Taktu framförum með því að líkja eftir Páli
„Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ — 2. TÍM. 4:7.
1, 2. Hvernig breytti Sál frá Tarsus um lífsstefnu og hvaða mikilvæga starf fór hann að vinna?
HANN var vel gefinn og einbeittur maður. Hann sagðist hins vegar hafa ‚lotið jarðbundnum girndum‘. (Ef. 2:3) Síðar sagðist hann hafa verið maður sem ‚lastmælti, ofsótti og smánaði‘ aðra. (1. Tím. 1:13) Maðurinn var Sál frá Tarsus.
2 En Sál gerbreytti um lífsstefnu. Hann hætti sínu fyrra hátterni og lagði hart að sér til að ‚hyggja ekki að eigin hag heldur hag hinna mörgu‘. (1. Kor. 10:33) Hann breyttist í mildan mann og varð einkar ástúðlegur í garð þeirra sem áður höfðu fengið að kenna á fjandskap hans. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.) „Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis,“ skrifaði hann og bætti við: „Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists.“ — Ef. 3:7, 8.
3. Hvaða gagn getum við haft af því að kynna okkur bréf Páls og söguna af starfi hans?
3 Sál, einnig þekktur sem Páll, tók einstaklega miklum framförum í sannleikanum. (Post. 13:9) Ef við viljum taka hröðum framförum í trúnni er ágætt að kynna sér bréf Páls og söguna af starfi hans og líkja síðan eftir trú hans. (Lestu 1. Korintubréf 11:1; Hebreabréfið 13:7.) Könnum hvernig það getur verið okkur hvatning til að temja okkur góðar námsvenjur, láta okkur þykja vænt um aðra og sjá sjálf okkur í réttu ljósi.
Námsvenjur Páls
4, 5. Hvaða gagn hafði Páll af sjálfsnámi sínu?
4 Páll hafði vissa þekkingu á Ritningunni. „Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra,“ sagði hann og átti þá við menntun sína sem farísei. (Post. 22:1-3; Fil. 3:4-6) Strax eftir að hann lét skírast fór hann „til Arabíu“. (Gal. 1:17) Hér er annaðhvort átt við sýrlensku eyðimörkina eða afskekktan stað á Arabíuskaga þar sem gott var að lesa og hugleiða. Páll vildi greinilega hugleiða ritningarstaði sem sönnuðu að Jesús væri Messías. Sömuleiðis vildi hann búa sig undir það starf sem var fram undan. (Lestu Postulasöguna 9:15, 16, 20, 22.) Páll gaf sér tíma til að hugleiða andleg mál.
5 Páll hafði aflað sér biblíuþekkingar og skilnings með því að vera iðinn við sjálfsnám og var þess vegna afbragðskennari. Þegar hann prédikaði í samkunduhúsinu í Antíokkíu í Pisidíu vitnaði hann að minnsta kosti fimm sinnum beint í Hebresku ritningarnar til að sanna að Jesús væri Messías. Auk þess vísaði hann nokkrum sinnum óbeint í hin helgu rit. Biblíuleg rökfærsla hans var svo sannfærandi að „margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, [fylgdu] þeim Páli og Barnabasi“ til að afla sér meiri þekkingar. (Post. 13:14-44) Þegar hópur Gyðinga í Róm kom til hans þar sem hann bjó mörgum árum síðar skýrði hann málin fyrir þeim og „vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum“. — Post. 28:17, 22, 23.
6. Hvað hjálpaði Páli að vera sterkur í trúnni þegar hann lenti í þrengingum?
6 Páll hélt áfram að rannsaka Ritningarnar og sækja styrk í hinn innblásna boðskap þegar hann lenti í þrengingum. (Hebr. 4:12) Þegar hann sat í fangelsi í Róm áður en hann var tekinn af lífi bað hann Tímóteus að færa sér „bækurnar, einkanlega skinnbækurnar“. (2. Tím. 4:13) Þetta voru sennilega bækur sem tilheyrðu Hebresku ritningunum og Páll hefur notað við ítarlegt sjálfsnám. Reglulegt nám í Ritningunni og þekking á henni var nauðsynleg fyrir Pál til að hann gæti verið staðfastur.
