Brautin rudd til endurreistrar paradísar
„[Jesús] sagði við hann: ‚Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís.‘“ — LÚKAS 23:43, NW.
1, 2. (a) Hvað merkir orðið „paradís“ og hvernig hlýtur Edengarðurinn að hafa verið? (b) Hvernig er hebreska orðið, sem merkir „garður,“ þýtt í kristnu Grísku ritningunum?
MANNKYNIÐ steig sín fyrstu spor í paradís. Við lesum um sköpun mannsins í fyrstu bók Heilagrar ritningar: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál. [Jehóva] Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.“ (1. Mósebók 2:7, 8) Nafnið „Eden“ merkir „unaður“ og Edengarðurinn var stór unaðsreitur, bæði fagur og fjölbreyttur.
2 Orðið „paradís“ er umritun gríska orðsins paradeisos sem merkir lystigarður. Á hebresku var notað orðið gan sem merkir „garður.“ Allar bækur Ritningarinnar frá Matteusi til Opinberunarbókarinnar voru skrifaðar á grísku og því var þetta gríska orð notað er greint var frá orðum Drottins Jesú Krists á Golgata þann 14. nísan árið 33, rétt áður en hann lést á kvalastaurnum.
Loforð Jesú við illvirkjann um paradís
3. (a) Hvers beiddist samúðarfullur illvirki af Jesú? (b) Hvað sýnir beiðni illvirkjans um trú hans á Jesú?
3 Tveir illvirkjar voru staurfestir Jesú til beggja handa. Annar var hættur að spotta hann en hinn hélt því áfram. Samúðarfulli illvirkinn sneri sér að Jesú og bað: „Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!“ Þannig lét hann í ljós þá trú að Jesús, sem hékk á staur honum við hlið, ætti að verða konungur í framtíðinni. (Lúkas 23:42; Markús 15:32) Þessi trú mannsins hlýtur að hafa snortið hjarta Drottins Jesú. Þessi vinsamlegi afbrotamaður trúði greinilega að Jesús Kristur væri saklaus og verðskuldaði ekki þá þungu refsingu að vera tekinn af lífi með smán á almannafæri. (Lúkas 23:41) Orð hans vitnuðu um þá trú að Jesús yrði reistur upp frá dauðum og myndi verða konungur ríkis. Illvirkinn lét einnig í ljós þá trú að hann myndi sjálfur fá upprisu og að það yrði Jesús sem myndi kalla hann fram frá dauðum og blessa með nýju lífi á jörð.
4. Hvernig svaraði Jesús beiðni illvirkjans og hvað gefur það til kynna?
4 Þegar Jesús svaraði honum: „Sannlega segi ég þér í dag, þú skalt vera með mér í paradís,“ fólst í orðunum að hinn samúðarfulli illvirki myndi rísa upp. Það hlýtur að hafa verið mikil hughreysting þessum afbrotamanni sem sýndi trú. Til að maðurinn gæti fengið upprisu varð Jesús þó að rísa upp fyrst. Þá gæti hann beitt þeim hæfileika sínum að reisa upp fólk, sem Guð myndi gefa honum, og kallað þennan illvirkja fram úr dauðanum á upprisudegi mannheims. — Lúkas 23:43, NW; Jóhannes 5:28, 29; 1. Korintubréf 15:20, 23; Hebreabréfið 9:15.
5, 6. (a) Hvað lét landstjórinn Pontíus Pílatus skrifa yfir höfði hins staurfesta Jesú? (b) Á hvaða tungumáli talaði Jesús líklega við illvirkjann?
5 Á hvaða tungumáli gaf Jesús þetta loforð? Nokkur tungumál voru töluð þar um slóðir á þeim tíma. Það má sjá af því sem landstjórinn Pontíus Pílatus lét skrifa yfir höfði hinum staurfesta Jesú Kristi þannig að allir, sem fram hjá gengju, gætu lesið. Frásagan í Jóhannesi 19:19, 20 segir: „Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.“
6 Jesús fæddist í Betlehem af móður sinni, meynni Maríu, og var því fæddur Gyðingur eða Hebrei. Þau þrjú og hálft ár, sem hann prédikaði í heimalandi sínum, talaði hann vafalaust hebresku sem var tunga Gyðinga á þeim tíma. Líklega talaði hann því hebresku er hann hughreysti hinn samúðarfulla illvirkja. Þá hefur hann notað hebreska orðið gan um paradís — orð sem er að finna í 1. Mósebók 2:8. Þar notar gríska Sjötíumannaþýðingin orðið paradeisos til þýðingar á orðinu gan í frummálinu.
