Uppörvum hvert annað ,því fremur sem dagurinn færist nær‘
„Gefum gætur hvert að öðru ... uppörvið hvert annað og það því fremur sem þið sjáið að dagurinn færist nær.“ – HEBR. 10:24, 25.
1. Hvers vegna sagði Páll postuli að það væri áríðandi fyrir kristna Hebrea að hvetja og uppörva hver annan?
AF HVERJU er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að vera hvetjandi og uppörvandi? Páll postuli svarar því í bréfinu til kristinna Hebrea. Þar segir hann: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað og það því fremur sem þið sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebr. 10:24, 25) Það liðu ekki nema fimm ár þangað til kristnir Gyðingar í Jerúsalem sáu að „dagur Drottins“ var í nánd og táknið um að þeir þyrftu að flýja borgina blasti við. (Post. 2:19, 20; Lúk. 21:20-22) Þessi dagur Jehóva rann upp árið 70 þegar Rómverjar fullnægðu dómi hans á Jerúsalem.
2. Af hverju ættum við að láta okkur umhugaðra en nokkru sinni fyrr um að uppörva hvert annað?
2 Við höfum fulla ástæðu til að ætla að „mikill og ógurlegur“ dagur Jehóva sé í nánd. (Jóel 2:11) Sefanía spámaður sagði: „Í nánd er hinn mikli dagur Drottins, hann er í nánd og færist óðfluga nær.“ (Sef. 1:14) Þessi spádómlega viðvörun á einnig við um okkar tíma. Í ljósi þess hve dagur Jehóva er nálægur segir Páll að við eigum að láta okkur annt hvert um annað og ,hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka‘. (Hebr. 10:24) Við ættum þess vegna að láta okkur umhugaðra um trúsystkini okkar en nokkru sinni fyrr til að geta hvatt þau og uppörvað hvenær sem þörf er á.
HVERJIR ÞURFA UPPÖRVUN?
3. Hvað sagði Páll postuli um hvatningu og uppörvun? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
3 „Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það.“ (Orðskv. 12:25) Það má með sanni segja um okkur öll. Af og til þurfum við öll á uppörvun að halda. Páll bendir á að þeir sem hafi það verkefni að hvetja aðra þurfi stundum sjálfir að fá uppörvun. Hann skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Ég þrái að sjá ykkur til þess að geta miðlað af gjöfum andans svo að þið styrkist eða réttara sagt: Svo að við getum uppörvast saman í sömu trú, ykkar og minni.“ (Rómv. 1:11, 12) Þótt Páll væri duglegur að hvetja og uppörva aðra þurfti hann stundum sjálfur á uppörvun að halda. – Lestu Rómverjabréfið 15:30-32.
4, 5. Hverja getum við hvatt og uppörvað og hvers vegna eiga þeir það skilið?
4 Þeir sem þjóna Jehóva í fullu starfi eiga hrós skilið. Margir hafa fært miklar fórnir til að geta verið brautryðjendur. Hið sama er að segja um trúboða, Betelíta, farandhirða og eiginkonur þeirra og svo þá sem starfa á þýðingastofunum. Öll færa þau fórnir til að geta notað meiri tíma til að þjóna Jehóva. Þau eiga því skilið hvatningu og uppörvun. Og þeir sem þjónuðu áður í fullu starfi en geta það ekki lengur af ýmsum ástæðum eru líka þakklátir fyrir að fá hvatningu og uppörvun.
5 Bræður og systur, sem eru einhleyp af því að þau vilja hlýða Jehóva og giftast aðeins „í Drottni“, verðskulda sömuleiðis hvatningu og uppörvun. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981) Eiginkonu finnst uppörvandi að fá hrós og hvatningu frá eiginmanni sínum. (Orðskv. 31:28, 31) Það er líka nauðsynlegt að uppörva bræður og systur sem eru trúföst í ofsóknum eða veikindum. (2. Þess. 1:3-5) Jehóva og Kristur hughreysta alla þessa trúu þjóna sína. – Lestu 2. Þessaloníkubréf 2:16, 17.
