Getur þróunarkenningin samræmst Biblíunni?
ER HUGSANLEGT að Guð hafi beitt þróun til að mynda menn af dýrum? Lét hann fiska þróast af gerlum, skriðdýr af fiskum, spendýr af skriðdýrum og að síðustu menn af öpum? Sumir vísindamenn og trúarkennarar segjast trúa bæði þróunarkenningunni og Biblíunni. Þeir halda því fram að sköpunarsaga Biblíunnar sé líkingasaga. Þú hefur kannski velt fyrir þér hvort sú kenning að maðurinn hafi þróast af dýrum geti samræmst Biblíunni.
Við þurfum að þekkja uppruna okkar til að skilja hver við erum, hvað verður um okkur og hvernig okkur ber að lifa. Við verðum að þekkja uppruna mannsins til að skilja hvers vegna Guð leyfir þjáningar og hvað hann ætlast fyrir með manninn í framtíðinni. Við getum ekki átt gott samband við Guð ef við erum ekki viss um að hann sé skapari okkar. Við skulum því kynna okkur hvað segir í Biblíunni um uppruna mannsins, núverandi ástand hans og framtíð. Síðan skulum við kanna hvort þróunarkenningin geti samræmst Biblíunni.
Þegar maðurinn var einn
Þróunarfræðingar fullyrða alla jafna að stofn manna hafi þróast smám saman af stofni dýra. Þeir hafna því að einu sinni hafi aðeins verið til einn maður. Biblían dregur hins vegar upp allt aðra mynd. Hún segir að við séum komin af einum manni sem hét Adam. Biblían lýsir Adam sem sannsögulegri persónu. Hún nafngreinir eiginkonu hans og sum af börnunum. Hún segir í ítarlegu máli frá því hvað hann gerði, hvað hann sagði, hvenær hann var uppi og hvenær hann dó. Jesús var ekki þeirrar skoðunar að þetta væri bara saga ætluð ómenntuðu fólki. Einu sinni ávarpaði hann hámenntaða trúarleiðtoga og sagði: „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu?“ (Matteus 19:3-5) Hann vitnaði síðan í það sem sagt er um Adam og Evu í 1. Mósebók 2:24.
Lúkas var biblíuritari og vandvirkur sagnaritari. Hann talaði um Adam sem raunverulega persónu ekkert síður en Jesú og rakti ættir Jesú aftur til fyrsta mannsins. (Lúkas 3:23-38) Páll postuli ávarpaði einu sinni hóp fólks í Aþenu. Meðal áheyrenda voru heimspekingar sem höfðu lært við hina frægu grísku skóla. Páll sagði við þá: „Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er . . . skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ (Postulasagan 17:24-26) Biblían kennir augljóslega að við séum komin af „einum“ manni. Getur lýsing hennar á fyrsta manninum samræmst þróunarkenningunni?
Hnignun mannsins
Að sögn Biblíunnar skapaði Jehóva fyrsta manninn fullkominn. Það er reyndar óhugsandi að Guð geri nokkuð sem er ófullkomið. Í sköpunarsögunni segir: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. . . . Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:27, 31) Hvernig er fullkominn maður?
Fullkominn maður hefur frjálsan vilja og er fær um að líkja í einu og öllu eftir eiginleikum Guðs. Í Biblíunni segir: „Guð hefur skapað mennina rétt en vangaveltur þeirra urðu of margar.“ (Prédikarinn 7:29, Biblían 2007 ) Adam ákvað að gera uppreisn gegn Guði. Þar með glataði hann fullkomleika sínum og ófæddra afkomenda sinna. Þetta skýrir hvers vegna við völdum sjálfum okkur oft vonbrigðum jafnvel þó að okkur langi til að gera rétt. Páll postuli skrifaði: „Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.“ — Rómverjabréfið 7:15.
Að sögn Biblíunnar er fullkominn maður alheilbrigður og á að lifa að eilífu. Ljóst er af orðum Guðs að Adam hefði aldrei dáið ef hann hefði ekki óhlýðnast Guði. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:22, 23) Jehóva hefði ekki lýst yfir að sköpunarverkið, þar á meðal maðurinn, væri „harla gott“ ef maðurinn hefði haft tilhneigingu til að veikjast eða gera uppreisn. Að maðurinn skyldi glata fullkomleikanum skýrir hvers vegna mannslíkaminn getur bæklast og veikst, þótt hann sé frábærlega vel gerður. Þróunarkenningin samræmist því ekki Biblíunni. Samkvæmt þróunarkenningunni er nútímamaðurinn dýr í framþróun en Biblían lýsir honum hins vegar sem úrkynja afkomanda fullkomins manns.
