Fyrirætlun Jehóva nær fram að ganga
„Það sem ég hef sagt læt ég fram koma, það sem ég hef ákveðið geri ég.“ – JES. 46:11.
1, 2. (a) Hvað hefur Jehóva opinberað okkur? (b) Hvaða loforð er að finna í Jesaja 46:10, 11 og 55:11?
„Í UPPHAFI skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mós. 1:1) Þessi upphafsorð Biblíunnar hafa djúpstæða merkingu þótt einföld séu. Við höfum ekki nema takmarkaðan skilning á mörgu af því sem Jehóva skapaði. Þar má nefna geiminn, ljósið og þyngdaraflið. Við höfum ekki heldur séð nema örlítið brot af alheiminum. (Préd. 3:11) Jehóva hefur samt opinberað okkur hvað hann ætlast fyrir með jörðina og mannkynið. Jörðin átti að vera fullkomið heimili handa körlum og konum sem voru sköpuð eftir mynd hans. (1. Mós. 1:26) Þau áttu að vera börn hans og hann faðir þeirra.
2 Eins og fram kemur í þriðja kafla 1. Mósebókar var reynt að koma í veg fyrir að fyrirætlun Jehóva næði fram að ganga. (1. Mós. 3:1-7) En þessi ögrun var ekki slík að hann réði ekki við hana. Enginn getur staðið í vegi fyrir að Jehóva hrindi vilja sínum í framkvæmd. (Jes. 46:10, 11; 55:11) Við getum því treyst að upphafleg fyrirætlun Jehóva nái fram að ganga á tilsettum tíma.
3. (a) Hvað þurfum við að vita til að skilja boðskap Biblíunnar? (b) Hvers vegna rifjum við upp þessi mikilvægu biblíusannindi núna? (c) Hvaða spurningar eru ræddar í greininni?
3 Við vitum eflaust hvað Guð ætlast fyrir með jörðina og mannkynið. Við vitum líka að Jesús gegnir þar afar mikilvægu hlutverki. Þetta er líklega eitt það fyrsta sem við lærðum eftir að við byrjuðum að kynna okkur Biblíuna. Við viljum líka hjálpa einlægu fólki að kynnast þessum mikilvægu sannindum. Um það leyti sem við förum yfir þessa grein á safnaðarsamkomu erum við önnum kafin að bjóða eins mörgum og hægt er að sækja minningarhátíðina um dauða Krists. (Lúk. 22:19, 20) Þeir sem verða á hátíðinni eiga eftir að læra margt um fyrirætlun Guðs. Allra síðustu dagana fyrir minningarhátíðina er því gott að íhuga spurningar sem við getum beitt til að örva áhuga biblíunemenda og annarra áhugasamra á þessum mikilvæga viðburði. Í þessari grein ræðum við um þrjár spurningar: Hvað ætlaðist Jehóva fyrir með jörðina og mannkynið í upphafi? Hvað fór úrskeiðis? Og hvers vegna er lausnarfórn Jesú lykillinn að því að fyrirætlun Guðs nái fram að ganga?
HVAÐ ÆTLAÐIST SKAPARINN FYRIR Í UPPHAFI?
4. Hvernig segir sköpunarverkið frá dýrð Jehóva?
4 Handaverk Jehóva vekja með okkur djúpa lotningu og aðdáun. Allt sem hann skapar er lýtalaust. (1. Mós. 1:31; Jer. 10:12) Hvað lærum við af fegurð sköpunarverksins og þeirri röð og reglu sem ríkir þar? Þegar við virðum sköpunarverkið fyrir okkur getum við ekki annað en dáðst að því hvernig öll verk Jehóva, bæði stór og smá, þjóna ákveðnum tilgangi. Hver er ekki djúpt snortinn af flókinni gerð frumunnar, yndisleik ungbarnsins eða ægifegurð sólarlagsins? Við dáumst að þessum verkum Guðs vegna þess að við höfum innbyggt fegurðarskyn. – Lestu Sálm 19:2; 104:24.