ÖLDUNGAR LEGGJA SIG FRAM UM AÐ VERA UPPÖRVANDI
6. Hvert er hlutverk öldunganna samkvæmt Jesaja 32:1, 2?
6 Lestu Jesaja 32:1, 2. Við lifum á erfiðum tímum og það er margt sem getur gert okkur döpur og niðurdregin. Jesús Kristur hefur fengið andasmurðum bræðrum sínum og ,höfðingjum‘ af hópi annarra sauða það verkefni að leiðbeina okkur og uppörva. Þessir öldungar drottna ekki yfir trú annarra heldur eru þeir „samverkamenn“ að gleði trúsystkina sinna. – 2. Kor. 1:24.
7, 8. Hvernig geta öldungar sýnt umhyggju sína í verki?
7 Páll postuli er okkur fyrirmynd til eftirbreytni. Hann skrifaði ofsóttum kristnum mönnum í Þessaloníku: „Ég bar slíkt kærleiksþel til ykkar að glaður hefði ég ekki einungis gefið ykkur fagnaðarerindi Guðs heldur og mitt eigið líf, svo ástfólgin voruð þið orðin mér.“ – 1. Þess. 2:8.
8 Uppörvandi orð eru þó ekki alltaf nóg ein sér. Páll benti á það þegar hann sagði öldungunum í Efesus: „Okkur [ber] að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú sjálfs er hann sagði: Sælla er að gefa en þiggja.“ (Post. 20:35) Páll var ekki aðeins fús til að hvetja og uppörva heldur einnig að ,verja því sem hann átti og leggja sjálfan sig í sölurnar‘ fyrir trúsystkini sín. (2. Kor. 12:15) Öldungar ættu ekki aðeins að hvetja og uppörva með orðum heldur einnig að sýna einlægan áhuga sinn í verki. – 1. Kor. 14:3.
9. Hvernig geta öldungar verið hvetjandi og uppörvandi þegar þeir leiðbeina öðrum?
9 Öldungar þurfa stundum að gefa trúsystkinum ráð og leiðbeiningar til að styrkja þau. Þeir ættu að fylgja þeirri fyrirmynd sem er að finna í Biblíunni til að vera bæði hvetjandi og uppörvandi. Jesús er framúrskarandi dæmi um það. Eftir að hann var dáinn og upprisinn þurfti hann að gefa söfnuðunum í Efesus, Pergamos og Þýatíru beinskeyttar leiðbeiningar. En tökum eftir hvernig hann fór að. Hann byrjaði á því að hrósa þeim fyrir það sem þeir gerðu vel. (Opinb. 2:1-5, 12, 13, 18, 19) Hann sagði söfnuðinum í Laódíkeu: „Ég tyfta og aga alla þá sem ég elska. Legg þú því allt kapp á að bæta ráð þitt.“ (Opinb. 3:19) Öldungar ættu að líkja eftir fordæmi Krists þegar þeir þurfa að leiðbeina trúsystkinum.
EKKI AÐEINS HLUTVERK ÖLDUNGA
10. Hvernig getum við öll átt þátt í að byggja hvert annað upp?
10 Það er ekki aðeins hlutverk öldunganna að vera hvetjandi og uppörvandi. Páll hvatti alla kristna menn til að tala „það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra“. (Ef. 4:29) Við eigum öll að vera vakandi fyrir þörfum annarra. Páll skrifaði kristnum Hebreum: „Réttið ... úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.“ (Hebr. 12:12, 13) Við getum öll verið uppbyggjandi í tali, hvort sem við erum ung eða gömul.
11. Hvaða hjálp fékk Marta þegar hún átti við þunglyndi að stríða?
11 Martaa átti við þunglyndi að stríða um tíma. Hún skrifar: „Dag nokkurn bað ég Jehóva um að fá uppörvun. Þá hitti ég roskna systur sem sýndi mér ást og umhyggju. Það var einmitt það sem mig vantaði þá stundina. Hún sagði mér einnig frá sinni eigin reynslu af svipaðri prófraun og ég átti í, og þá fannst mér ég ekki vera ein á báti.“ Það er ekki víst að roskna systirin hafi gert sér grein fyrir þeim góðu áhrifum sem hún hafði á Mörtu.
