NÁMSGREIN 16
SÖNGUR 64 Vinnum glöð að uppskerunni
Hvernig getum við aukið gleðina í boðuninni?
„Þjónið Jehóva með gleði.“ – SÁLM. 100:2.
Í HNOTSKURN
Í þessari námsgrein er bent á leiðir til að auka gleðina í boðuninni.
1. Hvernig líður sumum þegar þeir tala við fólk í boðuninni? (Sjá einnig mynd.)
VIÐ sem erum þjónar Jehóva boðum öðrum trúna vegna þess að við elskum föður okkar á himnum og viljum hjálpa öðrum að kynnast honum. Mörgum boðberum finnst gaman í boðuninni. En öðrum finnst erfitt að finna gleði þegar þeir sinna henni. Hvers vegna? Sumir eru kannski mjög feimnir og skortir sjálfsöryggi. Sumum finnst óþægilegt að banka óboðnir upp á heima hjá fólki. Sumir óttast höfnun. Sumum hefur verið kennt að forðast árekstra í samskiptum við aðra. Þótt þessir bræður og systur elski Jehóva innilega finnst þeim erfitt að tala um fagnaðarboðskapinn við fólk sem þau þekkja ekki. Þau skilja samt hversu mikilvægt þetta verkefni er og taka því reglulega þátt í því. Jehóva er mjög ánægður með þau.
2. Af hverju ættirðu ekki að láta það draga þig niður ef þér finnst stundum erfitt að finna gleði í boðuninni?
2 Getur verið að slíkar tilfinningar séu að ræna þig gleðinni í boðuninni? Ef svo er skaltu ekki láta hugfallast. Óöryggi þitt gæti bent til þess að þú viljir ekki draga of mikla athygli að sjálfum þér og ekki eiga í deilum. Og engum finnst gott að vera hafnað, sérstaklega þegar þeir reyna að gera öðrum gott. Faðir þinn á himnum veit nákvæmlega hvernig þér líður og vill gefa þér þá hjálp sem þú þarft. (Jes. 41:13) Í þessari námsgrein skoðum við fimm tillögur um það hvernig við getum tekist á við slíkar tilfinningar og hvernig við getum unnið að því að hafa meiri gleði af boðuninni.
FINNUM STYRK Í ORÐI GUÐS
3. Hvað hjálpaði Jeremía spámanni að boða öðrum trúna?
3 Í gegnum aldirnar hefur Guð notað boðskapinn í orði sínu til að styrkja þjóna sína til að vinna erfið verkefni. Tökum Jeremía spámann sem dæmi. Honum féllust hendur þegar Jehóva sagði honum að flytja boðskap sinn. Jeremía sagði: „Ég kann ekki að tala því að ég er svo ungur.“ (Jer. 1:6) Hvernig tókst honum að yfirvinna öryggisleysið? Hann sótti styrk í orð Guðs og sagði: „Orð hans brann eins og eldur í hjarta mínu og læsti sig í bein mín. Ég gat ekki streist á móti.“ (Jer. 20:8, 9) Þótt starfssvæði Jeremía hafi verið erfitt gaf boðskapurinn sem hann átti að flytja honum styrk til að framkvæma verkið.
4. Hvaða áhrif hefur það á okkur að lesa orð Guðs og hugleiða það? (Kólossubréfið 1:9, 10)
4 Þjónar Guðs sækja styrk í boðskapinn í orði hans. Þegar Páll postuli skrifaði söfnuðinum í Kólossu sagði hann að það að afla sér nákvæmrar þekkingar myndi hvetja trúsystkinin til að lifa „eins og Jehóva er samboðið“ um leið og þau héldu áfram „að bera ávöxt með sérhverju góðu verki“. (Lestu Kólossubréfið 1:9, 10.) Eitt af þessum góðu verkum er að flytja fagnaðarboðskapinn. Þegar við lesum orð Guðs og hugleiðum það styrkist trú okkar á Jehóva og okkur verður enn ljósara hversu mikilvægt það er að segja öðrum frá Guðsríki.
5. Hvernig fáum við sem mest út úr biblíulestri okkar og sjálfsnámi?
5 Til að hafa sem mest gagn af því að lesa, rannsaka og hugleiða orð Guðs ættum við að forðast að flýta okkur. Taktu þér nægan tíma. Ef þú rekst á biblíuvers sem þú skilur ekki skaltu ekki bara halda lestrinum áfram án þess að staldra við. Notaðu frekar Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva og efnisskrána Watch Tower Publications Index til að fá útskýringar á versinu. Þú verður enn sannfærðari um sannleiksgildi Biblíunnar þegar þú tekur þér tíma í sjálfsnámi þínu. (1. Þess. 5:21) Því sannfærðari sem þú ert þeim mun ánægðari ertu að segja öðrum frá því sem þú hefur lært.
