Sjöundi kafli
Hvað getur bók kennt okkur um skaparann?
ÞÚ FELLST líklega á að fræðandi og áhugaverð bók hafi verulegt gildi. Biblían er slík bók. Frásögur hennar af lífi fólks eru hrífandi og undirstrika háleitt siðgæði. Með ljóslifandi líkingum og dæmisögum kemur hún líka á framfæri mikilvægum sannindum. Einn af riturum hennar, sem annálaður var fyrir visku, segist hafa leitast við að finna „fögur orð“ og skrifa „sannleiksorð.“ — Prédikarinn 12:10.
Bókin, sem við köllum „Biblíuna,“ er í raun safn af 66 minni bókum og spannar niðurritun þeirra meira en 1500 ár. Móse skrifaði til dæmis fyrstu fimm bækurnar, Mósebækurnar, einhvern tíma á árunum 1513 til 1473 f.o.t. Jóhannes, einn af postulum Jesú, var síðasti biblíuritarinn. Hann skrifaði frásögu af ævi Jesú (Jóhannesarguðspjall), nokkur stutt bréf og Opinberunarbókina sem er síðasta bókin í flestum biblíum.
Á þeim 1500 árum, sem liðu frá dögum Móse til Jóhannesar, tóku um 40 menn þátt í niðurritun Biblíunnar. Þeir voru einlægir og guðhræddir og vildu hjálpa fólki að fræðast um skaparann. Rit þeirra upplýsa okkur um persónuleika Guðs og segja okkur hvernig við getum þóknast honum. Biblían gerir okkur líka kleift að skilja hvers vegna illskan er svo útbreidd í heiminum og hvernig bundinn verður endi á hana. Biblíuritararnir horfa til þess tíma þegar mannkynið verður undir beinni stjórn Guðs og þeir lýsa að hluta til þeim ánægjulegu aðstæðum sem þá munu ríkja. — Sálmur 37:10, 11; Jesaja 2:2-4; 65:17-25; Opinberunarbókin 21:3-5.
Þú veist sjálfsagt að margir álíta Biblíuna ekkert annað en gamla bók með mannlegri speki. En þeir skipta þó milljónum sem eru sannfærðir um að Guð sé hinn raunverulegi höfundur hennar, að hann hafi stýrt hugsun ritaranna. (2. Pétursbréf 1:20, 21) Hvernig má komast að raun um hvort það sem biblíuritararnir skrifuðu sé virkilega frá Guði komið?
Hægt er að skoða margvíslegan vitnisburð sem bendir allur í sömu átt. Margir hafa gert það og komist að þeirri niðurstöðu að Biblían sé annað og meira en verk manna, að eitthvað ofurmannlegt búi að baki henni. Tökum sem dæmi eina ákveðna tegund vitnisburðar. Með því að skoða hann getum við lært meira um skapara alheimsins, hann sem bjó manninn til.
Spár sem rættust
Allmargir af biblíuriturunum skrásettu spádóma. Það var fjarri þessum mönnum að þykjast sjálfir geta sagt framtíðina fyrir. Þeir eignuðu Guði alla spádómana. Til dæmis sagði Jesaja að Guð væri sá sem „kunngjörði endalokin frá öndverðu.“ (Jesaja 1:1; 42:8, 9; 46:8-11) Hæfileikinn til að segja fyrir um atburði, sem gerast myndu áratugum eða jafnvel öldum síðar, gerir þann Guð, sem Jesaja þjónaði, ólíkan öllum öðrum. Hann er ekki eitthvert skurðgoð eða átrúnaðargoð eins og þau sem fólk að fornu og nýju hefur hrifist af. Spádómarnir eru sannfærandi vitnisburður um að Biblían sé ekki hugverk manna. Lítum á hvernig spádómsbók Jesaja er til vitnis um það.
