NÁMSGREIN 5
SÖNGUR 108 Elska Guðs er trúföst
Kærleikur Jehóva er okkur til góðs
„Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa syndara.“ – 1. TÍM. 1:15.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig lausnargjaldið er okkur til góðs og hvernig við getum sýnt Jehóva að við erum honum þakklát.
1. Hvernig getum við glatt Jehóva?
SEGJUM að þú gefir einhverjum sem þú elskar bæði fallega og nytsamlega gjöf. Þú yrðir fyrir miklum vonbrigðum ef hann setti gjöfina inn í skáp og gleymdi henni. En það gleddi þig sannarlega ef hann notaði gjöfina og sýndi þakklæti. Hvernig tengist þetta lausnargjaldinu? Jehóva hefur gefið son sinn í okkar þágu. Það hlýtur að gleðja hann þegar við sýnum þakklæti fyrir þessa dýrmætu gjöf og kærleika hans sem knúði hann til að sjá fyrir lausnargjaldinu. – Jóh. 3:16; Rómv. 5:7, 8.
2. Hvað er til umræðu í þessari námsgrein?
2 Með tímanum gæti þakklæti okkar hins vegar dvínað og við hætt að líta á lausnargjaldið sem einstaka gjöf. Það væri eins og að setja gjöfina frá Guði inn í skáp þar sem við hvorki sjáum hana né hugsum um hana. Til að koma í veg fyrir það verðum við reglulega að glæða þakklæti okkar fyrir það sem Guð og Kristur hafa gert fyrir okkur. Þessi námsgrein getur hjálpað okkur að gera það. Við skoðum hvernig lausnargjaldið er okkur til góðs bæði núna og í framtíðinni. Við skoðum líka hvernig við getum sýnt þakklæti fyrir kærleika Jehóva, sérstaklega vikurnar í kringum minningarhátíðina.
LAUSNARGJALDIÐ ER OKKUR TIL GÓÐS NÚNA
3. Hvernig nýtist lausnargjaldið okkur nú þegar?
3 Við njótum nú þegar góðs af lausnarfórn Krists. Jehóva fyrirgefur syndir okkar á grundvelli lausnargjaldsins. Honum ber ekki skylda til að fyrirgefa okkur. En hann langar til þess. Sálmaskáldið tjáði þakklæti sitt og sagði: „Þú, Jehóva, ert góður og fús til að fyrirgefa.“ – Sálm. 86:5; 103:3, 10–13.
4. Hverjum sá Jehóva fyrir lausnargjaldinu? (Lúkas 5:32; 1. Tímóteusarbréf 1:15)
4 Sumum finnst þeir ef til vill óverðugir að fá fyrirgefningu Jehóva. Reyndar á ekkert okkar rétt á fyrirgefningu. Páll postuli gerði sér grein fyrir að hann væri „ekki þess verður að kallast postuli“. Samt sagði hann: „Ég er það sem ég er vegna einstakrar góðvildar Guðs.“ (1. Kor. 15:9, 10) Jehóva fyrirgefur okkur þegar við iðrumst synda okkar. Hann gerir það ekki vegna þess að við verðskuldum það heldur vegna þess að hann elskar okkur. Ef þér finnst þú óverðugur skaltu muna að Jehóva sá ekki fullkomnu fólki fyrir lausnargjaldinu heldur ófullkomnu fólki sem líður illa vegna synda sinna og vill breyta sér. – Lestu Lúkas 5:32; 1. Tímóteusarbréf 1:15.
5. Eigum við miskunn Jehóva skilda? Skýrðu svarið.
5 Ekkert okkar á miskunn Jehóva skilda, sama hversu lengi við höfum þjónað honum. Jehóva kann vissulega að meta allt sem við gerum fyrir hann. (Hebr. 6:10) Sonur hans var gjöf til okkar en ekki borgun fyrir að þjóna honum. Ef við héldum því fram að við hefðum unnið fyrir miskunn hans eða ættum rétt á henni værum við í raun að segja að Kristur hefði dáið til einskis. – Samanber Galatabréfið 2:21.
6. Hvers vegna lagði Páll hart að sér í þjónustu Jehóva?
6 Páll vissi að hann gæti ekki unnið sér inn velvild Guðs. Hvers vegna lagði hann þá svona hart að sér í þjónustu Jehóva? Hann gerði það til að sýna að hann kynni að meta einstaka góðvild Jehóva en ekki til að sanna að hann ætti velvild hans skilda. (Ef. 3:7) Við þjónum Jehóva líka eins vel og við getum til að sýna að við kunnum að meta miskunn hans, ekki til að ávinna okkur hana.
