Kennið börnunum að elska Jehóva
„Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.“ — SÁLMUR 127:4.
1, 2. Hvernig eru börn eins og „örvar í hendi kappans“?
BOGAMAÐUR býr sig undir að skjóta í mark. Hann leggur örina við strenginn og spennir bogann. Þótt þetta reyni á vöðvana gefur hann sér tíma til að miða örinni vandlega. Síðan sleppir hann takinu og örin flýgur af stað. Ætli hún hitti í mark? Það er ýmislegt sem sker úr um það, eins og fimi bogamannsins, vindurinn og ástand örvarinnar.
2 Salómon konungur líkti börnum við „örvar í hendi kappans“. (Sálmur 127:4) Hvernig mætti heimfæra þessa líkingu? Bogamaður hefur örina í boganum í tiltölulega stuttan tíma. Til að hitta í mark verður hann að sleppa henni fljótt. Foreldrar hafa líka fremur stuttan tíma til að miða örvum sínum í rétta átt, það er að segja að hjálpa börnunum að þroska með sér djúpan kærleika til Jehóva. Áður en langt um líður eru þau vaxin úr grasi og farin að heiman. (Matteus 19:5) Ætli þau hitti í mark og haldi áfram að elska Jehóva og þjóna honum eftir að þau eru flutt að heiman? Það ræðst af ýmsu, eins og færni foreldranna, umhverfinu sem börnin alast upp í og því hvernig ‚örvarnar‘, eða börnin, taka við kennslunni sem þau fá. Lítum nánar á þetta þrennt. Fyrst skulum við athuga hvað einkennir góða foreldra.
Foreldrar verða að setja gott fordæmi
3. Hvers vegna verða orð og verk foreldranna að haldast í hendur?
3 Jesús er foreldrum góð fyrirmynd af því að hann breytti eins og hann bauð. (Jóhannes 13:15) Hann fordæmdi hins vegar faríseana fyrir að fara ekki sjálfir eftir því sem þeir kenndu. (Matteus 23:3) Orð og verk foreldranna verða að haldast í hendur til að þeir geti kennt börnunum að elska Jehóva. Ef verkin eru ekki í samræmi við orðin eru þau jafngagnslaus og bogi án strengs. — 1. Jóhannesarbréf 3:18.
4. Hvaða spurninga ættu foreldrar að spyrja sig og af hverju?
4 Hvers vegna er fyrirmynd foreldranna svona mikilvæg? Börn geta lært að elska Guð með því að fylgja góðu fordæmi þeirra rétt eins og fullorðnir geta lært að elska Guð með því að fylgja fordæmi Jesú. Félagar geta annaðhvort styrkt barnið eða ‚spillt góðum siðum‘ þess. (1. Korintubréf 15:33) Foreldrarnir eru áhrifamestu og nánustu félagar barnsins stærstan hluta af ævi þess, ekki síst á mótunarárunum. Foreldrar ættu því að spyrja sig: Hvers konar félagi er ég? Hvet ég börnin með fordæmi mínu til að temja sér góða siði? Hvers konar fordæmi gef ég börnunum varðandi mikilvæg mál eins og bæn og biblíunám?
Foreldrar verða að biðja með börnunum
5. Hvað geta börn lært af bænum foreldra sinna?
5 Börnin þín geta lært mikið um Jehóva með því að hlusta á bænir þínar. Hvaða ályktun draga þau þegar þau heyra þig þakka Guði á matmálstímum og biðja í námsstundum fjölskyldunnar? Þau læra líklega að Jehóva fullnægir efnislegum þörfum okkar — og okkur ber að þakka honum fyrir það — og sömuleiðis að hann kennir okkur andleg sannindi. Þetta er dýrmætur lærdómur. — Jakobsbréfið 1:17.
6. Hvernig geta foreldrar vakið börnin til vitundar um að Jehóva láti sér annt um þau?
6 Þú getur áorkað enn meiru ef þú biður með fjölskyldunni við önnur tækifæri en máltíðir og námsstundir og ef þú nefnir ákveðin mál í bænum þínum sem snerta þig og börnin. Þá skynja þau að Jehóva er hluti af fjölskyldunni og að honum þykir innilega vænt um ykkur öll. (Efesusbréfið 6:18; 1. Pétursbréf 5:6, 7) Faðir nokkur segir: „Við höfum beðið með dóttur okkar frá því að hún fæddist. Þegar hún varð eldri ræddum við í bænum okkar um val hennar á vinum og annað sem snerti hana. Alveg þangað til hún giftist og fluttist að heiman leið ekki sá dagur að við bæðum ekki með henni.“ Gætir þú líka beðið með börnunum á hverjum degi? Gætir þú hjálpað þeim að líta á Jehóva sem vin sem sinnir ekki aðeins efnislegum og andlegum þörfum þeirra heldur er líka umhugað um tilfinningalegar þarfir þeirra? — Filippíbréfið 4:6, 7.
7. Hvað þurfa foreldrar að vita til að bænir þeirra verði markvissar?
7 En þú þarft auðvitað að vita hvað er að gerast í lífi barnsins til að bænir þínar séu markvissar. Taktu eftir hvað tveggja barna faðir sagði: „Í lok hverrar viku spurði ég sjálfan mig tveggja spurninga: Hvað var börnunum ofarlega í huga í vikunni? Og hvað gerðist hjá þeim sem var jákvætt?“ Foreldrar, gætuð þið spurt ykkur slíkra spurninga og síðan fléttað svörunum inn í bænirnar sem þið biðjið með börnunum? Þá eruð þið ekki aðeins að kenna þeim að biðja til Jehóva — sem heyrir bænir — heldur líka að kenna þeim að elska hann. — Sálmur 65:3.
Foreldrar verða að stuðla að góðum námsvenjum
8. Af hverju verða foreldrar að hvetja börnin til að lesa og rannsaka orð Guðs að staðaldri?
8 Hvernig getur viðhorf foreldranna til biblíunáms haft áhrif á samband barnsins við Guð? Eigi samband tveggja einstaklinga að vaxa og dafna er ekki nóg að þeir tali hvor við annan heldur verða þeir líka að hlusta. Við hlustum á Jehóva meðal annars með því að rannsaka Biblíuna með hjálp rita frá ‚trúa þjóninum‘. (Matteus 24:45-47; Orðskviðirnir 4:1, 2) Foreldrar ættu því að hvetja börnin til að temja sér að lesa og rannsaka orð Guðs svo að þau eignist varanlegt og innilegt samband við hann.
9. Hvernig geta börn lært góðar námsvenjur?
9 Hvernig er hægt að kenna börnunum góðar námsvenjur? Enn sem fyrr er það fordæmi foreldranna sem hefur mest áhrif. Sjá börnin þig lesa og rannsaka Biblíuna að staðaldri? Þú ert eflaust önnum kafinn við að annast börnin og veltir kannski fyrir þér hvenær þú ættir að hafa tíma til lestrar og náms. En spyrðu þig: Sjá börnin mig oft horfa á sjónvarpið? Gætirðu þá gefið þeim gott fordæmi með því að taka einhvern tíma frá sjónvarpinu til sjálfsnáms?
10, 11. Hvers vegna ættu foreldrar að halda uppi reglulegu biblíunámi á heimilinu?
10 Biblíuumræður innan fjölskyldunnar eru önnur góð leið til að kenna börnunum að hlusta á Jehóva. (Jesaja 30:21) En sumir gætu spurt sig hvers vegna börn þurfi á fjölskyldunámi að halda ef foreldrarnir taka þau með á samkomur að staðaldri. Fyrir því eru margar góðar ástæður. Jehóva hefur fyrst og fremst falið foreldrunum það verkefni að kenna börnunum. (Orðskviðirnir 1:8; Efesusbréfið 6:4) Biblíunám fjölskyldunnar kennir börnunum líka að tilbeiðsla sé ekki bara siðvenja sem fylgt er í fjölmenni heldur hluti af fjölskyldulífinu. — 5. Mósebók 6:6-9.
