuna sem meðhjálp mannsins. (1. Mósebók 2:18) Þó að konan eigi að vera undirgefin eiginmanni sínum gefur það ekki til kynna að hún sé lægra sett heldur veitir það henni sæmd og gefur henni kost á að nota hina mörgu hæfileika sína í samræmi við vilja Guðs. Orðskviðirnir kafli 31 lýsa fjölmörgum störfum sem dugleg eiginkona sinnti í Ísrael til forna. Hún hjálpaði nauðstöddum, plantaði víngarða og keypti landareign. Já ‚hjarta manns hennar treysti henni, og ekki vantaði að honum fénaðist‘. — Vers 11, 16, 20.
20. (a) Hvernig ætti kristin kona að líta á hæfileika sína? (b) Hvaða góðu eiginleika sýndi Ester og hvernig gat Jehóva því notað hana?
20 Hógvær og guðhrædd kona upphefur ekki sjálfa sig eða keppir við eiginmann sinn. (Orðskviðirnir 16:18) Hún leitar ekki lífsfyllingar eftir veraldlegum leiðum heldur með því að nota meðfædda hæfileika sína til að þjóna öðrum — fjölskyldunni, trúsystkinum, náunganum og umfram allt Jehóva. (Galatabréfið 6:10; Títusarbréfið 2:3-5) Ester drottning er gott dæmi um þetta. Þótt hún hafi verið falleg var hún hógvær og undirgefin. (Esterarbók 2:13, 15) Þegar hún var gift sýndi hún eiginmanni sínum, Ahasverusi konungi, djúpa virðingu, ólíkt fyrrverandi konu hans Vastí. (Esterarbók 1:10-12; 2:16, 17) Ester sýndi Mordekai, eldri frænda sínum, líka þá virðingu að fylgja leiðsögn hans þegar það var viðeigandi — jafnvel eftir að hún varð drottning. En hún var samt ekki veikgeðja. Hún kom djarflega upp um Haman en hann var valdamikill og vægðarlaus maður sem hafði lagt á ráðin um að útrýma Gyðingum. Jehóva notaði Ester á mikilvægan hátt til að vernda fólk sitt. — Esterarbók 3:8–4:17; 7:1-10; 9:13.
21. Hvernig getur kristin kona orðið enn dýrmætari í augum Jehóva?
21 Guðhræddar konur hafa greinilega sýnt óskipta hollustu gagnvart Jehóva og tilbeiðslunni við hann, bæði nú á tímum og áður fyrr. Slíkar konur eru dýrmætar í augum Jehóva. Systur, leyfið Jehóva að móta ykkur fyrir milligöngu anda síns svo að þið verðið enn þá verðmætari „ker“ sem eru „hæfileg til sérhvers góðs verks“. (2. Tímóteusarbréf 2:21; Rómverjabréfið 12:2) Eftirfarandi orð Biblíunnar eiga við um dýrmæta þjóna sem ykkur: „Gefið henni af ávexti handa hennar, og verk hennar skulu lofa hana í borgarhliðunum.“ (Orðskviðirnir 31:31) Megi þessi orð eiga við um ykkur allar.
[Neðanmáls]
a Fjallað er nánar um hvernig hrósa má slíkum systrum í Varðturninum (á ensku) 15. mars 2002, bls. 26-8.
b Söngur 212 í Syngið Jehóva lof, gefin út af Vottum Jehóva.
Manstu?
• Hvernig urðu vissar kristnar konur á fyrstu öldinni dýrmætar í augum Jehóva?
• Hvernig hafa margar systur á okkar dögum orðið dýrmætar í augum Guðs?
• Hvernig styður Jehóva við bakið á ekkjum, einstæðum mæðrum og einhleypum systrum?
• Hvernig getur kona sýnt að hún virðir einlæglega forystufyrirkomulagið?
[Rammi á blaðsíðu 27]
Góðar fyrirmyndir til eftirbreytni
Langar þig til að skoða fleiri dæmi um trúfastar konur í Biblíunni? Ef svo er skaltu lesa ritningarstaðina sem vísað er í hér að neðan. Hugleiddu frásögurnar af þessum konum og reyndu að koma auga á meginreglur sem þú getur farið betur eftir. — Rómverjabréfið 15:4.
❖ Sara: 1. Mósebók 12:1, 5; 21:9-12; Hebreabréfið 11:9; 1. Pétursbréf 3:5, 6.
❖ Örlátar Ísraelskonur: 2. Mósebók 35:5, 22, 25, 26; 36:3-7; Lúkas 21:1-4.
❖ Debóra: Dómarabókin 4:1–5:31.
❖ Rut: Rutarbók 1:4, 5, 16, 17; 2:2, 3, 11-13; 4:15.
❖ Konan í Súnem: 2. Konungabók 4:8-37.
❖ Kanversk kona: Matteus 15:22-28.
❖ Marta og María: Markús 14:3-9; Lúkas 10:38-42; Jóhannes 11:17-29; 12:1-8.
❖ Tabíþa: Postulasagan 9:36-41.
❖ Fjórar dætur Filippusar: Postulasagan 21:9.
❖ Föbe: Rómverjabréfið 16:1, 2.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Hrósar þú ógiftum systrum sem hlýða lögum Guðs trúfastlega?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hvað mætti nefna í bæn áður en börnin fara í skólann?