NÁMSGREIN 34
Hvernig finnum við að Jehóva er góður?
„Finnið og sjáið að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“ – SÁLM. 34:9.
SÖNGUR 117 Endurspeglum gæsku Guðs
YFIRLITa
1, 2. Hvernig getum við kynnst því að Jehóva er góður samkvæmt Sálmi 34:9?
ÍMYNDAÐU þér að þér sé boðinn matur sem þú hefur aldrei smakkað áður. Þú getur fengið að vita eitthvað um hann með því að horfa á hann, finna lyktina af honum, fá uppskriftina eða spyrja aðra hvað þeim finnst um hann. En þú þarft að smakka matinn sjálfur til að vita fyrir víst hvort þér finnst hann góður.
2 Við getum fræðst um að Jehóva er góður með því að lesa Biblíuna og ritin okkar, og einnig með því að hlusta á aðra segja frá því hvernig Jehóva hefur blessað þá. En við skiljum ekki í raun hve góður Jehóva er fyrr en við finnum sjálf fyrir gæsku hans. (Lestu Sálm 34:9.) Tökum dæmi um hvernig við getum gert það. Okkur langar kannski að þjóna Jehóva í fullu starfi en til að geta náð því marki þurfum við að einfalda líf okkar. Við höfum kannski oft lesið loforð Jesú um að Jehóva sjái okkur fyrir öllu sem við þurfum ef við setjum ríki Guðs í fyrsta sæti en aldrei upplifað það á eigin skinni. (Matt. 6:33) En vegna þess að við trúum loforði Jesú drögum við úr útgjöldum, minnkum við okkur vinnuna og einbeitum okkur að þjónustunni. Og þegar við gerum það lærum við af eigin reynslu að Jehóva sér okkur virkilega fyrir því sem við þurfum. Við ,finnum‘ sjálf hve góður Jehóva er.
3. Hverjir njóta góðs af gæsku Jehóva, samanber Sálmi 16:1, 2?
3 Jehóva er „öllum góður“, jafnvel þeim sem þekkja hann ekki. (Sálm. 145:9; Matt. 5:45) En hann blessar sérstaklega þá sem elska hann og þjóna honum heils hugar. (Lestu Sálm 16:1, 2.) Skoðum nokkur dæmi um það góða sem Jehóva hefur gert fyrir okkur.
4. Hvernig sýnir Jehóva þeim gæsku sem nálgast hann?
4 Í hvert sinn sem við förum eftir því sem Jehóva kennir okkur finnum við hve góð áhrif það hefur. Þegar við kynntumst honum og fórum að elska hann hjálpaði hann okkur að sigrast á hugsunarhætti og verkum sem gerðu okkur fjarlæg honum áður. (Kól. 1:21) Og þegar við vígðum okkur Jehóva og létum skírast fundum við enn betur fyrir því hve góður hann er þar sem hann gaf okkur góða samvisku og náið samband við sig. – 1. Pét. 3:21.
5. Hvernig finnum við fyrir því í boðuninni að Jehóva er góður?
5 Við finnum líka fyrir því að Jehóva er góður þegar við boðum trúna. Ertu feiminn? Margir þjónar Jehóva eru það. Áður en þú varðst vottur hefði þér kannski aldrei dottið í hug að þú myndir banka á dyrnar hjá ókunnugu fólki til að segja því frá óvinsælum boðskap. En núna gerirðu það reglulega. Og það sem meira er, Jehóva hefur hjálpað þér að hafa gaman að boðuninni. Þú hefur fundið fyrir stuðningi Jehóva á ýmsa vegu. Hann hefur hjálpað þér að halda rónni þegar einhver hefur verið ruddalegur við þig. Hann hefur hjálpað þér að muna eftir rétta ritningarstaðnum til að sýna áhugasömum húsráðanda. Og hann hefur gefið þér styrk til að halda áfram þegar fáir á svæðinu sýndu áhuga. – Jer. 20:7–9.
6. Hvernig ber þjálfunin sem Jehóva gefur okkur merki um að hann sé góður?
6 Jehóva hefur líka sýnt okkur að hann er góður með því að þjálfa okkur í boðuninni. (Jóh. 6:45) Á samkomum okkar í miðri viku sjáum við myndbönd með vönduðum kynningum og erum hvött til að nota þær í boðuninni. Við gætum til að byrja með verið svolítið stressuð að prófa eitthvað nýtt, en þegar við gerum það komumst við kannski að því að það virkar mjög vel á svæðinu. Á samkomum og mótum erum við líka hvött til að prófa boðunaraðferðir sem við höfum kannski ekki reynt áður. Þá þurfum við aftur að fara út fyrir þægindarammann, en þegar við gerum það gefum við Jehóva eitthvað til að blessa. Skoðum nú nokkur dæmi um það hvernig Jehóva blessar okkur þegar við prófum nýjar leiðir til að gefa honum okkar besta, sama hverjar aðstæður okkar eru. Skoðum síðan hvernig við getum aukið þjónustu okkar.