5. Hvernig tryggir Jehóva að allt sköpunarverk sitt vinni saman sem ein heild?
5 Sköpunarverkið ber vitni um að Jehóva setur ákveðin takmörk. Hann setti bæði náttúrulögmál og siðferðisreglur til að tryggja að allt vinni fullkomlega saman. (Sálm. 19:8-10) Allt í alheiminum á sér því ákveðinn stað og gegnir ákveðnu hlutverki sem kemur heim og saman við fyrirætlun Guðs. Hann setur reglur um það hvernig sköpunarverk hans eiga að vinna saman. Svo dæmi sé nefnt sér þyngdaraflið um að halda andrúmsloftinu á sínum stað kringum jörðina, það stjórnar sjávarföllum og hreyfingum hafsins, og á sinn þátt í að viðhalda þeirri reglufestu sem er nauðsynleg öllu lífi á jörð. Allt sköpunarverkið, mennirnir þar á meðal, lifa og hrærast innan þessara marka. Reglan í sköpunarverkinu er greinilegt merki um að Guð hafi ætlað jörðinni og mannkyninu ákveðið hlutverk. Getum við vakið athygli fólks á frumorsök þessarar reglu þegar við boðum fagnaðarerindið? – Opinb. 4:11.
6, 7. Nefndu dæmi um gjafir sem Jehóva gaf Adam og Evu.
6 Í upphafi ætlaði Jehóva mönnunum að lifa að eilífu hér á jörð. (1. Mós. 1:28; Sálm. 37:29) Í örlæti sínu gaf hann Adam og Evu margs konar verðmætar gjafir svo að þau gætu notið tilverunnar. (Lestu Jakobsbréfið 1:17.) Hann gaf þeim frjálsan vilja, rökhyggju og þann hæfileika að geta elskað og myndað vináttubönd. Skaparinn talaði við Adam og sagði honum hvernig hann gæti sýnt hlýðni í verki. Adam lærði að annast dýrin, landið og sjálfan sig. (1. Mós. 2:15-17, 19, 20) Jehóva gaf Adam og Evu bragðskyn, snertiskyn, sjón, heyrn og lyktarskyn. Þau gátu því notið fegurðar og allsnægta paradísar til hins ýtrasta. Fyrstu hjónin höfðu endalaus tækifæri til að njóta sín, uppgötva nýja hluti og sjá árangur erfiðis síns.
7 Hvað fleira hafði Jehóva í hyggju með mennina? Hann gerði Adam og Evu þannig úr garði að þau voru fær um að eignast fullkomin börn. Börnin þeirra áttu síðan að eignast börn þar til jörðin yrði full af fólki. Adam og Eva og allir foreldrar, sem kæmu síðar fram á sjónarsviðið, áttu að elska börn sín á sama hátt og Jehóva elskaði fyrstu börnin sín á jörð. Jörðin með öllum sínum auðlindum átti að vera heimili þeirra um ókomna tíð. – Sálm. 115:16.
HVAÐ FÓR ÚRSKEIÐIS?
8. Hvaða tilgangi þjónaði lagaboðið sem er að finna í 1. Mósebók 2:16, 17?
8 Í byrjun fóru hlutirnir ekki á þann veg sem Guð ætlaðist til. Hvers vegna? Jehóva setti Adam og Evu einfalt lagaboð til að sjá hvort þau viðurkenndu að frelsi þeirra voru ákveðin takmörk sett. Hann sagði: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild. En af skilningstré góðs og ills máttu ekki eta. Jafnskjótt og þú etur af því muntu deyja.“ (1. Mós. 2:16, 17) Adam og Eva áttu ekki erfitt með að skilja þetta lagaboð. Og það átti ekki að vera mikið mál að hlýða því vegna þess að í Eden var meira framboð af fæðu en þau gátu torgað.
9, 10. (a) Hvaða sakir bar Satan á Jehóva? (b) Hvað ákváðu Adam og Eva að gera? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
9 Satan djöfullinn tældi Evu til að óhlýðnast Jehóva, föður sínum. (Lestu 1. Mósebók 3:1-5; Opinb. 12:9) Satan gerði sér mat úr því að börn Guðs á jörð máttu ekki borða „af öllum trjám í aldingarðinum“. Það var eins og hann væri að spyrja Evu: ,Meinarðu að þið megið ekki gera eins og ykkur sýnist?‘ Þessu næst laug hann blygðunarlaust og sagði: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ Síðan reyndi hann að telja Evu trú um að hún þyrfti ekki að hlusta á Guð. Hann sagði: „Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp.“ Satan gaf í skyn að Jehóva vildi ekki að þau borðuðu ávöxtinn vegna þess að þá myndu þau öðlast nýjan skilning. Síðan gaf Satan marklaust loforð. „Þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt,“ sagði hann.