Samanburður á innihaldi Jesaja og sagnfræðilegum gögnum leiðir í ljós að bókin var skrifuð um það bil árið 732 f.o.t. Jesaja spáði að ógæfa kæmi yfir íbúa Jerúsalem og Júda vegna þess að þeir væru sekir um blóðsúthellingar og skurðgoðadýrkun. Jesaja sagði fyrir að landið yrði lagt í auðn, Jerúsalem og musteri hennar eytt og þeir sem af lifðu herleiddir til Babýlonar. En Jesaja spáði líka að Guð myndi ekki gleyma hinni herleiddu þjóð. Bókin segir að erlendur konungur, Kýrus að nafni, myndi vinna sigur á Babýlon og leyfa Gyðingum að hverfa aftur til ættlands síns. Jesaja hefur meira að segja beint eftir Guði: „Ég er sá sem segi um Kýrus: ‚Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: „Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!“‘“ — Jesaja 2:8; 24:1; 39:5-7; 43:14; 44:24-28; 45:1.
Á dögum Jesaja, á áttundu öld f.o.t., hafa slíkir spádómar virst ótrúlegir. Babýlon var á þeim tíma ekki einu sinni neitt sérstakt herveldi. Hún laut yfirráðum Assýríu, hins raunverulega heimsveldis þess tíma. Mönnum hefði ekki síður þótt undarleg sú hugmynd að sigraða þjóð, sem herleidd hefði verið til fjarlægs lands í útlegð, mætti leysa úr ánauð og láta endurheimta sitt fyrra land. „Hver hefir heyrt slíkt?“ skrifaði Jesaja. — Jesaja 66:8.
En hvað sjáum við ef við færum okkur fram um tvær aldir? Það sem þá hafði komið fyrir Gyðinga sannar að spádómur Jesaja uppfylltist nákvæmlega. Babýlon var orðin stórveldi og hún lagði Jerúsalem í eyði. Nafnið á persakonunginum (Kýrus), sigur hans á Babýlon og heimferð Gyðinga eru allt viðurkenndar, sögulegar staðreyndir. Svo nákvæmlega rættust einstakir þættir spádómsins að á 19. öld fullyrtu gagnrýnendur að Jesajabók væri kænlega úthugsuð fölsun og sögðu í raun: ‚Jesaja kann að hafa skrifað fyrstu kaflana, en ritari á dögum Kýrusar konungs samdi síðari hluta bókarinnar á þann hátt að hún liti út fyrir að vera spádómur.‘ Menn geta reynt að vísa spádómunum á bug með slíkum staðhæfingum en hvað segja staðreyndirnar?
Voru það raunverulegir spádómar?
Spádómarnir í bók Jesaja einskorðast ekki við atburði sem tengjast Kýrusi og útlegð Gyðinga. Jesaja sagði líka fyrir um örlög Babýlonar og í bók hans er margt að finna um komandi Messías eða lausnara sem ætti að þjást og síðan verða dýrlegur. Getum við eytt öllum vafa um hvort slíkar spár voru skrifaðar löngu fyrirfram og voru þar með spádómar sem uppfylltust?
Hugleiddu eftirfarandi: Jesaja skrifaði um síðustu daga Babýlonar: „Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru. Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa.“ (Jesaja 13:19, 20; kafli 47) Hver varð framvindan í málum þessarar borgar?
