Sýndu kærleika og virðingu sem eiginkona
„Konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:33.
1. Hvaða spurningar vakna í sambandi við ástand fjölskyldumála nú til dags?
NÚ Á tímum er mikið lagt upp úr sjálfstæði og „frelsi.“ Það hefur valdið því að hin hefðbundnu viðhorf til hjónabands njóta ekki sömu virðingar og áður var. Í milljónum fjölskyldna vantar annaðhvort föðurinn eða móðurina. Óvígð sambúð er víða talin eðlileg og sjálfsögð. En hefur það veitt konunni og móðurinni aukið öryggi? Hefur það veitt börnunum það öryggi sem þau þarfnast í uppvextinum? Og hefur þetta fráhvarf frá gamalgrónu verðmætamati haft í för með sér aukna virðingu innan fjölskyldunnar? Hverju mælir orð Guðs með?
2. Hvers vegna var það ekki gott fyrir Adam að vera einn?
2 Þegar Guð lýsti yfir að hann ætlaði að skapa fyrstu konuna sagði hann: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall.“ Adam hlýtur að hafa verið sama sinnis eftir að hafa fylgst með fjölskyldulífi dýranna þar sem bæði voru karldýr, kvendýr og ungar. Enda þótt Adam væri fullkominn og byggi í unaðslegri paradís saknaði hann þess að eiga ekki félaga af sinni tegund. Hann var gæddur vitsmunum og tungumáli, en engin önnur sköpunarvera var til af hans tegund er gerði honum kleift að njóta þessara hæfileika með öðrum. En nú átti það að breytast því að Guð sagði: „Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.“ — 1. Mósebók 2:18-20.
3. (a) Í hvaða skilningi var Eva sömu ‚tegundar‘ og Adam? (b) Hvað merkir það fyrir mann að „búa við“ eiginkonu sína?
3 Jehóva notaði eitt af rifjum Adams sem undirstöðu er hann skapaði Evu. Þess vegna var Eva af sömu „tegund“ og Adam. Hún var ekki óæðra dýr heldur ‚bein af hans beinum og hold af hans holdi.‘ Því segir hin innblásna frásaga: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ (1. Mósebók 2:23, 24) Hebreska orðið, sem hér er þýtt „býr við,“ merkir bókstaflega „að loða við, tolla við, einkum fast eins og það sé límt.“ (Hebrew and Chaldee Lexicon to the Old Testament Scriptures, Gesenius) Þetta gefur þá hugmynd að hjón séu óaðskiljanlegir félagar. Annar fræðimaður segir að orðið „vísi til meira en aðeins kynferðislegrar einingar karls og konu og feli í sér allt samband þeirra.“ Hjónaband er því ekki aðeins stundleg hrifning. Það er varanlegt samband. Þar sem gagnkvæm virðing og reisn ræður ríkjum ætti sú eining að vera órjúfanleg, þó að stundum geti reynt á hana. — Matteus 19:3-9.
Meðhjálp mannsins og fylling
4. Í hvaða skilningi er konan meðhjálp og fylling mannsins?
4 Guð sagði að konan ætti að vera hjálparhella og fylling mannsins. Þar eð þau bæði voru sköpuð í Guðs mynd ætlaðist hann til að þau létu í ljós eiginleika hans — réttlætiskennd, kærleika, visku og mátt — í sambúð sinni. Eva átti því að vera „meðhjálp“ Adams, ekki keppinautur. Fjölskyldan átti ekki að vera eins og skip með tveim skipstjórum sem vilja sigla hvor í sína áttina, heldur átti Adam að vera höfuð fjölskyldunnar. — 1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:22-24; 1. Tímóteusarbréf 2:12, 13.