Sú hugmynd að maðurinn hafi þróast undir handleiðslu Guðs stangast líka á við það sem segir í Biblíunni um persónuleika Guðs. Ef Guð hefði beitt þróun þýddi það að hann hefði beint mannkyninu í þann farveg sem það er í, sjúkt og hrjáð. Biblían segir hins vegar um Guð: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann. Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.“ (5. Mósebók 32:4, 5) Þjáningar mannanna eru því ekki afleiðing þróunar sem Guð stýrði heldur því að einn maður gerði uppreisn gegn Guði og glataði þar með fullkomleika sínum og ófæddra afkomenda sinna. Eftir að hafa fjallað um Adam skulum við nú beina athyglinni að Jesú. Getur þróunarkenningin samræmst því sem Biblían segir um hann?
Geta þróunarkenningin og kristnin farið saman?
„Kristur dó vegna vorra synda.“ Eins og þú sennilega veist er þetta eitt af undirstöðuatriðum kristinnar trúar. (1. Korintubréf 15:3; 1. Pétursbréf 3:18) Til að glöggva okkur á því hvers vegna þróunarkenningin getur ekki samræmst þessum orðum þurfum við að skilja af hverju Biblían kallar okkur syndara og hvaða áhrif syndin hefur á okkur.
Við erum öll syndarar í þeim skilningi að við getum ekki líkt fullkomlega eftir háleitum eiginleikum Guðs, svo sem kærleika hans og réttvísi. Þess vegna segir Biblían: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23) Biblían kennir að syndin sé orsök dauðans. „Syndin er broddur dauðans,“ segir í 1. Korintubréfi 15:56. Erfðasyndin er sömuleiðis aðalorsök sjúkdóma og veikinda. Jesús gaf til kynna að sjúkdómar tengdust því að maðurinn er syndugur. Hann sagði við lamaðan mann: „Syndir þínar eru fyrirgefnar,“ og maðurinn læknaðist. — Matteus 9:2-7.
Hvernig kemur dauði Jesú okkur til hjálpar? Biblían ber saman Adam og Jesú Krist og segir: „Eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ (1. Korintubréf 15:22) Með því að leggja líf sitt í sölurnar greiddi Jesús fyrir syndina sem við erfðum frá Adam. Allir sem trúa á Jesú og hlýða honum hljóta því það sem Adam glataði — vonina um eilíft líf. — Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 6:23.
Er ekki ljóst að þróunarkenningin getur ekki samræmst kristinni trú? Ef við efumst um að ‚allir deyi fyrir samband sitt við Adam‘ getum við varla vonast til að ‚allir verði lífgaðir fyrir samfélag sitt við Krist‘.
Af hverju aðhyllast margir þróunarkenninguna?
Biblían varpar ljósi á ástæðuna fyrir því að kenningar á borð við þróunarkenninguna verða vinsælar. Þar stendur: „Þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.“ (2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Þróunarkenningin er í rauninni trúarkenning þó að hún sé yfirleitt klædd í vísindalegan búning. Hún boðar ákveðin lífsviðhorf og afstöðu til Guðs. Hún höfðar með lúmskum hætti til eigingirni og sjálfstæðishyggju mannsins. Margir sem trúa þróunarkenningunni segjast líka trúa á Guð. Þeim finnst samt allt í lagi að líta svo á að Guð hafi ekki skapað alla hluti, skipti sér ekki af málefnum mannanna og eigi ekki eftir að dæma þá. Þetta er trúarafstaða sem lætur vel í eyrum fólks.