7. Á hvaða annan veg getum við notið góðs af lausnarfórninni núna? (Rómverjabréfið 5:1; Jakobsbréfið 2:23)
7 Lausnarfórnin nýtist okkur nú þegar á þann hátt að við getum átt náið og persónulegt samband við Jehóva.a Eins og var nefnt í námsgreininni á undan áttum við ekki samband við Guð frá fæðingu. En vegna lausnarfórnarinnar getum við átt „frið við Guð“ og því nálgast hann. – Lestu Rómverjabréfið 5:1; Jakobsbréfið 2:23.
8. Hvers vegna ættum við að vera þakklát fyrir að mega nálgast Jehóva í bæn?
8 Náið samband við Guð veitir okkur sérstakt tækifæri – að nálgast hann í bæn. Jehóva heyrir ekki einungis bænir þjóna sinna sem eru bornar fram á samkomum heldur líka einkabænir okkar. Bænin getur gefið okkur ró og hugarfrið, en hún er miklu meira en það. Hún getur styrkt vináttu okkar við Guð. (Sálm. 65:2; Jak. 4:8; 1. Jóh. 5:14) Jesús bað oft þegar hann var á jörðinni vegna þess að hann vissi að Jehóva hlustaði og að bænin hjálpaði honum að viðhalda góðu sambandi við föður sinn. (Lúk. 5:16) Erum við ekki þakklát fyrir að mega vera vinir Jehóva og tala við hann í bæn vegna lausnarfórnar Jesú?
LAUSNARGJALDIÐ VERÐUR OKKUR TIL GÓÐS Í FRAMTÍÐINNI
9. Hvernig á lausnargjaldið eftir að nýtast trúföstum þjónum Guðs í framtíðinni?
9 Hvernig á lausnargjaldið eftir að nýtast trúföstum þjónum Guðs í framtíðinni? Þeir hljóta eilíft líf. Margir eru þeirrar skoðunar að það sé ómögulegt þar sem dauðinn hefur fylgt mannkyninu frá ómunatíð. En upphafleg fyrirætlun Jehóva var að mennirnir lifðu að eilífu. Enginn myndi hugsa sem svo að eilíft líf væri of gott til að vera satt ef Adam hefði ekki syndgað. Við eigum kannski erfitt með að ímynda okkur núna að við munum lifa að eilífu. Samt getum við trúað því vegna þess að Jehóva gerði það mögulegt með því að greiða hæsta gjaldið sem hugsast getur – líf sonar síns. – Rómv. 8:32.
10. Til hvers hlakka hinir andasmurðu og aðrir sauðir?
10 Þótt eilíft líf sé framtíðarvon vill Jehóva að við hugsum um það núna. Hinir andasmurðu hlakka til innihaldsríks lífs á himnum þar sem þeir ríkja með Kristi yfir jörðinni. (Opinb. 20:6) Aðrir sauðir hlakka til þess að lifa í paradís á jörð, lausir við sorg og kvöl. (Opinb. 21:3, 4) Tilheyrir þú hópi annarra sauða sem hefur von um að lifa að eilífu á jörðinni? Eilíft líf á jörð er ekki bara huggunarverðlaun. Jehóva skapaði mennina til að lifa á jörðinni. Eilíft líf á jörð veitir okkur fullkomna hamingju.
11, 12. Nefndu sumt af því sem við getum hlakkað til í paradís. (Sjá einnig myndir.)
11 Ímyndaðu þér hvernig líf þitt verður í paradís á jörð. Þú hefur engar áhyggjur af því að veikjast eða deyja. (Jes. 25:8; 33:24) Jehóva veitir þér allt gott sem þú þráir. Hvað áhugamál langar þig til að leggja stund á? Eðlisfræði? Efnafræði? Tónlist? Listir? Í paradís verður án efa þörf á arkitektum, húsasmiðum og bændum. Það verður líka þörf á fólki til að rækta matvæli, laga mat, smíða alls konar verkfæri, planta garða og annast þá. (Jes. 35:1; 65:21) Með eilífðina fyrir augum hefurðu tíma til að læra til verka á öllum þessum sviðum og mörgum fleirum.
12 Hugsaðu þér hvað verður gaman að taka á móti þeim sem verða reistir upp. (Post. 24:15) Og verður ekki dásamlegt að læra meira um Jehóva með því að rannsaka fjölbreytileikann í sköpunarverki hans? (Sálm. 104:24; Jes. 11:9) Og best af öllu er að geta tilbeðið Jehóva án þess að finna nokkurn tíma til sektarkenndar. Myndirðu fórna því að lifa í paradís framtíðarinnar til að „njóta unaðar af syndinni um skamman tíma“? (Hebr. 11:25) Auðvitað ekki! Lífið í paradís er miklu meira virði en nokkuð sem við getum eignast í þessum heimi. Mundu að vonin um paradís verður að veruleika og þá er paradísin raunveruleikinn sem við búum við. Allt þetta er innan seilingar af því að Jehóva elskaði okkur svo mikið að hann sá fyrir lausnargjaldinu.
