NÁMSGREIN 18
Ljúkum hlaupinu
„Ég hef lokið hlaupinu.“ – 2. TÍM. 4:7.
SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð
YFIRLITa
1. Hvað verðum við öll að gera?
MYNDIR þú vilja taka þátt í kapphlaupi sem þú vissir að væri erfitt ef þú værir slappur eða þreyttur? Líklega ekki. En Páll postuli sagði samt að allir kristnir menn væru í kapphlaupi. (Hebr. 12:1) Og við verðum að halda út allt til enda ef við viljum hljóta launin sem Jehóva býður okkur. Það á við um okkur öll hvort sem við erum ung eða gömul, kraftmikil eða þreytt. – Matt. 24:13.
2. Hvers vegna gat Páll talað óhikað eins og sjá má af 2. Tímóteusarbréfi 4:7, 8?
2 Páll gat talað óhikað vegna þess að hann hafði sjálfur „lokið hlaupinu“. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:7, 8.) En hvaða kapphlaup var Páll að tala um?
HVAÐA KAPPHLAUP ER UM AÐ RÆÐA?
3. Hvaða kapphlaup talaði Páll um?
3 Páll tók stundum dæmi úr leikunum í Grikklandi til forna til að kenna mikilvæg atriði. (1. Kor. 9:25–27; 2. Tím. 2:5) Hann líkti lífi kristins manns gjarnan við kapphlaup. (1. Kor. 9:24; Gal. 2:2, neðanmáls; Fil. 2:16) Kristinn maður byrjar í þessu „kapphlaupi“ þegar hann vígir sig Jehóva og lætur skírast. (1. Pét. 3:21) Hann kemst í mark þegar Jehóva launar honum með eilífu lífi. – Matt. 25:31–34, 46; 2. Tím. 4:8.
4. Hvað skoðum við í þessari grein?
4 Það er ýmislegt líkt með langhlaupi og kristnu líferni. Skoðum þrennt. Í fyrsta lagi þurfum við að fylgja réttu brautinni. Í öðru lagi þurfum við að einbeita okkur að endamarkinu. Og í þriðja lagi þurfum við að yfirstíga hindranir á leiðinni.
FYLGJUM RÉTTU BRAUTINNI
5. Hvaða braut verðum við að fylgja og hvers vegna?
5 Til að geta hlotið verðlaun í bókstaflegu kapphlaupi þurfa hlaupararnir að fylgja brautinni sem skipuleggjendur hlaupsins hafa valið. Eins verðum við að fylgja kristinni lífsstefnu ef við viljum hljóta eilíft líf. (Post. 20:24; 1. Pét. 2:21) En Satan og þeir sem fylgja fordæmi hans vilja að við tökum aðra ákvörðun. Þeir vilja að við ,hlaupum með þeim‘. (1. Pét. 4:4) Þeir gera grín að lífsstefnu okkar og segja að sú braut sem þeir eru á sé betri og leiði til frelsis. En þeir hafa rangt fyrir sér. – 2. Pét. 2:19.
6. Hvað lærum við af reynslu Brians?
6 Þeir sem hlaupa með þeim sem stjórnast af heimi Satans komast fljótt að því að brautin sem þeir hafa valið leiðir ekki til frelsis heldur leiðir hún til þrælkunar. (Rómv. 6:16) Tökum reynslu Brians sem dæmi. Foreldrar hans hvöttu hann til að fylgja kristinni lífsstefnu. En þegar hann var unglingur fór hann að efast um að sú braut myndi veita sér hamingju. Brian ákvað að hlaupa með þeim sem lifa eftir mælikvarða Satans. „Ég gerði mér alls enga grein fyrir að ég yrði þræll fíknar út af þessu svokallaða frelsi sem ég þráði,“ segir hann. „Með tímanum fór ég að neyta fíkniefna, misnota áfengi og lifa siðlausu lífi. Á árunum þar á eftir byrjaði ég að fikta við harðari fíkniefni og ánetjaðist mörgum þeirra ... ég fór að selja fíkniefni til að geta viðhaldið neyslunni.“ Að lokum ákvað Brian að lifa eftir mælikvarða Jehóva. Hann breytti um lífsstefnu og lét skírast árið 2001. Núna fylgir hann kristinni lífsstefnu og er raunverulega hamingjusamur.b
7. Hvaða tvo vegi er um að velja samkvæmt Matteusi 7:13, 14?
7 Það er ákaflega mikilvægt að við veljum réttu brautina. Satan vill að við hættum öll að hlaupa eftir mjóa veginum sem „liggur til lífsins“ og förum yfir á breiða veginn sem flestir í heiminum eru á. Sá vegur er vinsæll og það er auðveldara að fara hann. En hann „liggur til tortímingar“. (Lestu Matteus 7:13, 14.) Við verðum að treysta Jehóva og hlusta á hann til að halda okkur á rétta veginum og láta ekki leiða okkur afvega.
