6. KAFLI
Hvar eru hinir dánu?
Hvað verður um okkur þegar við deyjum?
Af hverju deyjum við?
Væri hughreystandi að vita sannleikann um dauðann?
1-3. Hvaða spurninga spyr fólk um dauðann og hvaða svör gefa trúarbrögð heims?
UM ÞÚSUNDIR ára hefur fólk leitað svara við þessum spurningum enda eru þær mikilvægar. Svörin skipta máli fyrir okkur öll, hver sem við erum og hvar sem við búum.
2 Í kaflanum á undan var rætt um hvernig lausnarfórn Jesú Krists gæfi mönnum möguleika á eilífu lífi. Þar var einnig bent á að sá tími kæmi að ‚dauðinn yrði ekki framar til‘. (Opinberunarbókin 21:4) En þangað til er það hlutskipti allra að deyja. „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja,“ sagði hinn vitri konungur Salómon. (Prédikarinn 9:5) Við reynum að lifa sem lengst en veltum samt fyrir okkur hvað verði um okkur þegar við deyjum.
3 Við syrgjum þegar við missum ástvini í dauðann. Við spyrjum kannski: Hvað varð um þá? Þjást þeir? Fylgjast þeir með okkur? Getum við hjálpað þeim? Fáum við einhvern tíma að sjá þá aftur? Trúarbrögð heims gefa ólík svör við þessum spurningum. Sum þeirra kenna að góðir menn fari til himna en vondir til vítis og kveljist þar. Önnur trúarbrögð kenna að fólk flytjist yfir í andaheiminn við dauðann og sameinist forfeðrum sínum. Og til eru trúarbrögð sem kenna að hinir dánu fari til undirheima þar sem þeir séu dæmdir, og síðan endurholdgist þeir eða fæðist á nýjan leik í öðrum líkama.
4. Hvaða hugmynd um dauðann er sameiginleg mörgum trúarbrögðum?
4 Þessi trúarbrögð eiga eitt sameiginlegt — þau kenna að einhver hluti mannsins lifi áfram þegar líkaminn deyr. Nálega öll trúarbrögð, bæði fyrr og nú, kenna að maðurinn lifi eilíflega á einhvern hátt og geti séð, heyrt og hugsað. En hvernig getur það verið rétt? Skilningarvit okkar og hugsanir byggjast á starfsemi heilans og heilinn hættir að starfa við dauðann. Minningar okkar, tilfinningar og skilningarvit halda ekki áfram að starfa sjálfstætt með einhverjum dularfullum hætti. Þau lifa ekki áfram þegar heilinn deyr.
HVAÐ GERIST EIGINLEGA VIÐ DAUÐANN?
5, 6. Hvað segir Biblían um ástand þeirra sem eru dánir?
5 Það er engin ráðgáta fyrir Jehóva Guði, skapara heilans, hvað gerist við dauðann. Hann veit sannleikann og lýsir ástandi hinna dánu í orði sínu, Biblíunni. Hún kennir einfaldlega þetta: Maðurinn hættir að vera til þegar hann deyr. Dauðinn er andstæða lífsins. Hinir dánu hvorki sjá né heyra né hugsa. Við höfum engan ósýnilegan hluta sem lifir áfram þegar líkaminn deyr. Við höfum ekki ódauðlega sál eða anda.a
6 Eftir að Salómon sagði að hinir lifandi vissu að þeir ættu að deyja bætti hann við: „En hinir dauðu vita ekki neitt.“ Hann útlistar þetta nánar og segir að hinir dánu geti hvorki elskað né hatað og að í gröfinni sé „hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska“. (Lestu Prédikarann 9:5, 6, 10.) Sálmur 146:4 tekur í sama streng og segir að áform manna verði að engu við dauðann. Við deyjum þegar líkaminn deyr. Líf okkar er eins og kertaljós. Loginn fer ekkert þegar hann slökknar heldur hverfur einfaldlega.
HVAÐ SAGÐI JESÚS UM DAUÐANN?
7. Hvernig lýsti Jesús dauðanum?
7 Jesús Kristur lýsti einnig eðli dauðans. Þegar góður vinur hans, Lasarus, dó sagði hann lærisveinunum: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður.“ Lærisveinarnir héldu þá að Lasarus væri sofandi og væri að ná sér eftir veikindi. En það var ekki það sem Jesús átti við því að hann sagði í framhaldinu: „Lasarus er dáinn.“ (Lestu Jóhannes 11:11-14.) Við tökum eftir að Jesús líkti dauðanum við hvíld og svefn. Lasarus var hvorki á himnum né í logandi víti. Hann var hvorki farinn til fundar við engla né forfeður sína. Hann var ekki endurfæddur sem annar maður. Hann hvíldist í dauðanum, rétt eins og hann svæfi djúpum, draumlausum svefni. Nefna má fleiri ritningarstaði þar sem dauðanum er líkt við svefn. Þegar lærisveinninn Stefán var grýttur til bana er til dæmis sagt að hann hafi ‚sofnað‘. (Postulasagan 7:60) Páll postuli skrifaði sömuleiðis að sumir samtíðarmenn sínir væru „sofnaðir“ dauðasvefni. — 1. Korintubréf 15:6.
