Fylgjum Kristi með því að vera virðuleg í fasi og hegðun
1. Hvernig tengist stefið fyrir umdæmismótið í ár því að vera virðuleg í fasi og hegðun?
1 Í Biblíunni er Jehóva, drottinvaldur alheimsins, sagður vera klæddur „hátign og vegsemd“. (Sálm. 104:1) Jesús sýndi alltaf með framkomu sinni og tali að hann heiðraði föður sinn og virti vilja hans. (Jóh. 17:4) Við fáum öll tækifæri til að feta í fótspor Jesú og vera Jehóva til dýrðar og vegsemdar á næsta umdæmismóti, „Fylgjum Kristi“.
2. Hvernig heiðrum við Jehóva með því að sjá til þess að við séum viðstödd alla dagskrárhlutana?
2 Virðuleg tilbeiðsla: Við getum heiðrað Jehóva með því að gera ráðstafanir til að mæta í andlegu veisluna sem hann hefur undirbúið fyrir okkur. Hefurðu rætt við vinnuveitanda þinn og gert ráðstafanir til að vera viðstaddur alla daga umdæmismótsins, þar á meðal á föstudeginum? Hefurðu skipulagt þig svo að þú komir nógu tímanlega til að finna þér sæti fyrir sönginn og bænina? Hefurðu séð til þess að þú getir snætt hádegisverð með bræðrum og systrum á mótsstaðnum? Þegar dagskrárhlutarnir hefjast og kynnirinn biður okkur að fá okkur sæti áður en tónlistin hefst ættum við að ljúka samræðunum og setjast niður áður en dagskráin hefst.
3. Hvers vegna er það tilbeiðslu okkar til sóma að fylgjast vel með dagskránni?
3 Við heiðrum líka föður okkar á himnum með því að taka vel eftir á mótinu. Eftir að hafa verið viðstaddur umdæmismót nokkurt skrifaði fréttamaður að fólki myndi þykja mikið til koma „að sjá hve framkoma viðstaddra væri til fyrirmyndar, þar sem þeir fylgdust þöglir með dagskránni og höfðu greinilega mikinn áhuga á andlegum málum“. Hann minntist einnig á „óvenjulega mörg börn . . . sem höguðu sér öll furðulega vel og voru jafnvel önnum kafin við að fletta upp versum í Biblíunni“. Á meðan á dagskránni stendur er ekki rétti tíminn til að tala saman að óþörfu, senda smáskilaboð, borða eða ráfa um gangana. Börn og unglingar ættu að sitja hjá foreldrum sínum svo að foreldrarnir geti hjálpað þeim að njóta góðs af dagskránni. (5. Mós. 31:12; Orðskv. 29:15) Þannig getum við sýnt öðrum virðingu og sýnt að við kunnum vel að meta andlegu fæðuna sem er framreidd.
4. Hvers vegna ættum við að vera virðuleg til fara á umdæmismótinu?
4 Virðuleg í útliti: Margir hafa látið í ljós þakklæti sitt fyrir hvatninguna í ræðunni, „Sýndu viðeigandi virðingu öllum stundum“, á síðasta umdæmismóti en í henni var lögð áhersla á að þjónar Guðs ættu að leggja sig fram um að vera virðuleg til fara. Á umdæmismótinu í ár ættum við einnig að huga vel að klæðaburði okkar og snyrtingu. Útlit okkar endurspeglar tilfinningar okkar til Jehóva og hversu mikils við metum það að fá að vera vottar hans. Við ættum alltaf að klæða okkur eins og þeir „er Guð vilja dýrka“. — 1. Tím. 2:9, 10.
5. Hvernig getum við verið virðuleg í útliti í frítíma okkar á mótsdögunum?
5 Ættum við aðeins að vera virðuleg til fara á meðan á dagskránni stendur? Það er gott að hugsa til þess að margir á svæðinu munu taka eftir barmmerkjum okkar þessa mótsdaga. Klæðaburður okkar ætti að gera það að verkum að við skerum okkur úr fjöldanum. Við ættum því að vera þannig til fara að fatnaður okkar sæmi þjónum Guðs sem sækja umdæmismót og við ættum ekki að vera í stuttbuxum eða gallabuxum og stuttermabolum, jafnvel í frístundum okkar eins og þegar við förum út að borða eftir dagsskrána. Þannig getum við gefið góðan vitnisburð. Það gleður Jehóva að sjá að útlit okkar beri vott um að við séum þjónar hans.
