Esterarbók
8 Sama dag gaf Ahasverus konungur Ester drottningu hús Hamans,+ óvinar Gyðinga,+ og Mordekaí fékk að ganga fyrir konung því að Ester hafði sagt honum frá skyldleika þeirra.+ 2 Konungur tók síðan af sér innsiglishringinn+ sem hann hafði tekið af Haman og fékk Mordekaí hann. Og Ester fól Mordekaí umsjón með húsi Hamans.+
3 Ester leitaði aftur til konungs. Hún féll til fóta honum, grét og sárbændi hann um að afstýra því illa sem Haman Agagíti hafði áformað að vinna Gyðingum.+ 4 Konungur rétti fram gullsprotann á móti Ester+ og hún stóð upp, gekk fyrir hann 5 og sagði: „Ef konungur hefur velþóknun á mér og vill verða við beiðni minni og ef konungi þykir það rétt og hann hefur mætur á mér þá láti hann gefa út skriflega tilskipun sem ógildir skjöl og launráð Hamans,+ sonar Hamdata Agagíta,+ sem hann skrifaði til að útrýma Gyðingum í öllum skattlöndum konungs. 6 Hvernig gæti ég afborið að horfa upp á þá ógæfu sem vofir yfir þjóð minni og þolað að sjá ættingjum mínum útrýmt?“
7 Ahasverus konungur sagði þá við Ester drottningu og Gyðinginn Mordekaí: „Ég hef gefið Ester hús Hamans+ og látið hengja hann á staur+ af því að hann ætlaði að ráðast á Gyðinga. 8 Skrifið nú það sem þið teljið vera Gyðingum fyrir bestu. Skrifið það í nafni konungs og innsiglið með innsiglishring hans því að tilskipun í nafni konungs sem er innsigluð með innsiglishring hans verður ekki afturkölluð.“+
9 Þá var kallað á ritara konungs, á 23. degi þriðja mánaðarins, það er sívanmánaðar.* Þeir skrifuðu öll fyrirmæli Mordekaí til að senda Gyðingum og æðstu embættismönnum konungs,*+ landstjórunum og höfðingjum skattlandanna+ frá Indlandi til Eþíópíu, alls 127 skattlanda. Þeir skrifuðu til hvers skattlands með letri þess og til hverrar þjóðar á tungumáli hennar og einnig til Gyðinga með letri þeirra og á máli þeirra.
10 Mordekaí skrifaði skjölin í nafni Ahasverusar konungs, innsiglaði þau með innsiglishring konungs+ og sendi þau með hraðboðum á fótfráum pósthestum sem voru ræktaðir til að nota í þjónustu konungs. 11 Með þessum skjölum veitti konungur Gyðingum í öllum borgum leyfi til að safnast saman og verjast. Þeir máttu drepa, eyða og útrýma öllum vopnuðum hópum hverrar þeirrar þjóðar eða skattlands sem réðist á þá, þar á meðal konum og börnum, og þeir máttu leggja hald á eigur þeirra.+ 12 Þetta átti að gerast á einum og sama degi í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, á 13. degi 12. mánaðarins, það er adar.*+ 13 Skjalið* skyldi hafa lagagildi í öllum skattlöndunum. Það átti að birta það öllum þjóðunum svo að Gyðingar yrðu viðbúnir á þeim degi að koma fram hefndum á óvinum sínum.+ 14 Lögin voru gefin út í virkisborginni* Súsa+ og hraðboðarnir þeystu af stað að skipun konungs á pósthestunum sem voru notaðir í þjónustu hans.
15 Mordekaí gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, bláum og hvítum. Hann var með stóra gullkórónu á höfði og í skikkju úr fínu purpuralitu ullarefni.+ Gleðióp ómuðu um borgina Súsa. 16 Gyðingum var létt,* þeir glöddust og fögnuðu og fólk sýndi þeim virðingu. 17 Í öllum skattlöndum og borgum, alls staðar þar sem tilskipun konungs og lög voru birt, glöddust Gyðingar og fögnuðu, héldu veislur og gerðu sér glaðan dag. Margir af öðru þjóðerni í landinu lýstu yfir að þeir væru Gyðingar+ því að þeir voru mjög hræddir við Gyðingana.