Innsæi sem Jehóva hefur veitt
„Hinir vitru meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi.“ — DANÍEL 11:33.
1, 2. (a) Hvers vegna gerðu Ísraelsmenn uppreisn þótt þeir hefðu reynt kærleiksríka gæsku Guðs? (b) Hvað væri mjög gagnlegt fyrir okkur að gera? (Jeremía 51:10)
ÍSRAELSMENN til forna vissu að Jehóva var hinn eini sanni Guð. Þeim hafði verið sagt frá viðskiptum hans við forfeður þeirra og sjálfir höfðu þeir reynt kærleiksríka gæsku hans. En oftar en einu sinni sýndu þeir stórkostlegan skort á innsæi. Þeir ‚sýndu þrjósku‘ gagnvart Jehóva og fulltrúum hans. Hvers vegna? Vegna þess að þeir „gleymdu fljótt“ því sem hann hafði gert fyrir þá. (Sálmur 106:7, 13) Það var ekki svo að þeir vissu þetta ekki allt, en þeir létu hjá líða að hugleiða það með þakklæti. Afleiðingin varð sú að þeir urðu ‚sólgnir í það sem illt er.‘ — 1. Korintubréf 10:6.
2 Á okkar tímum hefur Jehóva greint þjóð sína frá öðrum á skýran hátt með því að gefa henni innsæi í gegnum sýnilegt skipulag sitt. Skilningur okkar á því hvernig Jehóva leiðir þjóna sína getur vaxið við það að skoða nokkur slík dæmi um innsæi. Eitt þeirra snýst um sjálfan kjarna trúar okkar — Guð sjálfan.
Er Guð þrenning?
3. Hvað hjálpaði þjónum Jehóva að gera sér ljósan sannleikann um Guð fyrir rúmum hundrað árum? (1. Korintubréf 8:5, 6)
3 Kristni heimurinn hefur staðið á því fastar en fótunum að þeir sem játi ekki trú á þrenninguna séu trúvillingar. En í stað þess að láta menn hræða sig til undanláts hafa vottar Jehóva viðurkennt að það er Heilög ritning en ekki erfikenningar og kreddur óinnblásinna manna sem er mælikvarði sannleikans. Á þeim grunni sögðu þessir kostgæfu biblíunemendur skýrum orðum í Varðturninum árið 1882: „Lesendum okkar er kunnugt að þótt við trúum á Jehóva Guð og Jesú og heilagan anda höfnum við sem algerlega óbiblíulegri kenningunni um að þeir séu þrír Guðir í einni persónu, eða eins og sumir orða það, einn Guð í þremur persónum.“ — Jóhannes 5:19; 14:28; 20:17.
4. (a) Að hverju komust þjónar Jehóva, með því að skyggnast undir yfirborðið, varðandi grundvöll þrenningarkenningarinnar og áhrif hennar? (b) Hvers vegna veitti Jehóva þjónum sínum slíkt innsæi?
4 Þessir unnendur sannleika Biblíunnar höfðu skyggnst undir yfirborðið og komist að raun um að þrenningartrúin átti rætur sínar í ókristnum trúarbrögðum. Með vandlegri rannsókn Ritningarinnar gerðu þjónar Guðs sér einnig ljóst að þegar ákveðin biblíuvers virtust styðja þrenningarhugmyndir var ástæðunnar að leita í hlutdrægni og fordómum þýðendanna en ekki því sem stóð í elstu handritum frummálsins. Þeir gerðu sér ljóst að þessi kenning, sem virtist heiðra Jesú, gekk í raun þvert á kenningu hans og vanheiðraði Jehóva. Þess vegna sagði í tölublaði Varðturnsins sem vitnað var í hér á undan: „Sem sannleiksleitandi mönnum ber okkur skylda til að vera heiðarlegir við sjálfa okkur og orð föður okkar sem getur sannarlega gert okkur vitra. Við skulum því hafa að engu erfikenningar og kreddur óinnblásinna manna og spilltra trúkerfa og halda fast við þau heilnæmu orð sem við höfum þegið af Drottni okkar og postulum.“ Þessir smurðu kristnu menn elskuðu sannleikann og einblíndu ekki aðeins á fáein uppáhaldsvers í Biblíunni, heldur gáfu nákvæman gaum að öllu orði Guðs, og þess vegna veitti Jehóva þeim innsæi sem aðgreindi þá frá kristna heiminum svo ekki varð um villst. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; sjá New World Translation Reference Bible, bls. 1580, kafla 6B.