VERTU EINBEITTUR Í HLAUPINU
8. Hvað gerir hlaupari ef hann hrasar?
8 Keppendur í langhlaupi horfa á veginn fyrir framan sig til að hrasa ekki. En þeir gætu samt stigið í holu eða hrasað um aðra keppendur. Ef þeir detta standa þeir á fætur aftur og halda áfram að hlaupa. Þeir einbeita sér ekki fyrst og fremst að því sem varð til þess að þeir hrösuðu heldur að endamarkinu og verðlaununum sem þeir vonast til að vinna.
9. Hvað ættum við að gera ef við hrösum?
9 Vera má að við hrösum oft í orðum eða verkum í hlaupinu sem við tökum þátt í. Og þeir sem hlaupa með okkur geta gert mistök sem særa okkur. Það ætti ekki að koma okkur á óvart. Við erum öll ófullkomin og hlaupum öll eftir sama mjóa veginum til lífsins. Við komumst þess vegna ekki hjá því að „rekast utan í“ hvert annað af og til. Páll viðurkenndi að við myndum stundum gefa hvert öðru „ástæðu til að kvarta“. (Kól. 3:13) En við skulum einbeita okkur að laununum fram undan í stað þess að einbeita okkur að því sem varð til þess að við hrösuðum. Ef við hrösum skulum við ákveða að standa upp aftur og halda áfram að hlaupa. Ef við verðum reið og bitur og neitum að standa á fætur aftur náum við ekki endamarkinu og hljótum ekki launin. Auk þess er líklegt að við verðum hindrun fyrir aðra sem eru að reyna að hlaupa eftir mjóa veginum til lífsins.
10. Hvernig getum við komist hjá því að verða „til þess að bróðir hrasi“?
10 Önnur leið til að verða ekki „til þess að bróðir hrasi“ er að láta að óskum hans þegar það er hægt í stað þess að krefjast réttar okkar. (Rómv. 14:13, 19–21; 1. Kor. 8:9, 13) Að þessu leyti er mikilvægt að við séum ekki eins og hlauparar í bókstaflegu hlaupi. Þeir keppa hver á móti öðrum og reyna allir að hljóta verðlaunin bara fyrir sig. Hlaupararnir hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Þeir reyna því kannski að troða sér fram fyrir aðra. Við erum aftur á móti ekki að keppa hvert við annað. (Gal. 5:26; 6:4) Markmið okkar er að hjálpa sem flestum að ná endamarkinu með okkur og hljóta eilíft líf að launum. Við reynum því að fara eftir innblásnum ráðum Páls: „Hugsið ekki aðeins um ykkar eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Fil. 2:4.
11. Hverju einbeitir hlaupari sér að og hvers vegna?
11 Hlauparar í bókstaflegu kapphlaupi horfa ekki bara á veginn fyrir framan sig heldur einbeita sér að endamarkinu. Þó að þeir sjái ekki endamarkið berum augum geta þeir séð fyrir sér að ná því og hljóta verðlaunin. Að hafa verðlaunin skýrt í huga hvetur þá áfram.
12. Hvað hefur Jehóva gert í góðvild sinni?
12 Jehóva hefur í góðvild sinni tryggt þjónum sínum laun fyrir að ljúka hlaupinu sem við tökum þátt í – eilíft líf á himni eða í paradís á jörð. Í Biblíunni er þessum launum lýst til að við getum ímyndað okkur hve dásamlegt líf okkar verður. Ef við höldum voninni lifandi í huga okkar og hjarta verðum við staðráðnari í að halda út.
HLAUPTU ÞRÁTT FYRIR HINDRANIR
13. Hvað höfum við fram yfir keppendur í bókstaflegu hlaupi?
13 Hlaupararnir í leikunum í Grikklandi þurftu að yfirstíga hindranir eins og þreytu og sársauka. En þeir gátu aðeins reitt sig á þjálfunina sem þeir höfðu fengið og eigin styrk. Við fáum líka þjálfun í því hvernig við eigum að hlaupa í kapphlaupinu sem við erum í. En við höfum eitthvað fram yfir þessa hlaupara. Við höfum aðgang að ótakmörkuðum mætti. Jehóva lofar að þjálfa okkur og styrkja ef við reiðum okkur á hann. – 1. Pét. 5:10.
14. Hvernig hjálpar 2. Korintubréf 12:9, 10 okkur að yfirstíga hindranir?
14 Páll þurfti að yfirstíga margar hindranir. Auk þess að vera smánaður og ofsóttur fannst honum hann stundum veikburða og hann þurfti að takast á við það sem hann kallaði ,þyrni í holdinu‘. (2. Kor. 12:7) En í stað þess að líta á þessar hindranir sem ástæðu til að gefast upp sá hann þær sem tækifæri til að reiða sig á Jehóva. (Lestu 2. Korintubréf 12:9, 10.) Vegna þess að Páll leit svona á málin hjálpaði Jehóva honum í gegnum allar prófraunirnar.
15. Hverju finnum við fyrir ef við líkjum eftir Páli?
15 Við getum einnig verið smánuð eða ofsótt vegna trúar okkar. Kannski þurfum við líka að glíma við heilsuvandamál eða erum úrvinda. En ef við líkjum eftir Páli geta þessar hindranir verið tækifæri til að finna fyrir kærleiksríkum stuðningi Jehóva.
16. Hvað geturðu gert þó að þú sért veikburða?
16 Ert þú rúmfastur eða bundinn við hjólastól? Ertu slæmur í hnjánum eða með lélega sjón? Geturðu þá hlaupið með þeim sem eru ungir og hraustir? Svo sannarlega! Margir eldri og veikburða hlaupa eftir veginum til lífsins. Þeir geta það ekki í eigin krafti. Þeir fá styrk frá Jehóva með því að hlusta á samkomur í gegnum síma eða horfa á þær í streymi. Og þeir taka þátt í að gera fólk að lærisveinum með því að boða læknum, hjúkrunarfræðingum og ættingjum trúna.
17. Hvernig lítur Jehóva á þá sem glíma við heilsuleysi?
17 Þú skalt aldrei láta vanmáttarkennd vegna líkamlegra takmarka þinna sannfæra þig um að þú sért of veikburða til að hlaupa eftir veginum til lífsins. Jehóva elskar þig fyrir trú þína á hann og allt sem þú hefur gert í þjónustu hans. Þú þarft meira á hjálp hans að halda núna en nokkurn tíma fyrr og hann mun ekki bregðast þér. (Sálm. 9:11) Hann nálgast þig öllu heldur enn meira. Systir ein sem glímir við heilsuleysi segir: „Eftir því sem heilsunni hrakar finnst mér ég sjaldnar hafa tækifæri til að boða öðrum trúna. En ég veit að það litla sem ég geri gleður hjarta Jehóva og það veitir mér ánægju.“ Mundu að þú ert ekki einn þegar þér líður illa. Hugsaðu um fordæmi Páls og minntu þig á hvetjandi orð hans: „Ég gleðst því yfir að mega þola veikleika ... Þegar ég er veikburða er ég sterkur.“ – 2. Kor. 12:10.
18. Hvaða sérstaklega erfiðu hindrun standa sumir frammi fyrir?
18 Sumir þeirra sem hlaupa eftir veginum til lífsins standa frammi fyrir annars konar hindrun. Þeir glíma við persónuleg vandamál sem aðrir sjá ekki og skilja jafnvel ekki. Þeir gætu til dæmis verið að glíma við þunglyndi eða mikinn kvíða. Hvers vegna er hindrunin sem þessir kæru bræður og systur standa frammi fyrir sérstaklega erfið? Þegar einhver er handleggsbrotinn eða bundinn við hjólastól sjá allir að hann glímir við vandamál og finna sig kannski knúna til að hjálpa. En það sést ekki alltaf utan á þeim sem glíma við tilfinningaleg eða geðræn vandamál. Þjáning þeirra er alveg jafn raunveruleg og þjáning einhvers sem er beinbrotinn en þeir fá kannski ekki sömu samúð frá öðrum.
