Foreldrar, annist þarfir barnanna
„Ef einhver sér eigi fyrir sínum . . . þá hefur hann afneitað trúnni“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 5:8.
1, 2. (a) Af hverju er hvetjandi að sjá fjölskyldur koma saman á safnaðarsamkomur? (b) Hvað geta fjölskyldur þurft að glíma við til að koma tímanlega á samkomu?
EF ÞÚ horfir í kringum þig rétt áður en safnaðarsamkoma hefst sérðu kannski hrein og snyrtilega klædd börn koma sér fyrir í sætunum við hlið foreldra sinna. Finnst þér ekki yndislegt að sjá kærleikann sem ríkir innan þessara fjölskyldna og kærleikann sem þær bera til Jehóva? En það er auðvelt að gleyma því hve mikil vinna fer í að koma fjölskyldunni tímanlega á samkomu.
2 Oftast eru foreldrar mjög uppteknir allan daginn og á samkomukvöldum er enn meira að gera. Það þarf að hafa til mat, sinna heimilisstörfum og börnin þurfa að klára heimalærdóminn. Það mæðir mest á foreldrunum því að þeir þurfa að sjá til þess að allir séu hreinir, saddir og tilbúnir á réttum tíma. Og þegar börn eiga í hlut getur ýmislegt óvænt komið upp á mjög óheppilegum tíma. Elsti strákurinn rífur buxurnar sínar á meðan hann er að leika sér. Yngsta barnið sullar matnum niður. Börnin fara að rífast. (Orðskviðirnir 22:15) Afleiðingin getur verið sú að allt fari úr skorðum þrátt fyrir góða skipulagningu foreldranna. En fjölskyldan er samt sem áður næstum alltaf mætt tímanlega í ríkissalinn. Það er hvetjandi að fylgjast með börnunum viku eftir viku, ár eftir ár og sjá þau vaxa og þroskast í þjónustu Jehóva.
3. Hvernig vitum við að Jehóva metur fjölskyldur mikils?
3 Þó að foreldrahlutverkið geti stundum verið erfitt og jafnvel lýjandi geturðu verið viss um að Jehóva kann að meta það sem þú leggur á þig. Hann er höfundur fjölskyldunnar og í orði hans segir að hver fjölskylda eigi „nafn“ sitt eða tilveru honum að þakka. (Efesusbréfið 3:14, 15) Þið foreldrar heiðrið alheimsdrottin þegar þið leggið ykkur fram um að sinna skyldum ykkar á réttan hátt. (1. Korintubréf 10:31) Finnst ykkur það ekki mikill heiður? Það er því viðeigandi að skoða hvaða skyldur Jehóva hefur lagt foreldrum á herðar. Í þessari grein ætlum við að ræða um þá skyldu að annast þarfir barnanna. Við skulum athuga á hvaða þrem sviðum Guð ætlast til að foreldrar geri það.
Efnislegar þarfir
4. Hverjum hefur Jehóva falið þá ábyrgð að sjá fyrir börnunum?
4 Páll postuli skrifaði: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:8) Hvern var Páll að tala um þegar hann sagði „einhver“? Hann var að tala um höfuð fjölskyldunnar sem er yfirleitt faðirinn. Guð hefur líka fengið konunni göfugt hlutverk sem meðhjálp mannsins. (1. Mósebók 2:18) Konur á biblíutímanum hjálpuðu mönnum sínum oft að sjá fyrir fjölskyldunni. (Orðskviðirnir 31:13, 14, 16) Núna eru fjölskyldur einstæðra foreldra fleiri en nokkru sinni fyrr.a Margir einstæðir foreldrar innan safnaðarins eru mjög duglegir að sjá fyrir fjölskyldunni. Auðvitað er samt best fyrir fjölskylduna ef báðir foreldrarnir eru til staðar og faðirinn tekur forystuna.
5, 6. (a) Hvaða hindranir þurfa þeir að yfirstíga sem eiga fyrir fjölskyldu að sjá? (b) Hvaða viðhorf getur hjálpað fyrirvinnu fjölskyldunnar að sinna skyldu sinni?
