FORSÍÐUEFNI | HVER ER BESTA GJÖFIN?
Hver er besta gjöfin?
„Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna.“ (Jakobsbréfið 1:17) Þetta biblíuvers vísar til örlætis Jehóva Guðs, föður okkar á himnum. En af öllum gjöfum, sem Guð hefur gefið mannkyninu, er ein langtum fremri öðrum. Hvaða gjöf er það? Vel þekkt orð Jesú í Jóhannesi 3:16 svara því. Þar segir: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“
Guð gaf einkason sinn – mestu gjöf sem við getum nokkurn tíma fengið – svo að við gætum losnað úr fjötrum syndar, elli og dauða. (Sálmur 51:7; Jóhannes 8:34) Við getum ekki losnað úr þessum fjötrum upp á eigin spýtur hvernig sem við reynum. En vegna kærleika síns gerði Guð ráðstafanir til að leysa okkur úr þeim. Með því að gefa einkason sinn, Jesú Krist, sem lausnargjald gerði Jehóva Guð hlýðnum mönnum kleift að eiga von um eilíft líf. En hvað er lausnargjaldið? Hvers vegna er það nauðsynlegt? Og hvernig gagnast það okkur?
Lausnargjald er gjald sem greitt er til að kaupa eitthvað til baka sem hefur glatast eða til að leysa úr ánauð. Í Biblíunni segir að Adam og Eva, fyrstu foreldrarnir, hafi verið sköpuð syndlaus og að þau hafi átt fyrir sér að lifa að eilífu í paradís á jörð ásamt afkomendum sínum. (1. Mósebók 1:26-28) Því miður glötuðu þau þessum framtíðarhorfum vegna þess að þau óhlýðnuðust Guði af ásettu ráði og urðu þannig syndug. Hverjar voru afleiðingarnar? Í Biblíunni segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómverjabréfið 5:12) Í stað þess að gefa afkomendum sínum fullkomið líf í vöggugjöf leiddi Adam synd yfir þá og afleiðingar hennar, dauða.
Þegar lausnargjald er greitt þarf upphæðin að jafngilda því sem glataðist. Adam syndgaði þegar hann óhlýðnaðist Guði vísvitandi. Þannig glataðist fullkomið mannslíf – líf Adams. Í Biblíunni segir að þá hafi afkomendur hans verið hnepptir í ánauð syndar og dauða. Þess vegna þurfti að fórna öðru fullkomnu mannslífi – lífi Jesú – til að hægt væri að leysa mannkynið úr ánauðinni. (Rómverjabréfið 5:19; Efesusbréfið 1:7) Guð greiddi lausnargjaldið vegna kærleika síns til mannanna og þess vegna eigum við möguleika á að njóta þess sem Adam og Eva glötuðu – eilífu lífi í paradís á jörð. – Opinberunarbókin 21:3-5.
Þegar við hugleiðum hverju gjöf Guðs kemur til leiðar er enginn vafi á að lausnarfórnin er mesta gjöf sem hugsast getur því að hún gefur okkur möguleika á eilífu lífi. Til að meta þessa fullkomnu gjöf að verðleikum skulum við skoða hvernig hún uppfyllir öll þau atriði sem gera gjafir verðmætar eins og rætt var um í greininni á undan.
Uppfyllir ósk okkar. Menn hafa sterka meðfædda löngun til að lifa. (Prédikarinn 3:11) Þó að við séum sjálf ófær um að uppfylla þá ósk að lifa að eilífu gerir lausnarfórnin okkur það kleift. Í Biblíunni segir: „Því að laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ – Rómverjabréfið 6:23.
Fullnægir þörf okkar. Mennirnir geta ekki greitt lausnargjaldið. Biblían segir: „Lausnargjaldið fyrir líf hans [mannsins] væri of hátt, ekkert mundi nokkru sinni nægja.“ (Sálmur 49:9) Við þurfum því sárlega á hjálp Guðs að halda til að geta losnað úr ánauð syndar og dauða. Og „með endurlausn sinni í Kristi Jesú“ fullnægði Guð þeirri þörf. – Rómverjabréfið 3:23, 24.
Tímasetningin var fullkomin. Í Biblíunni segir: „Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómverjabréfið 5:8) Þar sem lausnargjaldið var greitt „þegar við vorum enn syndarar“ getum við verið fullviss um að Guð elskar okkur heitt þrátt fyrir að við séum syndug og ófullkomin. Enn sem komið er þurfum við að þola afleiðingar syndarinnar en vegna lausnargjaldsins getum við hlakkað til framtíðarinnar.
Ber merki um göfuga og óeigingjarna hvöt. Í Biblíunni er bent á hvers vegna Guð gaf son sinn sem lausnarfórn fyrir okkur: „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur.“ – 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.
Hvernig geturðu sýnt að þú kunnir að meta þessa stórkostlegu gjöf? Í Jóhannesi 3:16 segir Jesús að aðeins þeir sem ,trúa á hann‘ muni bjargast. Biblían útskýrir að trúin sé „fullvissa um það sem menn vona“. (Hebreabréfið 11:1) Til að öðlast slíka fullvissu er nauðsynlegt að afla sér nákvæmrar þekkingar. Við hvetjum þig þess vegna til að taka þér tíma til að kynnast Jehóva Guði sem hefur gefið þér þessa fullkomnu gjöf og læra um hvað þú þarft að gera til að öðlast eilífa lífið sem lausnarfórn Jesú gerir mögulegt.
Þú getur aflað þér frekari upplýsinga um þetta efni á vefsíðunni www.jw.org/is. Vottar Jehóva aðstoða þig fúslega. Við erum sannfærð um að þegar þú aflar þér meiri þekkingar á þessari mestu gjöf sem hugsast getur og nýtur góðs af henni muntu geta sagt með gleði: „Guði sé lof að Jesús Kristur, Drottinn vor, frelsar.“ – Rómverjabréfið 7:25.