UNDIRBÚUM OKKUR VEL FYRIR BOÐUNINA
6. Hvers vegna ættum við að undirbúa okkur vel fyrir boðunina?
6 Ef þú undirbýrð þig vel fyrir boðunina áttu að öllum líkindum auðveldara með að tala við aðra. Jesús hjálpaði lærisveinum sínum að undirbúa sig áður en hann sendi þá út í boðunina. (Lúk. 10:1–11) Lærisveinarnir fóru eftir því sem Jesús hafði kennt þeim og fyrir vikið glöddust þeir innilega yfir því sem þeir gátu áorkað. – Lúk. 10:17.
7. Hvernig gætum við undirbúið okkur fyrir boðunina (Sjá einnig mynd.)
7 Hvernig gætum við búið okkur undir boðunina? Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við getum á áhrifaríkan hátt tjáð sannleikann með eigin orðum. Það er líka gagnlegt að sjá fyrir tvenns konar eða þrenns konar algeng viðbrögð fólks á starfssvæðinu og hvernig við gætum brugðist við. Þegar við síðan hittum fólk getum við reynt að slaka á, brosa og vera vingjarnleg.
8. Í hvaða skilningi eru þjónar Guðs eins og leirker, eins og kemur fram í líkingu Páls postula?
8 Páll postuli lýsti hlutverki okkar í boðuninni þegar hann sagði: „Við geymum þennan fjársjóð í leirkerum.“ (2. Kor. 4:7) Hver er þessi fjársjóður? Hann er það björgunarstarf að flytja öðrum boðskapinn um Guðsríki. (2. Kor. 4:1) Hver eru leirkerin? Þau tákna þjóna Guðs sem segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum. Á dögum Páls notuðu kaupmenn leirkrukkur til að flytja verðmætan varning eins og mat, vín og peninga. Á líkan hátt treystir Jehóva okkur fyrir fagnaðarboðskapnum dýrmæta. Þar sem Jehóva stendur við bakið á okkur fáum við styrk til að koma boðskapnum trúfastlega til skila.
BIÐJUM UM HUGREKKI
9. Hvernig getum við sigrast á ótta við menn eða ótta við höfnun? (Sjá einnig mynd.)
9 Við getum stundum fundið fyrir ótta við menn eða ótta við höfnun. Hvernig er hægt að sigrast á því? Leiddu hugann að bæn postulanna þegar þeim var skipað að hætta að boða trúna. Í stað þess að láta undan óttanum báðu þeir Jehóva um að hjálpa sér „að halda áfram að tala orð [hans] óttalaust“. Jehóva svaraði bæn þeirra samstundis. (Post. 4:18, 29, 31) Ef ótti við menn hindrar okkur stundum í að boða öðrum trúna ættum við líka að biðja Jehóva um hjálp. Biddu Jehóva um að styrkja kærleika þinn til fólks, þá geturðu sigrast á óttanum við að tala við það.
10. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að gegna hlutverki okkar sem vottar hans? (Jesaja 43:10–12)
10 Jehóva hefur útnefnt okkur til að vera vottar sínir og hann hjálpar okkur að vera hugrökk. (Lestu Jesaja 43:10–12.) Hugleiddu fernt sem hann gerir til þess. Jesús er með okkur í hvert sinn sem við boðum fagnaðarboðskapinn. (Matt. 28:18–20) Jehóva sér til þess að englar veiti okkur hjálp. (Opinb. 14:6) Hann hefur gefið okkur heilagan anda sinn til að hjálpa okkur að muna það sem við höfum lært. (Jóh. 14:25, 26) Og hann hefur séð okkur fyrir bræðrum og systrum til að vinna með okkur. Með stuðningi Jehóva og okkar kæru trúsystkina höfum við allt sem við þurfum til að ná árangri.
VERUM SVEIGJANLEG OG HÖFUM JÁKVÆTT VIÐHORF
11. Hvað getum við gert til að hitta fleira fólk þegar við erum í boðuninni? (Sjá einnig mynd.)
11 Finnst þér niðurdrepandi þegar fáir eru heima? Hvernig væri að spyrja sig: Hvar er fólkið á mínu svæði núna? (Post. 16:13) Er það í vinnunni eða kannski að versla? Ef svo er gætirðu þá talað við fleira fólk á förnum vegi? Bróðir sem heitir Joshua segir: „Ég hef fundið tækifæri til að boða trúna í verslunarmiðstöðvum og á bílastæðum.“ Hann og Bridget eiginkona hans hafa hitt fleira fólk heima þegar þau hafa farið í boðunina hús úr húsi undir kvöld eða eftir hádegi á sunnudögum. – Ef. 5:15, 16.
