NÁMSGREIN 47
SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði
Bræður – sækist þið eftir að verða öldungar?
„Ef maður sækist eftir að verða umsjónarmaður þráir hann göfugt starf.“ – 1. TÍM. 3:1.
Í HNOTSKURN
Í þessari námsgrein er fjallað um þær kröfur sem bróðir þarf að uppfylla samkvæmt Biblíunni til að geta verið öldungur.
1, 2. Hvaða ‚göfuga starf‘ vinnur öldungur?
EF ÞÚ hefur þjónað sem safnaðarþjónn um tíma hefurðu örugglega tileinkað þér marga af þeim eiginleikum sem öldungur þarf að hafa. Gætirðu sóst eftir því ‚göfuga starfi‘? – 1. Tím. 3:1.
2 Hvaða ábyrgðarstörfum sinnir öldungur? Hann fer með forystuna í boðuninni, leggur hart að sér við að sinna hirða- og kennslustarfinu og byggir upp söfnuðinn með orðum sínum og fordæmi. Það er ekki að ástæðulausu að Biblían segir að þessir duglegu öldungar séu gjafir frá Guði. – Ef. 4:8.
3. Hvernig getur bróðir orðið öldungur? (1. Tímóteusarbréf 3:1–7; Títusarbréfið 1:5–9)
3 Hvernig geturðu orðið hæfur til að þjóna sem öldungur? Þegar maður sækir um atvinnu eru gerðar ákveðnar hæfniskröfur og ef maður uppfyllir þær nægir það oft til að fá vinnuna. En ef þú vilt verða öldungur er ekki nóg að vera bara góður kennari og boðberi. Þú þarft að vera þess konar manneskja sem lýst er í 1. Tímóteusarbréfi 3:1–7 og Títusarbréfinu 1:5–9. (Lestu.) Þessi námsgrein fjallar um nokkra af þeim eiginleikum sem eru nefndir í þessum versum. Við ræðum hvernig bróðir getur haft gott mannorð innan og utan safnaðarins, verið góður fjölskyldufaðir og hvað hjálpar honum að sýna þjónustulund í söfnuðinum.
GOTT MANNORÐ
4. Hvað merkir það að ‚liggja ekki undir ámæli‘?
4 Til að verða hæfur sem öldungur máttu ekki „liggja undir ámæli“, það er að segja þú verður að hafa gott mannorð í söfnuðinum og enginn ætti að geta sakað þig um ámælisverða hegðun. Þú ættir líka að hafa „góðan orðstír hjá þeim sem eru fyrir utan“. (1. Tím. 3:1–7) Þeir sem þjóna ekki Jehóva gætu gagnrýnt þig fyrir trúarskoðanir þínar en þeir ættu ekki að hafa neina ástæðu til að efast um að þú sért heiðarlegur og vandaður maður. (Dan. 6:4, 5) Spyrðu þig hvort þú hafir góðan orðstír innan sem utan safnaðarins.
5. Hvernig geturðu sýnt að þú ‚elskir hið góða‘?
5 Ef þú ‚elskar hið góða‘ leitarðu að hinu jákvæða í fari annarra og hrósar þeim fyrir góða eiginleika þeirra. Þú reynir líka að gera öðrum gott, jafnvel þótt enginn krefjist þess eða vænti þess. (1. Þess. 2:8) Hvers vegna er svona mikilvægt að öldungar séu þess konar menn? Þeir eiga þá auðveldara með að vera fórnfúsir þegar þeir annast bræður og systur og sinna öðrum störfum í söfnuðinum. (1. Pét. 5:1–3) En gleðin sem þeir finna þegar þeir þjóna öðrum vegur miklu þyngra en fórnirnar sem þeir færa. – Post. 20:35.
6. Hvað felur í sér að vera gestrisinn? (Hebreabréfið 13:2, 16. Sjá einnig mynd.)
6 Þú ert gestrisinn þegar þú gerir öðrum gott, líka þeim sem eru ekki nánir vinir þínir. (1. Pét. 4:9) Biblíuskýringarrit segir að gestrisinn maður sé góður við ókunnuga og bjóði þá hjartanlega velkomna á heimili sitt. Spyrðu þig: Er ég þekktur fyrir að bjóða gesti hjartanlega velkomna? (Lestu Hebreabréfið 13:2, 16.) Gestrisinn maður deilir því sem hann á með gestum, líka þeim efnaminni, gestaræðumönnum og farandhirðum sem leggja mikið á sig til að hvetja bræður og systur. – 1. Mós. 18:2–8; Orðskv. 3:27; Lúk. 14:13, 14; Post. 16:15; Rómv. 12:13.