5. Hvernig hafa margir karlmenn farið með konur og hefur Guð velþóknun á því?
5 Uppreisn og synd fyrstu mannlegu hjónanna gegn ástríkri forystu Guðs hafði hins vegar í för með sér breyttar aðstæður fyrir þessa fjölskyldu og allar aðrar sem eftir áttu að koma. Þar eð Jehóva sá fyrir hvaða afleiðingar syndin myndi hafa og hvaða áhrif hún hefði á mannkynið sagði hann við Evu: „[Þú skalt] hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.“ (1. Mósebók 3:16) Því miður hafa menn um aldaraðir drottnað harðneskjulega yfir konum. Konur hafa verið og eru enn auðmýktar og niðurlægðar á marga vegu víða um heim. Eins og við sáum í greininni á undan gefa meginreglur Biblíunnar manninnum þó enga heimild til að beita valdi sínu af hörku. Þær leggja hins vegar áherslu á mikilvægi djúprar virðingar.
Djúp virðing er áskorun
6, 7. (a) Hvernig er hægt að vinna eiginmann, sem ekki er í trúnni, til fylgis við sannleikann? (b) Hvernig gæti eiginkona brugðist í því að sýna eiginmanni sínum, sem ekki er í trúnni, ‚djúpa virðingu‘?
6 Pétur postuli lýsti ítarlega fordæmi Jesú til eftirbreytni og sagði að Jesús hefði látið okkur eftir ‚fyrirmynd til að feta í hans fótspor.‘ Síðan sagði hann: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ Nýheimsþýðingin segir: „Eftir að hafa verið sjónarvottar að hreinlífi ykkar og djúpri virðingu.“ (1. Pétursbréf 2:21-3:2) Hvernig geta kristnar eiginkonur sýnt þessa ‚djúpu virðingu‘?
7 Eiginmenn margra af kristnum systrum okkar eru ekki í trúnni og sumir hverjir meira að segja andsnúnir sannleikanum. Eru heilræði Péturs þá dauð og ómerk undir líkum kringumstæðum? Nei, undirgefni og virðingar er krafist jafnvel við þá „sem vilja ekki hlýða orðinu.“ En væri það þá merki djúprar virðingar ef kristin eiginkona slúðraði um mann sinn í Ríkissalnum og segði hverri systurinni á fætur annarri hversu illa hann færi með hana? Hvað væri það kallað ef hún talaði þannig um bróður eða systur í söfnuðinum? Það væri kallað slúður eða jafnvel rógur. Það er því ekki merki djúprar virðingar ef eiginkona talar illa um mann sinn sem ekki er í trúnni. (1. Tímóteusarbréf 3:11; 5:13) Þó verður að horfast í augu við það að sumar systur eiga við alvarlegan vanda að glíma vegna mótstöðu eiginmanna sinna. Hvernig er hægt að taka á þeim vanda á kristilegan hátt? Þær geta leitað til öldunganna og beðið þá að hjálpa sér og leiðbeina. — Hebreabréfið 13:17.
8. Eftir hvaða nótum gæti eiginmaður, sem er trúnni mótsnúinn, hugsað?
8 Hvernig geta öldungarnir talað af háttvísi við eiginmanninn? Í fyrsta lagi geta þeir reynt að sjá málin frá hans sjónarhóli. Munnlegt eða líkamlegt ofbeldi hans gæti orsakast af keðjuverkun í þrem liðum: þekkingarleysi sem leiðir til ótta og síðan ofbeldis. Hvers vegna gerist það? Stundum veit eiginmaðurinn lítið eða ekkert um votta Jehóva nema það sem hann heyrir frá fordómafullum vinnufélögum. Hann veit að áður en konan hans fór að nema Biblíuna var hún kannski algerlega upptekin af því að snúast um hann og börnin. Enda þótt hún kunni núna að vera betri eiginkona og móðir hugsar hann sem svo: ‚Hún skilur mig eftir þrisvar í viku til að fara á þessar samkomur. Ég veit ekki hvað á sér stað á þessum samkomum, en það eru nokkrir myndarlegir karlmenn þar og . . . ‘ Já, þekkingarleysi hans gæti leitt til afbrýði og reiði. Síðan koma varnarviðbrögðin. Hvernig geta öldungarnir hjálpað þegar þessara viðhorfa verður vart? — Orðskviðirnir 14:30; 27:4.
