A3
Hvernig varðveittist Biblían?
Höfundur Biblíunnar, sá sem lét skrifa hana, sá sömuleiðis til þess að hún varðveittist. Það var hann sem lét skrifa eftirfarandi:
„Orð Guðs okkar varir að eilífu.“– Jesaja 40:8.
Þessi staðhæfing er sönn þó svo að ekkert af frumritum Hebresku og arameísku ritningannaa eða Grísku ritninganna hafi varðveist fram á okkar daga. Hvernig er hægt að vera viss um að það sem stendur í Biblíunni núna sé örugglega það sama og stóð í hinum innblásnu frumritum?
AFRITARAR VARÐVEITTU ORÐ GUÐS
Hvað Hebresku ritningarnar varðar er svarið að hluta til fólgið í fornri hefð sem Jehóva Guð kom á, það er að afrita skyldi textann.b Hann fyrirskipaði til dæmis konungum Ísraels að gera handa sér afrit af lögunum. (5. Mósebók 17:18) Auk þess fól Guð Levítunum þá ábyrgð að varðveita lögin og kenna fólkinu þau. (5. Mósebók 31:26; Nehemíabók 8:7) Eftir útlegð Gyðinga í Babýlon varð til stétt afritara eða fræðimanna (sóferím). (Esrabók 7:6, neðanmáls) Með tíð og tíma gerðu þessir fræðimenn fjölmörg afrit af hinum 39 bókum Hebresku ritninganna.
Fræðimenn afrituðu þessar bækur af mikilli nákvæmni um aldaraðir. Svokallaðir masoretar, sem voru fræðimenn meðal Gyðinga, viðhéldu svo þessari hefð á miðöldum. Elsta handrit masoreta af Hebresku ritningunum í heild er Codex Leningradensis en það er frá 1008 eða 1009 e.Kr. Um miðbik 20. aldar fundust hins vegar um 220 biblíuhandrit eða handritabrot meðal Dauðahafshandritanna. Þessi biblíuhandrit voru meira en þúsund árum eldri en Leníngrad-handritið. Þegar Dauðahafshandritin og Leníngrad-handritið eru borin saman kemur mikilvægt atriði í ljós: Þótt orðalag Dauðahafshandritanna sé sums staðar frábrugðið hefur það engin áhrif á sjálfan boðskapinn.
Hvað um þær 27 bækur sem mynda Grísku ritningarnar? Þær voru upphaflega skrifaðar af nokkrum af postulum Jesú Krists og fáeinum öðrum lærisveinum. Frumkristnir menn fóru að dæmi fræðimanna Gyðinga og afrituðu þessar bækur. (Kólossubréfið 4:16) Þótt Díókletíanus Rómarkeisari og fleiri hafi reynt að eyða öllum ritum frumkristinna manna hafa þúsundir fornra handrita og handritabrota varðveist fram á okkar daga.
Rit kristinna manna voru einnig þýdd á önnur tungumál. Biblían var snemma þýdd á fornmál eins og armensku, koptísku, eþíópísku, georgísku, latínu og fornsýrlensku.
HVAÐA HEBRESKI OG GRÍSKI TEXTI VAR LAGÐUR TIL GRUNDVALLAR?
Ekki eru öll forn biblíuhandrit algerlega samhljóða. Hvernig vitum við þá hvað stóð í frumtextanum?
Ímyndum okkur að kennari biðji 100 nemendur að skrifa upp afrit af bókarkafla. Jafnvel þótt frumritið týndist síðar meir væri hægt að sjá upprunalega textann með því að bera saman þessi 100 afrit. Þótt allir nemendurnir gerðu einhver mistök er afar ólíklegt að þeir gerðu allir nákvæmlega sömu villurnar. Á sama hátt hafa sérfræðingar borið saman þúsundir fornra afrita og handritabrota af bókum Biblíunnar og getað fundið villurnar. Þannig hafa þeir gengið úr skugga um hvernig orðalag frumritanna var.