JEHÓVA BLESSAR ÞÁ SEM LEGGJA TRAUST SITT Á HANN
7. Hvaða blessun hljótum við ef við leggjum okkur fram við að auka þjónustu okkar?
7 Við verðum enn nánari Jehóva. Tökum sem dæmi öldung að nafni Samuelb sem þjónar í Kólumbíu ásamt konu sinni. Þau nutu þess að vera brautryðjendur í heimasöfnuði sínum en vildu auka þjónustu sína og hjálpa til í söfnuði þar sem var meiri þörf. Þau þurftu að færa ýmsar fórnir til að ná því markmiði. „Við fórum eftir því sem segir í Matteusi 6:33 og hættum að kaupa óþarfa,“ segir Samuel. „En erfiðast var að flytja úr íbúðinni okkar. Hún hentaði okkur fullkomlega og við áttum hana skuldlausa.“ Í nýja verkefninu komust þau að því að þau gátu lifað á einum sjötta af því sem þau þénuðu áður. Samuel segir: „Við höfum séð hvernig Jehóva leiðbeinir okkur og svarar bænum okkar. Við finnum fyrir velþóknun hans og kærleika á vegu sem við höfum aldrei upplifað áður.“ Getur þú aukið þjónustu þína á einhvern hátt? Ef þú gerir það máttu vera viss um að þú verður nánari Jehóva og hann sér þér fyrir því sem þú þarft. – Sálm. 18:26.
8. Hvað lærum við af Ívani og Víktoríju?
8 Við höfum gleði af þjónustunni. Taktu eftir því sem Ívan og Víktoríja, brautryðjendahjón í Kirgistan, segja. Þau lifðu einföldu lífi til að geta boðið sig fram í hvaða verkefni sem er, þar á meðal byggingarvinnu. Ívan segir: „Við gerðum okkar besta í hverju verkefni. Þó að við værum þreytt í lok dags fundum við fyrir innri friði og ánægju því að við vissum að við höfðum notað krafta okkar í að þjóna Jehóva. Við glöddumst líka yfir vinunum og góðu minningunum sem við eignuðumst.“ – Mark. 10:29, 30.
9. Hvað hefur systir ein gert til að auka þjónustu sína þrátt fyrir erfiðar aðstæður, og með hvaða árangri?
9 Við njótum gleði í þjónustu Jehóva, jafnvel við erfiðar aðstæður. Mirreh, fullorðin ekkja í Vestur-Afríku, lét til dæmis af störfum í heilbrigðisþjónustu og byrjaði sem brautryðjandi. Mirreh er með slæma liðagigt og getur aðeins verið klukkustund í einu í boðuninni hús úr húsi. En hún getur varið meiri tíma í boðun meðal almennings. Og hún fer í margar endurheimsóknir og heldur mörg biblíunámskeið, stundum í gegnum síma. Hvað hvatti Mirreh til að gera meira fyrir Jehóva? „Hjarta mitt er yfirfullt af kærleika til Jehóva og Jesú Krists. Og ég bið Jehóva oft að hjálpa mér að gera eins mikið og ég get í þjónustu hans.“ – Matt. 22:36, 37.
10. Hvað veitir Jehóva þeim sem leggja sig fram um að gera meira eins og fram kemur í 1. Pétursbréfi 5:10?
10 Við fáum frekari þjálfun hjá Jehóva. Kenny, sem er brautryðjandi á Máritíus, komst að raun um það. Þegar hann kynntist sannleikanum hætti hann í háskóla, lét skírast og byrjaði að þjóna Jehóva í fullu starfi. Hann segir: „Ég reyni að fylgja fordæmi Jesaja spámanns sem sagði: ,Hér er ég. Send þú mig.‘“ (Jes. 6:8) Kenny hefur unnið við þó nokkur byggingarverkefni og hann hefur líka hjálpað til við að þýða biblíutengd rit á móðurmál sitt. „Ég hef fengið þjálfun í því sem ég hef þurft að kunna til að sinna verkefnum mínum,“ segir Kenny. En hann lærði ekki bara þetta faglega. Hann bætir við: „Ég kynntist takmörkum mínum og komst að því hvaða eiginleika ég þarf að rækta með mér til að þjóna Jehóva og trúsystkinum mínum betur.“ (Lestu 1. Pétursbréf 5:10.) Við hvetjum þig til að skoða aðstæður þínar og athuga hvort þú getir boðið þig fram til að fá frekari þjálfun hjá Jehóva.