11 Ef vel er á málum haldið getur fjölskyldunámið auk þess veitt foreldrum innsýn í það hvernig börnin hugsa um andleg og siðferðileg mál. Þegar börnin eru ung geta foreldrarnir notað rit eins og bókina Lærum af kennaranum mikla.a Í næstum hverri grein í þessu biblíunámsriti eru börnin hvött til að tjá sig um efnið sem er til umræðu. Með því að ræða um ritningarstaðina í bókinni geta foreldrar hjálpað börnunum að þjálfa skilningarvitin „til að greina gott frá illu“. — Hebreabréfið 5:14.
12. Hvernig geta foreldrar lagað fjölskyldunámið að þörfum barnanna og hvaða aðferð hefur reynst þér vel?
12 Lagaðu námið að þörfum barnanna eftir því sem þau verða eldri. Taktu eftir hvernig hjón ein hjálpuðu unglingsdætrum sínum að komast að niðurstöðu um hvort þær ættu að fara á skólaball. Faðirinn segir: „Við sögðum stelpunum að í næstu námsstund myndum við hjónin vera í hlutverki þeirra og þær gætu leikið okkur. Þær máttu ákveða hvor léki pabbann og hvor mömmuna en þær áttu að vinna saman að því að lesa sér til um málið og gefa síðan leiðbeiningar um skólaböll.“ Hver var árangurinn? „Það kom okkur á óvart hve ábyrga afstöðu þær tóku (í hlutverki sínu sem foreldrar) þegar þær útskýrðu fyrir okkur (sem vorum í hlutverki þeirra) af hverju það væri óviturlegt samkvæmt Biblíunni að fara á ballið,“ segir faðirinn. „Okkur fannst líka gaman að heyra hugmyndir þeirra um hvað við gætum gert í staðinn. Þetta veitti okkur innsýn í hvernig þær hugsuðu og hvað þær langaði til að gera.“ Það kostar að vísu þrautseigju og ímyndunarafl að halda biblíunáminu gangandi og sníða efnið að þörfum fjölskyldunnar en það er vel þess virði. — Orðskviðirnir 23:15.
Skapið friðsælt andrúmsloft
13, 14. (a) Hvernig geta foreldrar stuðlað að friðsælu andrúmslofti á heimilinu? (b) Af hverju getur það verið gott að foreldrar viðurkenni mistök sín?
13 Ör hittir frekar í mark ef henni er miðað og skotið í kyrru veðri. Ef foreldrar skapa friðsælt andrúmsloft á heimilinu læra börn frekar að elska Jehóva. „Ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja,“ skrifaði Jakob. (Jakobsbréfið 3:18) Hvernig geta foreldrar skapað gott andrúmsloft á heimilinu? Hjón þurfa að halda hjónabandinu sterku. Ef þau elska og virða hvort annað eru þau í betri aðstöðu til að kenna börnunum að elska og virða aðra, þar á meðal Jehóva. (Galatabréfið 6:7; Efesusbréfið 5:33) Ást og virðing stuðla að friði. Samlynd hjón eiga auðveldara með að leysa ágreining sem getur skapast innan fjölskyldunnar.
14 Að sjálfsögðu er engin fjölskylda fullkomin nú á dögum, ekki frekar en nokkurt hjónaband. Foreldrum tekst ekki alltaf að sýna ávexti andans í samskiptum við börnin. (Galatabréfið 5:22, 23) Hvað ættu þeir þá að gera? Dregur það úr virðingu barnanna fyrir foreldrunum ef þeir viðurkenna mistök sín? Tökum Pál postula sem dæmi. Hann var mörgum eins og andlegur faðir. (1. Korintubréf 4:15) Samt viðurkenndi hann opinskátt að hann gerði mistök. (Rómverjabréfið 7:21-25) En auðmýkt hans og hreinskilni eykur virðingu okkar fyrir honum frekar en að draga úr henni. Þrátt fyrir ófullkomleika sinn gat hann óhikað skrifað söfnuðinum í Korintu: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Ef þú viðurkennir mistök þín er líklegt að börnin horfi fram hjá þeim.
