NÁMSGREIN 42
Höldum fast í sannleikann með sannfæringu
„Sannreynið allt, haldið fast við það sem er gott.“ – 1. ÞESS. 5:21.
SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina
YFIRLITa
1. Hvers vegna er margt fólk ráðvillt?
FJÖLMARGIR trúflokkar teljast kristnir og álíta sig tilbiðja Guð á þann hátt sem er honum þóknanlegur. Það er engin furða að margt fólk skuli vera ráðvillt. Það spyr: „Er ein sönn trú eða eru öll trúarbrögð þóknanleg Guði?“ Erum við algerlega sannfærð um að það sem við kennum sé sannleikurinn og að sú tilbeiðsla sem Vottar Jehóva iðka sé Jehóva þóknanleg? Er hægt að hafa slíka sannfæringu? Skoðum sönnunargögnin.
2. Hvers vegna var Páll postuli viss um að það sem hann trúði væri sannleikurinn, eins og fram kemur í 1. Þessaloníkubréfi 1:5?
2 Páll postuli var algerlega viss um að það sem hann trúði væri sannleikurinn. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 1:5.) Sú fullvissa var ekki byggð á tilfinningu. Hann rannsakaði orð Guðs vandlega. Hann trúði að ,öll Ritningin væri innblásin af Guði‘. (2. Tím. 3:16) Hvað leiddu rannsóknir hans í ljós? Í Biblíunni fann Páll örugga sönnun fyrir því að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías, en það var sönnun sem trúarleiðtogar Gyðinga hunsuðu. Þessir trúarhræsnarar sögðust vera fulltrúar Guðs en höfnuðu honum með verkum sínum. (Tít. 1:16) Ólíkt þeim valdi Páll ekki hvaða hluta af orði Guðs hann vildi trúa. Hann ,dró ekkert undan‘ þegar hann kenndi og heimfærði orð Guðs. – Post. 20:27.
3. Þurfum við að hafa svör við öllum spurningum okkar til að vera alveg sannfærð um að við höfum sannleikann? (Sjá einnig rammann „Verk Jehóva og hugsanir eru fleiri en tölu verður á komið“.)
3 Sumum finnst að sönn trú ætti að geta svarað öllum spurningum, jafnvel þeim sem er ekki svarað í Biblíunni. En er það raunhæft? Hugleiðum fordæmi Páls. Hann hvatti trúsystkini sín til að ,sannreyna allt‘, en hann viðurkenndi líka að það væri margt sem hann skildi ekki. (1. Þess. 5:21) „Þekking okkar er takmörkuð,“ skrifaði hann og bætti við: ,Við sjáum ógreinilegar útlínur eins og í málmspegli.‘ (1. Kor. 13:9, 12) Páll skildi ekki allt frekar en við. En hann skildi sannleikann um Jehóva í grundvallaratriðum. Hann vissi nógu mikið til að vera fullviss um að það sem hann trúði væri sannleikurinn.
4. Hvernig getum við styrkt þá sannfæringu okkar að við höfum fundið sannleikann og hvað skoðum við varðandi sannkristna menn?
4 Ein leið til að styrkja sannfæringu okkar um að við höfum fundið sannleikann er að bera það sem Jesús sagði um sanna tilbeiðslu saman við tilbeiðslu Votta Jehóva nú á dögum. Í þessari grein munum við sjá að sannkristnir menn (1) hafna skurðgoðadýrkun, (2) virða nafn Jehóva, (3) elska sannleikann og (4) elska hver annan innilega.