10 Adam og Eva þurftu að ákveða sig. Ætluðu þau að hlýða Jehóva eða hlusta á höggorminn? Þau ákváðu að óhlýðnast Guði. Þar með gengu þau í lið með Satan í uppreisn hans. Þau höfnuðu Jehóva sem föður sínum og yfirgáfu hið örugga skjól og vernd sem það veitti þeim að vera undir stjórn hans. – 1. Mós. 3:6-13.
11. Af hverju líður Jehóva ekki uppreisn?
11 Adam og Eva glötuðu fullkomleikanum þegar þau gerðu uppreisn gegn Jehóva. Með uppreisninni misstu þau tengslin við Jehóva því að ,augu hans eru of hrein til að líta hið illa‘ og hann „getur ekki horft upp á rangsleitni“. (Hab. 1:13, Biblían 1981) Ef hann hefði umborið hið illa hefði það ógnað velferð allra lifandi vera, bæði á himni og jörð. Og hefði Jehóva látið syndina í Eden óátalda hefði mátt véfengja að honum væri treystandi. En Jehóva er trúr sínum eigin lögum. Hann brýtur þau aldrei. (Sálm. 119:142) Þótt Adam og Eva hefðu frjálsan vilja gaf það þeim ekki rétt til að hunsa lög Guðs. Uppreisnin gegn Jehóva varð til þess að þau dóu og sneru aftur til moldarinnar sem þau voru sköpuð úr. – 1. Mós. 3:19.
12. Hvernig fór fyrir börnum Adams?
12 Eftir að Adam og Eva borðuðu ávöxtinn gat Guð ekki lengur viðurkennt að þau tilheyrðu alheimsfjölskyldu hans. Hann rak þau úr Eden og þau áttu enga von um að snúa þangað aftur. (1. Mós. 3:23, 24) Samhliða því lét hann þau réttilega taka afleiðingum ákvörðunar sinnar. (Lestu 5. Mósebók 32:4, 5.) Maðurinn gat ekki endurspeglað eiginleika Guðs fullkomlega þar sem hann var ekki lengur fullkominn. Adam fyrirgerði ekki aðeins þeim möguleika að eiga unaðslega framtíð sjálfur heldur gaf líka börnum sínum ófullkomleika, synd og dauða í vöggugjöf. (Rómv. 5:12) Hann svipti afkomendur sína þeim möguleika að lifa að eilífu. Nú gátu Adam og Eva ekki eignast fullkomin börn og ekkert barna þeirra gat það heldur. Satan djöfullinn hefur leitt mannkynið afvega allar götur síðan hann sneri Adam og Evu gegn Guði. – Jóh. 8:44.
LAUSNARFÓRNIN BRÚAR BILIÐ
13. Hvað gerði Jehóva fyrir mannkynið?
13 En Jehóva heldur áfram að elska mennina. Þrátt fyrir uppreisn Adams og Evu vill hann að mennirnir eigi gott samband við sig. Hann vill ekki að neinn deyi. (2. Pét. 3:9) Strax eftir uppreisnina gerði Jehóva því ráðstafanir til að mennirnir gætu endurheimt vináttusambandið við hann án þess þó að hann færi á svig við réttlát lög sín. Hvernig gerði hann það?
14. (a) Hvað gerði Guð samkvæmt Jóhannesi 3:16 til að endurreisa mannkynið? (b) Hvaða spurningu gætum við rætt við áhugasama?
14 Lestu Jóhannes 3:16. Margir sem við bjóðum á minningarhátíðina kunna þetta vers utan að. En hvernig gerir fórn Jesú mönnunum kleift að hljóta eilíft líf? Við höfum kannski tækifæri til að sýna sannleiksleitandi fólki svarið við þessari mikilvægu spurningu á minningarhátíðinni og sömuleiðis þegar við bjóðum fólki að koma og heimsækjum síðan þá sem komu. Það getur haft töluverð áhrif á fólk þegar það fer að átta sig á hvernig lausnarfórnin er merki um kærleika og visku Jehóva. Hvað getum við bent fólki á í sambandi við lausnarfórnina?
