Kærleikur – dýrmætur eiginleiki
PÁLI postula var innblásið að telja upp níu eiginleika sem heilagur andi kallar fram í fari fólks. (Gal. 5:22, 23) Saman mynda þessir góðu eiginleikar eina heild sem kallast „ávöxtur andans“.a Þessi ávöxtur er helsta einkenni ,hins nýja manns‘ sem kristinn maður þarf að íklæðast. (Kól. 3:10) Tré ber ávöxt þegar það fær góða umhirðu. Eins birtist ávöxtur andans í fari kristins manns þegar hann leyfir heilögum anda að starfa óhindrað í lífi sínu. – Sálm. 1:1-3.
Kærleikurinn er fyrsti eiginleikinn sem Páll nefnir þegar hann ræðir um ávöxt andans. Svo dýrmætur er hann að Páll sagði að sjálfur væri hann „ekki neitt“ ef hann vantaði kærleikann. (1. Kor. 13:2) En hvað er kærleikur og hvernig getum við þroskað hann með okkur og sýnt hann daglega?
HVERNIG BIRTIST KÆRLEIKURINN?
Það er ekki auðvelt að skilgreina með orðum hvað kærleikur er. Í Biblíunni er hins vegar lýst vel hvernig hann birtist. Við lesum til dæmis að kærleikurinn sé ,langlyndur og góðviljaður‘. Hann „samgleðst sannleikanum“ og hann „breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt“. Kærleikur felur líka í sér djúpa ástúð, óeigingjarna umhyggju fyrir öðrum og náin tengsl við þá. Vanti kærleikann birtist það hins vegar í öfund, hroka, ósæmilegri hegðun, eigingirni, reiði og langrækni. Við viljum ekki vera harðbrjósta og hégómleg heldur sýna sannan kærleika sem „leitar ekki síns eigin“. – 1. Kor. 13:4-8.
EINSTAKUR KÆRLEIKUR JEHÓVA OG JESÚ
„Guð er kærleikur.“ Hann er persónugervingur kærleikans. (1. Jóh. 4:8) Allt sem hann gerir vitnar um það. Mesta kærleiksverk hans í þágu mannkyns var að senda Jesú til að þjást og deyja fyrir okkur. Jóhannes postuli skrifaði: „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ (1. Jóh. 4:9, 10) Þar sem Guð er kærleikur getum við fengið fyrirgefningu, von og líf.
Jesús sýndi og sannaði að hann elskaði mannkynið með því að gera vilja Guðs af fúsu geði. Páll vitnaði í orð Jesú sem sagði: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn.“ Síðan bætir Páll við: „Þannig gerði hann það sem Guð vildi og þess vegna erum við helguð orðin að hann fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll.“ (Hebr. 10:9, 10) Enginn maður hefði getað sýnt meiri kærleika. Jesús sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóh. 15:13) Getum við, ófullkomnir mennirnir, líkt eftir kærleika Jehóva og Jesú til okkar? Já, könnum hvernig við getum gert það.
„LIFIÐ Í KÆRLEIKA“
Páll skrifaði: „Verðið ... eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur.“ (Ef. 5:1, 2) Við ,lifum í kærleika‘ með því að sýna hann öllum stundum. Við segjumst ekki bara elska aðra heldur látum það birtast í verki. Jóhannes skrifaði: „Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ (1. Jóh. 3:18) Ef við elskum Guð og náungann segjum við fólki frá ,fagnaðarerindinu um ríkið‘. (Matt. 24:14; Lúk. 10:27) Við lifum líka í kærleika með því að vera þolinmóð, góðviljuð og fús til að fyrirgefa. Við förum eftir því sem segir í Kólossubréfinu 3:13: „Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“
Það má þó ekki rugla saman sönnum kærleika og tilfinningasemi. Foreldri reynir ef til vill að hugga grátandi barn með því að láta undan öllum duttlungum þess. Kærleiksríkt foreldri veit hins vegar að það er stundum nauðsynlegt að vera ákveðinn. Jehóva er kærleikur en hann ,agar líka þann sem hann elskar‘. (Hebr. 12:6) Þegar við lifum í kærleika beitum við einnig viðeigandi aga eftir þörfum. (Orðskv. 3:11, 12) En við megum auðvitað ekki gleyma að við erum syndug og að okkur tekst ekki alltaf að vera kærleiksrík. Við þurfum því öll að sýna meiri kærleika á einhverjum sviðum. Hvernig getum við gert það? Lítum á þrennt.
HVERNIG ÞROSKUM VIÐ MEÐ OKKUR KÆRLEIKA?