12. Hvernig getum við komist að því hverju fólk trúir eða hvað það lætur sig varða?
12 Ef fólk sýnir boðskapnum lítinn áhuga reyndu þá að komast að því hverju það trúir eða hvað það lætur sig varða. Joshua og Bridget nota spurninguna á forsíðu smárits í kynningarorðum sínum. Þegar þau nota til dæmis smáritið Hvernig lítur þú á Biblíuna? segja þau: „Sumir líta á Biblíuna sem bók frá Guði, aðrir eru ekki beint á því. Hver er þín skoðun?“ Þetta er oft upphafið að samræðum.
13. Hvers vegna getum við litið á boðunina sem árangursríka jafnvel þótt fólk hlusti ekki á okkur? (Orðskviðirnir 27:11)
13 Velgengni okkar í boðuninni veltur ekki á árangrinum. Hvers vegna? Við höfum gert það sem Jehóva og sonur hans vilja að við gerum – vitnað um sannleikann. (Post. 10:42) Og jafnvel þótt við finnum engan sem vill tala við okkur eða boðskap okkar sé hafnað getum við verið glöð því að við vitum að við gleðjum föður okkar á himnum. – Lestu Orðskviðina 27:11.
14. Hvers vegna gleður það okkur þegar annar boðberi finnur áhugasama manneskju á svæðinu?
14 Við getum líka verið glöð þegar annar boðberi finnur áhugasama manneskju á svæðinu. Í Varðturninum hefur verkefni okkar verið líkt við það að leita að týndu barni. Margir leggjast á eitt við að leita að barninu og fara yfir hvert svæðið af öðru. Þegar barnið finnst hafa allir ástæðu til að gleðjast, ekki bara sá sem fann það. Eins er líka verkefnið að gera fólk að lærisveinum samvinnuverkefni. Við þurfum á öllum að halda til að komast yfir starfssvæðið og allir fagna þegar nýr einstaklingur fer að mæta á samkomur.
HÖFUM KÆRLEIKANN TIL JEHÓVA OG NÁUNGANS Í BRENNIDEPLI
15. Hvernig getur það sem segir í Matteusi 22:37–39 hjálpað okkur að hafa meiri eldmóð í boðuninni? (Sjá einnig mynd.)
15 Við getum aukið eldmóð okkar fyrir boðuninni ef við beinum sjónum okkar að kærleikanum til Jehóva og náungans. (Lestu Matteus 22:37–39.) Hugsaðu þér hversu glaður Jehóva er þegar hann sér okkur í boðuninni og hversu ánægt fólk verður þegar það fer að rannsaka Biblíuna. Hugsaðu þér líka að þeirra bíður eilíft líf sem taka við boðskap okkar. – Jóh. 6:40; 1. Tím. 4:16.
16. Hvernig getum við fundið gleði í boðuninni þegar við komumst ekki að heiman? Nefndu dæmi.
16 Kemstu af einhverjum ástæðum ekki að heiman? Ef svo er skaltu beina sjónum að því sem þú getur gert til að sýna kærleika þinn til Jehóva og náungans. Meðan á COVID-19 faraldrinum stóð voru Samuel og Dania einangruð á heimili sínu. Á þessum erfiða tíma boðuðu þau reglulega trúna í síma, skrifuðu bréf og héldu biblíunámskeið með hjálp fjarfundabúnaðar. Samuel boðaði þeim trúna sem hann hitti á sjúkrastofnuninni þar sem hann fékk meðferð við krabbameini. Hann segir: „Erfiðleikar reyna á geðheilsuna, líkamlega heilsu og sambandið við Jehóva. Við þurfum að finna gleði í þjónustunni við Jehóva.“ Mitt í þessum raunum datt Dania og var rúmföst í þrjá mánuði. Síðan þurfti hún að vera í hjólastól í sex mánuði. Hún segir: „Ég reyndi að gera það sem aðstæður mínar leyfðu. Ég gat talað við hjúkrunarkonu um trúna og líka við þá sem sinntu heimsendingaþjónustu. Ég átti líka góðar umræður við konu frá lyfjafyrirtæki sem ég talaði við í síma.“ Aðstæður Samuels og Daniu takmörkuðu það sem þau gátu gert en þau gerðu það sem þau gátu og það gaf þeim gleði.
17. Hvernig getur þú nýtt þér ráðin í þessari námsgrein?
17 Tillögurnar í þessari námsgrein virka best ef þær eru samverkandi. Hver og ein tillaga er eins og hráefni í uppskrift. Þegar öll hráefnin í uppskriftinni koma saman verður árangurinn ljúffengur. Með því að fara eftir öllum ráðunum erum við betur í stakk búin að takast á við neikvæðar tilfinningar og verðum glaðari í boðuninni.
HVERNIG STUÐLAR EFTIRFARANDI AÐ GLEÐI Í BOÐUNINNI?
Að taka sér tíma til að undirbúa sig vel.
Að biðja um hugrekki.
Að ígrunda kærleika sinn til Jehóva og náungans.
SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður