Hjálpaðu bræðrum að sækjast eftir ábyrgðarstörfum
„Hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans.“ – LÚK. 6:40.
1. Hvernig lagði Jesús grunninn að sterkum söfnuði meðan hann þjónaði hér á jörð?
JÓHANNES postuli lauk guðspjalli sínu með þessum orðum: „Margt er það annað sem Jesús gerði og yrði það hvað eina upp skrifað ætla ég að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur sem þá yrðu ritaðar.“ (Jóh. 21:25) Jesús lagði hart að sér á þeim stutta tíma sem hann þjónaði hér á jörð. Hann þurfti að finna karlmenn sem hann gæti þjálfað svo að þeir gætu haldið starfi hans áfram eftir að jarðvist hans væri lokið. Þegar hann sneri aftur til himna árið 33 var hann búinn að safna saman litlum hópi manna en á skömmum tíma varð þessi litli hópur að fjölmennum söfnuði. – Post. 2:41, 42; 4:4; 6:7.
2, 3. (a) Af hverju er brýnt að skírðir karlar sækist eftir ábyrgðarstörfum í söfnuðinum? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?
2 Nú eru boðberar fagnaðarerindisins orðnir meira en sjö milljónir talsins og þeir starfa í rösklega 100.000 söfnuðum um heim allan. Það vantar því enn karlmenn til að fara með forystuna í safnaðarstarfinu. Það er mikil þörf fyrir fleiri safnaðaröldunga. Bræður, sem sækjast eftir slíku ábyrgðarstarfi, eiga hrós skilið því að það er „göfugt hlutverk“. – 1. Tím. 3:1.
3 Menn verða hins vegar ekki sjálfkrafa hæfir til að gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Hæfnin til að fara með forystu fer ekki eftir menntun eða lífsreynslu. Til að gegna slíku hlutverki er nauðsynlegt að uppfylla þær hæfniskröfur sem settar eru fram í Biblíunni. Mestu máli skiptir að hafa náð þroska í trúnni. Hvernig er hægt að hjálpa körlum í söfnuðinum að verða hæfir til starfa? „Hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans,“ sagði Jesús. (Lúk. 6:40) Í þessari grein skoðum við hvernig Jesús bjó lærisveinana undir það að axla meiri ábyrgð og við könnum hvaða lærdóm sé hægt að draga af því.
„Ég kalla yður vini“
4. Hvernig reyndist Jesús sannur vinur lærisveinanna?
4 Jesús þóttist ekki vera yfir lærisveinana hafinn heldur leit á þá sem vini sína. Hann blandaði geði við þá, treysti þeim og sagði þeim frá því sem hann hafði heyrt frá föður sínum. (Lestu Jóhannes 15:15.) Við getum rétt ímyndað okkur hvernig þeim hefur verið innanbrjósts að fá svar við spurningunni: „Hvernig sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matt. 24:3, 4) Jesús sagði fylgjendum sínum einnig hvað hann var að hugsa og hvernig honum leið. Nóttina sem hann var svikinn tók hann þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér í Getsemanegarðinn þar sem hann úthellti hjarta sínu í bæn á þessari erfiðu stund. Óvíst er að postularnir þrír hafi heyrt hvað Jesús sagði í bæninni en þeir hljóta að hafa skynjað hve þjáður hann var. (Mark. 14:33-38) Öðru sinni hafði hann ummyndast að þeim ásjáandi, og það hafði djúpstæð áhrif á þá. (Mark. 9:2-8; 2. Pét. 1:16-18) Náin vinátta Jesú og lærisveinanna var þeim styrkur og stoð til að rísa undir þeim mikilvægu verkefnum sem þeim voru falin síðar.
5. Hvernig geta safnaðaröldungar verið öðrum til aðstoðar?
5 Safnaðaröldungar líkja eftir Jesú með því að vingast við trúsystkini sín og aðstoða þau. Þeim þykir vænt um aðra í söfnuðinum og sýna þeim einlægan áhuga. Þeir eru opinskáir við trúsystkini sín en hafa þó hugfast að sum mál eru trúnaðarmál. Þeir treysta bræðrum sínum og ræða fúslega við þá um þau biblíusannindi sem þeir hafa lært. Öldungar ættu aldrei að líta niður á unga safnaðarþjóna heldur hafa hugfast að þeir eru andlegir menn sem inna af hendi verðmæta þjónustu í þágu safnaðarins. Þeir vita að þessir ungu menn geta haldið áfram að taka framförum í sannleikanum.
„Ég hef gefið yður eftirdæmi“
6, 7. Hvernig fyrirmynd var Jesús lærisveinunum og hvaða áhrif hafði það á þá?
6 Þótt lærisveinum Jesú þætti vænt um orð Guðs mótaðist hugsunarháttur þeirra að mörgu leyti af uppruna þeirra og menningu. (Matt. 19:9, 10; Lúk. 9:46-48; Jóh. 4:27) En Jesús las ekki yfir þeim né hafði í hótunum við þá. Hann gerði ekki ósanngjarnar kröfur til þeirra og aldrei bað hann þá að gera eitt en gerði annað sjálfur. Hann kenndi þeim öllu heldur með því að vera góð fyrirmynd. – Lestu Jóhannes 13:15.
7 Hvers konar fyrirmynd var Jesús lærisveinum sínum? (1. Pét. 2:21) Hann lifði einföldu lífi til að geta þjónað öðrum sem best. (Lúk. 9:58) Hann var hógvær og byggði kenningar sínar alltaf á orði Guðs. (Jóh. 5:19; 17:14, 17) Hann var vingjarnlegur og fólki fannst gott að tala við hann. Allt sem hann gerði var sprottið af kærleika til fólks. (Matt. 19:13-15; Jóh. 15:12) Jesús hafði góð áhrif á postulana með fordæmi sínu. Það var meðal annars þess vegna sem Jakob var fær um að horfast hugrakkur í augu við dauðann eftir að hafa þjónað Guði dyggilega um árabil. (Post. 12:1, 2) Jóhannes fetaði dyggilega í fótspor Jesú í meira en 60 ár. – Opinb. 1:1, 2, 9.
8. Hvernig geta öldungar verið yngri mönnum og öðrum góð fyrirmynd?
8 Með því að vera fórnfúsir, auðmjúkir og kærleiksríkir geta öldungar verið yngri mönnum góð fyrirmynd. (1. Pét. 5:2, 3) Öldungar, sem eru til fyrirmyndar í trú sinni, kennslu, kristnu líferni og boðunarstarfi, fagna því að aðrir skuli geta líkt eftir trú þeirra. – Hebr. 13:7.
,Jesús gaf þeim fyrirmæli og sendi þá út‘
9. Hvaða dæmi sýna að Jesús kenndi lærisveinunum að boða fagnaðarerindið?
9 Eftir að Jesús hafði boðað fagnaðarerindið í tvö ár færði hann út kvíarnar og sendi postulana 12 út að prédika. En fyrst gaf hann þeim skýr fyrirmæli. (Matt. 10:5-14) Áður en Jesús vann það kraftaverk að metta þúsundir manna sagði hann lærisveinunum hvernig þeir ættu að raða fólkinu niður og dreifa matnum. (Lúk. 9:12-17) Greinilegt er að Jesús kenndi lærisveinunum með því að gefa þeim skýr og nákvæm fyrirmæli. Þessi kennsla ásamt hjálp heilags anda varð til þess að postularnir voru færir um að skipuleggja hið umfangsmikla boðunarstarf sem hófst árið 33.
10, 11. Hvernig geta öldungar og fleiri kennt karlmönnum jafnt og þétt?
10 Nú á dögum hefst slík kennsla þegar karlmaður þiggur biblíunámskeið. Vera má að við þurfum að þjálfa hann í lestri, og við hjálpum honum á ýmsa aðra vegu jafnhliða biblíunáminu. Þegar hann byrjar að sækja safnaðarsamkomur lærir hann hvað hann þarf að gera til að taka þátt í Boðunarskólanum og verða óskírður boðberi. Kennslan heldur áfram eftir að hann lætur skírast. Bræðurnir geta kennt honum ýmislegt varðandi ræstingu og viðhald ríkissalarins. Með tímanum er hægt að sýna honum fram á hvað hann þurfi að gera til að verða safnaðarþjónn.
11 Þegar öldungarnir fela skírðum bróður verkefni í söfnuðinum skýra þeir fúslega fyrir honum þær vinnureglur sem eiga við og gefa honum aðrar nauðsynlegar leiðbeiningar. Bróðirinn þarf að skilja til hvers er ætlast af honum. Ef verkefnið reynist honum erfitt álykta öldungarnir ekki sem svo að hann sé ófær um að vinna verkið. Þeir benda honum vinsamlega á hvað betur megi fara og rifja upp með honum markmið og aðferðir. Öldungarnir eru meira en fúsir til að aðstoða bróður við að gera verkefnum sínum góð skil því að þeir vita að hann uppsker gleði þegar hann þjónar öðrum. – Post. 20:35.