5 Hvað á Páll við í 1. Tímóteusarbréfi 5:8 þegar hann talar um að sjá fyrir sínum? Samhengið gefur til kynna að hann hafi verið að tala um að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar. Í heimi nútímans getur höfuð fjölskyldunnar þurft að yfirstíga margar hindranir til að sinna þessari skyldu. Fjárhagsörðugleikar eru algengir víða, fólki er sagt upp störfum, atvinnuleysi færist í aukana og framfærslukostnaður fer vaxandi. Hvað getur hjálpað fyrirvinnu fjölskyldunnar að sinna skyldu sinni þrátt fyrir þessa erfiðleika?
6 Sá sem sér fyrir fjölskyldu verður að muna að hann er að sinna verkefni sem Jehóva hefur falið honum. Innblásin orð Páls segja okkur að sá sem er fær um að fylgja þessu boði en neitar að gera það er líkur manni sem hefur „afneitað trúnni“. Kristinn maður myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að Guð liti ekki þannig á hann. En því miður eru margir nú á dögum „kærleikslausir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) Margir feður víkja sér undan þessari ábyrgð og skilja fjölskylduna eftir í kröggum. Kristnir eiginmenn sýna ekki slíkt kærleiksleysi heldur líta á það sem alvarlegt hlutverk að sjá fyrir sínum. Ólíkt mörgum samstarfsmönnum sínum álíta þeir jafnvel lítilmótlegustu störf mikilvæg og göfug því að þau gera þeim kleift að sjá fyrir ástvinum sínum.
7. Af hverju er gott fyrir foreldra að skoða fordæmi Jesú?
7 Það getur líka verið gott fyrir þá sem veita fjölskyldu forstöðu að skoða fullkomið fordæmi Jesú. Mundu að Biblían segir í spádómi að hann sé „Eilífðarfaðir“ okkar. (Jesaja 9:6, 7) Jesús, „hinn síðari Adam“, verður faðir þeirra sem sýna trú og kemur í stað hins ‚fyrsta manns Adams‘. (1. Korintubréf 15:45) Jesús er hinn fullkomni faðir, ólíkt Adam sem reyndist vera sjálfselskur og eigingjarn. Í Biblíunni segir um Jesú: „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss.“ (1. Jóhannesarbréf 3:16) Já, hann var fús til að fórna lífi sínu fyrir aðra. En dagsdaglega tók hann líka þarfir annarra fram yfir sínar eigin í smærri málum. Foreldrar ættu að líkja eftir fórnfýsi hans.
8, 9. (a) Hvað geta foreldrar lært af því sem fuglar gera til sjá fyrir ungum sínum? (b) Hvaða fórnfýsi sýna margir kristnir foreldrar?
8 Foreldrar geta lært mikið um óeigingjarnan kærleika af orðum Jesú til þrjóskrar þjóðar Guðs: „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér.“ (Matteus 23:37) Hérna dregur Jesús upp lýsandi mynd af hænu sem skýlir ungunum undir vængjum sér. Foreldrar geta lært mikið af ungamóðurinni sem er fús til að setja sjálfa sig í hættu til að vernda ungana sína. En það er líka athyglisvert að sjá það sem fuglar gera fyrir afkvæmi sín á hverjum degi. Þeir fljúga linnulaust fram og til baka í leit að æti. Þótt þeir séu að þrotum komnir láta þeir ætið falla í opna goggana á ungunum sem gleypa það og heimta yfirleitt meira. Margar sköpunarverur Jehóva eru „vitrir spekingar“ með tilliti til þess hvernig þær annast afkvæmi sín. — Orðskviðirnir 30:24.