Hinn réttmæti staður nafns Guðs
5. Hvað hefur legið að baki þeirri stefnu að fella einkanafn Guðs út úr biblíuþýðingum? (Opinberunarbókin 22:18, 19)
5 Íhugum annað dæmi: Þegar biblíuþýðendur tóku í auknum mæli að dylja eða fella niður einkanafn Guðs lagði Varðturnsfélagið sífellt meiri áherslu á mikilvægi nafnsins. Kristni heimurinn hélt því fram að guðspjallið myndi höfða betur til allra þjóða ef nafni Jehóva væri sleppt, en smurðir þjónar Jehóva gerðu sér grein fyrir hver stóð að baki þessari fyrirætlun um að fjarlægja mikilvægasta nafn allra nafna úr heilagri Ritningu. (Samanber Jeremía 23:27.) Þjónar Guðs gerðu sér ljóst að þetta var gert að undirlagi djöfulsins í þeirri viðleitni hans að þurrka út úr minni manna nafn hins eina sanna Guðs.
6. Hvað gerðu sannir þjónar Guðs til að upphefja nafn hans, ólíkt aðferðum kristna heimsins? (Postulasagan 15:14)
6 Ólíkt stefnu kristna heimsins veitti Varðturninn allt frá fyrsta útgáfuári (1879) nafni Guðs, JEHÓVA, verðugan sess. Árið 1926 birtist í þessu tímariti grein er hét „Hver mun heiðra Jehóva?“ (Sálmur 135:21) Árið 1931 tóku þeir biblíunemendur, sem tengdust Varðturnsfélaginu, sér nafnið vottar Jehóva. (Jesaja 43:10-12) Þeir gerðu sér einnig enn gleggri grein fyrir mikilvægi þess að helga nafn Jehóva. (Jesaja 12:4, 5) Árið 1944 tók Félagið að gefa út biblíuþýðinguna American Standard Version þar sem nafn Jehóva stendur yfir 6800 sinnum. Í sambandi við útgáfu Biblíunnar hefur þó borið hæst útgáfu Nýheimsþýðingarinnar sem Félagið tók að gefa út árið 1950. Þar heldur nafn Guðs sínum réttmæta sessi bæði í Hebresku ritningunum og kristnu Grísku ritningunum.
7. Hvernig hefur sú áhersla, sem lögð er á nafn Guðs og allt sem því er tengt, orðið mörgum til góðs?
7 Sú áhersla, sem þannig hefur verið lögð á einkanafn Guðs, hefur verið gleðigjafi milljóna manna um allan heim sem unna réttlætinu. Hún hefur hjálpað þeim að meta hinn sanna Guð að verðleikum sem persónu. Og eftir því sem þeir hafa kynnst betur vegum Jehóva hefur þeim tekist að hegða sér hyggilega, með innsæi. — Míka 4:2, 5.
Er mannssálin ódauðleg?
8. Hvað gerðu nútímavottar Jehóva sér ljóst snemma um sálina og ástand hinna dánu?
8 Nú skulum við taka þriðja dæmið: Snemma kom að því í nútímasögu þjóna Jehóva að kærleikur þeirra til orðs Guðs opnaði augu þeirra fyrir öðrum mikilvægum sannindum. Fyrir meira en einni öld skildi ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ réttilega að sálin er ekki einhver skynsemigæddur og aðskiljanlegur andi sem dvelur innra með manninum heldur er hún persónan sjálf. (Matteus 24:45-47) Árið 1880 braut Varðturninn til mergjar þau orð í frummálum Biblíunnar sem þýdd eru dánarheimar og hel (séol og hades) og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væru önnur heiti grafarinnar. Þar var einnig bent á að mönnum, sem sendir væru í Gehenna, væri eytt en ekki kvaldir. — Sjá einnig New World Translation Reference Bible bls. 1573-5.