9. Hvernig má með háttvísi ná til sumra eiginmanna utan trúarinnar og hvaða afleiðingar getur það haft?
9 Ef til vill gæti einhver af öldungunum reynt að kynnast manninum persónulega. (1. Korintubréf 9:19-23) Ef maðurinn er iðnaðarmaður, svo sem rafvirki, trésmiður eða málari, kynni hann að vera fús til að hjálpa til við eitthvað sem gera þarf í Ríkissalnum. Þannig myndi hann geta séð Ríkissalinn án þess að honum fyndist hann nauðbeygður til að vera viðstaddur samkomu. Þegar hann kynnist bræðrunum gætu viðhorf hans til konu sinnar og sannleikans breyst til betri vegar. Eftir að hafa veitt athygli kærleika og samstarfsanda safnaðarins fer hann kannski jafnvel að aka konu sinni á samkomur. Næsta skrefið gæti verið það að hann kæmi inn í Ríkissalinn á samkomutíma og hlustaði um stund. Innan tíðar biður hann kannski um biblíunám. Allt þetta hefur gerst. Svo er fyrir að þakka kærleika bræðranna og háttvísi og ‚djúpri virðingu‘ eiginkvenna að þúsundir eiginmanna, sem ekki voru í trúnni, eru það núna. — Efesusbréfið 5:33.
Hún vakir yfir heimili sínu
10, 11. Hvaða mismunandi eiginleikum vænnar eiginkonu lýsir Lemúel konungur? (Ræðið einn og einn í einu.)
10 Lemúel konungur fékk góðar leiðbeiningar frá móður sinni varðandi eiginleika hinnar kjörnu eiginkonu. (Orðskviðirnir 31:1) Lýsing Orðskviðanna 31:10-31 á henni sem iðjusamri eiginkonu og móður er vel þess virði að lesa gaumgæfilega. Móðir Lemúels konungs hafði augljóslega reynslu af því að fylgja réttlátum meginreglum og sýna djúpa virðingu.
11 Lemúel segir að ‚væn kona‘ sé áreiðanleg og trúföst. (Vers 10-12) Hún vinnur hörðum höndum til að tryggja að maður hennar og börn séu vel nærð og vel klædd. (Vers 13-19, 21, 24) Hún er góðgjörn og örlát við nauðstadda. (Vers 20) Hún stuðlar að góðum orðstír eiginmanns síns með virðingu sinni og góðri hegðun. (Vers 23) Hún rápar ekki um og slúðrar eða brýtur niður með gagnrýni sinni, heldur uppbyggir og græðir með tungu sinni. (Vers 26) Hús hennar er hreint og snyrtilegt af því að hún er ekki löt. (Vers 27) (Kristið heimili á reyndar að vera eitthvert það hreinasta í hverfinu.) Maður hennar og börn eru þakklát og hrósa henni. Þeir sem standa utan fjölskyldunnar meta líka eiginleika hennar að verðleikum. (Vers 28, 29, 31) Fegurð hennar er ekki yfirborðsleg heldur býr hún yfir fegurð guðhræddrar og guðrækinnar konu. — Vers 30.
Hógvær og kyrrlátur andi
12. Hvað er „dýrmætt í augum Guðs“ og hvernig er það undirstrikað í spænsku máltæki?
12 Pétur postuli tekur undir þetta síðasta atriði er hann ráðleggur kristnum konum að leggja ekki óhóflega mikið upp úr ytra útliti. Hann hvetur: „Skart yðar sé . . . hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs.“ (1. Pétursbréf 3:3, 4) Taktu eftir því að ‚hógvær og kyrrlátur andi er dýrmætur í augum Guðs.‘ Kristin eiginkona og móðir, sem býr yfir slíkum anda, þóknast þannig ekki aðeins eiginmanni sínum heldur það sem mikilvægara er, hún þóknast Guði eins og trúfastar konur fortíðar. Spænskur orðskviður endurómar þessa áherslu á innri fegurð: „Fögur kona gleður augun; góð kona gleður hjartað. Ef sú fyrri er gimsteinn er sú síðari fjársjóður.“
13. Hvernig getur eiginkona haft jákvæð áhrif á börn sín?
13 Kristin eiginkona getur styrkt og endurnært alla fjölskyldu sína. (Samanber Matteus 11:28-30.) Þegar börnin sjá hana bera virðingu fyrir manni sínum munu þau endurspegla þá virðingu fyrir foreldrum sínum og öðrum utan fjölskyldunnar. Kristin börn munu þar af leiðandi vera vingjarnleg og tillitsöm. Og það er mjög hressandi þegar börnin bjóðast af eigin frumkvæði til að vinna verkin í stað þess að gera þau með hangandi hendi eftir að búið er að nauða í þeim. Óeigingirni þeirra stuðlar að hamingjuríku heimili og velþóknunarbros móðurinnar eru ríkuleg laun fyrir þau.
14. Hvers ber að gæta þegar aga þarf börnin?
14 Að sjálfsögðu þurfa börn stundum að fá aga því að þau gera mistök alveg eins og foreldrar þeirra. Stundum eru þau óhlýðin. Hvað gerir kristin móðir ef faðirinn er ekki heima? Virðir hún reisn barna sinna eða æpir hún og skammast í von um að fá þau til að hlýða? Hvort lærir barnið meira af raddstyrknum eða af kyrrlátum rökum? — Efesusbréfið 4:31, 32.
15. Hvað hefur komið í ljós í sambandi við hlýðni barna?
15 Tímaritið Psychology Today segir um hlýðni barna: „Nýlegar rannsóknir benda til að því meira sem foreldrarnir brýna raustina þegar þeir banna börnum sínum eitthvað, þeim mun líklegra sé að þau geri einmitt það sem foreldrarnir vilja ekki.“ Rannsóknir hafa aftur á móti sýnt að þegar fullorðnir tala kyrrlátri röddu hafa börn tilhneigingu til að hlýða nokkurn veginn hiklaust. Að sjálfsögðu er sérlega þýðingarmikið að rökræða við barnið í stað þess að ergja það með endalausum, kreddukenndum fyrirmælum. — Efesusbréfið 6:4; 1. Pétursbréf 4:8.
Virðing í kynlífinu
16. Hvernig getur eiginkona tekið tillit til tilfinningalegra þarfa manns síns? Hvaða jákvæð áhrif hefur það?
16 Á sama hátt og eiginmanni ber að sýna konu sinni tillitsemi vegna þess að hún er veikbyggðari en hann, eins ætti eiginkona að virða tilfinningalegar og kynferðislegar þarfir manns síns. Biblían gefur til kynna að hjón ættu að hafa yndi hvort af öðru og gera hvoru öðru til geðs. Það krefst þess að hjónin séu næm fyrir þörfum og hugarástandi hvors annars. Þessi gagnkvæma löngun hjónanna til að fullnægja þörfum hvors annars mun einnig stuðla að því að tryggja að hvorugt þeirra fari að renna hýru auga til annarra sem gæti verið undanfari siðleysis. — Orðskviðirnir 5:15-20.
17. Hvernig ber hjónum að líta á það að veita hvoru öðru hjúskaparréttinn?
17 Þegar hjón bera gagnkvæma virðingu hvort fyrir öðru mun hvorugt þeirra reyna að beita kynferðislegum þörfum sem eins konar vopni. Þau ættu bæði að veita hvoru öðru hjúskaparréttinn, og kjósi þau að halda sér frá því um tíma ættu þau bæði að vera sammála um það. (1. Korintubréf 7:1-5) Ef eiginmaðurinn yrði til dæmis að heiman um skamman tíma af og til við byggingarframkvæmdir á vegum Varðturnsfélagsins eða vegna annarra guðræðislegra verkefna, ætti hann að vera viss um að konan hans sé því hlynnt af heilu hjarta. Slíkur aðskilnaður getur líka verið fjölskyldunni til andlegrar blessunar í mynd uppörvandi frásagna sem eiginmaðurinn segir er hann kemur heim aftur.
Hið mikilvæga hlutverk systra
18. Hvers vegna er meira krafist af eiginkonu öldungs en öðrum?
18 Þegar eiginmaður kristinnar konu er öldungur eykur það ábyrgð hennar. Í fyrsta lagi eru gerðar meiri kröfur til manns hennar en annars væri. Hann þarf að standa Jehóva reikningsskap fyrir andlegu ástandi safnaðarins. (Hebreabréfið 13:17) En það er líka mikilvægt að eiginkona öldungs (sem ef til vill er sjálf farin að reskjast) setji gott fordæmi með virðingu sinni. (Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:9, 10; Títusarbréfið 2:3-5.) Flestar eiginkonur öldunga setja líka gott fordæmi með því að styðja menn sína. Eiginmaðurinn þarf stundum að vera að heiman til að sinna málefnum safnaðarins og kona hans getur verið eilítið forvitin. En drottinholl, guðhrædd eiginkona reynir ekki að komast á snoðir um safnaðarmál sem henni koma ekki við. — 1. Pétursbréf 4:15.
19. Hvað getur það falið í sér fyrir öldung að ‚veita heimili sínu forstöðu‘?
19 Öldungur gæti stundum þurft að leiðbeina konu sinni ef viðhorf hennar eru ekki uppbyggjandi eða ef hún gefur ekki öðrum systrum gott fordæmi. Það að ‚veita heimili sínu góða forstöðu‘ tekur ekki aðeins til barnanna heldur líka eiginkonunnar. Þessi staðall Biblíunnar gæti stundum reynt á auðmýkt sumra eiginkvenna. — 1. Tímóteusarbréf 3:4, 5, 11; Hebreabréfið 12:11.
20. Nefndu nokkrar giftar og ógiftar systur bæði fyrr og nú sem sýnt hafa gott fordæmi. (Sjá „Life Stories of Jehovah’s Witnesses“ í Watchtower Publications Index 1930-1985.)
20 Ógiftar systur geta einnig virt fyrir sér þá virðingu sem eiginkonur í söfnuðinum sýna. Þar er að finna fjölmargar dugandi, trúfastar systur nú á dögum og Ritningin segir einnig frá mörgum. Dorkas, sem sennilega var einhleyp, var mjög virt vegna ‚góðgerðarsemi‘ sinnar. (Postulasagan 9:36-42) Priska og Föbe voru einnig kostgæfar gagnvart sannleikanum. (Rómverjabréfið 16:1-4) Margar systra okkar nú á tímum, giftar eða einhleypar, eru einnig dugandi trúboðar, brautryðjendur og safnaðarboðberar. Samtímis halda þessar guðræknu konur heimili sínu hreinu og snyrtilegu og vanrækja aldrei fjölskyldur sínar. Sökum fjölda síns og aðstæðna vinna þær oft meirihluta prédikunarstarfsins. — Sálmur 68:12.
21. Hvernig eru trúfastar systur kristnum bræðrum sínum til hvatningar?
21 Trúfastar systur gegna þýðingarmiklu og uppbyggilegu hlutverki í söfnuðinum. Kostgæfni þeirra og gott fordæmi er hvatning bæði bræðrunum og kristna söfnuðinum í heild. Þær eru svo sannarlega fylling og meðhjálp. (Samanber 1. Mósebók 2:18.) Þær verðskulda kærleika og virðingu. Og kristin hjón eiga tvímælalaust að fara eftir leiðbeiningum Páls: „Þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ — Efesusbréfið 5:33.
Manst þú?
◻ Hvaða hlutverk fékk Guð manninum og konunni í upphafi?
◻ Hvernig má hugsanlega vinna mann, sem ekki er í trúnni, til fylgis við sannleikann?
◻ Nefndu nokkra eiginleika góðrar eiginkonu.
◻ Hvernig getur kristin eiginkona látið í ljós ‚hógværan og kyrrlátan anda‘?
◻ Hvaða jafnvægis þarf að gæta í kynlífi hjónanna?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Fjölskyldan á ekki að vera eins og skip með tvo skipstjóra sem togast á um stýrið.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Eiginmaður, sem ekki er í trúnni, getur orðið afbrýðisamur eða jafnvel eilítið hræddur vegna samkomusóknar eða annarra kristinna athafna konu sinnar. Hvernig er hægt að hjálpa honum?