8. Hvernig vitum við að það var ekki ætlun Guðs að mennirnir dæju?
8 Var það ætlun Guðs í upphafi að mennirnir dæju? Nei, Jehóva skapaði manninn til að lifa að eilífu á jörðinni. Eins og fram kom fyrr í bókinni setti Guð fyrstu hjónin í unaðslega paradís. Þau voru alheilbrigð. Hann vildi þeim einungis það besta. Enginn ástríkur faðir óskar þess að börnin hans verði ellihrum, þjáist og deyi. Jehóva elskaði börnin sín og vildi að þau ættu fyrir sér endalausa hamingju á jörðinni. Biblían segir að Jehóva hafi ‚lagt eilífðina í brjóst mannanna‘. (Prédikarinn 3:11) Hann áskapaði þeim löngun til að lifa að eilífu og hann hefur opnað okkur leið til að það geti orðið að veruleika.
HVERS VEGNA DEYJA MENNIRNIR?
9. Hvað mátti Adam ekki gera og hvers vegna var ekki erfitt að hlýða því?
9 Hvers vegna deyja mennirnir þá? Til að fá svar við því þurfum við að kanna hvað gerðist meðan fyrsti maðurinn og fyrsta konan voru ein á jörðinni. Biblían segir: „Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af.“ (1. Mósebók 2:9) Eitt skilyrði var þó sett. Jehóva sagði við Adam: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Það var ekki erfitt að hlýða þessu banni. Í garðinum var fjöldi annarra trjáa sem Adam og Eva gátu borðað af. Þarna var þeim gefið sérstakt tækifæri til að sýna að þau væru þakklát Guði sem hafði gefið þeim allt, þar á meðal fullkomið líf. Með því að hlýða gátu þau sýnt að þau virtu yfirráð föður síns á himnum og vildu fylgja kærleiksríkri handleiðslu hans.
10, 11. (a) Hvernig bar það til að fyrstu hjónin óhlýðnuðust Guði? (b) Hvers vegna var óhlýðni Adams og Evu alvarlegt mál?
10 Því miður ákváðu fyrstu hjónin að óhlýðnast Jehóva. Satan notaði höggorm sem talbrúðu til að spyrja Evu: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ Eva svaraði: „Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ‚af honum,‘ sagði Guð, ‚megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.‘“ — 1. Mósebók 3:1-3.
11 „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ svaraði Satan. „En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:4, 5) Satan vildi telja Evu trú um að það væri henni til góðs að borða forboðna ávöxtinn. Að hans sögn gat hún ákveðið sjálf hvað væri rétt og rangt. Hún gæti gert það sem hún vildi. Satan sakaði Jehóva um að hafa logið til um afleiðingarnar af því að borða ávöxtinn. Eva trúði Satan, tók ávöxt af trénu og borðaði hann. Síðan gaf hún manni sínum ávöxt og hann borðaði líka. En þau vissu betur. Þau vissu að Guð hafði bannað þeim að gera þetta. Með því að borða ávöxt af trénu voru þau af ásettu ráði að óhlýðnast einföldum og sanngjörnum fyrirmælum. Þau sýndu fyrirlitningu á himneskum föður sínum og forráðum hans. Slík óvirðing fyrir skaparanum, sem elskaði þau, var óafsakanleg.
12. Hvaða dæmi getur auðveldað okkur að skilja hvernig Jehóva var innanbrjósts þegar Adam og Eva snerust gegn honum?
12 Lýsum þessu með dæmi: Hvernig yrði þér innanbrjósts ef þú hefðir alið upp barn sem óhlýðnaðist þér síðan og sýndi að það bæri enga virðingu fyrir þér og þætti ekki vænt um þig? Það myndi særa þig djúpt. Reyndu þá að ímynda þér hvernig Jehóva hlýtur að hafa liðið þegar bæði Adam og Eva snerust gegn honum.
13. Hvað sagði Jehóva að myndi gerast þegar Adam dæi og hvað merkir það?
13 Jehóva hafði enga ástæðu til að halda Adam og Evu á lífi endalaust eftir að þau óhlýðnuðust. Þau dóu eins og hann hafði sagt. Þau hættu að vera til. Þau fluttust ekki á andlegt tilverusvið. Við vitum þetta vegna þess að Jehóva sagði Adam það þegar hann lét hann svara til saka fyrir syndina. Hann sagði: „Þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Guð hafði myndað Adam af leiri jarðar, af moldinni. (1. Mósebók 2:7) Adam var ekki til fyrir þann tíma. Þegar Jehóva sagði að Adam myndi hverfa aftur til moldarinnar merkti það að hann myndi hætta að vera til. Hann yrði lífvana rétt eins og leirinn sem hann var gerður úr.
