„Útlendingar“ sameinaðir í sannri guðsdýrkun
„Útlendingar vinna á ökrum yðar og í víngörðum en þér verðið nefndir prestar Drottins.“ – JES. 61:5, 6.
1. Hvernig líta sumir á útlendinga en af hverju er ekki rétt að gera það?
Í GREININNI á undan var bent á að fólk notar oft orðið „útlendingur“ í niðrandi merkingu og tala jafnvel með fyrirlitningu um fólk af öðru þjóðerni. En það er hreinn dónaskapur að líta niður á fólk sem er annarrar þjóðar en við. Auk þess vitnar það um að við lokum augunum fyrir staðreyndum. Í bæklingi, sem nefnist The Races of Mankind, segir: „Fólk af öllum kynþáttum er bræður, rétt eins og segir í Biblíunni.“ Bræður geta verið harla ólíkir en þeir eru engu að síður bræður.
2, 3. Hvernig leit Jehóva á útlendinga sem bjuggu í Ísrael til forna?
2 Hvar sem við búum á hnettinum eru útlendingar á meðal okkar. Þannig var það líka í Ísrael til forna en Ísraelsmenn áttu sérstakt samband við Jehóva Guð vegna lagasáttmálans. Réttindi útlendinga í Ísrael voru takmörkuð að sumu leyti en Ísraelsmenn áttu engu að síður að sýna þeim virðingu og sanngirni. Við ættum að líkja eftir þeim því að hlutdrægni og fordómar eiga ekki heima meðal sannkristinna manna. Hvers vegna? Pétur postuli svarar því og segir: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ – Post. 10:34, 35.
3 Útlendingar, sem bjuggu í Ísrael til forna, nutu góðs af því á ýmsa vegu að umgangast heimamenn. Það endurspeglaði afstöðu Jehóva til mannanna eins og Páll postuli lýsti löngu síðar. Hann skrifaði: „Er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja.“ – Rómv. 3:29, 30; Jóel 3:5.
4. Hvernig er hægt að segja að það séu engir útlendingar í „Ísrael Guðs“?
4 Með tilkomu nýja sáttmálans missti Ísraelsþjóðin hið sérstaka samband sem hún hafði átt við Jehóva. Söfnuður andasmurðra kristinna manna kom í stað hennar og er þess vegna kallaður „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) Í þessari nýju þjóð er „hvorki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll né frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum“, eins og Páll bendir á. (Kól. 3:11) Í þeim skilningi yrði enginn talinn útlendingur í kristna söfnuðinum.
5, 6. (a) Hvaða spurning gæti vaknað varðandi Jesaja 61:5, 6? (b) Hverjir eru „prestar Drottins“ og,útlendingarnir‘ sem Jesaja talar um? (c) Hvað eiga báðir hóparnir sameiginlegt?
5 Sumum er ef til vill spurn við hvað sé átt í 61. kafla Jesajabókar en þar er spádómur sem rætist innan kristna safnaðarins. Í sjötta versi kaflans er talað um ,presta‘ Jehóva en í því fimmta er minnst á,útlendinga‘ sem eiga að styðja þessa presta og vinna með þeim. Hvernig ber að skilja þessi vers?
6 Þessir „prestar Drottins“ eru andasmurðir kristnir menn sem „eiga hlut í fyrri upprisunni“. Þeir verða „prestar Guðs og Krists og ríkja með honum um þúsund ár“. (Opinb. 20:6) Auk þeirra er fjöldi trúfastra kristinna manna sem eiga þá von að búa í paradís á jörð. Þeir eru að vissu leyti eins og útlendingar þótt þeir starfi náið með þeim sem eiga að fara til himna. Þeir styðja ,presta Drottins‘ dyggilega með því að „vinna á ökrum [þeirra] og í víngörðum“ ef svo má að orði komast. Þeir hjálpa hinum andasmurðu að bera ávöxt Guði til heiðurs með því að leita uppi hjartahreint fólk sem langar til að þjóna Guði að eilífu. Bæði andasmurðir og ,aðrir sauðir‘ kenna þessu fólki og hjálpa því að gera vilja Guðs, rétt eins og fjárhirðir gætir hjarðarinnar. – Jóh. 10:16.
„ÚTLENDINGAR“ EINS OG ABRAHAM
7. Að hvaða leyti líkjast kristnir menn nú á tímum Abraham og öðrum trúum þjónum Guðs á biblíutímanum?
7 Í greininni á undan kom fram að sannkristnir menn séu eins og gestir og útlendingar í illum heimi Satans. Að því leyti líkjast þeir Abraham og öðrum trúum þjónum Guðs til forna en um þá er sagt að þeir hafi verið „gestir og útlendingar á jörðinni“. (Hebr. 11:13) Hvort sem við eigum þá von að búa á himni eða jörð getum við átt sams konar samband við Jehóva og Abraham átti. Jakob skrifar: „,Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað,‘ og hann var kallaður vinur Guðs.“ – Jak. 2:23.
