Þolgæði í prófraunum stuðlar að gleði
1 Allir kristnir menn verða fyrir prófraunum. (2. Tím. 3:12) Þessar prófraunir geta birst í ýmsum myndum eins og til dæmis veikindum, fjárhagserfiðleikum, freistingum, ofsóknum eða einhverju öðru. Erfiðleikarnir, sem Satan leggur á okkur, geta gert það að verkum að við hægjum á okkur, vanrækjum kristna þjónustu okkar eða hættum jafnvel að þjóna Guði. (Job. 1:9-11) Hvernig stuðlar þolgæði að gleði? — 2. Pét. 2:9.
2 Búðu þig undir prófraunir: Jehóva, Guð sannleikans, hefur gefið okkur Biblíuna og þar er hægt að lesa um ævi og kennslu Jesú. Með því að heyra orð Jesú og breyta eftir þeim leggjum við traustan grunn að trú okkar og búum okkur þannig undir mótlæti. (Lúk. 6:47-49) Trúsystkini okkar, safnaðarsamkomur og biblíutengd rit frá trúa og hyggna þjónshópnum eru einnig gjafir sem við sækjum styrk í. Við nýtum okkur óspart bænina sem er gjöf Guðs. — Matt. 6:13.
3 Auk alls þessa hefur Jehóva gefið okkur von. Þegar við byggjum upp sterka trú á loforð Jehóva verður von okkar eins og „akkeri sálarinnar, traust og öruggt“. (Hebr. 6:19) Á biblíutímanum lögðu skip aldrei úr höfn akkerislaus, ekki einu sinni í góðu veðri. Þegar stormur skall skyndilega á var akkerum varpað en það gat komið í veg fyrir að skipið rækist á sker. Eins er það með okkur. Með því að byggja upp trú á loforð Guðs mun örugg von okkar koma í veg fyrir að við berumst afleiðis þegar á móti blæs. Erfiðleikar geta komið upp mjög snögglega. Þó svo að boðunarstarfi Páls og Barnabasar hafi verið vel tekið í Lýstru til að byrja með breyttist það skyndilega þegar andsnúnir Gyðingar komu til borgarinnar. — Post. 14:8-19.
4 Þolgæði veitir gleði: Það veitir okkur hugarfrið þegar við höldum áfram að prédika þrátt fyrir mótlæti. Við gleðjumst yfir því að vera virt þess að þola háðung vegna nafns Jesú. (Post. 5:40, 41) Þegar við erum þolgóð í þrengingum fáum við tækifæri til að þroska enn betur með okkur eiginleika eins og auðmýkt, hlýðni og þolgæði. (5. Mós. 8:16; Hebr. 5:8; Jak. 1:2, 3) Við lærum líka að treysta á Jehóva og loforð hans og leita hælis hjá honum. — Orðskv. 18:10.
5 Við gerum okkur grein fyrir að erfiðleikar okkar taka enda. (2. Kor. 4:17, 18) Þeir gefa okkur tækifæri til að sýna hve heitt við elskum Jehóva. Með því að standa af okkur hinar ýmsu prófraunir getum við veitt svar við ásökunum Satans. Þess vegna gefumst við ekki upp. „Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins.“ — Jak. 1:12.