Fylgjum Jesú stöðugt
1 Jesús sagði eitt sinn: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ (Matt. 16:24) Við viljum vissulega bregðast jákvætt við orðum Jesú. Við skulum kanna hvað felst í boði hans.
2 Hann „afneiti sjálfum sér“: Þegar við vígjum Jehóva líf okkar afneitum við sjálfum okkur. Grunnmerking gríska orðsins, sem þýtt er „afneita,“ er „að segja nei.“ Það merkir að við afsölum okkur viljandi okkar eigin metnaðarvonum, löngunum, þægindum og eigingjörnum nautnum — verðum staðráðin í að þóknast Jehóva um alla eilífð. — Rómv. 14:8; 15:3.
3 „Taki kross sinn“: Kristið líf er líf þess manns sem ber kross eða kvalastaur fórnfúsrar þjónustu við Jehóva. Fórnfýsi getur meðal annars endurspeglast í kappsemi í boðunarstarfinu. Það sem af er þessu ári hafa margir boðberar tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu. Þú ert ef til vill einn þeirra og getur staðfest að sú blessun, sem það veitir þér, gerir meira en að vega upp á móti fórnunum sem þú færir. Þeir sem geta ekki gerst aðstoðarbrautryðjendur hafa oft á tíðum gert ráðstafanir til að verja auknum tíma til prédikunarstarfsins sem safnaðarboðberar. Í því augnamiði láta sumir söfnuðir samansafnanir sínar hefjast nokkrum mínútum fyrr en þær gerðu áður. Margir boðberar kunna vel að meta að fá þannig lengri tíma til boðunarstarfsins. Sumir hafa líka náð ágætum árangri þegar þeir ákváðu að fara ‚í aðeins eitt hús í viðbót‘ eða að starfa ‚aðeins fáeinar mínútur lengur.‘
4 Fórnfýsin birtist líka á þann hátt að við setjum okkur persónuleg markmið. Sumir hafa með vandlegri skipulagningu og tilfærslu á tímaáætlun gerst reglulegir brautryðjendur. Aðrir hafa komið málum sínum þannig fyrir að geta boðið sig fram til þjónustu á Betel eða til trúboðsstarfs. Sumir hafa flutt á svæði þar sem meiri þörf er á boðberum Guðsríkis.
5 „Og fylgi mér“: Þó að lærisveinar Jesú hafi þolað margar raunir var kostgæfni hans og þrautseigja í þjónustunni þeim mikil uppörvun. (Jóh. 4:34) Nærvera hans og boðskapur endurnærði anda þeirra. Það er ástæðan fyrir því að þeir sem fylgdu honum geisluðu af einskærri gleði. (Matt. 11:29) Við skulum á sama hátt hvetja hvert annað til þolgæðis í hinu bráðnauðsynlega starfi að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum.
6 Megum við öll bregðast jákvætt við boði Jesú um að fylgja sér með því að rækta með okkur anda fórnfýsinnar. Þegar við gerum það veitist okkur mikil gleði núna og við getum hlakkað til enn meiri blessunar í framtíðinni.