Babýlon hafði um langa hríð verið háð flóknu áveitukerfi úr stíflum og skurðum milli ánna Tígris og Efrats. Þetta vatnskerfi virðist hafa laskast um árið 140 f.o.t. í mjög skaðlegri innrás Parþíumanna og síðan fallið saman að mestu. Hvaða afleiðingar hafði það? The Encyclopedia Americana útskýrir málið: „Jarðvegurinn mettaðist af steinefnasöltum og lútarskel myndaðist á yfirborðinu sem gerði landið óhæft til ræktunar.“ Um það bil 200 árum síðar var Babýlon samt enn þá fjölmenn borg en ekki leið á löngu uns það breyttist. (Samanber 1. Pétursbréf 5:13.) Á þriðju öld okkar tímatals skrifaði sagnfræðingurinn Dio Cassius (um 150-235) um mann sem heimsótti Babýlon og fann ekkert nema „hauga og steina og rústir.“ (LXVIII, 30) Það sem máli skiptir er að þá var Jesaja löngu dáinn og bók hans í heild sinni hafði verið í umferð öldum saman. Enn í dag er aðeins rústir að sjá þar sem hin dýrlega borg Babýlon eitt sinn stóð. Fornar borgir eins og Róm, Jerúsalem og Aþena iða enn af lífi, en Babýlon er yfirgefin, óbyggð, rústir einar, alveg eins og Jesaja sagði fyrir. Spádómurinn rættist.
Beinum núna athygli okkar að lýsingu Jesaja á Messíasi sem koma skyldi. Samkvæmt Jesaja 52:13 yrði þessi sérstaki þjónn Guðs um síðir „mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.“ Næsti kafli (Jesaja 53) spáði því hins vegar að áður en Messías yrði hátt upp hafinn skyldi hann þola meðferð af allt öðrum toga. Það á kannski eftir að vekja undrun þína að sjá hina nákvæmu lýsingu í þessum kafla sem almennt er viðurkenndur sem spádómur um Messías.
Eins og þar má lesa myndu landar Messíasar fyrirlíta hann. Í þeirri fullvissu að þetta myndi gerast skrifaði Jesaja eins og það hefði þegar átt sér stað: „Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann.“ (Vers 3) Ekkert réttlætti þessa meðferð vegna þess að Messías var velgerðarmaður fólksins. „Vorar þjáningar voru það, sem hann bar“ eru þau orð sem Jesaja notar til að lýsa líknarstörfum Messíasar. (Vers 4) Engu að síður yrði Messías dreginn fyrir rétt og sakfelldur þótt saklaus væri. Hann þegði frammi fyrir ákærendum sínum. (Vers 7, 8) Hann leyfði mönnum að framselja sig til lífláts við hlið glæpamanna. Menn særðu hann með stungusári meðan á aftökunni stæði. (Vers 5, 12) Þó að hann léti lífið eins og glæpamaður yrði hann grafinn að hætti ríkra manna. (Vers 9) Þar að auki fullyrti Jesaja hvað eftir annað að óréttmætum dauða Messíasar fylgdi friðþæging, hann myndi breiða yfir syndir annarra manna. — Vers 5, 8, 11, 12.
Allt rættist þetta. Skráðar frásagnir samtímamanna Jesú — Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar — staðfesta að það sem Jesaja spáði hafi í sannleika gerst. Sumt átti sér stað eftir dauða Jesú svo að ekki gat hann hafa stýrt þeirri atburðarás. (Matteus 8:16, 17; 26:67; 27:14, 39-44, 57-60; Jóhannes 19:1, 34) Uppfylling spádóma Jesaja um Messías hefur haft mikil áhrif á einlæga biblíulesendur í aldanna rás, þar með talda suma sem ekki höfðu áður viðurkennt Jesú sem Messías. Fræðimaðurinn William Urwick skrifaði: „Margir Gyðingar hafa viðurkennt, þegar þeir gerðu skriflega grein fyrir ástæðu trúskipta sinna yfir til kristni, að það hafi verið lestur þessa kafla [Jesaja 53] sem hristi upp í trú þeirra á hinar gömlu kreddur og kennara þeirra.“ — The Servant of Jehovah.a
Urwick skrifaði þetta á ofanverðri 19. öld þegar ýmsir kunna enn að hafa dregið í efa að 53. kafli Jesaja hafi verið ritaður öldum fyrir fæðingu Jesú. Fornleifafundir og athuganir síðan þá hafa hins vegar að mestu svipt öllum stoðum undan slíkum efasemdum. Árið 1947 fann bedúínahirðingi forna bókrollu nálægt Dauðahafinu og innihélt hún Jesajabók í heild sinni. Fornleturssérfræðingar tímasettu letrið frá árunum 125 til 100 f.o.t. og niðurstaða kolefnis-14 aldursgreiningar, sem fram fór árið 1990, benti til áranna 202 til 107 f.o.t. Þessi fræga Jesajabókrolla var því þegar komin til ára sinna þá er Jesús fæddist. Hvað kemur í ljós við samanburð á henni og þeim biblíum sem við höfum nú á tímum?
Þeir sem koma til Jerúsalem geta skoðað slitrur af Dauðahafshandritunum. Á segulbandi útskýrir fornleifafræðingurinn og prófessorinn Yigael Yadin: „Ekki liðu meira en fimm eða sex hundruð ár frá því að orðin í Jesaja voru raunverulega sögð til þess tíma er þetta afrit var gert á annarri öld f.o.t. Það er undravert hve handritið í þessu safni, þótt rúmlega 2000 ára gamalt sé, er samhljóða biblíunum sem við lesum nú á tímum annaðhvort á hebresku eða í þýðingum úr frummálinu.“
Þetta ætti greinilega að vera nóg til þess að þagga niður þá gagnrýni að spádómsbók Jesaja sé skrifuð eftir að atburðirnir, sem hún spáir um, áttu sér stað. Núna liggja fyrir vísindalegar sannanir um að afrit hafi verið tekið af Jesajabók meira en öld áður en Jesús fæddist og löngu áður en Babýlon lagðist í eyði. Leikur þá nokkur vafi á að ritsmíðar Jesaja hafi spáð endanlegum afdrifum Babýlonar og einnig sagt fyrir um óréttmætar þjáningar Messíasar og hvernig dauðdaga og meðferð hann hlyti? Sögulegar staðreyndir gefa mönnum heldur engar forsendur til að véfengja það að Jesaja hafi sagt nákvæmlega fyrir um ánauð Gyðinga og frelsun þeirra úr Babýlon. Slíkir uppfylltir spádómar eru aðeins brot af margvíslegum vitnisburði sem skoða má á kerfisbundinn hátt til að sannfærast um að skaparinn sé hinn raunverulegi höfundur Biblíunnar og að hún sé „innblásin af Guði.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Það er margt annað sem ber með sér að Guð standi á bak við ritun Biblíunnar. Þegar hún minnist á stjarnfræðileg, jarðfræðileg eða læknisfræðileg efni fer hún með rétt mál. Það er gott innbyrðis samræmi milli bóka hennar þótt ritararnir séu nokkuð margir og ritunin dreifist á margar aldir. Orð hennar samræmast mörgu því sem vitað er með vissu út frá sögulegum heimildum og fornleifarannsóknum. Siðgæðislög hennar bera af lögum þjóðanna sem þá bjuggu umhverfis Ísraelsmenn og eru enn þá álitin einstök í sinni röð. Þessi rök og önnur hafa sannfært óteljandi dugandi og ærlega menn að Biblían sé ósvikin bók skaparans.b
Sú niðurstaða að Biblían sé bók frá skaparanum getur líka auðveldað okkur að draga nokkrar gildar ályktanir um eiginleika hans. Ber ekki hæfileiki hans til að sjá langt fram í tímann vitni um miklu meiri skarpskyggni en við mennirnir höfum af að státa? Menn vita hvorki hvað gerist í fjarlægri framtíð né fá ráðið því. Skaparinn gerir það. Hann getur bæði séð framtíðina fyrir og hagrætt málum þannig að vilji hans nái fram að ganga. Það sem skaparinn sagði við Jesaja á því vel við: „Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.“ — Jesaja 46:10; 55:11.
Hvernig kynnast má höfundinum betur
Við kynnumst öðrum með því að eiga samræður við þá og sjá hvernig þeir bregðast við mismunandi aðstæðum. Við getum notað báðar þessar aðferðir til að kynnast fólki en hvernig förum við að því að kynnast skaparanum? Það er ógerningur að eiga beint samtal við hann en eins og við höfum leitt rök að opinberar hann margt um sjálfan sig í Biblíunni — með því sem hann hefur sagt og gert. Auk þess býður þessi einstæða bók okkur blátt áfram að rækta náið vináttusamband við skaparann. Hún hvetur okkur: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ — Jakobsbréfið 2:23; 4:8.
Eitt það fyrsta sem við gerum ef við viljum verða vinir einhvers er að komast að raun um hvað hann heitir. Hvað heitir skaparinn og hvaða upplýsingar gefur nafnið um hann?
Hebreski hluti Biblíunnar (oft nefndur Gamla testamentið) gefur okkur upp nafnið sem skaparinn einn ber. Það er skrifað í fornum handritum með fjórum hebreskum samhljóðum sem umrita má í latneska stafrófinu með JHWH eða JHVH. Nafn skaparans kemur fyrir um það bil 7000 sinnum sem er miklu oftar en titlar eins og Guð eða Drottinn. Öldum saman notuðu þeir sem lásu hebresku Biblíuna þetta einkanafn. En er tímar liðu kom upp hjá mörgum Gyðingum hjátrúarfullur ótti við að segja upphátt nafn Guðs með þeim afleiðingum að þeir varðveittu ekki hinn rétta framburð nafnsins.
„Upprunalegi framburðurinn glataðist um síðir: nýlegar tilraunir til að endurheimta hann eru byggðar á tilgátum,“ segir í skýringariti við Aðra Mósebók útgefnu af Gyðingum. Það verður að viðurkenna að við getum ekki verið viss um hvernig Móse bar fram nafn Guðs sem skráð er í 2. Mósebók 3:16 og 6:3. En hverjum finnst hann núna í hreinskilni sagt vera nauðbeygður til að bera fram nafn Móse eða nafn Jesú svo að þau hljómi nákvæmlega eins og í munni samtíðarmanna þeirra? Varla nokkrum enda veigrum við okkur ekki við að nota nöfn þeirra Móse og Jesú þegar við tölum um þá. Er því ekki eðlilegt að við notum þá framburðarmynd á nafni Guðs sem almennt er notuð á okkar tungumáli í stað þess að láta það skipta okkur afskaplega miklu máli hvernig fornmenn, sem töluðu óskylt tungumál, báru nafnið fram? Nafnið „Jehóva“ hefur til dæmis verið notað í 400 ár á ensku, þýsku og í norrænu málunum og er víðast hvar í þeim málsamfélögum enn viðurkennt sem nafn skaparans.
En það er annað sem skiptir meira máli en nákvæmur framburður nafnsins. Það er merking þess. Nafnið er á hebresku orsakarmynd sagnorðsins hawah sem þýðir „að verða“ eða „reynast vera.“ Í bókinni The Oxford Companion to the Bible er gefin upp merkingin „‚hann veldur‘ eða ‚hann lætur verða.‘“ Við getum þar af leiðandi sagt að eiginnafn skaparans þýði bókstaflega „hann lætur verða.“ Athyglisvert er að áherslan er ekki á athafnir skaparans í fjarlægri fortíð eins og sumir hafa líklega í huga þegar þeir nota hugtakið „frumorsök.“ Af hverju ekki?
Af því að nafn Guðs er samofið því sem skaparinn hefur í hyggju að gera. Hebresk sagnorð hafa aðeins tvö grunnform og það form, sem tengist nafni skaparans, „gefur til kynna verknað . . . sem stendur yfir, er að þróast. Það lýsir ekki einungis því að verknaðurinn haldi áfram . . . heldur að honum miði áfram frá því að hann hófst í átt til þess að honum sé að fullu lokið.“ (A Short Account of the Hebrew Tenses) Já, Jehóva lætur í ljós með nafni sínu að hann lætur ekki staðar numið uns fyrirætlanir hans hafa náð fram að ganga. Þannig lærum við að hann verður sá sem uppfyllir fyrirheit sín — með verknaði sem miðar áfram. Mörgum finnst bæði ánægjulegt og uppörvandi að vita að skaparinn lætur alltaf áform sín verða að veruleika.
Tilgangur Guðs og tilgangur lífsins
Þó að nafn Guðs vitni um tilgang finnst mörgum erfitt að koma auga á einhvern raunverulegan tilgang í sínu eigin lífi. Þeir sjá hvernig hver hörmungin á fætur annarri skellur á mönnum — styrjaldir, náttúruhamfarir, farsóttir, fátækt og glæpir. Jafnvel þeir fáu, sem eru svo lánsamir að sleppa á einhvern hátt við slíkt, viðurkenna oft að þeir hafi nagandi efasemdir um framtíðina og tilganginn með lífi sínu.
Í Biblíunni segir: „Hinn efnislegi heimur var undirorpinn skapraun, ekki að eigin ósk heldur samkvæmt vilja skaparans sem jafnframt gaf heiminum þá von að verða dag einn leystur úr ánauðinni . . . og gefin hlutdeild í dýrðarfrelsi Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:20, 21, The New Testament Letters eftir J. W. C. Wand) Frásagan í Fyrstu Mósebók sýnir að eitt sinn hafi mennirnir átt frið við skapara sinn. Þá gerðist það að þeir brutu af sér og réttmæt viðbrögð Guðs voru þau að setja mannkynið í stöðu sem var skapraunandi á vissan hátt. Lítum á hvernig þetta atvikaðist, hvað það sýnir um skaparann og hvers við megum vænta í framtíðinni.
Samkvæmt þessari skráðu sögu, sem í ýmsu hefur reynst gerlegt að sannreyna, hétu fyrstu mennirnir Adam og Eva. Af frásögunni má sjá að þeim var ekki ætlað að fálma sig áfram í lífinu ómarkvisst eða án leiðbeininga um vilja Guðs. Eins og sérhver kærleiksríkur og hugulsamur faðir myndi gera fyrir börnin sín gaf Guð mönnum gagnlegar leiðbeiningar. Hann sagði við þau hjónin: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ — 1. Mósebók 1:28.
Fyrstu mennirnir höfðu þar af leiðandi mikilsverðan tilgang í lífinu. Þeir skyldu meðal annars sjá um vistkerfi jarðarinnar og fylla jörðina ábyrgum íbúum. (Samanber Jesaja 11:9.) Enginn getur með réttu kennt skaparanum um núverandi mengun jarðarinnar eins og hann hefði gefið mönnum afsökun fyrir því að misbjóða og eyða jörðina. Orðin „gjörið ykkur hana undirgefna“ voru ekkert leyfi fyrir arðráni. Þau gáfu til kynna að mennirnir ættu að yrkja og annast reikistjörnuna sem þeim var treyst til að hafa umsjón með. (1. Mósebók 2:15) Þar að auki fengju þeir ótakmarkaðan tíma til að ljúka þessu heillandi verkefni. Fyrir þeim lá að þurfa aldrei að deyja sem fellur vel að þeirri staðreynd að á 70, 80 eða jafnvel 100 árum nær maðurinn ekki að nýta nema lítinn hluta af getu mannsheilans. Heilanum var ætluð endalaus notkun.
Sem skapari manna og leiðbeinandi gaf Jehóva Guð þeim visst svigrúm til að fara sínar eigin leiðir við að framkvæma vilja skaparans með jörðina og manninn. Hann gerði hvorki óhóflegar kröfur né setti óþarfar hömlur. Til dæmis gaf hann Adam verkefni sem hver dýrafræðingur myndi óska sér — að fylgjast með atferli dýranna og gefa þeim nöfn. Eftir að Adam hafði athugað einkenni þeirra gaf hann þeim nöfn og eru mörg þeirra mjög lýsandi. (1. Mósebók 2:19) Þetta er aðeins eitt dæmi um hvernig mennirnir gátu notað sérgáfur sínar og hæfileika í samræmi við tilgang Guðs.
Það er auðskilið að hinn vitri skapari alls alheimsins gæti auðveldlega ráðið við hvert það ástand sem upp kæmi á jörðinni, jafnvel þótt mennirnir kysu að leggja út á heimskulega og skaðlega braut. Hin sögulega frásaga upplýsir okkur um að Guð hafi gefið Adam aðeins eitt takmarkandi boð: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 2:16, 17.
Þetta boð bar það með sér að menn skyldu virða rétt Guðs til að láta hlýða sér. Allt frá tímum Adams til okkar daga hafa menn þurft að viðurkenna þyngdarlögmálið og hegða sér í samræmi við það; annað væri heimskulegt og skaðlegt. Af hverju skyldu þá mennirnir neita að hegða sér í samræmi við annað lögmál eða boð frá gæskuríkum skapara sínum? Skaparinn dró skýrt fram afleiðingar þess að hafna lögum sínum en gaf Adam og Evu kost á að hlýða sér af fúsum og frjálsum vilja. Það er ekki vandséð af frásögunni um bernsku mannkynsins að skaparinn gaf mönnum valfrelsi. Engu að síður vill hann að sköpunarverur sínar séu ákaflega hamingjusamar, en það er eðlileg afleiðing af því að hegða sér í samræmi við þau góðu lög sem hann setur.
Í fyrri kafla þessarar bókar kom fram að skaparinn bjó til vitsmunaverur ósýnilegar mönnum — andaverur. Sagan af upphafi mannkyns leiðir í ljós að einn af þessum öndum hafi orðið gagntekinn þeirri hugmynd að koma sjálfum sér í stöðu Guðs. (Samanber Esekíel 28:13-15.) Hann misnotaði valfrelsið sem Guð gefur og tældi fyrstu mennina út í það sem verður ekki kallað annað en bein uppreisn. Með hegðun, sem var bæði ögrandi og bein óhlýðni við Guð — að eta „af skilningstrénu góðs og ills“ — lýstu fyrstu mannhjónin í rauninni yfir að þau vildu ekki lúta yfirráðum Guðs. Þar að auki sýndi framkoma þeirra að þau tóku gilda þá fullyrðingu að skaparinn héldi einhverju æskilegu frá manninum. Það var eins og Adam og Eva væru að krefjast þess að fá sjálf að ráða því hvað sé gott og hvað sé illt — án nokkurs tillits til álits skapara síns.
Það væri í meira lagi óskynsamlegt fyrir karla og konur að taka það í sig að þeim líkaði ekki við þyngdarlögmálið og láta sem það væri ekki til. Alveg jafnfáránlegt var það af Adam og Evu að hafna siðgæðisstöðlum skaparans. Menn ættu vissulega að vænta neikvæðra afleiðinga brjóti þeir það grundvallarlögmál Guðs að honum skuli hlýða, ekkert síður en að það hafi skaðlegar afleiðingar að virða þyngdarlögmálið að vettugi.
Sagan segir okkur að Jehóva hafi ekki látið við svo búið standa. „Jafnskjótt“ og Adam og Eva höfnuðu vilja skaparans tók að halla undan fæti fyrir þeim. Dauðinn beið þeirra eins og Guð hafði varað þau við. (Samanber 2. Pétursbréf 3:8.) Hér kemur fram önnur hlið á persónuleika skaparans. Hann er réttvís Guð sem sýnir ekki þann veikleika að láta sem hann sjái ekki óskammfeilna óhlýðni. Hann hefur viturlega og réttláta staðla og framfylgir þeim.
Í góðu samræmi við sína einstöku eiginleika sýndi Guð þá miskunn að binda ekki samstundis enda á mannlífið. Af hverju? Af umhyggju fyrir niðjum Adams og Evu sem voru hvorki getnir né fæddir og báru enga ábyrgð á synd forfeðra sinna. Umhyggja Guðs fyrir lífi þeirra sem enn voru ekki orðnir til segir okkur margt um skaparann. Hann er ekki vægðarlaus dómari, gjörsneyddur tilfinningum. Öllu heldur er hann sanngjarn, fús til að gefa öllum tækifæri og hann virðir helgi mannlífsins.
Með þessu er ekki sagt að hinar komandi kynslóðir skyldu fá að njóta sömu yndislegu aðstæðnanna og fyrstu hjónin. Afleiðing þess að skaparinn leyfði Adam að geta af sér afkomendur var sú að „hinn efnislegi heimur var undirorpinn skapraun.“ Þó fylgdi þeirri skapraun ekki algert vonleysi. Munum að Rómverjabréfið 8:20, 21 segir líka að skaparinn hafi gefið „heiminum þá von að verða dag einn leystur úr ánauðinni.“ Við ættum að vilja fræðast meira um það.
Getum við fundið hann?
Óvinurinn, sem fékk fyrstu mannhjónin til að rísa gegn skaparanum, er í Biblíunni nefndur Satan djöfullinn sem þýðir „andstæðingur“ og „rógberi.“ Í dómsorðinu, sem flutt var þessum aðalfrumkvöðli uppreisnarinnar í Eden, brennimerkti Guð hann sem óvin en lagði grunninn að því að ófæddir menn ættu sér von. Guð sagði: „Fjandskap vil ég setja milli þín [Satans] og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Þetta er greinilega óeiginlegt eða táknrænt orðfæri. Hvað er átt við þegar talað er um athafnir einhvers „sæðis“ í framtíðinni?
Aðrir staðir í Biblíunni varpa ljósi á þennan forvitnilega ritningarstað. Þeir sýna að hann er samofinn því að Jehóva standi undir nafni sínu og ‚verði‘ það sem nauðsyn krefur til að geta látið tilgang sinn með mennina á jörðinni ná fram að ganga. Í því augnamiði notaði hann sérstaka þjóð og sagan af samskiptum hans við þá þjóð til forna tekur verulegt rými í Biblíunni. Við skulum skoða stuttlega þá mikilvægu sögu. Slík athugun getur kennt okkur meira um eiginleika skaparans. Við getum sannast sagna lært margt sem er ómetanlegt að vita um hann með því að rannsaka nánar bókina sem hann hefur gefið mannkyninu, Biblíuna.
[Neðanmáls]
a Samanber Postulasöguna 8:26-38 þar sem vitnað er í Jesaja 53:7, 8.
b Frekari upplýsingar um uppruna Biblíunnar má finna í bæklingnum Bók fyrir alla menn og í bókinni The Bible — Godʼs Word or Manʼs?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 107]
Hin volduga Babýlon lagðist í eyði öldum eftir að Biblían hafði spáð því. Hún er enn rústir einar.
[Myndir á blaðsíðu 110]
Þessi Jesajabókrolla er afrit frá annarri öld fyrir okkar tímatal og fannst í helli nálægt Dauðahafinu. Hún spáði með nákvæmni fyrir um atburði sem gerðust mörg hundruð árum eftir að hún var rituð.
[Mynd á blaðsíðu 115]
Þetta bréf, skrifað með fornhebresku letri á leirbrot, fannst við uppgröft í Lakís. Nafn Guðs (sjá örvarnar) kemur tvisvar fyrir og sýnir að nafn skaparans var þekkt og var í almennri notkun.
[Mynd á blaðsíðu 117]
Isaac Newton setti fram þyngdarlögmálið. Lögmál skaparans eru skynsamleg og okkur er fyrir bestu að virða þau.