Þroskaðu skilningarvitin
1 Á þessum erfiðu síðustu dögum hefur álagið á fólk Guðs aukist og það orðið fyrir margs konar alvarlegum prófraunum. (2. Tím. 3:1-5) Við þurfum öll á hvatningu að halda til að standa stöðug í trúnni. (1. Kor. 16:13) Við getum gert það með hjálp Jehóva ef við nærumst reglulega á orði hans, reiðum okkur á heilagan anda hans og höldum okkur fast við skipulagið. — Sálm. 37:28; Rómv. 8:38, 39; Opinb. 2:10.
2 Það er ekki að ástæðulausu að sérstaki mótsdagurinn í fyrra byggðist á stefinu „Verið fullorðnir í dómgreind.“ Stefið var tekið úr 1. Korintubréfi 14:20 þar sem Páll postuli segir: „Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.“ Hvað fannst þér um dagskránna?
3 „Mikið var hún uppörvandi!“ „Þetta var einmitt það sem okkur vantaði!“ Þetta eru aðeins tvö dæmi um viðbrögð fólks. Maður, sem er ekki vottur en kom á mótið til að sjá 12 ára dóttur sína skírast, sagðist meira að segja hafa verið mjög ánægður með dagskrána og gæti vel séð hvernig hún kæmi fjölskyldu sinni að gagni. Ert þú sama sinnis? Við skulum rifja upp nokkur aðalatriði dagskrárinnar.
4 Nákvæm þekking er nauðsynleg til að þjálfa skilningarvitin: Hvað sagði ræðumaðurinn í opnunarræðunni, „Þroskaðu dómgreindina núna,“ að væri nauðsynlegt til að takast á við þrautir lífsins? Hæfni hugans dugar ekki ein sér. Við þurfum að þroska biblíuskilning okkar til að geta staðist allt hið illa í kringum okkur. Þessi skilningur kallar á leiðsögn Guðs. Líkt og sálmaritarinn biðjum við Jehóva um að veita okkur skilning á lögum sínum og áminningum til að geta þjónað honum heilshugar. — Sálm. 119:1, 2, 34.
5 Í næsta dagskrárlið sýndi farandhirðirinn fram á að Jehóva noti orð sitt og skipulag til að veita okkur „hjálp til að þroska biblíuskilning.“ Skilningur var skilgreindur sem „sú hæfni að geta séð innviði máls og komið auga á hvað það snýst um með því að átta sig á tengslum hinna ólíku þátta þess og heildarinnar.“ Hver getur hjálpað okkur að þroska þessa hæfni? Jehóva hefur gefið gjafir í mönnum til að hjálpa okkur öllum að taka andlegum framförum. (Ef. 4:11, 12) Jarðneskt skipulag hans hvetur okkur til að lesa daglega í orði Guðs og sækja allar safnaðarsamkomur að staðaldri. (Sálm. 1:2) Okkur er kennt hvernig nota megi Biblíuna og biblíutengd rit í einka- og fjölskyldunámi og við undirbúning fyrir safnaðarsamkomur og boðunarstarfið. Notfærir þú þér allar þessar ráðstafanir? Ertu með þína eigin reglulegu biblíulestraráætlun? Það er nauðsynlegt til að við verðum ekki veraldlegum áhrifum, tískufyrirbærum, heimspeki og villu að bráð. — Kól. 2:6-8.
6 Við þurfum að temja skilningarvitin: Í ræðunni „Varðveittu andlegt hugarfar með því að temja skilningarvitin,“ sagði ræðumaðurinn að fólk í heiminum gæti ekki gert greinarmun á réttu og röngu. (Jes. 5:20, 21) Ástæðan fyrir því er sú að þeir neita að viðurkenna réttláta staðla Guðs og fylgja þeim. Við höfum hins vegar fengið andlega tilsögn innan skipulags Jehóva og við viðurkennum staðla hans og látum þá ráða gerðum okkar og breytni. Við getum því sannað fyrir sjálfum okkur hvað sé gott og fagurt í augum hans og í samræmi við fullkominn vilja hans. — Rómv. 12:2.
7 Við verðum stöðugt að temja skilningarvitin til að forðast brenglaðan hugsunarhátt og spilltan ávöxt heimsins. Hvernig getum við gert það? Við þurfum að nærast á meiru en aðeins ,mjólk orðsins‘ eins og Páll postuli áréttar í Hebreabréfinu 5:12-14. Við þörfnumst fastrar andlegrar fæðu eins og þeirrar sem við fáum núna þegar við lærum um spádóm Jesaja í safnaðarbóknáminu. Síðan verðum við að nota það sem við lærum. Þegar við gerum það sannfærumst við um að meginreglur og staðlar Jehóva séu réttir. Þetta þjálfar skilningarvitin til að greina gott frá illu.
8 Því miður hafa sumir beðið andlegt skipbrot af því að þeir beindu ekki athyglinni að því sem gott er og rétt í augum Jehóva. Afleiðingin er sú að útvarps- og sjónvarpsspjallþættir sem ganga gegn kristnum meginreglum, auvirðileg tónlist eða slæm áhrif á tölvuspjallrásum hafa orðið þeim að falli. Ef við erum skynsöm látum við ekki siðlausa, heimska eða vonda menn hafa áhrif á okkur. — Orðskv. 13:20; Gal. 5:7; 1. Tím. 6:20, 21.