VIÐ HÖFNUM SKURÐGOÐADÝRKUN
5. Hvað kenndi Jesús varðandi viðeigandi tilbeiðslu á Guði og hvernig getum við farið eftir því?
5 Jesús elskar Jehóva innilega og þess vegna hefur hann alltaf tilbeðið Jehóva einan, bæði þegar hann var á jörðu og einnig á himni. (Lúk. 4:8) Hann kenndi lærisveinum sínum að gera slíkt hið sama. Hvorki Jesús né trúfastir lærisveinar hans notuðu nokkurn tíma líkneski í tilbeiðslunni. Þar sem Guð er andi kemst ekkert sem menn geta upphugsað nálægt því að gefa mynd af dýrð Jehóva. (Jes. 46:5) En hvað með að gera líkneski af svokölluðum dýrlingum og biðja frammi fyrir þeim? Í öðru boðorðinu sagði Jehóva: „Þú skalt ekki gera þér úthöggvið líkneski eða eftirmynd af nokkru sem er uppi á himnum eða niðri á jörðinni ... Þú skalt ekki falla fram fyrir þeim.“ (2. Mós. 20:4, 5, NW.) Þeir sem vilja þóknast Guði eiga ekki í vandræðum með að skilja þetta.
6. Hvaða fordæmi fara Vottar Jehóva eftir í tilbeiðslu sinni?
6 Veraldlegir sagnaritarar staðfesta að frumkristnir menn hafi aðeins tilbeðið Guð. Í bókinni History of the Christian Church segir til dæmis að frumkristnum mönnum „hefði þótt viðbjóðslegt“ að nota líkneski við tilbeiðsluna. Vottar Jehóva fylgja fordæmi frumkristinna manna. Við biðjum ekki frammi fyrir líkneskjum af dýrlingum eða englum, við biðjum jafnvel ekki til Jesú. Og við hyllum ekki fána eða gerum nokkuð sem fæli í sér tilbeiðslu á þjóð eða stjórn lands. Sama hvað aðrir reyna að fá okkur til að gera erum við ákveðin í að hlýða orðum Jesú: „Þú skalt tilbiðja Jehóva Guð þinn.“ – Matt. 4:10.
7. Hvaða greinilegi munur er á Vottum Jehóva og öðrum trúarbrögðum?
7 Margt fólk fylgir vinsælum trúarleiðtogum. Aðdáunin á slíkum mönnum jaðrar stundum við dýrkun. Fólk sækir kirkjur þeirra, kaupir bækur þeirra og gefur háar fjárupphæðir til þeirra eða þeirra málefna sem þeir styðja. Sumir trúa hverju orði þessara prédikara. Það er erfitt að ímynda sér þetta fólk taka betur á móti Jesú sjálfum. En þeir sem tilbiðja Guð á réttan hátt fylgja ekki mönnum. Við virðum þá sem fara með forystuna en við tökum til greina orð Jesú: „Þið eruð öll bræður og systur.“ (Matt. 23:8–10) Við dýrkum ekki menn hvort sem þeir eru trúarleiðtogar eða stjórnmálaleiðtogar og styðjum ekki málstað þeirra. Við erum hlutlaus og aðgreind frá heiminum. Að þessu leyti erum við mjög ólík öðrum trúflokkum sem álíta sig kristna. – Jóh. 18:36.
VIÐ VIRÐUM NAFN JEHÓVA
8. Hvernig vitum við að Jehóva vill að við vegsömum nafn hans og segjum öllum frá því?
8 Jesús bað eitt sinn: „Faðir, gerðu nafn þitt dýrlegt.“ Jehóva svaraði sjálfur bæninni með hárri rödd frá himni og lofaði að gera nafn sitt dýrlegt. (Jóh. 12:28) Jesús vegsamaði nafn föður síns meðan hann þjónaði hér á jörð. (Jóh. 17:26) Sannkristnu fólki finnst því heiður að nota nafn Guðs og segja öðrum frá því.
9. Hvernig sýndu kristnir menn á fyrstu öld fram á að þeir virtu nafn Guðs?
9 Stuttu eftir að kristni söfnuðurinn var stofnaður á fyrstu öld sneri Jehóva sér að þjóðunum og „valdi úr hópi þeirra fólk til að bera nafn sitt“. (Post. 15:14) Þessir frumkristnu menn voru stoltir að nota nafn Guðs og segja öðrum frá því. Þeir notuðu nafnið í boðuninni og í skrifum sínum.b Þeir reyndust vera fólk sem bar nafn Guðs. – Post. 2:14, 21.