„Vitur maður þiggur ráð“
12. Af hverju skiluðu leiðbeiningar Jesú góðum árangri?
12 Jesús kenndi lærisveinunum með því að leiðbeina þeim eftir þörfum hvers og eins. Hann ávítaði Jakob og Jóhannes þegar þeir vildu að eldur félli af himni yfir þorp í Samaríu þar sem þeim var neitað um gistingu. (Lúk. 9:52-55) Þegar móðir Jakobs og Jóhannesar kom til Jesú fyrir þeirra hönd og bað um að þeir fengju virðingarstöður í ríki hans ávarpaði hann bræðurna beint og sagði: „Ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur ákveðið.“ (Matt. 20:20-23) Leiðbeiningar Jesú voru alltaf skýrar, raunhæfar og byggðar á meginreglum Guðs, og hann kenndi lærisveinunum að draga ályktanir af þeim. (Matt. 17:24-27) Jesús hafði líka hugfast að lærisveinarnir voru ekki fullkomnir og höfðu sín takmörk. Honum þótti ákaflega vænt um þá og leiðbeiningar hans vitna um það. – Jóh. 13:1.
13, 14. (a) Hverjir þurfa að fá leiðbeiningar? (b) Nefndu dæmi um leiðbeiningar sem hægt væri að veita bróður sem tekur ekki framförum.
13 Allir bræður, sem vilja vera til þjónustu í söfnuðinum, þurfa einhvern tíma að fá biblíulegar leiðbeiningar eða góð ráð. „Vitur maður þiggur ráð,“ segir í Orðskviðunum 12:15. Ungur bróðir segir að honum hafi ekki fundist hann vera hæfur til að vera með þjónustuverkefni í söfnuðinum. Hann bætir við að öldungur hafi sýnt honum fram á að hann þyrfti ekki að vera fullkominn til að gera það.
14 Ef öldungar uppgötva að eitthvað í fari bróður hamlar honum að taka framförum reyna þeir að leiðrétta hann með hógværð. (Gal. 6:1) Stundum eru það persónueinkenni bræðra sem kalla á að þeir fái leiðbeiningar. Ef bróðir virðist svolítið sérhlífinn, svo dæmi sé tekið, gæti öldungur bent honum á að Jesús hafi boðað fagnaðarerindið af miklum krafti og hafi falið fylgjendum sínum það verkefni að gera aðra að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20; Lúk. 8:1) Ef bróðir virðist vera metnaðargjarn gæti öldungur sýnt honum fram á hvernig Jesús varaði lærisveinana við framagirni. (Lúk. 22:24-27) Eða segjum sem svo að bróðir eigi erfitt með að fyrirgefa. Þá gæti verið áhrifaríkt að ræða við hann dæmisöguna um þjóninn sem vildi ekki gefa eftir lága skuld þótt honum hefði sjálfum verið gefin upp mun hærri skuld. (Matt. 18:21-35) Þegar öldungar þurfa að gefa leiðbeiningar er gott að gera það eins fljótt og auðið er. – Lestu Orðskviðina 27:9.
,Æfðu sjálfan þig‘
15. Hvernig getur fjölskyldan hjálpað bróður að þjóna söfnuðinum?
15 Öldungarnir reyna öðrum fremur að leiðbeina bræðrum og hvetja þá til að taka að sér ábyrgðarstörf í söfnuðinum. En aðrir geta líka orðið að liði. Fjölskylda bróðurins getur til dæmis stutt viðleitni hans og ætti að gera það. Og sé hann orðinn öldungur er verðmætt að eiginkona hans og börn styðji hann í starfi. Þau vita að hann þarf að nota tíma sinn og krafta að hluta til í þágu safnaðarins, og það gleður hann að þau skuli vera óeigingjörn og skilningsrík. Fórnfýsi þeirra er mikils metin. – Orðskv. 15:20; 31:10, 23.
16. (a) Á hverjum hvílir fyrst og fremst sú ábyrgð að taka framförum? (b) Hvað þarf bróðir að gera ef hann langar til að verða safnaðarþjónn eða öldungur?