7. Hvernig var Jesús gerður dýrlegur er hann var reistur upp?
7 Jesús var reistur upp frá dauðum á þriðja degi eftir aftöku sína, þann 16. nísan eftir hinu hebreska almanaki. Fjörutíu dögum síðar steig hann upp til himna, síns upprunalega heimilis, en með meiri upphefð en hann hafði áður haft. (Postulasagan 5:30, 31; Filippíbréfið 2:9) Nú var hann íklæddur ódauðleika eins og himneskur faðir hans. Fram til upprisu Jesú frá dauðum sunnudaginn 16. nísan hafði Jehóva einn búið yfir ódauðleika. — Rómverjabréfið 6:9; 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16.
Lausnargjaldið opnar leiðina
8. Hver var upphaflegur tilgangur Jehóva með jörðina og hvað sýnir að hann hefur ekki hvikað frá þeim tilgangi?
8 Allt voru þetta áfangaskref í þeim tilgangi Guðs að klæða alla jörðina paradísarfegurð, já, að láta alla jörðina verða að paradís. (1. Mósebók 1:28; Jesaja 55:10, 11) Í 1. Korintubréfi 15:45 kallar Páll postuli Jesú „hinn síðari Adam.“ Það ber því vitni að Guð hafi ekki hvikað frá sínum upphaflega tilgangi varðandi jörðina og að einhver muni fullna þann tilgang sem hinn fyrri Adam gerði ekki.
9. Hvernig opnaði Jesús leiðina aftur til paradísar?
9 Páll postuli talar um að Jesús hafi greitt ‚lausnargjald.‘ (1. Tímóteusarbréf 2:6) Sjálfur sagði Jesús Kristur: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ Þannig er þeim sem iðka trú á Jesú Krist gert mögulegt að öðlast eilíft líf. — Matteus 20:28; Jóhannes 3:16.
10. (a) Hvað ákvað Guð að gera í sambandi við takmarkaðan fjölda manna? (b) Hvenær var byrjað að útvelja ‚litlu hjörðina‘ og hver gerði það?
10 Þegar Jesús steig upp til himna eftir upprisu sína frá dauðum gat hann borið verðgildi lausnarfórnar sinnar í þágu mannkyns fram fyrir Guð. Það var hins vegar tilgangur föður hans á himnum, Jehóva Guðs, að velja úr öllum þjóðum jarðar ‚lýð er bæri nafn hans.‘ (Postulasagan 15:14) Samkvæmt Opinberunarbókinni 7:4 og 14:1-4 áttu þeir að telja aðeins 144.000 einstaklinga og mynda „litla hjörð“ sem Guð kallaði til hins himneska ríkis. (Lúkas 12:32) Útvalning þessara einstaklinga, sem nutu svo sérstakrar blessunar Jehóva Guðs, hófst með útvalningu hinna tólf postula Jesú Krists. (Matteus 10:2-4; Postulasagan 1:23-26) Jesús sagði þeim sem voru grundvöllur safnaðar hans: „Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður.“ (Jóhannes 15:16) Þeir myndu ganga fram fyrir skjöldu í því starfi að boða hina komandi heimsparadís undir stjórn Guðsríkis.
Hvenær átti ríkið að koma?
11. Hvenær átti Messíasarríkið að taka völd?
11 Í nafni Drottins Jesú Krists biðjum við Jehóva enn þann dag í dag að ríki hans megi koma. (Matteus 6:9, 10; Jóhannes 14:13, 14) Messíasarríkið átti að taka til starfa við lok ‚heiðingjatímanna.‘ (Lúkas 21:24) Þessir heiðingjatímar runnu út árið 1914.a
12. Hvað gerðist árið 1914 í samræmi við spádóm Jesú um athyglisverða viðburði er skyldu vera tákn ósýnilegrar nærveru hans?
12 Það ár braust út fyrsta heimsstyrjöld mannkynssögunnar. Það kom heim og saman við spádóm Jesú um tákn ósýnilegrar nærveru sinnar sem konungur yfir jörðinni. Lærisveinar hans höfðu spurt hann: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Jesús svaraði: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna. Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:3, 7, 8, 14; Markús 13:10.
13. (a) Í hvaða skilningi er prédikun Guðsríkis fagnaðartíðindi? (b) Hve lengi hafa menn beðið þess að Guðsríki kæmi og hafa vottar Guðs á jörðinni breyst á að biðja þeirrar bænar?