„Það er óhætt að segja að ekkert annað verk úr fornöld hafi skilað sér af slíkri nákvæmni.“
Getum við verið viss um að merking frumtexta Biblíunnar hafi skilað sér nákvæmlega til okkar? Biblíufræðingurinn William H. Green segir um texta Hebresku ritninganna: „Það er óhætt að segja að ekkert annað verk úr fornöld hafi skilað sér af slíkri nákvæmni.“ Um Grísku ritningarnar sem oft eru kallaðar Nýja testamentið segir biblíufræðingurinn Frederick F. Bruce: „Það eru margfalt sterkari rök fyrir því að rit Nýja testamentisins séu áreiðanleg en mörg af ritum klassískra höfunda sem engum dettur þó í hug að véfengja.“ Hann heldur áfram: „Ef Nýja testamentið væri safn veraldlegra rita væri almennt talið að áreiðanleiki þess væri hafinn yfir allan vafa.“
Hebreski textinn: Fyrsta útgáfa Nýheimsþýðingar Hebresku ritninganna (kom út í fimm bindum á árunum 1953 til 1960) var byggð á Biblia Hebraica Rudolfs Kittels. Uppfærðar útgáfur af hebreska textanum hafa verið gefnar út eftir það, það er Biblia Hebraica Stuttgartensia og Biblia Hebraica Quinta, en í þeim er einnig tekið mið af nýlegum rannsóknum byggðum á Dauðahafshandritunum og öðrum fornum handritum. Í þessum verkum er texti Leníngrad-handritsins birtur í meginmálinu en neðanmáls er sýnt til samanburðar orðalag annarra heimilda svo sem Samverska fimmbókritsins, Dauðahafshandritanna, grísku Sjötíumannaþýðingarinnar, arameísku targúm-ritanna, latnesku Vúlgata og hinnar fornsýrlensku Peshitta. Höfð var hliðsjón bæði af Biblia Hebraica Stuttgartensia og Biblia Hebraica Quinta við nýjustu endurskoðun Nýheimsþýðingarinnar á ensku sem þessi þýðing er byggð á.
Gríski textinn: Á síðari hluta 19. aldar báru biblíufræðingarnir B. F. Westcott og F. J. A. Hort saman tiltæk biblíuhandrit og handritabrot þegar þeir tóku saman útgáfu af gríska textanum sem þeir töldu endurspegla frumritin hvað best. Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar studdist við þennan undirstöðutexta við þýðingar sínar um miðbik 20. aldar. Einnig var tekið mið af öðrum fornum papýrusritum sem talin eru vera frá annarri og þriðju öld e.Kr. Síðan þá hafa fleiri papýrusrit orðið tiltæk. Þar við bætast undirstöðutextar eins og þeir sem kenndir eru við Nestle og Aland og Sameinuðu biblíufélögin og endurspegla rannsóknir síðari ára. Tekið var mið af niðurstöðum þessara rannsókna við endurskoðun ensku útgáfunnar sem þessi þýðing byggist á.
Af þessum undirstöðutextum má sjá að sum vers í eldri þýðingum Grísku ritninganna, svo sem King James-biblíunni, tilheyra ekki hinum innblásnu ritningum heldur eru þau síðari tíma viðbætur. Sú versaskipting Biblíunnar sem við þekkjum var hins vegar orðin fastmótuð á 16. öld og því myndast eyður í versatali í flestum biblíum. Versin eru Matteus 17:21; 18:11; 23:14; Markús 7:16; 9:44, 46; 11:26; 15:28; Lúkas 17:36; 23:17; Jóhannes 5:4; Postulasagan 8:37; 15:34; 24:7; 28:29 og Rómverjabréfið 16:24. Í þessari þýðingu Biblíunnar er gefið til kynna með neðanmálsgreinum hvar vers falla niður.
Hvað varðar langa niðurlagið á Markúsarguspjalli (16:9–20) og stutta niðurlagið og sömuleiðis Jóhannes 7:53–8:11 er ljóst að ekkert þessara versa er að finna í hinum upprunalegu handritum. Þessir fölsuðu textar eru því ekki hafðir með í þessari þýðingu.c
Orðalagi hefur sums staðar verið breytt til samræmis við það sem biblíufræðingar almennt telja áreiðanlegustu útgáfu frumtextans. Til dæmis segir í Matteusi 7:13 samkvæmt sumum handritum: „Gangið inn um þrönga hliðið því að vítt er hliðið og vegurinn breiður sem liggur til tortímingar.“ Orðin „er hliðið“ stóðu ekki í fyrri útgáfum Nýheimsþýðingarinnar á erlendum málum. Eftir nánari rannsóknir á handritunum komust menn þó að þeirri niðurstöðu að þessi orð hafi staðið í frumritunum. Þess vegna standa þau í þessari þýðingu. Ýmis dæmi eru um sambærilegar lagfæringar. Þetta eru hins vegar smávægilegar lagfæringar og engin þeirra breytir boðskapnum í orði Guðs.
a Héðan í frá nefndar Hebresku ritningarnar.
b Ein ástæða þess að afrita þurfti frumritin var sú að þau voru skrifuð á forgengileg efni.
c Frekari upplýsingar um hvers vegna þessi vers eru álitin fölsuð er að finna í neðanmálsgreinum í New World Translation of the Holy Scriptures – With References, gefin út 1984.