7. Hvernig sýnir öldungur að hann er „ekki fégjarn“?
7 Að vera „ekki fégjarn“ merkir að efnislegir hlutir skipta mann ekki mestu máli. Þú setur þjónustuna við Jehóva í fyrsta sæti í lífinu, hvort sem þú ert ríkur eða fátækur. (Matt. 6:33) Þú notar tíma þinn, krafta og efnislega hluti í þjónustu Jehóva, til að sinna fjölskyldunni og byggja upp söfnuðinn. (Matt. 6:24; 1. Jóh. 2:15–17) Spyrðu þig: Hvernig lít ég á peninga? Er ég nægjusamur? Eða vil ég stöðugt þéna meiri peninga og eignast meira? – 1. Tím. 6:6, 17–19.
8. Hvernig sýnirðu að þú ert „hófsamur“ og hefur ‚góða stjórn á sjálfum þér‘?
8 Ef þú ert „hófsamur“ og hefur ‚góða stjórn á sjálfum þér‘ gætirðu jafnvægis á öllum sviðum lífsins. Þú forðast öfgar í mat og drykk, klæðaburði, snyrtingu og afþreyingu. Þú eltist ekki við lífsstíl þeirra sem þjóna ekki Jehóva. (Lúk. 21:34; Jak. 4:4) Þú ert yfirvegaður og heldur rónni þótt þér sé ögrað. Þú ert „ekki drykkfelldur“ né þekktur fyrir að drekka of mikið. Spyrðu þig: Sýnir lífsmáti minn að ég er hófsamur í venjum og hef sjálfstjórn?
9. Hvað felst í því að vera „skynsamur“ og „reglusamur“?
9 Ef þú ert „skynsamur“ tekurðu mið af meginreglum Biblíunnar varðandi hin ýmsu mál. Þú hugleiðir þær vandlega og það gefur þér innsýn og skilning. Þú rasar ekki um ráð fram heldur gengur úr skugga um að þú vitir allar staðreyndir málsins. (Orðskv. 18:13) Þannig geturðu tekið skynsamlegar ákvarðanir sem endurspegla viðhorf Jehóva. Ef þú ert „reglusamur“ ertu skipulagður og stundvís. Þú ert þekktur fyrir að vera áreiðanlegur og fylgja leiðbeiningum. Þessir eiginleikar stuðla að góðu mannorði. Snúum okkur nú að því hvernig þú getur tileinkað þér þá eiginleika sem góður fjölskyldufaðir þarf að hafa.
GÓÐUR FJÖLSKYLDUFAÐIR
10. Hvernig getur eiginmaður veitt „heimili sínu góða forystu“?
10 Ef þú ert eiginmaður og vilt verða öldungur verður fjölskylda þín að vera til fyrirmyndar. Þess vegna þarftu að „veita heimili [þínu] góða forystu“. Þú þarft að vera þekktur fyrir að vera kærleiksríkur og ábyrgðarfullur fjölskyldufaðir. Það felur í sér að fara með forystuna í öllu sem tilheyrir tilbeiðslunni á Jehóva. Hvers vegna er það mikilvægt? Páll postuli sagði: „Hvernig getur sá sem kann ekki að veita sínu eigin heimili forystu annast söfnuð Guðs?“ – 1. Tím. 3:5.
11, 12. Hvað hefur áhrif á það hvort bróðir er hæfur til að verða öldungur? (Sjá einnig mynd.)
11 Ef þú ert faðir eiga ‚börn þín að vera hlýðin og sýna virðingu‘. Þú þarft að kenna þeim og ala þau upp með kærleika. Að sjálfsögðu viltu að þau njóti þess að vera börn og hlæi og leiki sér. En þau hlýða, sýna virðingu og eru þæg ef þú elur þau vel upp. Þú verður líka að gera þitt besta til að hjálpa börnunum að eignast gott samband við Jehóva, fylgja meginreglum Biblíunnar, taka framförum og skírast.
12 „Börn hans eiga að vera í trúnni og ekki vera sökuð um taumleysi eða uppreisn.“ Hvaða áhrif hefur það á föður barns sem er í trúnni ef það syndgar alvarlega? Ef hann hefur vanrækt uppeldið og ekki veitt barninu nauðsynlegan aga er hann líklega ekki hæfur til að verða öldungur. – Sjá Varðturninn 1. desember 1996, bls. 29, gr. 6–7.
AÐ ANNAST SÖFNUÐINN
13. Hvernig geturðu verið „sanngjarn“ en ‚ekki þrjóskur‘?
13 Bræður sem sýna góða kristna eiginleika eru söfnuðinum til mikillar blessunar. „Sanngjarn“ maður stuðlar að friði. Hann hlustar á aðra og reynir að skilja hvernig þeir hugsa. Ertu tilbúinn að styðja ákvörðun meirihluta öldunga ef engin biblíuleg meginregla er brotin? Að vera ‚ekki þrjóskur‘ felur í sér að maður ætlast ekki til að hlutirnir séu hafðir eftir manns eigin höfði. Þú kannt að meta ráð annarra. (1. Mós. 13:8, 9; Orðskv. 15:22) Þú ert „ekki þrætugjarn“ eða „skapbráður“. Í stað þess að vera óvingjarnlegur eða fráhrindandi ertu mildur og tillitssamur. Þú ert friðsamur og tekur frumkvæði til að ná sáttum, einnig í spennuþrungnum aðstæðum. (Jak. 3:17, 18) Vingjarnleg orð geta mýkt aðra, þar á meðal þá sem standa á móti okkur. – Dóm. 8:1–3; Orðskv. 20:3; 25:15; Matt. 5:23, 24.