9 Á sambærilegan hátt sýna kristnir foreldrar um allan heim aðdáunarverða fórnfýsi. Þú myndir frekar bíða skaða en að láta eitthvað koma fyrir börnin þín. Auk þess ertu fús til að færa fórnir daglega til að sjá fyrir þínum. Mörg ykkar vakna snemma til að fara í líkamlega erfiða eða leiðigjarna vinnu. Þú leggur hart að þér svo að fjölskyldan eigi til hnífs og skeiðar. Þú reynir eftir fremsta megni að sjá til þess að börnin eigi hrein föt, búi í sæmandi húsnæði og fái næga menntun. Og þú heldur stöðuglega áfram dag eftir dag, ár eftir ár. Þú mátt vera viss um að slík fórnfýsi og slíkt þolgæði gleður Jehóva. (Hebreabréfið 13:16) Þú veist samt líka að börnin hafa aðrar þarfir sem er enn mikilvægara að sinna.
Trúarlegar þarfir
10, 11. Hverjar eru mikilvægustu þarfir manna og hvað verða foreldrar fyrst að gera til að geta séð fyrir þessum þörfum barnanna?
10 Það er enn mikilvægara að sjá fyrir trúarlegum þörfum barnanna en hinum líkamlegu. Jesús sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Hvað getið þið foreldrar gert til að sinna trúarlegum þörfum barnanna?
11 Þegar fjallað er um þessi mál er sennilega ekki vitnað í neinn ritningarstað jafnoft og 5. Mósebók 6:5-7. Flettið upp í biblíum ykkar og lesið þessi vers. Takið eftir að foreldrar eru fyrst hvattir til að huga að sinni eigin trú með því að byggja upp kærleika til Jehóva og taka orð hans til sín. Já, þið þurfið að vera iðnir nemendur í orði Guðs og lesa og hugleiða reglulega það sem Biblían segir. Þannig lærið þið að elska vegi hans, meginreglur og lög og fáið góðan skilning á þeim. Það hefur síðan þau áhrif að hjarta ykkar fyllist af stórkostlegum sannindum Biblíunnar sem vekja með ykkur gleði, lotningu og kærleika til Jehóva. Þá hefurðu svo margt gott að miðla börnunum. — Lúkas 6:45.
12. Hvernig geta foreldrar líkt eftir fordæmi Jesú þegar þeir brýna sannindi Biblíunnar fyrir börnunum?
12 Foreldrar, sem eru sterkir í trúnni, geta fylgt leiðbeiningunum í 5. Mósebók 6:7 um að „brýna“ orð Jehóva fyrir börnum sínum við hvert tækifæri. Að „brýna“ felur í sér að kenna og innprenta með stöðugum endurtekningum. Jehóva veit að allir, ekki síst börn, þurfa að heyra hlutina oftar en einu sinni til að læra þá. Þess vegna notaði Jesús endurtekningar þegar hann kenndi. Hann fann til dæmis margar mismunandi leiðir til að endurtaka sömu meginregluna þegar hann var að kenna lærisveinunum að sýna auðmýkt en ekki stolt og samkeppnisanda. Hann kenndi með því að rökræða, lýsa með dæmi og jafnvel sýna í verki. (Matteus 18:1-4; 20:25-27; Jóhannes 13:12-15) En það er eftirtektavert að hann sýndi aldrei óþolinmæði. Foreldrar þurfa á sama hátt að finna leiðir til að kenna börnunum grundvallarsannindi Biblíunnar af þolinmæði. Það geta þeir gert með því að endurtaka meginreglur Jehóva nógu oft til að börnin meðtaki þær og fari eftir þeim.
13, 14. Hvenær geta foreldrar brýnt sannindi Biblíunnar fyrir börnunum og hvaða hjálpargögn geta þau notað?
13 Biblíunámsstundir með fjölskyldunni eru kjörið tækifæri til að miðla slíkri kennslu. Til að viðhalda andlegu hugarfari fjölskyldunnar er nauðsynlegt að halda uppi reglulegu, uppbyggjandi og ánægjulegu fjölskyldunámi. Kristnar fjölskyldur um allan heim hafa yndi af slíkum námsstundum. Þær notfæra sér rit sem söfnuður Jehóva sér okkur fyrir og sníða námið eftir þörfum barnanna. Bókin Lærum af kennaranum mikla er mjög gott hjálpargagn fyrir foreldra og hið sama er að segja um bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga.b En fjölskyldunámið er ekki eina tækifærið til að kenna börnunum.
14 Eins og fram kemur í 5. Mósebók 6:7 geta foreldrar nýtt sér ýmis tækifæri til að tala við börnin um andleg mál. Þú getur til dæmis sinnt trúarlegum þörfum þeirra þegar þið eruð á ferðalagi, þegar þið vinnið heimilisstörfin eða þegar þið slakið á. Þú ættir auðvitað ekki að „prédika“ sannindi Biblíunnar stöðugt yfir þeim heldur reyna að sjá til þess að umræðurnar í fjölskyldunni séu á andlegum og uppbyggjandi nótum. Í blaðinu Vaknið! er að finna greinar um ýmis mál. Slíkar greinar geta verið grunnur að umræðum um fallega staði víða um heim, dýr sem Jehóva hefur skapað og skemmtilega margbreytni í menningu og lífsháttum manna. Þetta getur hvatt börnin til að lesa meira af greinunum sem hinn trúi og hyggni þjónn sér okkur fyrir. — Matteus 24:45-47.
15. Hvernig geta foreldrar leitt börnunum fyrir sjónir að boðunarstarfið er skemmtilegt og gefandi starf?
15 Þegar þú átt uppbyggjandi samræður við börnin getur það hjálpað þér að sinna öðru sem snýr að trúarlegum þörfum þeirra. Kristin börn þurfa að læra að segja öðrum frá trú sinni. Þegar þú ræðir um athyglisvert efni í Varðturninum eða Vaknið! gætirðu reynt að finna leiðir til að tengja það við boðunarstarfið. Þú gætir til dæmis spurt: „Væri ekki frábært ef fleiri vissu þetta um Jehóva? Hvernig heldurðu að við getum vakið áhuga einhvers á þessu?“ Slíkar umræður gætu vakið áhuga barnanna á því að segja öðrum frá því sem þau eru að læra. Þegar börnin fara síðan með þér í boðunarstarfið sjá þau hvernig þú nýtir þér það sem þið hafið rætt um. Þá geta þau líka séð að boðunarstarfið er áhugavert og skemmtilegt starf sem veitir mikla gleði. — Postulasagan 20:35.
16. Hvað geta börn lært af því að hlusta á bænir foreldra sinna?
16 Foreldrar annast líka trúarlegar þarfir barnanna þegar þeir biðja með þeim. Jesús kenndi lærisveinunum að biðja og bað oft með þeim. (Lúkas 11:1-13) Hugsaðu þér hve mikið þeir hljóta að hafa lært af því að hlusta á bænir sem sjálfur sonur Jehóva bað. Börnin geta líka lært heilmikið af bænum þínum. Þau geta til dæmis lært að Jehóva vill að við tölum frjálslega við hann í fullri einlægni og að við getum talað við hann um hvaðeina sem íþyngir okkur. Já, bænir þínar geta hjálpað börnunum að læra þau mikilvægu sannindi að þau geti átt samband við himneskan föður sinn. — 1. Pétursbréf 5:7.
Tilfinningalegar þarfir
17, 18. (a) Hvernig leggur Biblían áherslu á mikilvægi þess að sýna börnum ástúð? (b) Hvernig ættu feður að líkja eftir fordæmi Jehóva þegar þeir tjá börnunum ást sína?
17 Tilfinningalegar þarfir barnanna eru líka mikilvægar. Orð Guðs bendir foreldrum á hversu brýnt er að annast þessar þarfir. Ungar konur eru til dæmis hvattar til að elska börnin sín. (Títusarbréfið 2:4) Það er vissulega mjög skynsamlegt. Það kennir barninu að elska og veitir langvarandi blessanir. Það er hins vegar heimskulegt að sýna barninu ekki ástúð. Það veldur barninu sársauka og er merki um að foreldrunum hafi mistekist að líkja eftir Jehóva sem sýnir okkur ómældan kærleika þrátt fyrir ófullkomleika okkar. — Sálmur 103:8-14.
18 Jehóva á meira að segja frumkvæði að því að sýna jarðneskum börnum sínum kærleika. Í 1. Jóhannesarbréfi 4:19 segir: „Hann elskaði oss að fyrra bragði.“ Þið feður ættuð sérstaklega að leggja ykkur fram um að líkja eftir honum og eiga frumkvæði að því að mynda ástúðleg tengsl við börnin. Biblían minnir feður á að vera ekki vondir við börnin sín „svo að þau verði ekki ístöðulaus“. (Kólossubréfið 3:21) Fátt er jafnerfitt fyrir börn og að hafa það á tilfinningunni að foreldrar þeirra elski þau hvorki né meti nokkurs. Feður, sem eru tregir til að tjá tilfinningar sínar, ættu að muna eftir fordæmi Jehóva. Hann talaði af himnum til að tjá velþóknun sína og ást á syni sínum. (Matteus 3:17; 17:5) Það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir Jesú. Það veitir börnum einnig hugrekki og styrk að heyra foreldrana tjá einlæga ást sína og velþóknun á þeim.
19. Af hverju er agi mikilvægur og hvaða jafnvægi þurfa kristnir foreldrar að finna?
19 En ást foreldranna á auðvitað ekki aðeins að koma fram í orðum. Kærleikur birtist aðallega í verkum. Þegar foreldrar annast efnislegar og trúarlegar þarfir barnanna getur það borið vott um elsku þeirra, sérstaklega ef það er gert þannig að kærleikurinn er greinilega aðalhvötin að baki. En agi ber einnig vott um ást foreldranna. Já, Jehóva „agar þann, sem hann elskar“. (Hebreabréfið 12:6) Ef foreldrar aga börnin sín ekki er það eiginlega merki um að þeir hati þau. (Orðskviðirnir 13:24) Jehóva finnur alltaf rétta jafnvægið og agar „í hófi“. (Jeremía 46:28) Það er ekki alltaf auðvelt fyrir foreldra að finna slíkt jafnvægi en þú ættir að leggja þig einlæglega fram um það. Ákveðinn en kærleiksríkur agi stuðlar að því að barnið lifi ánægjulegu og innihaldsríku lífi í framtíðinni. (Orðskviðirnir 22:6) Er það ekki eitthvað sem allir kristnir foreldrar vilja að börnin sín geri?
20. Hvernig veita foreldrar börnunum bestu möguleikana á að ‚velja lífið‘?
20 Ef þið foreldrar sinnið þeirri skyldu sem Jehóva hefur lagt ykkur á herðar og annist efnislegar, trúarlegar og tilfinningalegar þarfir barnanna verða launin mikil. Þannig veitið þið börnunum bestu möguleikana á að ‚velja lífið‘ og „lifa“. (5. Mósebók 30:19) Þegar börnin velja að þjóna Jehóva og halda sig á veginum sem liggur til lífsins veita þau foreldrum sínum afar mikla gleði. (Sálmur 127:3-5) Slík gleði varir að eilífu. En hvernig getur ungt fólk lofað Jehóva núna? Um það verður fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Í þessari grein verður almennt talað um þann sem sér fyrir fjölskyldu í karlkyni. Meginreglurnar eiga samt líka við kristnar konur sem eru aðalfyrirvinna fjölskyldunnar.
b Gefnar út af Vottum Jehóva.
Hvert er svarið?
Hvernig geta foreldrar annast þarfir barna sinna
• efnislega?
• trúarlega?
• tilfinningalega?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Margir fuglar leggja mikið á sig til að sjá fyrir ungum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Foreldrar verða fyrst að byggja upp sína eigin trú.
[Myndir á blaðsíðu 20, 21]
Foreldrar geta notað ýmis tækifæri til að fræða börnin um skaparann.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Velþóknun foreldranna styrkir börnin og veitir þeim hugrekki.