Hve áreiðanleg eru guðspjöllin?
„Við verðum nú að líta svo á að guðspjöllin séu skáldskapur frumkristinna manna.“ — Burton L. Mack, prófessor í nýjatestamentisfræðum.
PRÓFESSORINN, sem hér er vitnað til, er ekki einn á báti. Fjöldi fræðimanna hefur dregið í efa að guðspjöll Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar séu áreiðanlegar heimildir um ævi og þjónustu Jesú. Af hverju eru sumir þeirrar skoðunar að guðspjöllin séu helgisögur einar? Ættu skoðanir þeirra að vekja með okkur efasemdir um að guðspjöllin séu sannsögulegar heimildir? Lítum nánar á málið.
Guðspjöllin véfengd
Fyrstu 17 aldir okkar tímatals var sjaldan dregið í efa svo að nokkru næmi að guðspjöllin væru áreiðanleg. Frá og með 19. öld hafa margir menntamenn hins vegar litið svo á að guðspjöllin séu ekki innblásin af Guði heldur séu þau skálduð af mönnum. Jafnframt hafa þeir fullyrt að guðspjallaritararnir hafi ekki haft upplýsingar um Jesú frá fyrstu hendi, og hafi reyndar verið ófærir um að skrásetja áreiðanlegar söguheimildir. Þar sem fyrstu þrjú guðspjöllin, nefnd samstofna guðspjöllin, eru á margan hátt lík að uppbyggingu og innihaldi, halda þeir því fram að höfundar þeirra hafi tekið mikið upp hver eftir öðrum. Gagnrýnismenn fullyrða jafnframt að kraftaverk Jesú og upprisa hafi ekki átt sér stað líkt og guðspjöllin greina frá. Og sumir fullyrða jafnvel að Jesús sé alls ekki sannsöguleg persóna!
Sömu menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að Markúsarguðspjall hljóti að hafa verið skrifað fyrst vegna þess að það virðist bæta litlu við frásögur Matteusar og Lúkasar. Þeir gefa sér að Matteus og Lúkas hafi notað Markúsarguðspjall sem grunn og síðan sótt viðbótarefni í samtímaheimild sem fræðimenn kalla Q-heimildina (eftir þýska orðinu Quelle sem merkir „heimild“). Biblíufræðingurinn Albertus F. J. Klijn bendir á að með þessari tilgátu sé „gert lítið úr guðspjallariturunum og gefið í skyn að þeir hafi ekki gert annað en að safna saman sögum“. Þar með er látið að því liggja að guðspjallaritararnir hafi stundað ritstuld og skáldað upp helgisögur. Með þessari kenningu er grafið undan tiltrú á guðlegan innblástur Biblíunnar. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Voru þeir ritþjófar?
Er sannað að höfundar samstofna guðspjallanna hafi tekið upp hver eftir öðrum fyrst verk þeirra eru lík að uppbyggingu og innihaldi? Nei, meðal annars vegna þess að Jesús lofaði lærisveinunum að heilagur andi myndi ‚minna þá á allt sem hann hafði sagt þeim‘. (Jóhannes 14:26) Það er því ekkert óeðlilegt að guðspjallaritararnir skuli oft muna eftir og segja frá sömu atburðum. Auðvitað má vel vera að sumir af biblíuriturunum hafi lesið rit annarra biblíuritara og vísað í þau en það gerir þá ekki að ritþjófum heldur bendir frekar til þess að þeir hafi stundað nákvæma heimildavinnu. (2. Pétursbréf 3:15) Að auki má benda á það sem segir um þetta í The Anchor Bible Dictionary: „Ef byggt var á munnlegri geymd skýrir það vel hvers vegna eftirminnileg orð Jesú eru skrásett nákvæmlega eins.“
Lúkas lætur þess getið að hann hafi talað við fjölda sjónarvotta og „athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi“. (Lúkas 1:1-4) Ekki hljómar það eins og þar sé á ferðinni ritþjófur eða helgisöguskáld! Fornleifafræðingurinn William Ramsay gerði ítarlega rannsókn á ritum Lúkasar og komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Lúkas er sagnfræðingur í fremstu röð. Hann fer ekki einasta rétt með staðreyndir heldur hefur hann næmt söguskyn . . . Þessi höfundur á heima með mestu sagnfræðingum veraldar.“
Vitnisburður fyrstu kirkjufeðranna bendir einnig til þess að Matteus postuli hafi verið fyrstur til að skrifa guðspjall. Einn þessara kirkjufeðra var guðfræðingurinn Origenes á þriðju öld. Hann segir: „Hið fyrsta er ritað af Matteusi, þeim hinum sama er áður var skattheimtumaður en síðar postuli Jesú Krists. Það var ætlað Gyðingum sem snúist höfðu til trúar og ritað á hebresku.“ Það er deginum ljósara að Matteus, sem var postuli og sjónarvottur að þjónustu Jesú, þurfti ekki að stela úr ritum Markúsar sem var ekki sjónarvottur. En hvað um þá fullyrðingu að Matteus og Lúkas hafi hermt eftir Markúsi og aukið við úr Q-heimildinni sem haldið er fram að hafi verið til?
Var Markúsarguðspjall skrifað fyrst?
Að sögn The Anchor Bible Dictionary eru „engin óyggjandi rök fyrir því“ að Markúsarguðspjall sé elst og hafi verið aðaheimild Matteusar og Lúkasar. Margir fræðimenn telja engu að síður að Markús hafi skrifað guðspjall sitt á undan hinum. Svo hljóti að vera vegna þess að Markús bætir, að þeirra sögn, litlu við það sem fram kemur í hinum guðspjöllunum. Biblíufræðingurinn Johannes Kuhn, sem var uppi á 19. öld, fullyrðir til dæmis að Markúsarguðspjall hljóti að hafa verið skrifað fyrst. Annars, segir hann, „verðum við að ímynda okkur að Markús hafi skorið bókrollur Matteusar og Lúkasar í litla búta, blandað þeim saman í krukku og samið guðspjall sitt upp úr blöndunni“.