10. Hvernig vitum við að Vottar Jehóva eru þeir einu sem kunngera nafn Guðs?
10 Eru Vottar Jehóva þeir einu sem kunngera nafn Jehóva? Hvað sýna staðreyndirnar? Margir trúarleiðtogar nú á dögum hafa gert allt sem þeir geta til að fela þá staðreynd að Guð eigi sér eiginnafn. Þeir hafa fjarlægt það úr biblíuþýðingum sínum og í sumum tilfellum er bannað að nota það í kirkjum þeirra.c Hver getur neitað því að Vottar Jehóva séu þeir einu sem gefa nafni Jehóva þá virðingu og heiður sem það á skilið? Við kunngerum nafn Guðs víðar en nokkur annar trúarhópur. Við gerum okkar allra besta til að standa undir nafni okkar, Vottar Jehóva. (Jes. 43:10–12) Við höfum prentað meira en 240 milljónir eintaka af Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Í þessari þýðingu stendur nafnið á þeim stöðum sem það hefur verið fjarlægt í öðrum þýðingum. Og við gefum út biblíutengd rit á meira en 1.000 tungumálum þar sem nafni Jehóva er haldið á lofti.
VIÐ ELSKUM SANNLEIKANN
11. Hvernig sýndu kristnir menn á fyrstu öld að þeir elskuðu sannleikann?
11 Jesús elskaði sannleikann, það er að segja sannleikann um Guð og fyrirætlun hans. Líf Jesú var í samræmi við þennan sannleika og hann sagði öðrum frá honum. (Jóh. 18:37) Sannir fylgjendur Jesú elskuðu líka sannleikann innilega. (Jóh. 4:23, 24) Pétur postuli kallaði reyndar kristnina „veg sannleikans“. (2. Pét. 2:2) Vegna þess að frumkristnir menn elskuðu sannleikann innilega höfnuðu þeir trúarlegum hugmyndum, menningarlegum hefðum og persónulegum skoðunum sem stönguðust á við sannleikann. (Kól. 2:8) Sannkristnir menn nú á dögum leitast líka við að „ganga á vegi sannleikans“ með því að byggja trú sína og lífsstefnu vandlega á orði Jehóva. – 3. Jóh. 3, 4.
12. Hvað gera þeir sem taka forystuna meðal okkar þegar þeir sjá þörf á betri útskýringum og hvers vegna?
12 Vottar Jehóva halda því ekki fram að þeir skilji allt fullkomlega sem kemur fram í Biblíunni. Þeir hafa stundum gert mistök þegar þeir útskýra kenningar í Biblíunni og skipuleggja starfsemi safnaðarins. Það ætti ekki að koma okkur á óvart. Það kemur greinilega fram í Biblíunni að nákvæm þekking eykst með tímanum. (Kól. 1:9, 10) Jehóva opinberar sannleikann smátt og smátt og við þurfum að vera fús til að bíða þolinmóð eftir að ljós sannleikans fari vaxandi. (Orðskv. 4:1) Þegar þeir sem taka forystuna meðal okkar gera sér grein fyrir því að skýra þarf ákveðin trúaratriði betur hika þeir ekki við að gera nauðsynlegar breytingar. Margir trúflokkar í kristna heiminum gera breytingar til að þóknast söfnuðinum eða til að leita vinsælda en Vottar Jehóva gera breytingar sem hjálpa okkur að styrkja sambandið við Guð og eru í samræmi við það sem Jesús sagði um sanna tilbeiðslu. (Jak. 4:4) Það sem knýr okkur til að gera breytingar er ekki tískustraumar eða væntingar fólks heldur gleggri skilningur á Biblíunni. Við elskum sannleikann. – 1. Þess. 2:3, 4.
VIÐ ELSKUM HVERT ANNAÐ AF ÖLLU HJARTA
13. Hver er mikilvægasti eiginleikinn meðal sannkristinna manna og hvernig sést hann greinilega meðal votta Jehóva nú á dögum?