7. Hvaða gagn geturðu haft af reglulegu biblíunámi?
7 Reglulegt biblíunám og markviss hugleiðing hjálpar okkur að taka framförum í trúnni. (Hebr. 5:12-14) Í einum af sálmum Biblíunnar er bent á hve verðmætt orð Guðs sé: „Lögmálið úr munni þínum er mér mætara en þúsundir skildinga úr silfri og gulli. Boð þín hafa gert mig vitrari en óvini mína því að þau hef ég ætíð hjá mér. Ég forða fæti mínum frá hverjum vondum vegi því að ég fylgi orði þínu.“ (Sálm. 119:72, 98, 101) Stundarðu reglulegt sjálfsnám í orði Guðs? Býrðu þig undir ný verkefni í þjónustu Guðs með því að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða það sem þú lest?
Sál lærði að elska aðra
8. Hvernig leit Sál á þá sem voru utan gyðingdómsins?
8 Sál hafði verið ákafur í trú sinni áður en hann gerðist kristinn en haft litla samúð með fólki utan gyðingdómsins. (Post. 26:4, 5) Hann horfði á með velþóknun þegar hópur Gyðinga grýtti Stefán. Þessi atburður hlýtur að hafa hert Sál í andstöðu sinni. Kannski leit hann svo á að Stefán hefði fengið makleg málagjöld. (Post. 6:8-14; 7:54–8:1) Hin innblásna frásaga segir: „Sál gerði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.“ (Post. 8:3) „Svo freklega æddi [hann] gegn þeim að [hann] fór til borga erlendis að ofsækja þá.“ — Post. 26:11.
9. Hvað varð til þess að Sál endurskoðaði afstöðu sína til annarra?
9 Drottinn Jesús birtist Sál þegar hann var á leið til Damaskus til að ofsækja lærisveina hans. Yfirnáttúrlegur ljómi sonar Guðs blindaði Sál svo að hann þurfti að reiða sig á hjálp annarra. Þegar Jehóva sendi Ananías til að veita Sál sjónina á ný voru viðhorf hans gerbreytt. (Post. 9:1-30) Eftir að hann gerðist fylgjandi Krists lagði hann sig allan fram um að líkja eftir honum í samskiptum við aðra. Það þýddi að hann sagði skilið við ofbeldið og stundaði „frið við alla menn“. — Lestu Rómverjabréfið 12:17-21.
10, 11. Hvernig sýndi Páll fólki ósvikinn kærleika?
10 Páll stundaði ekki aðeins frið við aðra heldur vildi hann sýna ósvikinn kærleika. Boðunarstarfið gaf honum tækifæri til þess. Í fyrstu trúboðsferðinni prédikaði hann fagnaðarerindið í Litlu-Asíu. Hann og félagar hans einbeittu sér að því að hjálpa auðmjúku fólki að taka kristna trú, þrátt fyrir harða andstöðu. Í Lýstru og Íkóníum reyndu andstæðingar að drepa Pál en samt sem áður heimsótti hann borgirnar að nýju ásamt félögum sínum. — Post. 13:1-3; 14:1-7; 19-23.
11 Síðar leituðu Páll og félagar hans að hjartahreinu fólki í borginni Filippí í Makedóníu. Þar bjó kona að nafni Lýdía sem tekið hafði gyðingatrú. Hún hlustaði á fagnaðarerindið og gerðist kristin. Valdsmenn borgarinnar létu húðstrýkja Pál og Sílas og varpa í fangelsi en Páll prédikaði fyrir fangaverðinum með þeim árangri að hann og fjölskylda hans tóku trú á Jehóva og létu skírast. — Post. 16:11-34.
