Fyrsta Mósebók
14 Þegar Amrafel var konungur í Sínear,+ Arjók konungur í Ellasar, Kedorlaómer+ konungur í Elam+ og Tídal konungur í Gojím 2 fóru þeir í stríð við Bera, konung í Sódómu,+ Birsa, konung í Gómorru,+ Sínab, konung í Adma, Semeber, konung í Sebóím,+ og konunginn í Bela, það er að segja Sóar. 3 Allir þessir söfnuðu hersveitum sínum saman í Siddímdalnum*+ en þar er nú Saltisjór.*+
4 Þeir höfðu þjónað Kedorlaómer í 12 ár en á 13. árinu gerðu þeir uppreisn. 5 Á 14. árinu komu því Kedorlaómer og konungarnir sem voru með honum og sigruðu Refaíta í Asterót Karnaím, Súsíta í Ham, Emíta+ á Kirjataímvöllum 6 og Hóríta+ í fjalllendi þeirra í Seír+ allt til El Paran sem er við óbyggðirnar. 7 Síðan sneru þeir við og komu til En Mispat, það er að segja Kades.+ Þeir lögðu undir sig allt landsvæði Amalekíta+ og sigruðu Amoríta+ sem bjuggu í Hasason Tamar.+
8 Þá lagði konungurinn í Sódómu af stað og einnig konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela, það er Sóar. Þeir fylktu liði sínu gegn þeim í Siddímdalnum, 9 gegn Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Arjók, konungi í Ellasar+ – fjórir konungar á móti fimm. 10 Jarðbiksgryfjur voru á víð og dreif um Siddímdal og þegar konungarnir í Sódómu og Gómorru reyndu að flýja féllu þeir ofan í þær. Hinir flúðu til fjalla. 11 Sigurvegararnir tóku öll verðmæti Sódómu og Gómorru og allar vistir þeirra og fóru burt.+ 12 Þeir tóku líka Lot bróðurson Abrams og eigur hans og fóru sína leið, en Lot bjó í Sódómu.+
13 Nú kom maður sem hafði tekist að flýja og sagði Hebreanum Abram hvað hafði gerst. Abram bjó þá* við stóru trén sem voru í eigu Amorítans Mamre,+ bróður Eskols og Aners.+ Þeir voru bandamenn Abrams. 14 Þegar Abram frétti að frændi* sinn+ hefði verið hertekinn kallaði hann saman 318 þjálfaða menn sína sem fæddust í húsi hans og hóf eftirför allt til Dan.+ 15 Hann og þjónar hans skiptu liði að næturlagi og réðust síðan á óvinina og sigruðu þá. Þeir eltu þá allt til Hóba sem er fyrir norðan Damaskus. 16 Abram tók af þeim allt herfangið og endurheimti einnig Lot frænda sinn og eigur hans, konurnar og hina fangana.
17 Þegar Abram sneri heim á leið eftir sigurinn á Kedorlaómer og konungunum sem voru með honum fór konungurinn í Sódómu út á móti honum til að hitta hann í Savedal, það er að segja Kóngsdal.+ 18 Og Melkísedek,+ konungur í Salem,+ kom með brauð og vín. Hann var prestur hins hæsta Guðs.+
19 Hann blessaði hann og sagði:
„Blessaður sé Abram af hinum hæsta Guði,
skapara himins og jarðar.
20 Og lofaður sé hinn hæsti Guð
sem hefur gefið kúgara þína þér í hendur.“
Abram gaf honum síðan tíund af öllu.+
21 Þá sagði konungurinn í Sódómu við Abram: „Láttu mig hafa fólkið en þú skalt halda herfanginu.“ 22 En Abram sagði við konunginn í Sódómu: „Ég lyfti hendi minni og sver við Jehóva, hinn hæsta Guð og skapara himins og jarðar, 23 að ég tek ekkert sem þú átt, hvorki þráð né sandalaól, svo að þú getir ekki sagt: ‚Ég gerði Abram ríkan.‘ 24 Ég tek ekkert nema það sem ungu mennirnir hafa þegar borðað. En Aner, Eskol og Mamre,+ mennirnir sem fóru með mér, þeir mega taka sinn hlut.“