14. Hvers vegna deyjum við?
14 Adam og Eva hefðu getað verið á lífi enn þann dag í dag en þau dóu vegna þess að þau ákváðu að óhlýðnast Guði og syndguðu þar með. Við deyjum vegna þess að allir afkomendur Adams erfðu syndina og dauðann frá honum. (Lestu Rómverjabréfið 5:12.) Þessi synd er eins og skelfilegur sjúkdómur sem enginn sleppur við og afleiðingar hennar, dauðinn, eru mikil bölvun. Dauðinn er ekki vinur heldur óvinur. (1. Korintubréf 15:26) Við megum vera Jehóva innilega þakklát fyrir að greiða lausnargjald til að bjarga okkur úr klóm þessa hræðilega óvinar.
ÞAÐ ER OKKUR TIL GÓÐS AÐ VITA SANNLEIKANN UM DAUÐANN
15. Hvers vegna er hughreystandi að vita sannleikann um dauðann?
15 Það er einkar hughreystandi að vita hvað Biblían kennir um dauðann. Hinir dánu eru lausir við þjáningar og sorgir eins og við höfum séð. Það er engin ástæða til að óttast þá því að þeir geta ekki gert okkur mein. Þeir þurfa ekki á hjálp okkar að halda og geta ekki hjálpað okkur. Við getum ekki talað við þá og þeir geta ekki talað við okkur. Margir áhrifamenn í trúmálum fullyrða ranglega að þeir geti hjálpað hinum dánu og þeir sem trúa því láta þá gjarnan fá peninga fyrir vikið. En sannleikurinn um dauðann veitir okkur vernd fyrir blekkingum þeirra sem kenna þess konar lygar.
16. Hver hefur haft áhrif á kenningar margra trúarbragða og hvernig?
16 Er trúfélagið, sem þú tilheyrir, á sama máli og Biblían varðandi dauðann? Flest trúfélög kenna eitthvað annað vegna þess að Satan hefur haft áhrif á kenningar þeirra. Hann notar fölsk trúarbrögð til að telja fólki trú um að það lifi áfram í andaheiminum eftir að líkaminn deyr. Þetta er lygi sem Satan samtvinnar öðrum lygum í þeim tilgangi að gera fólk fráhverft Jehóva Guði. Hvernig þá?
17. Hvers vegna setur kenningin um eilífar kvalir smánarblett á nafn Jehóva?
17 Eins og áður hefur verið bent á kenna sum trúarbrögð að þeir sem eru vondir í lifanda lífi fari eftir dauðann á stað þar sem þeir kveljast í eilífum eldi. Þessi kenning smánar Jehóva Guð. Jehóva er kærleiksríkur og hann myndi aldrei láta fólk þjást með þessum hætti. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:8.) Hvað fyndist þér um mann sem refsaði óhlýðnu barni með því að halda hendi þess inni í eldi? Myndirðu bera virðingu fyrir slíkum manni? Nei, þú myndir áreiðanlega ekki vilja kynnast honum. Þér myndi trúlega finnast hann vera mjög grimmur. Satan vill hins vegar að við trúum því að Jehóva kvelji fólk eilíflega í eldi — um ótal milljarða ára!
18. Á hvaða ósannindum byggist tilbeiðsla á hinum dánu?
18 Satan notar sum trúarbrögð til að kenna að við dauðann breytist fólk í anda sem hinir eftirlifandi þurfi að heiðra og virða. Samkvæmt þessari kenningu geta andar hinna dánu annaðhvort orðið voldugir vinir eða illskeyttir óvinir. Margir trúa þessum ósannindum. Þeir óttast hina dánu, heiðra þá og dýrka. Biblían kennir á hinn bóginn að hinir dánu sofi dauðasvefni og að við eigum engan að tilbiðja nema Jehóva, hinn sanna Guð, sem er skapari okkar og gjafari allra hluta. — Opinberunarbókin 4:11.
19. Hvaða aðra kenningu Biblíunnar skiljum við betur þegar við vitum sannleikann um dauðann?
19 Það er verðmætt að vita sannleikann um dauðann vegna þess að það verndar okkur fyrir ósannindum sumra trúarbragða. Og það hjálpar okkur að skilja aðrar kenningar Biblíunnar. Loforðið um eilíft líf í paradís fær miklu meira gildi þegar maður áttar sig á því að fólk fer ekki yfir í andaheiminn þegar það deyr.
20. Um hvaða spurningu fjöllum við í næsta kafla?
20 Hinn réttláti Job spurði endur fyrir löngu: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ (Jobsbók 14:14) Er hægt að endurlífga þá sem sofa dauðasvefni? Kenning Biblíunnar um það er ákaflega hughreystandi en hún er viðfangsefni næsta kafla.
a Fjallað er um hugtökin „sál“ og „anda“ í viðaukanum „Hvað eru „sál“ og „andi“?“.