16 En þótt aðrir geti hjálpað bróður að taka framförum og stutt við bakið á honum hvílir ábyrgðin að mestu leyti á honum sjálfum. (Lestu Galatabréfið 6:5.) Bróðir þarf auðvitað ekki að vera safnaðarþjónn eða öldungur til að styðja aðra og gera sitt besta í boðunarstarfinu. En ef bróðir sækist eftir því að verða safnaðarþjónn eða öldungur þarf hann að leggja sig fram um að uppfylla þær hæfniskröfur sem eru settar fram í Biblíunni. (1. Tím. 3:1-13; Tít. 1:5-9; 1. Pét. 5:1-3) Ef bróður langar til að þjóna söfnuðinum með þeim hætti en hann hefur ekki verið útnefndur ætti hann að íhuga hvað hann þurfi að gera til að uppfylla hæfniskröfurnar. Hvað getur hann gert? Hann þarf að lesa reglulega í Biblíunni, vera iðinn við sjálfsnám, hugleiða biblíuleg mál, vera bænrækinn og taka góðan þátt í boðunarstarfinu. Þá æfir hann sig í guðrækni eins og Páll ráðlagði Tímóteusi að gera. – 1. Tím. 4:7.
17, 18. Hvað getur bróðir gert ef honum finnst hann engan veginn hæfur til að fara með ábyrgðarstarf í söfnuðinum eða skortir löngun til þess?
17 En segjum sem svo að bróður finnist hann engan veginn hæfur til að fara með ábyrgðarstarf í söfnuðinum. Þá ætti hann að minna sig á hve mikið Jehóva Guð og Jesús Kristur gera fyrir okkur. Jehóva „ber byrðar vorar dag eftir dag“. (Sálm. 68:20) Faðirinn á himnum getur því hjálpað bróður að taka að sér ábyrgðarstarf í söfnuðinum. Það er líka gott fyrir bróður, sem er hvorki öldungur né safnaðarþjónn, að hafa hugfast að það er mikil þörf fyrir þroskaða karlmenn sem geta tekið að sér ábyrgðarstörf í söfnuðinum. Hann getur beðið um heilagan anda, minnugur þess að ávöxtur hans er meðal annars friður og sjálfsagi. Það getur auðveldað honum að sigrast á neikvæðum hugsunum. (Lúk. 11:13; Gal. 5:22, 23) Við getum treyst að Jehóva blessi alla sem sækjast eftir því að þjóna trúsystkinum sínum af réttu tilefni.
18 Getur verið að skírðan bróður langi hreinlega ekki til að gegna ábyrgðarstarfi? Hvað gæti breytt hugarfari hans? Páll postuli skrifaði: „Það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“ (Fil. 2:13) Það er andi Guðs sem vekur löngun með okkur til að þjóna söfnuðinum og gefur okkur kraft til þess. (Fil. 4:13) Kristinn maður getur auk þess beðið Guð um styrk til að gera það sem rétt er. – Sálm. 25:4, 5.
19. Hvað merkir það að Jehóva skuli vekja upp ,sjö hirða og átta smurða leiðtoga‘?
19 Jehóva blessar öldunga þegar þeir kenna og leiðbeina öðrum. Hann blessar líka þá sem þiggja kennsluna og langar til að þjóna öðrum í söfnuðinum. Í Biblíunni kemur fram að við getum treyst að nógu margir bræður verði tiltækir til að fara með forystu í söfnuði Jehóva. Þar er talað um að hann veki upp ,sjö hirða og átta smurða leiðtoga‘. (Míka 5:4) Margir bræður sækjast með hógværð eftir því að gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum og fá kennslu til þess. Það er Jehóva til lofs og okkur til blessunar.
Hvert er svarið?
• Hvernig bjó Jesús lærisveinana undir að axla meiri ábyrgð?
• Hvernig geta öldungar líkt eftir Jesú og hjálpað bræðrum í söfnuðinum að taka framförum?
• Hvernig getur fjölskylda bróður hjálpað honum að þjóna söfnuðinum?
• Hvað getur bróðir gert til að sækjast eftir ábyrgðarstarfi í söfnuðinum?
[Mynd á bls. 31]
Hvaða þjálfun geturðu veitt biblíunemanda sem vill taka góðum framförum?
[Mynd á bls. 32]
Hvernig getur bróðir sýnt að hann vilji taka að sér ábyrgðarstarf?