9. Hvað sagði Varðturninn árið 1894 um uppruna kenningarinnar um ódauðleika sálarinnar?
9 Árið 1894 bar Varðturninn fram spurninguna: „Hvaðan kom þá sú vinsæla hugmynd að allir menn búi yfir ódauðleika sem er þeim eðlilegur og áskapaður?“ Af innsæi svaraði blaðið: „Þegar við flettum síðum sögunnar komumst við að raun um að enda þótt innblásnir vottar Guðs hafi ekki haldið fram kenningunni um ódauðleika mannsins, þá er hún engu að síður innsti kjarni allra heiðinna trúarbragða. . . . Það er því ekki rétt að Sókrates og Platon hafi fyrstir manna haldið þessari kennisetningu fram: Kennari, sem var þeim báðum eldri og hæfari, hafði kennt hana áður. Þeir slípuðu hins vegar kennisetninguna . . . og gerðu úr henni heimspeki, en þannig varð hún meira lokkandi og boðlegri menntastétt þeirra tíma og ætíð síðan. Fyrstu heimildir um þessa fölsku kenningu er að finna í elstu sagnfræðibók sem maðurinn þekkir — Biblíunni. Falskennarinn var Satan.“a
10. Hvaða slæm áhrif hafa lygar trúarbragða um sálina og ástand hinna dánu haft, en hvað var gert til að hjálpa skynsömu fólki?
10 Satan hefur gefið villandi mynd af nafni Guðs og lastað það með því að breiða út þau ósannindi að allir menn hafi ódauðlega sál, og að hinir illu verði kvaldir að eilífu í helvíti. Fyrsti ritstjóri Varðturnsins, C. T. Russell, gerði sér grein fyrir því. Hann sá skynsamt fólk hafna hugmyndinni um eilífa kvöl, en það hafnaði einnig Biblíunni af því að það áleit að þaðan væri þessi óskynsamlega kennisetning komin. Til að blása reyk hinna myrku miðalda úr hugum skynsamra manna, eins og bróðir Russell orðaði það, flutti hann eftirtektarverðan, opinberan fyrirlestur er bar heitið: „Til helvítis og aftur til baka.“
11. (a) Hvaða varnaðarorð hljómuðu frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ þegar spíritisminn kom fram á sjónarsviðið? (b) Hverjum hefur þessi aðvörun hjálpað og á hvaða hátt?
11 Á þeim tíma var spíritisminn eða andatrúin mjög að koma fram á sjónarsviðið. En ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ skynjaði með því innsæi sem Jehóva gerði honum kleift með orði sínu að öðlast, að þeir andar framliðinna manna, sem sagt var að fólk næði sambandi við, væru í raun og veru illir andar. Bæði í opinberum fyrirlestrum og rituðu máli voru sett fram sterk rök frá Ritningunni til að opna augu hjartahreinna manna fyrir hættunni sem fylgdi því að taka þátt í athöfnum andatrúarmanna. (5. Mósebók 18:10-12; Jesaja 8:19) Þetta innsæi, sem Jehóva hefur gefið þjónum sínum, hefur leitt til þess að þúsundir manna um allan heim hafa verið leystar undan ótta við hina dánu, frá andatrúariðkunum og þeim niðurlægandi athöfnum sem eru tengdar spíritisma.
Kristin hegðun í ófriðlegum heimi
12, 13. (a) Útskýrðu Daníel 11:32, 33. (b) Nefndu nokkur grundvallarsannindi Biblíunnar sem renna stoðum undir skilning þeirra sem hafa öðlast innsæi.