8. Hvaða loforð fékk Abraham og hverju treysti hann?
8 Guð hét því að allar þjóðir heims, ekki bara ein, myndu hljóta blessun fyrir atbeina Abrahams og afkomenda hans. (Lestu 1. Mósebók 22:15-18.) Abraham treysti alla tíð að Jehóva myndi uppfylla loforð sitt enda þótt hann vissi að það myndi ekki gerast fyrr en löngu eftir hans dag. Meira en hálfa ævina var Abraham hirðingi og fluttist stað úr stað með fjölskyldu sína. Vinátta hans við Jehóva hélst til æviloka.
9, 10. (a) Hvernig getum við líkt eftir Abraham? (b) Hvað getum við boðið fólki um allan heim?
9 Hollusta Abrahams var alltaf jafn sterk þótt hann vissi ekki hve lengi hann þyrfti að bíða þess að sjá vonina rætast, og hið sama er að segja um kærleika hans. Hann settist ekki að á ákveðnum stað né kom sér vel fyrir vegna þess að hann hafði hugfast að hann var gestur og útlendingur í landinu. (Hebr. 11:14, 15) Það er viturlegt af okkur að líkja eftir Abraham og lifa einföldu lífi en vera ekki upptekin af að eignast sem mest, klífa þjóðfélagsstigann eða komast áfram í atvinnulífinu. Er nokkur ástæða til að lifa svokölluðu eðlilegu lífi í heimi sem er í þann mund að líða undir lok? Er skynsamlegt að binda sig við hluti sem eru bara stundlegir? Við eigum, eins og Abraham, eitthvað miklu betra í vændum en það sem þessi heimur hefur upp á að bjóða. Og við erum tilbúin til að bíða þolinmóð uns vonin verður að veruleika. – Lestu Rómverjabréfið 8:25.
10 Jehóva býður enn þá fólki af öllum þjóðum að hljóta blessun fyrir atbeina Abrahams og afkomenda hans. Og hinir andasmurðu „prestar“ Jehóva, ásamt,útlendingunum‘ af hópi annarra sauða, láta þetta boð ganga út til fólks um allan heim á meira en 600 tungumálum.
ELSKUM AÐRA ÓHÁÐ LANDAMÆRUM
11. Hvað bauð Salómon fólki af öðrum þjóðum?
11 Þegar musterið var vígt árið 1026 f.Kr. nefndi Salómon að fólk af öllum þjóðum myndi lofa Jehóva. Það var í fullu samræmi við loforðið sem Jehóva gaf Abraham. Salómon sagði í innilegri bæn: „Þegar útlendingur, sem ekki er af lýð þínum, Ísrael, kemur frá fjarlægu landi vegna nafns þíns af því að frést hefur um þitt mikla nafn, sterka hönd þína og útréttan arm, þegar hann kemur og biður og snýr sér í átt til þessa húss, heyr þá í himninum þar sem þú býrð. Gerðu allt sem útlendingurinn biður þig um til þess að allar þjóðir jarðar játi nafn þitt. Þá munu þær sýna þér lotningu eins og lýður þinn, Ísrael.“ – 1. Kon. 8:41-43.
12. Hvers vegna eru vottar Jehóva eins og útlendingar í þeim löndum þar sem þeir búa?
12 Útlendingur er manneskja sem er stödd eða búsett í öðru landi en föðurlandi sínu. Þessi lýsing á vel við um votta Jehóva. Þeir styðja enga stjórn nema ríki Guðs á himnum þar sem Kristur er konungur. Þeir eru því algerlega hlutlausir í stjórnmálum, jafnvel þótt mörgum þyki það undarleg afstaða í nútímasamfélagi.
13. (a) Af hverju má segja að það byggist að miklu leyti á afstöðu okkar hvort við lítum á fólk sem útlendinga? (b) Hvernig vildi Jehóva upphaflega að fólk liti hvert á annað? Skýrðu svarið.
13 Oft má þekkja ákveðna hópa útlendinga af sameiginlegum einkennum þeirra. Það getur verið tungumálið sem þeir tala, siðvenjur þeirra, útlitseinkenni eða jafnvel klæðnaður. Það sem er öllum mönnum sameiginlegt, óháð þjóðerni, vegur þó miklu þyngra en þessi einkenni. Útlendingur er því í rauninni manneskja sem er álitin útlendingur af því að hún er ólík öðrum að einhverju leyti. Þegar við hættum að horfa á þennan mun, hvort sem hann er raunverulegur eða ímyndaður, glatar orðið útlendingur merkingu sinni að miklu leyti. Ef allir jarðarbúar væru þegnar einu og sömu stjórnarinnar væri enginn þeirra útlendingur í pólitískum skilningi. Og það var ætlun Jehóva í upphafi að allir menn væru sameinaðir sem ein fjölskylda undir einni stjórn – hans eigin stjórn. Getur fólk af öllum þjóðum heims sameinast á þann hátt og hætt að líta á hvert annað sem útlendinga?
