Leiðir til að færa út kvíarnar í þjónustu þinni
1 Fyrir meira en 40 árum birtist grein í Varðturninum 15. janúar 1955 sem hét: „Er þitt besta nógu gott?“ Hún leiddi athyglina á kærleiksríkan hátt að því hvernig fólk Jehóva gæti hvert og eitt lagt sig enn betur fram við boðunarstarfið svo að það gæti tekið meiri þátt í starfsemi Guðsríkis. Þetta góða ráð á einnig við núna þegar við höldum áfram að taka framförum.
2 Drifkraftur þjónustu okkar ætti að vera æðsta boðorðið: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Mark. 12:30) Við sýnum Jehóva hugheilan kærleika með því að nýta okkur til fulls tækifærin sem okkur bjóðast til að efla starf Guðsríkis. Íhugaðu hvernig þú gætir farið eftirfarandi leiðir til að færa út kvíarnar í þjónustu þinni.
3 Axlaðu ábyrgð þína: Vígðir bræður geta keppt að því að verða hæfir safnaðarþjónar og síðan tekið þeim framförum að þeir geti orðið öldungar. Greinarnar „Sækist þú eftir umsjónarstarfi?“ og „Ert þú hæfur til að þjóna?“ í Varðturninum 1. mars 1991 hafa hvatt marga bræður til að bjóða sig fram til safnaðarábyrgðar. Biddu öldungana um að leiðbeina þér um hvernig eigi að sækja fram og verða hæfur til þess konar þjónustu.
4 Einhleypir öldungar og safnaðarþjónar eru hvattir til að hugsa alvarlega um að sækja um skólavist í Þjónustuþjálfunarskólanum. Þú getur kynnt þér þennan skóla með því að lesa efnið sem vísað er til undir „Ministerial Training School“ (Þjónustuþjálfunarskólinn) í Watch Tower Publications Indexes (Efnisskrám Varðturnfélagsins) árin 1986-1995, 1996 og 1997. Sérðu „víðar dyr og verkmiklar“ opnast þér? (1. Kor. 16:9a) Margir bræður, sem gengu inn um þær, höfðu aldrei gert sér í hugarlund öll þjónustusérréttindin sem voru handan þeirra. Núna starfa þeir þar sem þörfin er meiri, annaðhvort sem trúboðar, brautryðjendur eða sérbrautryðjendur, þjóna á Betel eða eru farandumsjónarmenn — hér á landi og annars staðar.
5 Kepptu eftir þjónustu í fullu starfi: Unglingar sem eru að útskrifast úr framhaldsskóla, húsmæður og allir sem komnir eru á eftirlaun ættu að íhuga alvarlega að gerast brautryðjendur. Farðu yfir viðauka Ríkisþjónustu okkar fyrir júlí 1998 og talaðu síðan við brautryðjendur sem bjuggu við svipaðar aðstæður og þú. Það getur verið að þú finnir hjá þér hvöt til að færa út kvíarnar í þjónustu þinni með brautryðjandastarfi rétt eins og þau. (1. Kor. 11:1) Hefurðu tök á að auka starf þitt upp í 70 tíma á mánuði og gerast þannig reglulegur brautryðjandi?
6 Þjónaðu þar sem þörfin er meiri: Býrð þú á svæði sem frekar oft er farið yfir eða þar sem margir bræður eru til að gegna ábyrgðarstörfum? Hefurðu hugleitt að færa út kvíarnar í þjónustu þinni með því að flytja þangað sem þörfin er meiri? Ef til vill gætirðu flutt út á land þar sem þörf er á fleiri verkamönnum. (Matt. 9:37, 38) Þetta ætti ekki að gera í fljótræði. Það verðskuldar íhugun í bænarhug. (Lúk. 14:28-30) Ræddu við öldungana og farandhirðinn um aðstæður þínar. Þeir munu ræða við þig um hvort það sé viturlegt að flytja núna eða búa sig undir það í framtíðinni. Ef þú óskar að skrifa Félaginu til að fá tillögur um hvert þú ættir að flytja þarftu að láta fylgja með bréf undirritað af starfsnefnd safnaðarins.
7 Auktu gæði þjónustu þinnar: Við getum líklega öll tekið fyllri þátt í þjónustunni með því að auka gæði boðunarstarfs okkar. Tekurðu þátt í öllum greinum starfsins, meðal annars starfinu hús úr húsi, óformlegum vitnisburði svo og endurheimsóknum og biblíunámskeiðum? Stjórnar þú námskeiði? Gætirðu bætt kennsluhæfni þína? Það væri gott að þú færir yfir viðauka Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1996 til að finna ábendingar um hvernig megi hvetja nemendur þína í átt til vígslu og skírnar.
8 Víðtækari umfjöllun um hvernig megi færa út kvíarnar í þjónustu okkar og bæta hana er að finna í 9. kafla bókarinnar Organized to Accomplish Our Ministry (Skipulagðir til að fullna þjónustuna). Vissulega ættum við öll að vilja gera eins mikið og hægt er í þjónustu Guðs. Hugleiddu andleg markmið þín alvarlega. Gerðu það sem 2. Tímóteusarbréf 4:15 leggur til: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“