Nú er Markúsarguðspjall styst þannig að það kemur ekki á óvart að þar sé að finna minnst af sérstæðu efni. Þetta sannar hins vegar ekki að það sé elst guðspjallanna. Og reyndar er það rangt að hröð og kraftmikil frásögn Markúsar auki engu við skrif Matteusar og Lúkasar. Í frásögn Markúsar af þjónustu Jesú segir frá meira en 180 atriðum sem er ekki að finna í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar. Það er því óhætt að segja að Markúsarguðspjall hafi að geyma einstæða frásögu af ævi Jesú. — Sjá rammagrein á bls. 29.
Hvað um Q-heimildina?
Hvað má segja um Q-heimildina sem svo er kölluð og sumir halda fram að Matteus og Lúkas hafi notað sem heimild? James M. Robinson, prófessor í trúarbragðafræði, segir: „Q er tvímælalaust mikilvægasti kristni textinn sem við eigum.“ Þessi staðhæfing vekur nokkra furðu því að Q-heimildin er ekki til núna og enginn getur raunar sannað að hún hafi nokkurn tíma verið til! Algert hvarf hennar er þeim mun merkilegra fyrir þá sök að fræðimenn fullyrða að allmörg afrit hljóti að hafa verið í umferð. Þar við bætist að kirkjufeðurnir vitna aldrei í Q-heimildina.
Hugsaðu nú málið. Menn gefa sér að Q-heimildin hafi verið til og styðji þá tilgátu að Markús hafi skrifað guðspjall sitt á undan hinum. Er þetta ekki dæmi um tilgátu byggða á annarri tilgátu? Þegar kenningar eins og þessi eru annars vegar er skynsamlegt af okkur að hafa í huga orðskviðinn sem hljóðar svo: „Einfaldur maður trúir hverju orði sem hann heyrir en skynsamur maður skilur að það þarf sannanir.“ — Orðskviðirnir 14:15, The New English Bible.
Guðspjöllin — ósvikin og áreiðanleg
Með tilhæfulausum getgátum sínum hafa gagnrýnir fræðimenn latt marga þess að kynna sér áreiðanlegar frásagnir guðspjallanna af ævi og þjónustu Jesú. Þessar frásagnir sýna svo ekki verður um villst að í augum frumkristinna manna var Jesús, starf hans, dauði og upprisa enginn tilbúningur. Hundruð sjónarvotta staðfestu að frásögurnar væru sannar. Frumkristnir menn voru reiðubúnir að þola ofsóknir og dauða til að fylgja Jesú, og þeir gerðu sér fullkomlega grein fyrir því að það væri út í hött að vera kristinn ef þjónusta og upprisa Jesú væri hreinn uppspuni. — 1. Korintubréf 15:3-8, 17, 19; 2. Tímóteusarbréf 2:2.
George W. Buchanan, prófessor í guðfræði, vísar til deilnanna um það hvort Markúsarguðspjall hafi verið skrifað fyrst og um hina dularfullu en týndu Q-heimild þegar hann segir: „Áherslan á tilgátuna um upprunann beinir athygli biblíunemandans frá því að rannsaka sjálfan textann.“ Þar tekur hann í sama streng og Páll postuli þegar hann ráðlagði Tímóteusi að „gefa sig ekki að kynjasögum og endalausum ættartölum er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs“. — 1. Tímóteusarbréf 1:4.
Guðspjöllin eru áreiðanleg. Þau hafa að geyma trúverðugar frásagnir sjónarvotta. Þau eru byggð á ítarlegri heimildavinnu. Þau færa okkur í hendur heillandi upplýsingar um ævi Jesú Krists. Við ættum því að gera eins og Páll hvatti Tímóteus til og ‚halda okkur stöðuglega við það sem við höfum numið‘. Við höfum fulla ástæðu til að treysta að ‚sérhver ritning sé innblásin af Guði‘ — þar á meðal guðspjöllin fjögur. — 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.
[Rammi á blaðsíðu 29]
Ef Markúsarguðspjall hefði ekki verið skrifað vissum við ekki að . . .
Jesús leit í kringum sig með reiðisvip, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra. (Markús 3:5)
Jakob og Jóhannes voru nefndir Boanerges. (Markús 3:17)
konan, sem hafði blóðlátin, hafði kostað aleigu sinni. (Markús 5:26)
Heródías lagði fæð á Jóhannes skírara og Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann. (Markús 6:19, 20)
Jesús bauð lærisveinunum að hvílast um stund. (Markús 6:31)
Jesús tók börnin sér í faðm. (Markús 10:16)
Jesús horfði með ástúð á unga höfðingjann. (Markús 10:21)
Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés spurðu Jesú einslega. (Markús 13:3)
maður nokkur ungur skildi línklæðið eftir. (Markús 14:51, 52)
Auk þess segir enginn nema Markús frá einni af dæmisögum Jesú og tveim af kraftaverkum hans. — Markús 4:26-29; 7:32-37; 8:22-26.
Markúsarguðspjall hefur að geyma fjölda annarra upplýsinga sem er ekki að finna í hinum guðspjöllunum. Við getum ekki annað en metið guðspjallið að verðleikum ef við gefum okkur tóm til að hugleiða vel gildi þessara athyglisverðu upplýsinga.