Í fyrsta lagi biðjum við Jehóva að gefa okkur anda sinn og hann kallar fram kærleika. Jesús sagði að Jehóva gæfi „þeim heilagan anda sem biðja hann“. (Lúk. 11:13) Ef við biðjum um heilagan anda og leggjum okkur fram um að ,lifa í andanum‘ verðum við sífellt kærleiksríkari í öllu sem við gerum. (Gal. 5:16) Svo dæmi sé nefnt getur öldungur í söfnuðinum beðið um heilagan anda svo að hann geti gefið biblíuleg ráð á kærleiksríkan hátt. Foreldri getur beðið um að andi Guðs hjálpi sér að aga börnin í kærleika en ekki reiði.
Í öðru lagi skaltu íhuga hvernig Jesús sýndi kærleika þegar hann sætti illri meðferð. (1. Pét. 2:21, 23) Það er sérstaklega mikilvægt að hugsa um fordæmi hans ef einhver særir okkur eða við erum ranglæti beitt. Þá er gott að spyrja sig hvað Jesús hefði gert. Systir, sem heitir Leigh, uppgötvaði að þetta hjálpaði henni að hugsa áður en hún gerði nokkuð. Hún segir: „Vinnufélagi sendi einu sinni tölvupóst til annarra vinnufélaga og sagði ýmislegt miður fallegt um mig og störf mín. Ég var mjög særð. En svo spurði ég mig hvernig ég gæti líkt eftir Jesú í samskiptum við vinnufélagann. Eftir að hafa velt fyrir mér hvað Jesús hefði gert ákvað ég að láta kyrrt liggja og gera ekki veður út af þessu. Síðar frétti ég að vinnufélaginn hefði átt við alvarleg veikindi að stríða og verið undir miklu álagi. Ég komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði sennilega ekki meint það sem hann sagði. Jesús var kærleiksríkur þegar komið var illa fram við hann. Það hjálpaði mér að vera kærleiksrík við vinnufélagann.“ Við erum alltaf kærleiksrík ef við líkjum eftir Jesú.
Í þriðja lagi skaltu þroska með þér fórnfúsan kærleika en hann er aðalsmerki sannrar kristni. (Jóh. 13:34, 35) Í Biblíunni erum við hvött til að temja okkur sama hugarfar og Jesús. „Hann svipti sig öllu“ í okkar þágu þegar hann fór frá himnum og gaf meira að segja líf sitt. (Fil. 2:5-8) Þegar við líkjum eftir fórnfúsum kærleika hans hefur það áhrif á hugsanir okkar og tilfinningar þannig að við líkjumst honum betur, og við höfum ríkari tilhneigingu til að láta hag annarra ganga fyrir okkar eigin. Á hvaða fleiri vegu er það til góðs að þroska með sér kærleika?
ÞAÐ ER TIL GÓÐS AÐ SÝNA KÆRLEIKA
Það er til góðs á marga vegu að sýna kærleika. Lítum á tvennt:
ALÞJÓÐLEGT BRÆÐRALAG: Þar sem við elskum hvert annað vitum við að trúsystkini okkar taka okkur fagnandi hvar í heiminum sem við göngum inn í ríkissal. Það er einstök blessun að vita að ,bræðrum okkar og systrum um allan heim‘ þykir vænt um okkur. (1. Pét. 5:9) Er slíkan kærleika að finna annars staðar en meðal þjóna Guðs?
FRIÐUR: Við ,umberum og elskum hvert annað‘ og þannig getum við varðveitt „einingu andans í bandi friðarins“. (Ef. 4:2, 3) Við finnum fyrir þessum friði á safnaðarsamkomum og mótum. Ertu ekki sammála því að friður af þessu tagi sé alveg einstakur í sundruðum heimi nútímans? (Sálm. 119:165; Jes. 54:13) Þegar við stuðlum að friði sýnum við hve vænt okkur þykir um aðra og það gleður föðurinn á himnum. – Sálm. 133:1-3; Matt. 5:9.
„KÆRLEIKURINN BYGGIR UPP“
„Kærleikurinn byggir upp,“ skrifaði Páll. (1. Kor. 8:1) Hvernig gerir kærleikurinn það? Páll varpar ljósi á það í 13. kafla 1. Korintubréfs, í kafla sem er stundum kallaður „Kærleikssálmurinn“. Kærleikurinn lætur sér annt um hag annarra. (1. Kor. 10:24; 13:5) Og þar sem kærleikurinn er hugulsamur, tillitssamur, þolinmóður og góðviljaður stuðlar hann að ástúð innan fjölskyldunnar og einingu í söfnuðinum. – Kól. 3:14.
Mikilvægast af öllu er þó að elska Guð og það byggir okkur upp. Það sameinar fólk af alls konar uppruna, kynþáttum og tungum svo að það þjónar honum einhuga. (Sef. 3:9) Við skulum vera ákveðin í að sýna daglega þennan mikilvæga eiginleika sem tilheyrir ávexti heilags anda.
a Þetta er fyrsta greinin af níu þar sem rætt verður um þá eiginleika sem mynda ávöxt andans.