12. Hvað breytti hinum ósvífna Sál í ástríkan postula Jesú Krists?
12 Hvað varð til þess að fyrrverandi ofsækjandi tók við trú fórnarlamba sinna? Hvað breytti þessum ósvífna manni í hlýlegan og ástríkan postula sem var fús til að hætta lífi sínu til að aðrir kynntust sannleikanum um Guð og Krist? Hann svarar því sjálfur og segir: „Guði, sem hafði útvalið mig . . . og af náð sinni kallað, þóknaðist að opinbera mér son sinn.“ (Gal. 1:15, 16) Hann skrifaði Tímóteusi: „Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.“ (1. Tím. 1:16) Jehóva fyrirgaf Páli, og sú náð og miskunn, sem Páll varð aðnjótandi, var honum hvöt til að sýna öðrum kærleika og boða þeim fagnaðarerindið.
13. Af hvaða hvötum ættum við að sýna öðrum kærleika og hvernig getum við gert það?
13 Jehóva fyrirgefur líka syndir okkar og mistök. (Sálm. 103:8-14) „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ spurði sálmaskáldið. (Sálm. 130:3) Án miskunnar Guðs yrði ekkert okkar þeirrar gleði aðnjótandi að veita honum heilaga þjónustu og við ættum ekki heldur von um eilíft líf. Jehóva hefur sýnt okkur öllum mikla miskunn. Okkur ætti því að langa til að sýna öðrum kærleika líkt og Páll gerði, með því að prédika fyrir þeim og kenna þeim sannleikann og með því að styrkja trúsystkini okkar. — Lestu Postulasöguna 14:21-23.
14. Hvernig getum við orðið betri boðberar fagnaðarerindisins?
14 Pál langaði til að verða betri boðberi fagnaðarerindisins og var snortinn af fordæmi Jesú. Sonur Guðs sýndi fólki óviðjafnanlegan kærleika, meðal annars með því að boða ríki Guðs. „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir,“ sagði hann. „Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:35-38) Hafi Páll beðið Jehóva um að senda fleiri verkamenn er ljóst að hann breytti samkvæmt því með því að vera sjálfur kappsamur verkamaður. Hvað um þig? Geturðu orðið færari boðberi? Eða geturðu tekið meiri þátt í boðunarstarfinu, jafnvel skapað þér svigrúm til að gerast brautryðjandi? Sýnum öðrum ósvikinn kærleika með því að hjálpa þeim að ‚halda fast við orð lífsins‘. — Fil. 2:16.
Hvernig leit Páll á sjálfan sig?
15. Hvernig leit Páll á sjálfan sig og aðra í söfnuðinum?
15 Páll er okkur líka framúrskarandi fyrirmynd á annan hátt. Enda þótt honum væru falin margs konar verkefni í kristna söfnuðinum vissi hann mætavel að hann hafði ekki áunnið sér þau sökum hæfileika sinna. Hann var sér meðvitaður um að sú blessun, sem hann naut, var tilkomin vegna óverðskuldaðrar góðvildar Guðs. Hann vissi að aðrir í söfnuðinum voru líka dugandi boðberar fagnaðarerindisins. Hann var auðmjúkur þrátt fyrir stöðu sína í söfnuðinum. — Lestu 1. Korintubréf 15:9-11.
16. Hvernig sýndi Páll auðmýkt og hógværð í umskurnardeilunni?
16 Sem dæmi skulum við líta á hvernig Páll tók á vandamáli sem kom upp í borginni Antíokkíu í Sýrlandi. Kristni söfnuðurinn þar var klofinn í afstöðu sinni til umskurnar. (Post. 14:26–15:2) Þar eð Páli hafði verið falin umsjón með boðun fagnaðarerindisins meðal óumskorinna heiðingja hefði hann getað litið á sjálfan sig sem sérfræðing í málefnum þeirra og fullfæran um að leysa vandann. (Lestu Galatabréfið 2:8, 9.) En þegar útlit var fyrir að honum tækist ekki að setja niður deiluna sýndi hann þá hógværð og auðmýkt að styðja það að málið yrði lagt fyrir hið stjórnandi ráð í Jerúsalem. Páll vann fúslega með hinu stjórnandi ráði þegar það hlýddi á málið, komst að niðurstöðu og gerði hann út sem einn af sendiboðum sínum. (Post. 15:22-31) Þannig var hann „fyrri til að veita [samþjónum sínum] virðing.“ — Rómv. 12:10b, Biblían 1981.