11. Hvað lögðu systur í Suður-Kóreu á sig til að taka þátt í boðuninni og með hvaða árangri? (Sjá forsíðumynd.)
11 Reyndir vottar njóta líka góðs af þjálfun þegar þeir prófa nýjar boðunaraðferðir. Öldungar í söfnuði í Suður-Kóreu sögðu í COVID-19 faraldrinum: „Sumir sem gátu ekki tekið mikinn þátt í boðuninni vegna heilsunnar gera það núna í gegnum fjarfundabúnað. Þrjár systur á níræðisaldri lærðu á tölvu og taka núna næstum daglega þátt í boðuninni.“ (Sálm. 92:15, 16) Langar þig að auka þjónustuna og finna enn betur fyrir því að Jehóva er góður? Skoðum nokkrar tillögur um það sem þú getur gert til að ná því marki.
HVERNIG GETURÐU SÓTT FRAM?
12. Hverju lofar Jehóva þeim sem reiða sig á hann?
12 Lærðu að reiða þig á Jehóva. Hann lofar að hella yfir okkur blessun þegar við treystum honum og gerum okkar besta fyrir hann. (Mal. 3:10) Systir í Kólumbíu sem heitir Fabiola fann hvernig Jehóva uppfyllti þetta loforð. Hana langaði að verða brautryðjandi stuttu eftir að hún lét skírast en eiginmaður hennar og þrjú börn treystu á tekjur hennar. Þegar hún gat farið á eftirlaun bað hún Jehóva innilega um hjálp. Hún segir: „Það er venjulega langt ferli að sækja um eftirlaun en beiðni mín var samþykkt á aðeins einum mánuði. Það var kraftaverki líkast!“ Tveim mánuðum síðar byrjaði hún sem brautryðjandi. Nú er hún á áttræðisaldri og hefur verið brautryðjandi í meira en 20 ár. Á þeim tíma hefur hún hjálpað átta einstaklingum til skírnar. Hún segir: „Stundum finnst mér ég veikburða en Jehóva hjálpar mér á hverjum degi til að ég geti haldið áfram að vera brautryðjandi.“
13, 14. Hvaða fordæmi geta hjálpað okkur að sækja fram og reiða okkur á Jehóva?
13 Lærðu af fordæmi þeirra sem reiddu sig á Jehóva. Í Biblíunni eru fjölmörg dæmi um fólk sem lagði hart að sér í þjónustunni við Jehóva. Í mörgum tilfellum þurftu þessir þjónar hans að stíga fyrsta skrefið áður en þeir fengu sérstaka blessun frá honum. Jehóva blessaði til dæmis ekki Abraham fyrr en eftir að hann yfirgaf heimili sitt „þótt hann vissi ekki hvert leiðin lá“. (Hebr. 11:8) Það var ekki fyrr en eftir að Jakob glímdi við engilinn sem hann fékk sérstaka blessun. (1. Mós. 32:24–30) Og þegar Ísraelsþjóðin var í þann mund að koma inn í fyrirheitna landið var það ekki fyrr en eftir að prestarnir stigu fæti í Jórdan að fólkið gat gengið yfir. – Jós. 3:14–16.
14 Þú getur einnig lært af fordæmi votta nú á dögum sem hafa sótt fram og reitt sig á Jehóva. Bróðir sem heitir Payton og Diana konan hans höfðu til dæmis gaman að því að lesa um bræður og systur sem hafa aukið þjónustu sína við Jehóva, eins og þeim sem sagt er frá í greinaröðinni „Þau buðu sig fúslega fram“.c Payton segir: „Þegar við lásum frásögur þeirra fannst okkur eins og við værum að horfa á einhvern njóta ljúffengrar máltíðar. Því lengur sem við horfðum því meira langaði okkur til að ,finna og sjá að Jehóva er góður‘.“ Seinna fluttu Payton og Diana þangað sem þörfin var meiri. Hefurðu lesið þessar greinar? Og hefurðu horft á myndböndin Boðun fagnaðarerindisins á einangruðu svæði – í Ástralíu og Boðun fagnaðarerindisins á einangruðu svæði – Írland sem finna má á jw.org? Þetta efni getur hjálpað þér að koma auga á leiðir til að auka þjónustu þína.