13 Þetta fagnaðarerindi um ríki Jehóva er nú prédikað í liðlega 200 löndum og leitast er við að láta þá prédikun ná víðar. Þetta eru tíðindi, ekki af heimsstjórn sem á eftir að koma, heldur ríki sem nú þegar hefur tekið völd. Þetta ríki var stofnað árið 1914 og lagði grundvöllinn að því að svarað væri fyrirmyndarbæninni sem Jesús kenndi fyrir liðlega nítján öldum. Stofnandi Guðsríkis hefur verið beðinn þessarar bænar alla tíð síðan væntanlegur konungur þess kenndi lærisveinum sínum að biðja hennar. Höfundur þessa ríkis hefur því hlustað á bænina mjög lengi. Hann hefur glaðst við að heyra votta sína á jörðinni biðja þessarar bænar allan þennan tíma, því að það hefur borið vitni um að þeir iðkuðu trú á hið komandi ríki. Þeir þreyttust ekki að biðja ‚föðurinn á himnum‘ þessarar bænar, rétt eins og von þeirra um Guðsríki væri tekin að dofna. — Matteus 6:9, 10.
14. Hvers vegna halda vottar Jehóva áfram að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki?
14 Þótt vottar Jehóva trúi og boði að Guðsríki hafi verið stofnsett á himni árið 1914 halda þeir áfram að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Það gera þeir vegna þess að hið stofnsetta ríki hefur enn ekki tekið öll völd á jörðinni, heldur hefur ríkjum þessa heims verið leyft að fara enn um sinn með stjórnina yfir öllum kynkvíslum og kynþáttum mannkyns. (Rómverjabréfið 13:1) Ríkið á því enn eftir að koma í sínum fyllsta skilningi, það er að segja að vera eina stjórnin yfir jörðinni og ráða yfir henni allri. — Daníel 2:44.
15. Hvað hefur átt sér stað frá og með hvítasunnunni í mun víðtækari mæli en þá er konungar Ísraels voru smurðir?
15 Þótt Jesús sé útnefndur konungur þessa ríkis situr hann ekki einn að völdum. Jehóva Guð hefur skipað 144.000 fylgjendur hans samerfingja hans að Messíasarríkinu. (Daníel 7:27) Líkt og æðsti prestur Ísraels til forna smurði konunga með heilagri smurningarolíu, eins hefur Jehóva frá og með hvítasunnunni árið 33 smurt hina 144.000 samerfingja Jesú Krists með heilögum anda sínum og getið þá til lífs sem andaverur á himnum ásamt ‚konungi konunga og Drottni drottna.‘ — Opinberunarbókin 19:16; samanber 1. Konungabók 1:39.
„Hinn síðari Adam“ endurreisir paradís
16. Hverjar voru horfurnar á ríki við staurfestingu Jesú en hvers vegna voru það ekki ósannindi sem hann hafði boðað?
16 Er Jesús var staurfestur árið 33 leit varla svo út sem hann gæti orðið konungur. En hann hafði ekki verið að boða nein ósannindi er hann prédikaði Guðsríki. Á þriðja degi eftir staurfestingu Jesú sá stofnandi Guðsríkis svo um að lærisveinar hans myndu ekki þurfa að biðja um komu ríkis sem aldrei gæti orðið. Jehóva vakti upp þann sem átti að verða fulltrúi hans í Guðsríki og íklæddi hann ódauðleika.
17, 18. (a) Hvað felst í því að Jesús skuli kallaður „hinn síðari Adam“? (b) Hvað sýna heimsviðburðirnir frá 1914?
17 Jesús vissi að skapari hinnar fyrstu paradísar á jörð myndi leggja honum á herðar þá skyldu að endurnýja paradís og sjá um að byggja lystigarðinn um allan heim mönnum. Í 1. Korintubréfi 15:45, 47 lesum við: „Þannig er og ritað: ‚Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,‘ hinn síðari Adam að lífgandi anda. Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.“ Hinn síðari Adam kom ofan af himni og hann er sá sem Jehóva notar til að endurstofna paradís hér á jörð. Það var á þeim grundvelli sem Drottinn Jesús sagði hinum samúðarfulla illvirkja: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:43, NW) Af þessu samtali má sjá að paradís verður endurreist á jörðinni undir stjórn himnaríkis í höndum hins dýrlega Jesú Krists, ‚hins síðari Adams.‘
18 Heimsatburðirnir allt frá 1914 koma heim og saman við þá spádóma sem Jesús Kristur bar fram og sanna þannig að Jesús hefur verið við völd frá þeim tíma. Í meira en sjö áratugi, allt frá 1914, hefur kynslóð 20. aldar séð rætast þá atburði sem taldir eru upp í 24. kafla hjá Matteusi. Þetta tímabil er því senn á enda og endurreisn paradísar á jörð í nánd. — Matteus 24:32-35; samanber Sálm 90:10.