13 Af öllum þeim eiginleikum sem einkenndu kristna söfnuðinn á fyrstu öld var kærleikurinn mikilvægastur. Jesús sagði: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóh. 13:34, 35) Sannur kærleikur og eining ríkir meðal votta Jehóva um allan heim. Við erum ólík öllum öðrum trúarbrögðum vegna þess að við erum eins og ein fjölskylda þótt við komum frá mismunandi löndum og höfum mismunandi menningu. Við finnum þennan sanna kærleika á safnaðarsamkomum okkar og mótum. Þetta styrkir enn frekar þá sannfæringu okkar að tilbeiðsla okkar sé Jehóva velþóknanleg.
14. Á hvaða hátt er mikilvægt að við sýnum hvert öðru innilegan kærleika samkvæmt Kólossubréfinu 3:12–14?
14 Biblían hvetur okkur til að ,bera brennandi kærleika hvert til annars‘. (1. Pét. 4:8) Ein leið til að sýna slíkan kærleika er að fyrirgefa hvert öðru og umbera ófullkomleika hvert annars. Við leitum líka tækifæra til að vera örlát og gestrisin við alla í söfnuðinum, jafnvel þá sem hafa móðgað okkur. (Lestu Kólossubréfið 3:12–14.) Þegar við sýnum slíkan kærleika sönnum við að við erum sannkristin.
„EIN TRÚ“
15. Á hvaða aðra vegu fylgjum við fordæmi kristinna manna á fyrstu öld í tilbeiðslunni?
15 Við fylgjum fordæmi kristinna manna á fyrstu öldinni á fleiri vegu. Við skipuleggjum til dæmis starfsemi okkar á svipaðan hátt og hinir frumkristnu gerðu. Við höfum farandhirða, öldunga og safnaðarþjóna, rétt eins og þeir. (Fil. 1:1; Tít. 1:5) Viðhorf okkar til kynlífs og hjónabands, virðing okkar fyrir heilagleika blóðsins og löngun okkar til að vernda söfnuðinn fyrir iðrunarlausum syndurum fylgir allt saman fyrirmyndinni frá fyrstu öld. – Post. 15:28, 29; 1. Kor. 5:11–13; 6:9, 10; Hebr. 13:4.
16. Hvað lærum við af því sem segir í Efesusbréfinu 4:4–6?
16 Jesús sagði að margir myndu segjast vera lærisveinar hans en að þeir væru það ekki allir í raun og veru. (Matt. 7:21–23) Biblían varar við því að á síðustu dögum myndu margir ,út á við sýnast guðræknir‘. (2. Tím. 3:1, 5) En hún segir líka skýrt að aðeins „ein trú“ hafi velþóknun Guðs. – Lestu Efesusbréfið 4:4–6.
17. Hverjir fylgja Jesú nú á dögum og iðka sanna trú?
17 Hverjir iðka hina einu sönnu trú nú á dögum? Við höfum kynnt okkur staðreyndirnar. Við höfum skoðað það sem Jesús kenndi um sanna tilbeiðslu og kristnir menn á fyrstu öld iðkuðu. Svarið blasir við: Vottar Jehóva. Það er mikill heiður að tilheyra þjóð Jehóva og vita sannleikann um hann og fyrirætlun hans. Höldum fast í sannleikann með sterkri sannfæringu.
SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust
a Í þessari grein skoðum við það sem Jesús kenndi um sanna tilbeiðslu og athugum hvernig fyrstu lærisveinar hans fylgdu því. Við fáum einnig sannanir fyrir því að Vottar Jehóva fylgi fordæmi þeirra í sannri tilbeiðslu.
b Sjá rammagreinina „Did the First Christians Use God’s Name?“ í Varðturninum á ensku 1. júlí 2010, bls. 6.
c Benedikt páfi sextándi gaf til dæmis út tilskipun árið 2008 þess efnis að „nafn Guðs eigi hvorki að nota né segja“ í kaþólskum messum, sálmum og bænum.
d MYND: Söfnuður Jehóva hefur gefið Nýheimsþýðinguna út á meira en 200 tungumálum þannig að fólk getur lesið biblíu á eigin tungumáli þar sem nafn Guðs kemur fram.