15. Hvernig getur rétti félagsskapurinn hjálpað okkur?
15 Veldu rétta félagsskapinn. Okkur langar frekar að smakka nýjan rétt ef við erum með einhverjum sem finnst hann góður. Á sama hátt erum við líklegri til að reyna að auka þjónustu okkar við Jehóva ef við umgöngumst þá sem láta líf sitt snúast um þjónustuna við hann. Hjónin Kent og Veronica komust að því. „Fjölskylda okkar og vinir hvöttu okkur til að prófa ýmsa þætti þjónustunnar,“ segir Kent. „Við tókum eftir að með því að umgangast þá sem einbeita sér fyrst og fremst að ríki Guðs fengum við sjálfstraust til að prófa eitthvað nýtt.“ Kent og Veronica eru núna sérbrautryðjendur í Serbíu.
16. Hvers vegna ættum við að vera fús til að færa fórnir eins og sjá má af dæmisögu Jesú í Lúkasi 12:16–21?
16 Færðu fórnir fyrir Jehóva. Við þurfum ekki að fórna öllum þægindum til að þóknast Jehóva. (Préd. 5:18, 19) Ef við höldum hins vegar aftur af okkur að gera meira í þjónustunni við Guð til að þurfa ekki að færa fórnir gætum við gert sömu mistök og maðurinn í dæmisögu Jesú sem kom sér þægilega fyrir en hugsaði ekki um Guð. (Lestu Lúkas 12:16–21.) Bróðir sem heitir Christian og býr í Frakklandi segir: „Ég gaf Jehóva og fjölskyldu minni ekki það besta af tíma mínum og orku.“ Hann og konan hans ákváðu að gerast brautryðjendur. En til að ná því markmiði þurftu þau bæði að segja upp vinnunni. Þau stofnuðu lítið ræstingarfyrirtæki til að sjá fyrir sér og lærðu að láta sér nægja minna. Var fórnin þess virði? Christian segir: „Við höfum meiri ánægju af boðuninni núna og njótum þess að fylgjast með biblíunemendum og öðrum áhugasömum kynnast Jehóva.“
17. Hvað getur komið í veg fyrir að við prófum eitthvað nýtt í boðuninni?
17 Vertu fús til að prófa nýjar boðunaraðferðir. (Post. 17:16, 17; 20:20, 21) Shirley, sem er brautryðjandi í Bandaríkjunum, þurfti að aðlaga boðunaraðferðir sínar í COVID-19 faraldrinum. Til að byrja með hikaði hún við að boða trúna í síma. En eftir að hún fékk þjálfun í farandhirðisvikunni fór hún að taka reglulega þátt í boðuninni með þessum hætti. Hún segir: „Það var ógnvekjandi til að byrja með en núna hef ég mjög gaman af því. Við náum til fleira fólks en við gerðum þegar við fórum hús úr húsi.“
18. Hvað getur hjálpað okkur að takast á við erfiðleika þegar við reynum að auka þjónustu okkar?
18 Gerðu áætlun og fylgdu henni. Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum biðjum við til Guðs um hjálp og hugsum um hvernig við getum tekist á við erfiðleikana. (Orðskv. 3:21) Sonia er brautryðjandi í sígaunatungumálshópi í Evrópu. Hún segir: „Mér finnst gott að skrifa áætlanir mínar niður á blað og hafa blaðið síðan þar sem ég get auðveldlega séð það. Ég er með teikningu af gatnamótum á kommóðunni minni. Þegar ég þarf að taka ákvörðun horfi ég á gatnamótin og hugsa um í hvaða átt ákvörðunin muni leiða mig.“ Sonia reynir að hafa jákvætt viðhorf til erfiðleikanna sem hún mætir. Hún segir: „Nýjar aðstæður geta verið eins og veggur sem stendur í vegi fyrir mér eða eins og brú sem hjálpar mér – það fer allt eftir viðhorfi mínu.“
19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
19 Jehóva blessar okkur á marga vegu. Við getum sýnt hve mikils við metum það með því að gera allt sem við getum til að lofa hann. (Hebr. 13:15) Við getum meðal annars leitað nýrra leiða til að auka þjónustu okkar. Þá blessar Jehóva okkur jafnvel enn meira. Reynum á hverjum degi að leita leiða til að ,finna og sjá að Drottinn er góður‘. Þá getum við sagt eins og Jesús: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og ljúka verkinu sem hann fól mér.“ – Jóh. 4:34.
SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður
a Allt gott kemur frá Jehóva. Hann gerir öllum gott, jafnvel hinum illu. En hann hefur sérstaka ánægju af að gera trúföstum tilbiðjendum sínum gott. Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva sýnir þjónum sínum gæsku. Við skoðum einnig hvernig þeir sem auka þjónustu sína finna stundum á sérstakan hátt að Jehóva er góður.
b Sumum nöfnum hefur verið breytt.
c Þessi greinaröð kom áður út í Varðturninum en er nú að finna á jw.org. Farðu inn á UM OKKUR > REYNSLUSÖGUR > AÐ NÁ MARKMIÐUM Í TRÚNNI.