Oft er það svo að málsvarar þróunarkenningarinnar láta langanir sínar, en ekki staðreyndir, ráða ferðinni — ef til vill löngunina til að njóta viðurkenningar meðal vísindamanna þar sem þróunarkenningin er almennt viðurkennd. Michael Behe er prófessor í lífefnafræði. Hann hefur varið mestum hluta ævinnar í að rannsaka hina flóknu innri starfsemi frumunnar. Hann segir að þeir sem kenni að fruman hafi þróast hafi engar forsendur til að halda því fram. Gæti þróun átt sér stað á sameindastiginu? „Hugmyndin um þróun á sameindastiginu er ekki byggð á vísindalegum heimildum,“ segir hann. „Það hefur ekkert birst í vísindaritum — virtum tímaritum, sértímaritum eða bókum — sem lýsir hvernig raunveruleg, flókin lífefnakerfi hafa þróast eða gætu hafa þróast á sameindastiginu. . . . Það er bara yfirlæti að halda því fram að það hafi átt sér stað þróun á sameindastiginu í skilningi Darwins.“
Hvers vegna skyldu þróunarfræðingar prédika hugmyndir sínar af slíkum ákafa þótt þeir hafi engar sannanir? Behe segir: „Margir, þeirra á meðal margir virtir og viðurkenndir vísindamenn, vilja hreinlega ekki að það sé til yfirnáttúrlegt afl.“
Margir prestar hafa tekið þróunarkenninguna upp á arma sína. Þeir vilja líta út sem þeir séu vitrir menn. Þeir líkjast óneitanlega þeim sem Páll postuli lýsir í bréfi sínu til kristinna manna í Róm. Þar segir: „Það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. . . . Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar. Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri. Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar.“ (Rómverjabréfið 1:19-22) Hvernig getum við varað okkur á blekkingum falskennara?
Trú byggð á staðreyndum
Í Biblíunni er skilgreint hvað trú sé og lögð áhersla á sannanir og rök. Þar segir: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Trú á Guð ætti að byggjast á sönnunum fyrir því að hann sé til. Í Biblíunni kemur fram hvar þessar sannanir er að finna.
Biblíuritarinn Davíð orti: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 139:14) Við fyllumst lotningu fyrir visku skaparans þegar við hugleiðum hvernig lifandi verur eru úr garði gerðar og hve stórkostlega mannslíkaminn er hannaður. Þúsundir kerfa vinna saman að því að halda okkur lifandi og þau eru öll snilldarlega hönnuð í smæstu smáatriðum. Alheimurinn vitnar sömuleiðis um stærðfræðilega nákvæmni og reglu. Davíð orti: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ — Sálmur 19:2.
Í Biblíunni er að finna ríkulegar sannanir fyrir því að til sé skapari. Ef þú gefur þér tíma til að skoða samræmið milli biblíubókanna 66 og kynna þér háleita siðfræði Biblíunnar og óbrigðula uppfyllingu spádómanna færðu ótal sannanir fyrir því að skaparinn sé höfundur hennar. Með því að lesa þér til um kenningar hennar lærirðu að treysta því að hún sé í raun og sannleika orð skaparans. Þú færð til dæmis góða innsýn í visku Guðs þegar þú skilur hvað Biblían kennir um orsakir þjáninga, ríki Guðs, framtíð mannkyns og uppskrift hamingjunnar. Kannski verður þér innanbrjósts eins og Páli þegar hann skrifaði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ — Rómverjabréfið 11:33.
Þegar þú kynnir þér sannanirnar og trú þín styrkist muntu sannfærast um að þú sért að hlusta á skaparann sjálfan þegar þú lest í Biblíunni. Hann segir: „Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her.“ (Jesaja 45:12) Þú sérð aldrei eftir því að hafa gefið þér tíma til að sanna fyrir sjálfum þér að Jehóva sé skapari allra hluta.
[Innskot á blaðsíðu 14]
Páll postuli sagði hálærðum Grikkjum: „Guð . . . skóp og af einum allar þjóðir manna.“
[Innskot á blaðsíðu 15]
Samkvæmt þróunarkenningunni er nútímamaðurinn dýr í framþróun. Biblían lýsir honum hins vegar sem úrkynja afkomanda fullkomins manns.
[Innskot á blaðsíðu 16]
„Hugmyndin um þróun á sameindastiginu er ekki byggð á vísindalegum heimildum.“
[Innskot á blaðsíðu 17]
Við fyllumst lotningu fyrir visku skaparans þegar við hugleiðum hve stórkostlega lifandi verur eru úr garði gerðar.