19. Hvað lærum við af fordæmi Mefíbósets?
19 Ef þú ert að glíma við takmörk og þér finnst aðrir ekki skilja þig gæti frásagan af Mefíbóset hughreyst þig. (2. Sam. 4:4) Hann var lamaður og auk þess dæmdi Davíð konungur hann ranglega. Það sem kom fyrir Mefíbóset var ekki honum að kenna. En hann varð ekki neikvæður heldur kunni að meta allt það góða í lífinu. Hann var þakkátur fyrir þá góðvild sem Davíð hafði sýnt honum. (2. Sam. 9:6–10) Mefíbóset sá því heildarmyndina þegar Davíð dæmdi hann ranglega. Hann leyfði mistökum Davíðs ekki að gera sig bitran. Og hann kenndi Jehóva ekki um það sem Davíð gerði. Mefíbóset einbeitti sér að því sem hann gat gert til að styðja smurðan konung Jehóva. (2. Sam. 16:1–4; 19:25–31) Jehóva lét skrá frábært fordæmi Mefíbósets í Biblíuna til að við gætum haft gagn af því. – Rómv. 15:4.
20. Hvaða áhrif getur kvíði haft á suma en hvað geta þeir verið vissir um?
20 Sum trúsystkina okkar glíma við alvarlegan kvíða og eru því mjög feimin og stressuð innan um annað fólk. Þeim finnst kannski erfitt að vera innan um margt fólk en halda samt áfram að sækja samkomur og mót. Þeim finnst erfitt að tala við ókunnuga en tala samt við aðra í boðuninni. Ef þér líður þannig máttu vera viss um að þú ert ekki einn um það. Mörgum líður eins og þér. Mundu að Jehóva er ánægður með það sem þú leggur þig einlæglega fram um að gera. Þú hefur ekki gefist upp og það er merki þess að hann blessar þig og gefur þér styrkinn sem þú þarft.c (Fil. 4:6, 7; 1. Pét. 5:7) Ef þú þjónar Jehóva þrátt fyrir líkamleg eða tilfinningaleg takmörk geturðu verið viss um að Jehóva hefur velþóknun á þér.
21. Hvað getum við öll gert með hjálp Jehóva?
21 Sem betur fer er munur á bókstaflegu kapphlaupi og kapphlaupinu sem Páll talar um. Í bókstaflegu kapphlaupi á biblíutímanum vann aðeins einn keppandi verðlaunin. Aftur á móti hljóta allir eilíft líf að launum sem halda trúfastir út í kapphlaupinu um lífið. (Jóh. 3:16) Og í bókstaflega hlaupinu þurftu allir keppendurnir að vera líkamlega hraustir til að eiga möguleika á að vinna. Mörg okkar glíma hins vegar við líkamleg takmörk en við höldum samt út. (2. Kor. 4:16) Með hjálp Jehóva munum við öll ljúka hlaupinu.
SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin
a Margir þjóna Jehóva nú á dögum glíma við fylgikvilla ellinnar og sumir þurfa að þola sjúkdóma sem draga úr þeim þrótt. Og við finnum öll fyrir þreytu af og til. Það getur því virst yfirþyrmandi tilhugsun að taka þátt í kapphlaupi. Í þessari grein skoðum við hvernig við getum öll hlaupið þolgóð og unnið í kapphlaupinu um lífið sem Páll postuli talaði um.
b Sjá greinina „Biblían breytir lífi fólks“ í Varðturninum 1. janúar 2013.
c Horfðu á mánaðarþáttinn fyrir maí 2019 á jw.org® til að fá fleiri gagnleg ráð um hvernig má takast á við kvíða. Þú getur fundið hann undir flipanum BÓKASAFN > SJÓNVARP VOTTA JEHÓVA. Þar eru einnig frásögur af fólki sem tekst vel í glímunni við kvíða.
d MYND: Að vera upptekinn í boðuninni hjálpar þessum eldri bróður að halda sér á réttu brautinni.
e MYND: Við getum orðið til þess að aðrir hrasi með því að ýta undir að þeir drekki meira áfengi eða hafa ekki hemil á neyslu okkar.
f MYND: Bróðir sem er rúmfastur á spítala heldur áfram að hlaupa í kapphlaupinu um lífið með því að boða þeim trúna sem annast hann.