17, 18. (a) Hvaða tilfinningar bar Páll til annarra í söfnuðunum? (b) Hvað má álykta af viðbrögðum öldunganna í Efesus þegar Páll kvaddi þá?
17 Páll var ekki fálátur í samskiptum við trúsystkini sín í söfnuðunum heldur tengdist þeim nánum böndum. Í lok Rómverjabréfsins sendir hann kveðjur til meira en 20 einstaklinga og nefnir þá alla með nafni. Flestir eru ekki nefndir annars staðar í Biblíunni og fáir af þeim voru í ábyrgðarstöðum í söfnuðinum. Þeir voru engu að síður dyggir þjónar Jehóva og Páli þótti ákaflega vænt um þá. — Rómv. 16:1-16.
18 Páll styrkti söfnuðina með því að vera auðmjúkur og vingjarnlegur í viðmóti. Eftir að hann hafði hitt öldungana frá Efesus í síðasta sinn „féllu [þeir] um háls Páli og kysstu hann. Mest varð þeim um þau orð hans að þeir mundu aldrei framar sjá hann.“ Ef stoltur og fálátur maður hefði verið að kveðja hefðu viðbrögðin orðið önnur. — Post. 20:37, 38.
19. Hvernig getum við verið lítillát í samskiptum við trúsystkini?
19 Allir sem vilja taka framförum í sannleikanum verða að vera auðmjúkir líkt og Páll. Hann hvatti trúsystkini sín: „Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ (Fil. 2:3) Hvernig getum við farið eftir þessum ráðum? Meðal annars með því að vera samstarfsfús við öldungana í söfnuðinum, fylgja leiðbeiningum þeirra og styðja ákvarðanir sem þeir taka í dómsmálum. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) Við getum líka farið eftir ráðum Páls með því að meta mikils öll trúsystkini okkar. Í mörgum söfnuðum votta Jehóva er saman komið fólk af ólíku þjóðerni, þjóðarbrotum, menningu og kynþætti. En ættum við ekki að læra að sýna öllum óhlutdrægni og ástúð eins og Páll? (Post. 17:26; Rómv. 12:10a) Við fáum eftirfarandi hvatningu: „Takið hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar.“ — Rómv. 15:7.
Keppum þolgóð að eilífa lífinu
20, 21. Hvað getur hjálpað okkur að keppa að eilífa lífinu?
20 Það má líkja lífi kristins manns við langhlaup. Páll skrifaði: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.“ — 2. Tím. 4:7, 8.
21 Ef við fylgjum fordæmi Páls er það góð hjálp til að keppa þolgóð að eilífa lífinu. (Hebr. 12:1) Höldum því fyrir alla muni áfram að taka framförum í trúnni með því að temja okkur góðar námsvenjur, læra að elska aðra og vera hógvær.
Hvert er svarið?
• Hvaða gagn hafði Páll af reglulegu námi í Ritningunni?
• Af hverju er mikilvægt að sannkristnir menn elski aðra?
• Hvaða eiginleiki getur hjálpað okkur að vera óhlutdræg í samskiptum við aðra?
• Hvernig getur fordæmi Páls hjálpað okkur að vinna vel með öldunungum í söfnuðinum?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Sæktu styrk í orð Guðs eins og Páll.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Sýndu kærleika með því að segja öðrum frá fagnaðarerindinu.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Veistu hvað laðaði aðra að Páli?