12, 13. Hvernig getum við fylgt leiðbeiningunum í Filippíbréfinu 2:1-4?
12 Páll skrifaði öllum safnaðarmönnum í Filippí: „Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Fil. 2:1-4.
13 Við ættum öll að reyna að vera vakandi fyrir þörfum annarra, sýna þeim kærleika og veita þeim félagsskap, hlýju og samúð. Þannig getum við uppörvað og hvatt bræður okkar og systur.
LEIÐIR TIL AÐ HVETJA OG UPPÖRVA
14. Nefndu eina leið til að hvetja og uppörva.
14 Það getur verið mjög hvetjandi að heyra að þeir sem við hjálpuðum fyrir löngu skuli vera Jehóva trúir. Jóhannesi postula fannst það. Hann skrifaði: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.“ (3. Jóh. 4) Margir brautryðjendur geta vitnað um hve hvetjandi það sé að frétta að sumir af fyrrverandi biblíunemendum þeirra séu Jehóva trúir og starfi jafnvel sem brautryðjendur. Ef brautryðjandi er niðurdreginn getur verið ákaflega uppörvandi fyrir hann að minna hann á það góða sem hann hefur gert fyrir aðra.
15. Hvað getum við meðal annars gert til að uppörva þá sem þjóna Jehóva dyggilega?
15 Margir farandhirðar hafa nefnt að það hafi verið uppörvandi fyrir þá og eiginkonur þeirra að fá stutt þakkarbréf eftir að hafa heimsótt söfnuði. Hið sama má segja um öldunga, trúboða, brautryðjendur og Betelíta þegar þeir frá hrós og þakkir fyrir trúa þjónustu sína.
ALLIR GETA HVATT OG UPPÖRVAÐ
16. Nefndu dæmi um hvernig hægt er að vera uppörvandi.
16 Það væru mistök að hugsa sem svo að við getum ekki verið uppörvandi nema við séum ræðin að eðlisfari. Það þarf ekki að gera mikið til að hafa jákvæð áhrif. Stundum þarf ekki annað en að heilsa með hlýlegu brosi. Ef við fáum ekki bros á móti getur það verið merki þess að eitthvað sé að. Þá er gott að hlusta – það getur verið uppörvandi. – Jak. 1:19.
17. Hvað uppörvaði ungan bróður?
17 Hinrik er ungur bróðir. Það fékk mjög á hann þegar nokkrir nánir ættingjar yfirgáfu sannleikann, þeirra á meðal pabbi hans sem hafði verið virtur safnaðaröldungur. Farandhirðir bauð Hinriki á kaffihús og þar fékk hann tækifæri til að létta á hjarta sínu. Hinrik gerði sér ljóst að hann yrði að vera Jehóva trúr – það væri eina leiðin til að hjálpa ættingjum sínum að snúa aftur til safnaðarins. Honum fannst mjög uppörvandi að lesa Sálm 46, Sefanía 3:17 og Markús 10:29, 30.
18. (a) Hvað segir Salómon konungur um uppörvun? (b) Hvað lagði Páll postuli til?
18 Marta og Hinrik eru dæmi um að við getum uppörvað bróður eða systur sem þarfnast þess. Salómon konungur skrifaði: „Fagurt er orð í tíma talað. Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað, góð frétt eykur holdi á bein.“ (Orðskv. 15:23, 30) Við getum hresst niðurdregna með því að lesa fyrir þá grein í Varðturninum eða á vefnum okkar. Páll nefnir að það geti verið uppörvandi að syngja ríkissöngvana saman. Hann skrifaði: „Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ – Kól. 3:16; Post. 16:25.
19. Hvers vegna verður æ mikilvægara að hvetja og uppörva hvert annað og hvað ættum við að gera?
19 Dagur Jehóva „færist nær“ og það verður sífellt mikilvægara að hvetja og uppörva hvert annað. (Hebr. 10:25) Reynum að gera eins og Páll hvatti til á sínum tíma: „Hvetjið ... og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.“ – 1. Þess. 5:11.
a Nöfnum er breytt.