Fyrri Samúelsbók
9 Kís+ var auðugur maður af ættkvísl Benjamíns.+ Hann var sonur Abíels, sonar Serórs, sonar Bekórats, sonar Afía. 2 Hann átti ungan og myndarlegan son sem hét Sál.+ Enginn af Ísraelsmönnum var myndarlegri en hann. Hann var höfðinu hærri en þeir allir.
3 Eitt sinn týndust ösnur Kíss föður Sáls. Kís sagði þá við Sál: „Taktu með þér einn af þjónunum og farðu og leitaðu að ösnunum.“ 4 Þeir fóru þá um Efraímsfjöll og Salísaland en fundu þær ekki. Þeir fóru líka um Saalímland en ösnurnar voru ekki heldur þar. Þeir fóru um allt land Benjamíníta en fundu þær hvergi.
5 Þegar þeir voru komnir inn í Súfhérað sagði Sál við þjóninn sem var með honum: „Komdu, förum heim svo að faðir minn fari ekki að óttast meira um okkur en um ösnurnar.“+ 6 En þjónninn svaraði: „Í þessari borg er guðsmaður sem nýtur mikillar virðingar. Allt sem hann segir rætist.+ Förum þangað. Kannski getur hann sagt okkur hvert við eigum að fara.“ 7 Sál sagði við þjóninn: „Hvað getum við fært honum ef við förum til hans? Við eigum ekkert brauð eftir í pokunum og enga gjöf til að færa manni hins sanna Guðs. Eigum við eitthvað handa honum?“ 8 „Ég er með fjórðung sikils* af silfri,“ svaraði þjónninn. „Ég skal gefa það manni hins sanna Guðs til að hann segi okkur hvert við eigum að fara.“ 9 (Fyrr á tímum þegar menn í Ísrael leituðu ráða hjá Guði sögðu þeir: „Komum, við skulum fara til sjáandans.“+ En áður fyrr voru spámenn kallaðir sjáendur.) 10 Þá sagði Sál við þjóninn: „Það hljómar vel. Komdu, við skulum fara.“ Og þeir fóru til borgarinnar þar sem maður hins sanna Guðs var.
11 Á leiðinni upp til borgarinnar mættu þeir stúlkum sem voru að sækja vatn. Þeir spurðu þær: „Er sjáandinn+ hér?“ 12 „Já, hann er rétt á undan ykkur,“ svöruðu þær. „Flýtið ykkur. Hann er nýkominn til borgarinnar því að í dag ætlar fólkið að færa sláturfórn+ á fórnarhæðinni.+ 13 Þið finnið hann um leið og þið komið inn í borgina, áður en hann fer upp á fórnarhæðina til að borða. Fólkið borðar ekki fyrr en hann er kominn því að það er hann sem blessar fórnina. Þá fyrst mega gestirnir borða. Drífið ykkur upp eftir svo að þið náið honum.“ 14 Þeir héldu þá áfram upp til borgarinnar. Þegar þeir voru komnir inn í borgina kom Samúel á móti þeim á leið sinni upp á fórnarhæðina.
15 Daginn áður en Sál kom hafði Jehóva sagt við Samúel: 16 „Um þetta leyti á morgun sendi ég til þín mann frá landi Benjamíns.+ Þú átt að smyrja hann til leiðtoga yfir þjóð minni, Ísrael.+ Hann mun frelsa þjóð mína úr höndum Filistea því að ég hef séð hve mikið hún þjáist og hróp hennar hafa borist til mín.“+ 17 Þegar Samúel kom auga á Sál sagði Jehóva við hann: „Þetta er maðurinn sem ég talaði um þegar ég sagði: ‚Hann á að stjórna* þjóð minni.‘“+
18 Sál kom að máli við Samúel í miðju borgarhliðinu. „Geturðu sagt mér hvar sjáandinn á heima?“ spurði hann. 19 „Ég er sjáandinn,“ svaraði Samúel. „Farðu á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið borðið með mér í dag.+ Í fyrramálið sendi ég þig svo af stað þegar ég hef sagt þér allt sem þú vilt vita. 20 En hafðu ekki áhyggjur af ösnunum sem týndust fyrir þrem dögum.+ Þær eru fundnar. Hver á öll verðmæti Ísraels hvort eð er? Ert það ekki þú og öll ætt föður þíns?“+ 21 En Sál svaraði: „Ég er bara Benjamíníti, af minnstu ættkvísl Ísraels,+ og ætt mín er sú ómerkilegasta af öllum ættum Benjamíns. Hvers vegna segirðu þetta við mig?“
22 Samúel leiddi Sál og þjón hans inn í matsalinn og bauð þeim bestu sætin meðal gestanna, en þeir voru um 30 talsins. 23 Samúel sagði við kokkinn: „Komdu með kjötstykkið sem ég lét þig hafa og sagði þér að taka frá.“ 24 Kokkurinn sótti þá lærið og bar það fram fyrir Sál. „Þetta var tekið frá fyrir þig,“ sagði Samúel. „Borðaðu nú því að þetta var geymt handa þér fyrir þetta tilefni. Ég sagði þeim: ‚Ég hef boðið gestum.‘“ Og Sál borðaði með Samúel þennan dag. 25 Þeir gengu síðan niður af fórnarhæðinni+ inn í borgina og Samúel hélt áfram að ræða við Sál á húsþakinu. 26 Daginn eftir fóru þeir snemma á fætur. Þegar birti af degi kallaði Samúel á Sál uppi á þakinu: „Hafðu þig til svo að ég geti fylgt þér áleiðis.“ Sál hafði sig þá til og þeir Samúel fóru út. 27 Á leiðinni út úr borginni sagði Samúel við Sál: „Segðu þjóninum+ að fara á undan okkur.“ Og þjónninn gerði það. „En staldra þú við,“ sagði Samúel, „svo að ég geti flutt þér orð Guðs.“