14, 15. Hvað hefur vottum Jehóva sem hópi tekist?
14 Í allri eigingirni og þjóðernishyggju heimsins er ánægjulegt að það skuli vera til fólk sem stendur á sama um landamæri og þjóðerni. Það er ekki þar með sagt að það sé auðvelt að sigrast á fordómum. Ted Turner, stofnandi sjónvarpsstöðvarinnar CNN, hefur unnið með hæfileikafólki af ýmsum þjóðernum. Hann segir: „Það var ólýsanleg reynsla að hitta þetta fólk. Ég fór að líta á fólk frá öðrum löndum sem samþegna jarðríkis og hætti að horfa á það sem,útlendinga‘. Orðið,útlendur‘ tók á sig niðrandi merkingu í huga mér og ég setti þá reglu hjá CNN að hvorki mætti nota það í útsendingu né samræðum á skrifstofunni. Í staðinn ætti að nota orðið ,alþjóðlegur‘.“
15 Vottar Jehóva eru eini hópur manna í heiminum sem hefur tileinkað sér sjónarmið Guðs. Þeir hafa lært að sjá fólk sömu augum og Jehóva og hugsa jákvætt um fólk af öðrum þjóðernum. Þeim hefur tekist að losa sig við vantraust, tortryggni og jafnvel andúð á útlendingum og lært að meta þá fegurð sem felst í fjölbreyttum eiginleikum og mannkostum fólks af öðrum þjóðernum. Hefurðu velt fyrir þér hvílíkt afrek þetta er og hvaða áhrif það hefur haft á samskipti þín við aðra?
HEIMUR ÁN ÚTLENDINGA
16, 17. Hvaða þýðingu getur það haft fyrir þig að sjá Opinberunarbókina 16:16 og Daníel 2:44 rætast?
16 Innan skamms þurfa allar þjóðir heims að heyja lokastríð við Jesú Krist og himneskar hersveitir hans, stríðið „sem á hebresku kallast Harmagedón“. (Opinb. 16:14, 16; 19:11-16) Fyrir meira en 2.500 árum var Daníel spámanni innblásið að segja fyrir hvernig færi fyrir öllum ríkjum manna sem eru andsnúin fyrirætlun Jehóva. Hann skrifaði: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“ – Dan. 2:44.
17 Geturðu ímyndað þér hvað það þýðir fyrir þig að sjá þessa spádóma rætast? Sem stendur er að vissu leyti hægt að líta á alla jarðarbúa sem útlendinga vegna þess að menn hafa skipt þeim niður í þjóðir og sett landamæri. Öll þessi landamæri hverfa og ólík útlitseinkenni verða þá aðeins til að minna á þá unaðslegu fjölbreytni sem er að finna í sköpunarverki Guðs. Þessi spennandi framtíðarsýn ætti að vera okkur öllum hvatning til að halda áfram að lofa og heiðra skaparann, Jehóva Guð, af fremsta megni.
Hlakkarðu til þess dags þegar landamæri verða liðin tíð og hugtakið „útlendingur“ sömuleiðis?
18. Hvaða breytingar hafa átt sér stað að undanförnu sem sýnir að vottar Jehóva líta ekki hver á annan sem útlendinga?
18 Er óraunhæft að ímynda sér að þessi mikla breyting geti orðið og fólk hætti að hugsa um aðra sem útlendinga? Alls ekki. Það er full ástæða til að ætla að þetta gerist. Hugtakið „útlendingur“ hefur nú þegar glatað merkingu sinni að miklu leyti meðal votta Jehóva því að þeir hugsa ekki mikið um þjóðerni safnaðarmanna. Að undanförnu hafa sumar af smærri deildarskrifstofunum verið sameinaðar til að einfalda umsjónina og gera boðun fagnaðarerindisins um ríkið skilvirkari. (Matt. 24:14) Að svo miklu leyti sem lög leyfðu var slíkur samruni gerður óháð landamærum. Þetta er enn eitt merki þess að Jesús Kristur, sem er konungur Guðsríkis, sé að ryðja úr vegi landamærum þjóða í milli og að hann vinni bráðlega fullnaðarsigur. – Opinb. 6:2.
19. Hvaða áhrif hefur hið hreina tungumál sannleikans haft?
19 Vottar Jehóva eru af alls konar þjóðernum og tala því ólík tungumál. En þar sem þeir leggja sig fram um að tala einnig hið hreina tungumál sannleikans skapar það órjúfanlega einingu meðal þeirra. (Lestu Sefanía 3:9.) Þeir eru alþjóðleg fjölskylda sem tilheyrir ekki þessum illa heimi þótt hún þurfi að búa í honum. Þessi sameinaða fjölskylda er forsmekkur þess sem koma skal – heims þar sem enginn verður útlendingur. Þá munu allir viðurkenna fúslega það sem segir í ritinu sem nefnt er í byrjun greinarinnar: „Fólk af öllum kynþáttum er bræður, rétt eins og segir í Biblíunni.“ – The Races of Mankind.