12 Spámaðurinn Daníel gaf til kynna að þjónar Guðs myndu sýna innsæi á enn einu sviði — í hinu mikilvæga máli er varðaði hlutleysi. Eftir að hafa lýst í smáatriðum baráttunni milli áhrifamikilla stjórnmálaafla í heiminum segir Daníel 11:32, 33: „Og þá sem syndga gegn sáttmálanum, mun hann með fláttskap tæla til fráhvarfs.“ Hér er átt við það að alræðiskonungurinn norður frá leiðir til fráhvarfs þá sem játa kristna trú en elska heiminn, vilja njóta viðurkenningar hans og sýna þess vegna fyrirlitningu sáttmála Jehóva um ríki Krists Jesú yfir allri jörðinni. „En,“ heldur Daníel áfram, „þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa og drýgja dáð. Hinir vitru [„þeir sem hafa innsæi,“ NW] meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi.“
13 Það innsæi, sem þarf til að bregðast viturlega við oft ólgusömu ástandi í kringum okkur, byggist á skilningi á frumsannindum Biblíunnar. Með leiðsögn Jehóva hefur hópurinn, sem myndar ‚hinn trúa og hyggna þjón,‘ náð að bera skyn á þessi sannindi. Meðal annars skilja þeir að Satan djöfullinn er ósýnilegur drottnari þessa heims eins og Jesús benti á. (Lúkas 4:5-8; Jóhannes 12:31) Í samræmi við það segir í 1. Jóhannesarbréfi 5:19 að ekki aðeins lítill hluti heimsins heldur ‚allur heimurinn [allt mannkynið utan hins sannkristna safnaðar] sé á valdi hins vonda.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Þar eð Jesús sagði um fylgjendur sína að þeir yrðu „ekki af heiminum“ verða þeir að halda sér hlutlausum gagnvart málefnum hans. — Jóhannes 17:16.
14. (a) Að hvaða tímabærum málum var athygli þjóna Jehóva beint árið 1939 og 1941? (b) Hvernig hefur slíkt innsæi hjálpað vottum Jehóva að hegða sér viturlega?
14 Það var því tímabært að birtast skyldi í Varðturninum þann 1. nóvember 1939 grein um hlutleysi kristinna manna, á sama tíma og dökk óveðursský seinni heimsstyrjaldarinnar lögðust yfir Evrópu. Nátengd þessu máli voru önnur grundvallarsannindi — mikilvægi deilumálsins um drottinvald yfir alheiminum og hlutverk messíasarríkisins í að útkljá það. Það átti því vel við að þetta mál skyldi tekið til sérstakrar umfjöllunar í mótsræðu árið 1941 í borginni St. Louis í Bandaríkjunum, og aftur næsta ár í bókinni The New World. Þetta innsæi frá Guði hefur verið þjónum Guðs til mikillar verndar í þessum sundraða og stríðandi heimi! Þótt trúfélög kristna heimsins hafi látið flækjast í alþjóðadeilur og átök og starfsemi skæruliðahreyfinga er hafa að markmiði að kollvarpa ríkisstjórnum, og hafi við það klofnað og margsundrast, þá hafa vottar Jehóva í öllum löndum heims haldið sameinaðir áfram að helga sig því starfi að boða ríki Jehóva sem einu von mannkynsins. Þeir hafa haldið sér uppteknum við það björgunarstarf sem Jesús Kristur spáði um er hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
Uppfylling biblíuspádóma
15. Hvers vegna hafa þjónar Jehóva öðlast innsæi?
15 Hvers vegna hafa þjónar Jehóva búið yfir slíku innsæi? Vegna þess að þeir bera fullt traust til hins ritaða orðs Guðs, hlýða því og andi Jehóva er yfir þeim. Þannig hefur þeim einnig tekist að skilja mikilvæga biblíuspádóma, en það er fimmta dæmið sem við skoðum.
16, 17. (a) Hvers vegna ber þeim ártölum, sem vottar Jehóva nota, ekki alltaf saman við þau sem veraldlegir sagnfræðingar nota? (b) Á hvaða hátt hafa vottar Jehóva haft gagn af trausti sínu til Biblíunnar varðandi 20. stjórnarár Artaxerxesar og eyðingarár Jerúsalem fyrir hendi Babýloníumanna?
16 Veraldlegir sagnfræðingar reiða sig á túlkun sína á misheilum töflubrotum sem fornleifafræðingar hafa grafið upp, og hafa komist að þeirri niðurstöðu að árið 464 f.o.t. hafi verið fyrsta stjórnarár Artaxerxesar hins handlanga og að árið 604 f.o.t. hafi verið fyrsta stjórnarár Nebúkadnesars II. Ef það væri rétt hefði 20. stjórnarár Artaxerxesar hafist árið 445 f.o.t. og eyðing Jerúsalem fyrir hendi Babýloníumanna (á 18. stjórnarári Nebúkadnesars) myndi þá bera upp á árið 587 f.o.t. Ef þessi ártöl eru notuð til að reikna út uppfyllingarár biblíuspádómanna lendir biblíunemandi í hreinustu vandræðum.