15, 16. Af hverju ættu foreldrar að kenna börnunum að elska trúsystkini sín og hvernig mætti fara að því?
15 Hvað annað geta foreldrar gert til að skapa umhverfi þar sem börnin læra að elska Jehóva? Jóhannes postuli skrifaði: „Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) Þegar þú kennir börnunum að elska trúsystkini sín ertu því að kenna þeim að elska Guð. Foreldrar ættu að spyrja sig: Tala ég yfirleitt um söfnuðinn á jákvæðum nótum eða í gagnrýnistón? Hvernig geturðu kannað það? Hlustaðu vel eftir því hvernig börnin tala um samkomurnar og fólk í söfnuðinum. Þú heyrir líklega enduróm af þínum eigin skoðunum.
16 Hvernig geta foreldrar kennt börnunum að elska trúsystkini sín? Peter á tvo unglingsstráka. Hann segir: „Frá því að strákarnir voru ungir höfum við haft fyrir venju að bjóða andlega þroskuðum trúsystkinum heim til að borða með okkur og eiga notalega stund saman. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Strákarnir hafa vanist því að umgangast fólk sem elskar Jehóva og þeir gera sér grein fyrir því að það er ánægjulegt að þjóna Guði.“ Dennis, sem á fimm dætur, segir: „Við hvöttum stelpurnar til að vingast við eldri brautryðjendur í söfnuðinum og þegar tækifæri gafst buðum við farandhirðum og eiginkonum þeirra heim til okkar.“ Getur þú líka lagt þig fram um að hjálpa börnunum að líta á söfnuðinn sem hluta af fjölskyldunni? — Markús 10:29, 30.
Ábyrgð barna
17. Hvaða ákvörðun verða börn að taka að lokum?
17 Grípum aftur til líkingarinnar um bogamanninn. Þótt hann sé fær hittir hann tæplega í mark ef örin er bogin eða snúin. Foreldrar reyna auðvitað sitt besta til að rétta úr örinni, ef svo má að orði komast, með því að reyna að leiðrétta rangan hugsunarhátt barnsins. En á endanum verða börn að ákveða sjálf hvort þau láti þennan heim beygja sig að vilja sínum eða leyfi Jehóva að gera ‚stigu þeirra slétta‘. — Orðskviðirnir 3:5, 6; Rómverjabréfið 12:2.
18. Hvaða áhrif getur ákvörðun barns haft á aðra?
18 Þótt foreldrar beri þá alvarlegu ábyrgð að ala börnin upp „með aga og umvöndun Drottins“ er það á endanum undir barninu sjálfu komið hvað verður úr því. (Efesusbréfið 6:4) Þið börn ættuð því að spyrja ykkur: Þigg ég kærleiksríka kennslu foreldra minna? Þannig veljið þið bestu lífsstefnuna sem hugsast getur. Það mun gleðja foreldra ykkar mikið. En umfram allt gleðjið þið hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Vottum Jehóva.
Manstu?
• Hvernig geta foreldrar verið góð fyrirmynd varðandi bæn og biblíunám?
• Hvernig geta foreldrar skapað friðsælt andrúmsloft á heimilinu?
• Hvað þurfa börn að ákveða og hvaða áhrif hafa þau á aðra með ákvörðun sinni?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Ertu börnunum góð fyrirmynd með því að hafa góðar námsvenjur?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Friðsælt andrúmsloft innan fjölskyldunnar stuðlar að hamingju.