14. Af hverju á útnefndur bróðir „ekki að vera nýr í trúnni“ og hvað felst í því að vera „trúr“?
14 Bróðir sem er hæfur til að verða öldungur er ‚ekki nýr í trúnni‘. Þú þarft ekki að hafa verið skírður í mörg ár áður en þú getur orðið öldungur en þú þarft tíma til að ná þroska sem kristinn maður. Það ætti að vera augljóst að þú líkir eftir Jesú og sért auðmjúkur og tilbúinn að bíða eftir að Jehóva feli þér aukna ábyrgð í söfnuðinum. (Matt. 20:23; Fil. 2:5–8) Þú ert „trúr“ ef þú fylgir réttlátum lögum Jehóva og leiðsögn safnaðarins. – 1. Tím. 4:15.
15. Verður öldungur að vera frábær ræðumaður? Skýrðu svarið.
15 Ritningin kennir greinilega að umsjónarmaður verður að vera „hæfur kennari“. Þýðir það að þú þarft að vera frábær ræðumaður? Nei. Margir hæfir öldungar eru ekki bestu ræðumennirnir en þeir eru leiknir í að nota Biblíuna til að kenna í boðuninni og hirðisheimsóknum. (Berðu saman 1. Korintubréf 12:28, 29 og Efesusbréfið 4:11.) Þótt þú þurfir ekki að vera frábær kennari er nauðsynlegt að gera sitt besta til að taka framförum. Hvernig ferðu að því?
16. Hvernig geturðu bætt þig sem kennari? (Sjá einnig mynd.)
16 „Að halda sig fast við hið áreiðanlega orð.“ Byggðu kennslu þína og leiðbeiningar sem þú gefur trúsystkinum á orði Guðs. Þá tekurðu framförum sem kennari. Vertu góður biblíunemandi og lestu og hugleiddu rit safnaðarins vel. (Orðskv. 15:28; 16:23) Í sjálfsnámi þínu skaltu taka vel eftir hvernig ritin okkar útskýra biblíuvers svo að þú skiljir þau og getir farið eftir þeim. Og reyndu eftir fremsta megni að ná til hjartna áheyrenda þinna með kennslu þinni. Þú getur líka ráðfært þig við reynda öldunga um hvernig þú getir bætt þig og síðan lagt þig fram um að fylgja ráðum þeirra. (1. Tím. 5:17) Öldungar þurfa að „geta … uppörvað“ bræður sína og systur. En stundum þurfa þeir að ‚áminna‘ þau. Hvort heldur er verða öldungar alltaf að vera vingjarnlegir. Vertu mildur og kærleiksríkur og byggðu kennsluna á orði Guðs. Þannig tekurðu framförum sem kennari af því að þú líkir eftir kennaranum mikla, Jesú Kristi. – Matt. 11:28–30; 2. Tím. 2:24.
HALTU ÁFRAM AÐ SÆKJA FRAM
17. (a) Hvað getur hvatt safnaðarþjóna til að halda áfram að sækja fram? (b) Hvað ættu öldungar að hafa í huga þegar þeir meta hvort bróðir sé hæfur til að verða öldungur? (Sjá rammagreinina „Verið raunsæir þegar þið metið hvort bróðir sé hæfur til að verða öldungur“.)
17 Sumir safnaðarþjónar hugsa sem svo að þeir geti aldrei uppfyllt kröfurnar sem gerðar eru til öldunga. En mundu að hvorki Jehóva né söfnuður hans ætlast til fullkomleika. (1. Pét. 2:21) Og það er máttugur andi Jehóva sem hjálpar þér að rækta með þér þessa eiginleika. (Fil. 2:13) Myndirðu vilja þroska ákveðinn eiginleika betur? Biddu Jehóva að hjálpa þér. Lestu um þennan eiginleika í ritunum okkar og spyrðu öldung ráða um hvernig þú getir bætt þig.
18. Hvað eru allir safnaðarþjónar hvattir til að gera?
18 Bræður, þið skuluð allir, líka öldungar, halda áfram að rækta eiginleikana sem fjallað er um í þessari námsgrein. (Fil. 3:16) Ertu safnaðarþjónn? Settu þér það markmið að gera enn meira fyrir bræður og systur. Biddu Jehóva að móta þig og þjálfa svo að þú komir að enn meira gagni í söfnuðinum og þjónustunni. (Jes. 64:8) Megi Jehóva blessa allt sem þú gerir til að verða hæfur til að þjóna sem öldungur.
SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu