Sækjum fram til þroska því að hinn mikli dagur Jehóva er í nánd
„[Snúum] okkur að fræðslunni fyrir lengra komna.“ — HEBR. 6:1.
1, 2. Hvernig fengu kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu tækifæri til að ‚flýja til fjalla‘?
ÞEGAR Jesús var hér á jörð komu lærisveinar hans til hans og spurðu: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ Jesús svaraði spurningunni með því að bera fram spádóm sem uppfylltist fyrst fáeinum áratugum síðar. Jesús talaði um óvenjulega atburði sem yrðu merki þess að endirinn væri á næsta leiti. ‚Þeir sem í Júdeu voru áttu að flýja til fjalla‘ þegar þeir sæju þessa atburði. (Matt. 24:1-3, 15-22) Myndu lærisveinar Jesú átta sig á tákninu og gera eins og hann sagði þeim?
2 Árið 61, næstum 30 árum síðar, skrifaði Páll postuli hnitmiðað og kjarnmikið bréf sem hann sendi kristnum Hebreum í Jerúsalem og nágrenni. Hvorki hann né trúsystkini hans vissu þá að það væru ekki nema fimm ár þangað til þau myndu sjá merkið um að fyrsti kafli ‚þrengingarinnar miklu‘ væri að hefjast. (Matt. 24:21) Árið 66 kom rómverskur her undir forystu Cestíusar Gallusar og tókst næstum að vinna Jerúsalem. En þegar Rómverjar hurfu skyndilega á brott gafst tækifæri til að flýja af hættusvæðinu.
3. Hvaða hvatningu fengu kristnir Hebrear og af hverju?
3 Þessir kristnu menn þurftu að hafa skýra andlega sjón til að gera sér grein fyrir að þarna voru orð Jesú að rætast og þeir þurftu að flýja. En athygli sumra var orðin sljó eins og Páll komst að orði. Þeir voru eins og andleg ungbörn sem höfðu „þörf fyrir mjólk“. (Lestu Hebreabréfið 5:11-13.) Sumir sem höfðu verið í trúnni áratugum saman sýndu jafnvel merki um að hafa fjarlægst ‚lifanda Guð‘. (Hebr. 3:12) Sumir höfðu vanið sig á að sleppa safnaðarsamkomum á þessum örlagaríku tímum þegar ‚dagurinn færðist nær‘. (Hebr. 10:24, 25) Páll gaf þeim tímabæra áminningu og hvatti þá til að „sleppa byrjendafræðslunni um Krist“ og snúa sér að „fræðslunni fyrir lengra komna“. Þeir áttu að sækja fram til þroska. — Hebr. 6:1.
4. Af hverju er mikilvægt að vera andlega vakandi og hvað hjálpar okkur til þess?
4 Við lifum nú þann tíma þegar spádómur Jesú er að hljóta lokauppfyllingu. „Í nánd er hinn mikli dagur Drottins“ — dagurinn þegar allt kerfi Satans líður undir lok. (Sef. 1:14) Það hefur aldrei verið brýnna að eiga sterkt samband við Jehóva og vera vakandi fyrir uppfyllingu spádómanna. (1. Pét. 5:8) Erum við það? Ef við erum þroskuð í trúnni hjálpar það okkur að vera alltaf meðvituð um hvar við stöndum í tímans rás.
Hvað er trúarþroski?
5, 6. (a) Hvað er trúarþroski? (b) Á hvaða tveim sviðum þurfum við að leggja okkur fram til að sækja fram til þroska?
5 Páll hvatti kristna Hebrea ekki aðeins til að sækja fram til trúarþroska heldur skýrði einnig fyrir þeim hvað væri fólgið í honum. (Lestu Hebreabréfið 5:14.) Þeir sem eru þroskaðir láta sér ekki nægja að nærast á „mjólk“ heldur borða ‚fasta fæðu‘. Þeir þekkja því bæði „undirstöðuatriði“ sannleikans og „djúpin“ í honum. (1. Kor. 2:10) Þeir hafa enn fremur agað hugann jafnt og þétt með því að beita þekkingu sinni til að greina gott frá illu. Þess vegna átta þeir sig á hvaða meginreglur Biblíunnar eiga við þegar þeir þurfa að taka ákvarðanir og kunna að heimfæra meginreglurnar.
6 „Þess vegna ber okkur að gefa því enn betur gaum er við höfum heyrt svo að við berumst eigi afleiðis,“ skrifaði Páll. (Hebr. 2:1) Við getum borist afleiðis frá trúnni án þess að gera okkur grein fyrir því. Það er hægt að koma í veg fyrir það með því að „gefa . . . enn betur gaum“ að sannleikanum við sjálfsnám og á samkomum. Við þurfum því öll að spyrja okkur: Hef ég bara tileinkað mér undirstöðuatriðin? Getur verið að ég sinni sannleikanum bara af gömlum vana en geri það ekki af heilum hug? Hvernig get ég tekið markvissum framförum í sannleikanum? Til að sækja fram til þroska þurfum við að minnsta kosti að leggja okkur fram á tveim sviðum. Við þurfum að vera vel heima í orði Guðs og við þurfum að læra að vera hlýðin.
Verum vel heima í orði Guðs
7. Hvaða gagn höfum við af því að kynnast orði Guðs?
7 „Hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins,“ skrifaði Páll. (Hebr. 5:13) Til að taka út þroska þurfum við að skilja orð Guðs, það er að segja boðskap hans til okkar. Þennan boðskap er að finna í Biblíunni þannig að við þurfum að vera dugleg að lesa í Biblíunni og ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. (Matt. 24:45-47) Við getum agað hugann með því að kynna okkur hvernig Guð hugsar. Tökum sem dæmi kristna konu sem heitir Orchid.a Hún segir: „Ekkert hefur haft meiri áhrif á mig en hvatningin að lesa reglulega í Biblíunni. Það tók mig um tvö ár að lesa alla Biblíuna en það var eins og ég væri að kynnast skapara mínum í fyrsta sinn. Ég lærði um vegi hans, mátt og takmarkalausa visku, og áttaði mig á hvað honum geðjast og hvað ekki. Daglegur biblíulestur hefur haldið mér gangandi á einhverjum erfiðustu köflum ævinnar.“
8. Hvaða áhrif getur orð Guðs haft á okkur?
8 Með því að lesa að staðaldri í Biblíunni getum við látið kröftugan boðskap hennar hafa áhrif á okkur. (Lestu Hebreabréfið 4:12.) Slíkur lestur getur mótað okkar innri mann svo að við þóknumst Jehóva betur. Getur verið að þú þurfir að gefa þér meiri tíma til að lesa í Biblíunni og hugleiða efni hennar?
9, 10. Hvað er fólgið í því að vera vel heima í orði Guðs? Lýstu með dæmi.
9 Til að vera vel heima í Biblíunni er ekki nóg að vita bara hvað stendur í henni. Andlegu börnin á dögum Páls hafa trúlega haft einhverja þekkingu á innblásnu orði Guðs. Hins vegar notuðu þeir ekki þekkinguna og létu ekki reyna á gildi hennar með því að fara eftir henni. Þeir þekktu ekki boðskapinn í þeim skilningi að þeir notuðu hann til að hjálpa sér að taka skynsamlegar ákvarðanir.
10 Til að vera vel heima í Biblíunni þurfum við að vita hvað stendur þar og nota vitneskju okkar. Kyle er dæmi um trúsystur sem gerði það eftir að hafa lent upp á kant við vinnufélaga. Hvað gerði hún til að sættast? Hún svarar: „Rómverjabréfið 12:18 kom upp í huga mér en þar segir: ‚Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.‘ Ég mælti mér því mót við vinnufélagann eftir vinnu.“ Allt fór á besta veg og vinnufélaginn var ánægður með að Kyle skyldi eiga frumkvæðið að því að leysa málið. „Ég komst að raun um að það virkar alltaf best að fara eftir meginreglum Biblíunnar,“ segir Kyle.
Lærum að hlýða
11. Af hverju má sjá að það getur verið þrautin þyngri að vera hlýðinn þegar erfiðleika ber að garði?
11 Það getur verið þrautin þyngri að fara eftir því sem við höfum lært í Biblíunni, ekki síst ef við lendum í erfiðleikum. Lítum á dæmi. Skömmu eftir að Jehóva frelsaði Ísraelsmenn úr ánauðinni í Egyptalandi „ásakaði fólkið Móse“ og ‚reyndi Drottin‘. Ástæðan var skortur á drykkjarvatni. (2. Mós. 17:1-4) Tæplega tveim mánuðum eftir að þjóðin gerði sáttmála við Guð og samþykkti að „gera allt sem Drottinn [hafði] boðið“ braut hún lög hans um skurðgoðadýrkun. (2. Mós. 24:3, 12-18; 32:1, 2, 7-9) Voru Ísraelsmenn óttaslegnir vegna þess að Móse var fjarverandi um tíma meðan Jehóva leiðbeindi honum á Hórebfjalli? Ímynduðu þeir sér kannski að Amalekítar myndu ráðast á þá að nýju og þeir yrðu ósjálfbjarga án Móse sem hafði fært þeim sigur áður með því að halda uppi höndunum? (2. Mós. 17:8-16) Það kann að vera en hvað sem því leið vildu Ísraelsmenn ekki hlýða Guði. (Post. 7:39-41) Páll hvatti kristna menn til að ‚kosta kapps um að óhlýðnast ekki‘ eins og Ísraelsmenn þegar þeir þorðu ekki að ganga inn í fyrirheitna landið. — Hebr. 4:3, 11.
12. Hvernig lærði Jesús að hlýða og hvernig varð það til góðs?
12 Við þurfum að gera okkar ýtrasta til að hlýða Jehóva ef við viljum sækja fram til þroska. Jesús Kristur er dæmi um að menn læra oft hlýðni með því að þjást. (Lestu Hebreabréfið 5:8, 9.) Jesús var hlýðinn föður sínum áður en hann kom til jarðar. En til að gera vilja föður síns á jörð þurfti hann að þjást bæði andlega og líkamlega. Með því að vera hlýðinn í erfiðustu prófraunum varð hann fullkomlega hæfur til að gegna nýju stöðunni sem Guð ætlaði honum, það er að segja að vera konungur og æðstiprestur.
13. Hvernig sést hvort við höfum lært að hlýða?
13 Hvað um okkur? Erum við staðráðin í að hlýða Jehóva jafnvel þegar við eigum við erfið vandamál að stríða? (Lestu 1. Pétursbréf 1:6, 7.) Jehóva hefur gefið skýrar leiðbeiningar um siðferði, heiðarleika, rétta notkun tungunnar, biblíulestur og biblíunám, samkomusókn og þátttöku í boðunarstarfinu. (Jós. 1:8; Matt. 28:19, 20; Ef. 4:25, 28, 29; 5:3-5; Hebr. 10:24, 25) Hlýðum við Jehóva á þessum sviðum, jafnvel þegar á móti blæs? Ef við erum hlýðin bendir það til þess að við höfum tekið út þroska.
Af hverju er trúarþroski okkur til góðs?
14. Lýstu með dæmi hvernig trúarþroski getur verið til verndar.
14 Í heimi, sem er orðinn ‚tilfinningalaus‘ í siðferðismálum, er það mikil vernd fyrir kristinn mann að hafa þjálfað hugann til að greina gott frá illu. (Ef. 4:19) Tökum sem dæmi bróður að nafni James. Hann las biblíutengd rit að staðaldri og mat þau mikils. Hann réð sig í vinnu þar sem allir samstarfsmennirnir voru konur. „Margar þeirra lögðu greinilega ekki mikið upp úr góðu siðferði,“ segir hann, „en ein þeirra virtist vera sómakær og sýndi áhuga á sannleika Biblíunnar. Við vorum að vinna saman ein þegar hún fór að leita á mig. Ég hélt hún væri að grínast en átti mjög erfitt með að fá hana til að hætta. Þá mundi ég eftir frásögu sem birtist í Varðturninum um bróður sem lenti í svipaðri freistingu á vinnustað. Í greininni var tekið dæmi af Jósef og konu Pótífars.b Ég flýtti mér að ýta stúlkunni frá mér og hún hljóp út.“ (1. Mós. 39:7-12) James var þakklátur fyrir að það gerðist ekkert meira og að honum tókst að varðveita hreina samvisku. — 1. Tím. 1:5.
15. Hvernig styrkjum við hið táknræna hjarta ef við þroskumst í trúnni?
15 Þroski er líka til góðs vegna þess að hann styrkir hið táknræna hjarta og forðar okkur frá því að láta „ýmiss konar framandi kenningar afvegaleiða“ okkur. (Lestu Hebreabréfið 13:9.) Þegar við þroskumst í trúnni einbeitum við huganum að þeim hlutum sem máli skipta. (Fil. 1:9, 10) Við lærum að meta allt sem Jehóva hefur gert okkur til góðs. (Rómv. 3:24) Ef kristinn maður hefur ‚dómgreind sem fullorðinn‘ kann hann að meta allt þetta og á náið samband við Jehóva. — 1. Kor. 14:20.
16. Hvað hjálpaði systur nokkurri að ‚styrkja hjarta sitt‘?
16 Systir, sem heitir Louise, viðurkennir að um tíma eftir að hún skírðist hafi henni aðallega verið umhugað um álit annarra. „Ég gerði ekkert rangt,“ segir hún, „en ég fann ekki beinlínis brennandi löngun í hjarta mér til að þjóna Jehóva. Ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að bæta mig ef ég vildi finna fyrir því að ég gæfi Jehóva allt sem ég gæti. Mesta breytingin fólst í því að gefa mig alla að tilbeiðslunni.“ En það ‚styrkti hjarta hennar‘ og reyndist henni mikils virði þegar hún veiktist alvarlega. (Jak. 5:8) „Þetta var heilmikil barátta en ég eignaðist mjög náið samband við Jehóva,“ segir hún.
‚Verðið af hjarta hlýðin‘
17. Af hverju var sérlega mikilvægt fyrir kristna menn á fyrstu öld að hlýða?
17 Það varð kristnum mönnum í Jerúsalem og Júdeu til bjargar að sækja fram til þroska eins og Páll hvatti til. Þeir sem gerðu það höfðu skýra andlega sjón og ‚flýðu til fjalla‘ þegar þeir sáu merkið sem Jesús hafði sagt þeim að vera vakandi fyrir. Þeir vissu að þeir áttu að flýja þegar þeir sæju „viðurstyggð eyðileggingarinnar . . . standa á helgum stað“ það er að segja hersveitir Rómar sem umkringdu Jerúsalem og byrjuðu að brjóta sér leið inn í hana. (Matt. 24:15, 16) Kristnir menn forðuðu sér frá Jerúsalem áður en hún var lögð í rúst. Að því er fram kemur hjá sagnaritaranum Evsebíusi settust þeir að í bænum Pella í fjallahéraðinu Gíleað. Þannig tókst þeim að umflýja mestu hörmungar sem gengið hafa yfir Jerúsalem á sögulegum tíma.
18, 19. (a) Af hverju er mjög mikilvægt nú á tímum að vera hlýðin? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?
18 Það verður ekki síður til bjargar að sýna trúarþroska og vera hlýðin þegar spádómur Jesú hlýtur meiri uppfyllingu og „sú mikla þrenging“, sem á sér enga hliðstæðu í sögunni, skellur á. (Matt. 24:21) Ætlum við að hlýða áríðandi leiðbeiningum sem við eigum ef til vill eftir að fá frá hinum ‚trúa ráðsmanni‘? (Lúk. 12:42) Það er afar mikilvægt að læra að vera „af hjarta hlýðin“. — Rómv. 6:17.
19 Við þurfum að aga hugann til að þroskast í trúnni. Við gerum það með því að leggja okkur fram um að kynnast orði Guðs vel og læra hlýðni. En það fylgja því sérstakar áskoranir fyrir kristna unglinga að þroskast í trúnni. Í greininni á eftir fjöllum við um hvernig hægt sé að bregðast við þessum áskorunum.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum er breytt.
b Sjá greinina „Fortified to Say No to Wrongdoing“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. október 1999.
Hvað lærðir þú?
• Hvað er trúarþroski og hvernig sækjum við fram til þroska?
• Af hverju þurfum við að vera vel heima í orði Guðs til að þroskast í trúnni?
• Hvernig lærum við að hlýða?
• Á hvaða hátt er það okkur til góðs að vera þroskuð í trúnni?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Ráðleggingar Biblíunnar hjálpa okkur að sýna þroska þegar við tökumst á við vandamál.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Það varð frumkristnum mönnum til bjargar að fylgja leiðbeiningum Jesú.