9 Unglingar verða að vera „ungbörn í illskunni“: Á dagskránni voru tvö atriði sem hvöttu sérstaklega ungt fólk til að þroska skilningarvitin. Ræðumennirnir bentu á að það að vera „sem ungbörn í illskunni“ merkir að vera óreyndur í henni, það er að segja saklaus eins og hvítvoðungur gagnvart því sem er óhreint í augum Jehóva. (1. Kor. 14:20) Við vorum öll hvött til að hafa nákvæma gát á hvernig við notum tíma okkar svo að við gerum okkur ekki berskjalda fyrir alls konar illsku og verðum ekki fyrir áhrifum af henni. (Ef. 5:15-17) Við vorum hvött til að taka saman hve miklum tíma við verjum í að lesa efni sem stuðlar ekki beint að því að bæta andlegan skilning okkar. Gerðir þú það? Hver var niðurstaðan? Vertu staðráðinn í að lesa allt efnið, sem kemur frá skipulaginu, auk þess að lesa daglega í Biblíunni. Það hjálpar okkur öllum og líka unglingum að ‚afla okkur skilnings.‘ — Orðskv. 4:7-9.
10 „Heimfærðu meginreglur Biblíunnar af skilningi“: Þetta var stef síðustu ræðu sérstaka mótsdagsins. Ræðumaðurinn sagði að Jehóva væri uppspretta lífgandi skilnings sem er langtum æðri skilningi alls mannkyns. Við höfum tækifæri til að skyggnast inn í skilning Jehóva og hann veitir þeim góðfúslega skilning sem óska þess einlæglega og biðja um það í trú. (Orðskv. 2:3-5, 9; 28:5) Nýtirðu þér boð hans til fulls?
11 Við vorum hvött til að læra að koma auga á meginreglur þegar við lesum í Biblíunni. (2. Tím. 3:16, 17) Farðu vel yfir þær til að skilja nákvæmlega hvað Jehóva er að segja. Gefðu þér tíma til að hugleiða þessar meginreglur og festa þær í huga þér og hjarta. Það þjálfar skilningarvitin og hjálpar þér að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Jós. 1:8) Tökum dæmi um nokkrar aðstæður sem margir standa frammi fyrir og sjáum hvernig meginreglur Biblíunnar hjálpa okkur.
12 ‚Ætti ég að tileinka mér vissa hár- eða fatatísku?‘ Hár- og fatatíska heimsins endurspeglar oft uppreisnaranda. Slíkur andi fær fólk til þess að flagga kynferði sínu eða vera óaðlaðandi og sóðalega til fara. Hvaða biblíulegu meginreglur hjálpa okkur að vinna á móti slíkum tilhneigingum? Þegar við höfum þjálfað skilningarvitin tökum við meginregluna í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10 með í myndina en þar segir að við eigum að klæða okkur ‚með blygð og hóglæti . . . eins og sómir fólki, er Guð vill dýrka.‘ Aðrar meginreglur, sem eiga við, eru meðal annars nefndar í 2. Korintubréfi 6:3 og Kólossubréfinu 3:18, 20.
13 ‚Hvernig get ég viðhaldið sterkum fjölskylduböndum?‘ Góð tjáskipti innan fjölskyldunnar eru mikilvæg. Jakobsbréfið 1:19 segir: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ Fólk þarf bæði að hlusta og tala saman því að tjáskipti innan fjölskyldunnar eru gagnkvæm. En jafnvel þegar það sem við segjum er rétt er hætt við að það geri meira illt en gott ef það er sagt grimmilega, drembilega eða af tillitsleysi. Hvort sem við erum eiginmenn eða eiginkonur, foreldrar eða börn ætti mál okkar alltaf að vera „ljúflegt, en salti kryddað.“ — Kól. 4:6.
14 ‚Er ég undir áhrifum af efnishyggju?‘ Heimurinn ýtir undir efnishyggju. En efnislegir hlutir veita okkur ekki hamingju heldur gera lífið flóknara. (Préd. 5:10; Lúk. 12:15; 1. Tím. 6:9, 10) Jesús kenndi okkur mikilvæga meginreglu sem hjálpar okkur að forðast snöru efnishyggjunnar. Hann sagði okkur að halda auganu heilu. Að lifa hófsömu og einföldu lífi felur í sér að beina huganum að hagsmunum Guðsríkis og láta þá ganga fyrir öllu öðru. — Matt. 6:22, 23, 33.
15 Hvert ætti markmið okkar að vera?: Í Orði Guðs höfum við réttlátar meginreglur sem hjálpa okkur að taka ákvarðanir. Við þurfum að læra þessar meginreglur, hugleiða þær og skilja hvernig þær eiga við. Með því að ‚temja skilningarvitin til að greina gott frá illu‘ gerum við bæði það sem okkur er gagnlegt og heiðrum Jehóva. — Hebr. 5:14.