Hrífandi nýr heimur rétt framundan
19, 20. (a) Inn í hvað mun Jehóva leiða þá sem elska hann eftir Harmagedón? (b) Hvað mun þurfa að gera skömmu eftir Harmagedón?
19 Það verður engin leiðinleg, tilbreytingarlaus heimsskipan sem Jehóva mun leiða unnendur sína inn í eftir að hann hefur upphafið drottinvald sitt yfir alheimi svo á stríðsvellinum við Harmagedón að það verður aldrei véfengt framar. Þeir tímar, sem mannkynið á í vændum undir heilnæmri stjórn Messíasarkonungsins, Jesú, sonar Guðs, eru mjög hrífandi. Þar mun þurfa að vinna ótal störf til gagns og uppbyggingar! Þá mun þurfa að afmá öll þau sár sem jörðin mun bera eftir heimsstríðið milli himneskra hersveita Jehóva og sameinaðs herjar hins illa. Engar menjar verða eftir.
20 En hvað um öll þau hertól sem þjóðirnar skilja eftir? Miðað við hina táknrænu vísbendingu um tímann, sem það á að taka að brenna þau hertól sem hægt er að brenna, verður um gífurlegt magn að ræða. (Esekíel 39:8-10) Þeir sem lifa af Harmagedón munu ef til vill geta notað það sem eftir er af vopnabúnaði þjóðanna í hagnýtum tilgangi. — Jesaja 2:2-4.
21. Í hvaða aðstöðu verða þeir sem lifa af Harmagedón, líkt þeim sem lifðu af flóðið, en hvaða meginmunur verður þó á?
21 Þeir sem lifa af Harmagedón munu standa í svipuðum sporum og Nói og fjölskylda hans eftir að þau höfðu lifað af flóðið með undraverðum hætti. En Satan djöfullinn og djöflasveitir hans leika ekki lengur lausum hala á hinum ósýnilegu himnum umhverfis jörðina. Þeir hafa verið teknir algerlega úr umferð næstu tíu aldirnar. (Opinberunarbókin 20:1-3) Þeir sem lifa af Harmagedón eiga það krefjandi verkefni fyrir höndum að gera sér undirgefna jörð sem hefur gengið í gegnum ‚hinn mikla dag Guðs hins alvalda‘ með þeim áhrifum sem sá dagur hefur haft á jörðina. — Opinberunarbókin 16:14.
22. Hvernig munu þeir sem lifa af Harmagedón bregðast við því krefjandi verkefni að breyta allri jörðinni í paradís?
22 Þeir sem lifa af Harmagedón verða tiltölulega fáir svo ætla mætti að þeim féllust hendur yfir því viðamikla verkefni að breyta allri jörðinni í paradís. En svo verður ekki heldur verða þeir mjög ákafir og spenntir og ganga rösklega til verks í fullri hlýðni. Þeir gera sér fyllilega ljóst að jörðin er táknræn fótskör Guðs og vilja í einlægni gera hana fagra og aðlaðandi og þess verðuga að fætur hans hvíli þar.
23. Hvaða stuðning munu þeir sem lifa af Harmagedón fá sem tryggingu fyrir því að þeim muni takast að endurreisa paradís?
23 Það er hvetjandi og unaðslegt að vita að þeir munu ekki verða einir og yfirgefnir við þá gleðilegu þjónustu að fullna tilgang Guðs með jörðina. (Samanber Jesaja 65:17, 21-24.) Þeir munu eiga sér fullan og ótakmarkaðan stuðning hans sem hét því að paradís yrði endurreist og sagði á uppstigningardegi sínum til himna: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) Hann fer enn með þetta vald og er fær um að uppfylla hið athyglisverða fyrirheit sem hann gaf illvirkjanum, eins og við munum fjalla um í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar er að finna í bókinni „Let Your Kingdom Come,“ gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., bls. 135-9. Sjá einnig Esekíel 21:27.
Upprifjun
◻ Hvað þýðir loforð Jesú á Golgata fyrir mannkynið og fyrir einn afbrotamann?
◻ Hver er grundvöllur þess að leiðin til endurreistrar paradísar sé opnuð?
◻ Hvað gerði hinn fyrri Adam ekki en hverju mun hinn „síðari Adam“ áorka?
◻ Inn í hvers konar heimskerfi mun Jehóva leiða þá sem elska hann, eftir Harmagedón?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Greinin „Endir allra konungsríkja árið 1914“ birtist í „The World Magazine“ þann 30. ágúst 1914.