SÝNDU ÞAKKLÆTI FYRIR KÆRLEIKA JEHÓVA
13. Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir þann kærleika sem Jehóva sýnir okkur? (2. Korintubréf 6:1)
13 Hvernig getum við sýnt að við erum þakklát Jehóva fyrir að hafa gefið okkur lausnargjaldið? Með því að láta þjónustuna við hann hafa forgang í lífi okkar. (Matt. 6:33) Jesús dó „til að þeir sem lifa lifðu ekki lengur fyrir sjálfa sig heldur fyrir hann sem dó fyrir þá og var reistur upp“. (2. Kor. 5:15) Við viljum alls ekki að einstök góðvild Jehóva verði til einskis. – Lestu 2. Korintubréf 6:1.
14. Hvernig getum við sýnt að við treystum leiðsögn Jehóva?
14 Önnur leið til að sýna þakklæti okkar fyrir þann kærleika sem Jehóva hefur sýnt er að treysta honum og fylgja leiðsögn hans. Þegar við stöndum til dæmis frammi fyrir ákvörðunum eins og hversu mikla menntun við þurfum eða hvers konar vinnu við þiggjum verðum við að spyrja okkur hvað Jehóva myndi vilja að við gerðum. (1. Kor. 10:31; 2. Kor. 5:7) Þegar við sýnum trúna í verki styrkist traust okkar til Jehóva og vináttan við hann. – Rómv. 5:3–5; Jak. 2:21, 22.
15. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar í kringum minningarhátíðina?
15 Það er enn ein leið til að sýna Jehóva hversu þakklát við erum fyrir kærleika hans. Við getum gert okkar allra besta vikurnar fyrir og eftir minningarhátíðina til að sýna Jehóva hversu þakklát við erum fyrir lausnargjaldið. Auk þess að gera ráðstafanir til að mæta sjálf á minningarhátíðina getum við boðið öðrum að koma. Þú gætir sýnt þeim myndbönd á jw.org eins og Hvers vegna dó Jesús? og Minnist dauða Jesú. Öldungar ættu að muna eftir að bjóða óvirkum. Ímyndaðu þér gleðina sem verður á himni og jörð ef einhverjir af týndum sauðum Jehóva snúa aftur til hjarðarinnar. (Lúk. 15:4–7) Leggjum okkur fram um að heilsa þeim sem eru nýir eða hafa ekki komið í langan tíma. Við viljum að þeir finni að þeir séu velkomnir. – Rómv. 12:13.
16. Hvers vegna ættum við að velta fyrir okkur hvort við getum tekið meiri þátt í boðuninni vikurnar fyrir og eftir minningarhátíðina?
16 Geturðu gert meira í þjónustunni við Jehóva vikurnar fyrir og eftir minningarhátíðina? Það er góð leið til að sýna þakklæti fyrir allt sem Guð og Kristur hafa gert fyrir okkur. Því meiri þátt sem við eigum í boðuninni því betur finnum við fyrir stuðningi Jehóva og traust okkar til hans vex. (1. Kor. 3:9) Mundu eftir lesefninu fyrir minningarhátíðina sem má finna í Rannsökum ritningarnar daglega og í töflu í vinnubókinni. Þú gætir líka skoðað þetta lesefni nánar í sjálfsnámi þínu.
17. Hvað kann Jehóva að meta? (Sjá einnig rammann „Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir kærleika Jehóva?“)
17 Kannski leyfa aðstæður þínar ekki að þú gerir allt sem lagt er til í þessari námsgrein. Það er gott að minna sig á að Jehóva ber okkur ekki saman við aðra. Hann sér hvað býr í hjarta þínu. Hann er ánægður að sjá hversu þakklátur þú ert fyrir lausnargjaldið, þá dýrmætu gjöf sem hann gaf. – 1. Sam. 16:7; Mark. 12:41–44.
18. Hvers vegna erum við innilega þakklát Jehóva Guði og Jesú Kristi?
18 Það er aðeins vegna lausnargjaldsins sem við fáum syndir okkar fyrirgefnar, eigum vináttu við Jehóva og von um eilíft líf. Við skulum alltaf sýna þakklæti fyrir kærleika Jehóva sem knúði hann til að gefa okkur þessar dásamlegu gjafir. (1. Jóh. 4:19) Sýnum líka að við erum þakklát fyrir það sem Jesús gerði fyrir okkur. Hann elskaði okkur svo mikið að hann fórnaði lífi sínu fyrir okkur. – Jóh. 15:13.
SÖNGUR 154 Kærleikur sem aldrei bregst
a Jehóva fyrirgaf þjónum sínum fyrir daga kristninnar. Það var áður en Jesús greiddi lausnargjaldið. Jehóva gerði það vegna þess að hann var viss um að sonur hans myndi reynast trúfastur allt til dauða. Í augum Guðs var lausnargjaldið svo gott sem greitt. – Rómv. 3:25.