17 Vottar Jehóva hafa haft áhuga á fornleifafundum sem tengjast Biblíunni. Þegar hins vegar túlkun þessara funda stangast á við skýrar fullyrðingar Biblíunnar tökum við hiklaust trúanlegt það sem Heilög ritning segir, hvort heldur um er að ræða tímatal eða einhver önnur atriði. Þar af leiðandi hafa þjónar Jehóva lengi gert sér ljóst að telja bæri hið spádómlega tímabil, sem hófst á 20. stjórnarári Artaxerxesar, frá 455 f.o.t., og að Daníel 9:24-27 benti þannig til haustsins 29 er Jesús átti að hljóta smurningu sem Messías.b Af sömu ástæðu hafa þeir gert sér ljóst að hinar „sjö tíðir“ í 4. kafla Daníelsbókar teljast frá 607-606 f.o.t. og tiltóku nákvæmlega haustið 1914 e.o.t. sem það ár er Kristur var settur í hásæti og endalokatími þessa heims hófst.c Þeir hefðu ekki skilið þessa hrífandi uppfyllingu spádómanna ef þeir hefðu verið reikulir í sannfæringu sinni og trausti til innblásturs Biblíunnar. Það innsæi, sem þeir hafa sýnt, hefur því staðið í beinum tengslum við traust þeirra á orði Guðs.
18. Hverju lofar Jesaja 65:13, 14 í sambandi við andlegt ástand trúrra þjóna Jehóva?
18 Jehóva ber saman andlegt ástand drottinhollra þjóna sinna annars vegar og hins vegar einstaklinga og hópa sem sópa Biblíunni í flýti til hliðar til að fylgja vinsælum straumum og stefnum: „Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorga og æpa af hugarkvöl.“ — Jesaja 65:13, 14.
19. (a) Hvaða málgagn notar ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ fyrst og fremst til að miðla útskýringum á Ritningunni? (b) Hvers konar námsáætlun gerir okkur kleift að njóta hinnar andlegu fæðu til fullnustu?
19 Eins og þetta söguágrip hefur sýnt er það á síðum Varðturnsins sem Jehóva hefur látið ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ birta okkur mikilvægar skýringar á Ritningunni. Varðturninn er aðalverkfæri þjónshópsins til að gefa okkur andlega fæðu. Hefur þú full not af blaðinu? Lestu sérhvert tölublað og flettir þú upp ritningarstöðum sem vitnað er til en standa ekki í blaðinu? Gerir þú þér að venju að hugleiða það sem þú nemur og byggja upp þakklæti fyrir það, og íhuga hvernig það ætti að hafa áhrif á viðhorf þín, langanir og dagleg störf og markmið í lífinu? Það getur gegnt mikilvægu hlutverki í þeim ákvörðunum sem þú tekur og byggir á raunverulegu innsæi sem Jehóva einn er fær um að veita.
[Neðanmáls]
a Satan kom Evu til að trúa að hún myndi alls ekki deyja líkamlegum dauða. (1. Mósebók 3:1-5) Það var því ekki fyrr en síðar að hann kom af stað þeirri röngu kenningu að menn hafi ódauðlega sál sem lifi eftir líkamsdauðann. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. september 1957, bls. 575.
b Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 614-16; 899-901.
c „Let Your Kingdom Come,“ bls. 186-9.
Hvað manstu?
◻ Er Guð þrenning og hvers vegna svarar þú þannig?
◻ Hvar á nafn Guðs með réttu heima?
◻ Er mannssálin ódauðleg?
◻ Hvaða innsæi hefur Jehóva veitt varðandi hegðun kristins manns í ófriðlegum heimi?
◻ Hvaða innsæi hafa vottar Jehóva öðlast varðandi uppfyllingu biblíuspádómanna?
[Myndir á blaðsíðu 13]
Hinn trúi og hyggni þjónn veitir með aðstoð Varðturnsins innsýn í þýðingu Ritningarinnar og heimfærslu á okkar dögum.