6. Hvaða ánægjulegi árangur hlýst af því þegar við erum virðuleg í fasi og hegðun?
6 Ánægjulegur árangur: Ef við erum virðuleg í fasi og hegðun á mótsstaðnum getur það skapað tækifæri fyrir óformlegan vitnisburð og vegfarendur fá gott álit á okkur. Opinber starfsmaður sagði þegar umdæmismóti var nýlokið: „Við höfum aldrei séð fólk sem kemur svona vel fram. Þið eruð eins og Guð ætlast til að við séum.“ Með því að vera virðuleg í fasi og hegðun heiðrum við Jehóva og sýnum hvert öðru kærleika og virðingu. (1. Pét. 2:12) Það ber einnig vott um guðsótta og þakklæti fyrir það að fá leiðsögn frá föður okkar á himnum. (Hebr. 12:28) Við skulum halda áfram að vera virðuleg í fasi og hegðun á meðan við hlökkum til þess að fara á umdæmismótið „Fylgjum Kristi“.
[Rammi á blaðsíðu 9]
Til minnis
◼ Dagskrártímar: Dagskráin hefst kl. 9:20 alla þrjá dagana. Þegar inngangstónlistin hefst ættu allir að fá sér sæti svo að dagskráin geti hafist á sómasamlegan hátt. Dagskránni lýkur kl. 17:05 á föstudeginum og laugardeginum og kl. 16.10 á sunnudeginum.
◼ Sæti: Við ættum aðeins að taka frá sæti fyrir heimilisfólk okkar og þá sem eru okkur samferða.
◼ Hádegisverður: Komdu með hádegisverðinn í stað þess að yfirgefa mótsstaðinn til að fá þér að borða. Hægt er að hafa litla tösku með sér undir matinn. Ekki er leyfilegt að hafa glerílát eða áfengi á mótsstaðnum.
◼ Framlög: Það er nokkuð kostnaðarsamt að halda landsmót. Við getum sýnt þakklæti okkar með frjálsum framlögum til alþjóðastarfsins, annaðhvort í ríkissalnum eða á mótinu. Ef þú skrifar ávísun ætti hún að vera stíluð á „Deildarskrifstofu Votta Jehóva“.
◼ Slys og neyðartilfelli: Ef upp kemur neyðartilfelli á mótsstaðnum skal láta næsta salarvörð vita og mun hann hafa samband við Skyndihjálp. Þá geta hæfir einstaklingar metið stöðuna, veitt viðeigandi aðstoð eða hringt í neyðarlínuna ef þess er þörf.
◼ Heyrnarskertir: Í mótssalnum er ákveðið svæði með tónmöskva ætlað fólki með skerta heyrn. Þeir sem hafa viðeigandi heyrnartæki geta nýtt sér þetta. Einnig standa til boða fáein þráðlaus heyrnartól en hljóðdeildin veitir frekari upplýsingar um þau.
◼ Upptökutæki: Gætið þess að ónáða ekki aðra ef þið notið upptökutæki. Þau má ekki tengja við raf- eða hljóðkerfi mótsstaðarins.
◼ Ilmefni: Flest mót fara fram innandyra þar sem þörf er á loftræstikerfi. Það væri því tillitsamt af okkur að takmarka notkun á sterkum ilmefnum, rakspírum og ilmvötnum því að þau gætu valdið þeim óþægindum sem eru með öndunarfærasjúkdóma eða annað svipað. — 1. Kor. 10:24.
◼ Fylgjum eftir áhuga: Hvað ættum við að gera ef við vitnum óformlega fyrir fólki yfir mótshelgina og það sýnir áhuga? Við ættum að biðja viðkomandi um nafn og heimilisfang eða símanúmer þar sem hægt er að nálgast hann aftur. Ef við höfum ekki tækifæri til að fylgja áhuganum eftir sjálf ættum við að koma upplýsingunum á framfæri til annars boðbera sem getur annast heimsóknina. Ef þú ert ekki viss um hvert þú átt að snúa þér getur ritarinn í þínum söfnuði aðstoðað þig. — Sjá Ríkisþjónustu okkar í febrúar 2005 bls. 7.