15. Að hvaða leyti var maðurinn Jesús ólíkur manninum Adam?
15 Jehóva lét í té fullkominn mann til að færa lausnarfórn. Þessi fullkomni maður þurfti að vera Jehóva trúr og fús til að gefa líf sitt fyrir dauðadæmt mannkyn. (Rómv. 5:17-19) Jehóva flutti líf fyrstu sköpunarveru sinnar frá himnum til jarðar. (Jóh. 1:14) Þar af leiðandi fæddist Jesús fullkominn alveg eins og Adam hafði verið. En ólíkt Adam lifði Jesús eins og Jehóva ætlaðist til af fullkomnum manni. Hann syndgaði aldrei né braut nokkurt af lögum Guðs, jafnvel í erfiðustu prófraunum.
16. Af hverju er lausnarfórnin ákaflega verðmæt gjöf?
16 Þar sem Jesús var fullkominn maður gat hann leyst mannkynið úr fjötrum syndar og dauða með því að deyja fyrir það. Hann var nákvæmlega allt sem Adam hefði átt að vera – fullkominn maður sem var trúr og hlýðinn Guði á allan hátt. (1. Tím. 2:6) Jesús færði lausnarfórnina sem opnaði mörgum leiðina til eilífs lífs – bæði körlum, konum og börnum. (Matt. 20:28) Lausnarfórnin er lykillinn að því að upphafleg fyrirætlun Guðs nái fram að ganga. (2. Kor. 1:19, 20) Hún gefur öllum sem eru trúir Guði möguleika á eilífu lífi.
JEHÓVA OPNAÐI LEIÐINA TIL BAKA FYRIR OKKUR
17. Hvað gerir lausnarfórnin fyrir okkur?
17 Jehóva lagði mikið í sölurnar til að greiða lausnargjaldið. (1. Pét. 1:19) Mannkynið er honum svo mikils virði að hann var tilbúinn til að láta einkason sinn deyja fyrir okkur. (1. Jóh. 4:9, 10) Í vissum skilningi kemur Jesús í stað Adams, föður mannkyns. (1. Kor. 15:45) Þar með gefur Jesús mönnunum ekki aðeins líf heldur líka tækifæri til að snúa aftur til fjölskyldu Guðs þegar þar að kemur. Vegna fórnar Jesú getur Jehóva tekið mennina aftur inn í fjölskyldu sína án þess að hvika frá réttlæti sínu. Er ekki dásamlegt að hugsa til þess tíma þegar allir sem eru Guði trúir verða fullkomnir? Fjölskylda Guðs á himni og jörð verður þá fullkomlega sameinuð. Þá verðum við öll börn Guðs í fyllsta skilningi þess orðs. – Rómv. 8:21.
18. Hvenær verður Jehóva „allt í öllu“?
18 Uppreisn Satans kom ekki í veg fyrir að Jehóva sýndi mannkyninu kærleika sinn og hún hindrar ekki heldur að ófullkomnir menn geti verið Jehóva trúir. Með lausnarfórninni hjálpar Jehóva öllum börnum sínum að verða fullkomlega réttlát. Reyndu að gera þér í hugarlund hvernig lífið verður þegar allir sem ,sjá soninn og trúa á hann‘ lifa að eilífu. (Jóh. 6:40) Jehóva sýnir mannkyninu mikinn kærleika og visku með því að veita því fullkomleika eins og hann ætlaði sér í upphafi. Jehóva, faðir okkar, verður þá „allt í öllu“. – 1. Kor. 15:28.
19. (a) Hvað ættum við að gera til að sýna þakklæti okkar fyrir lausnarfórnina? (Sjá rammann „Leitum að þeim sem eru verðugir“.) (b) Hvað er rætt í næstu grein?
19 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir lausnarfórnina. Það ætti að vera okkur hvöt til að gera allt sem við getum til að segja öðrum frá hvernig þeir geta notið góðs af þessari verðmætu gjöf. Fólk þarf að vita að lausnarfórnin er leið Jehóva til að gefa öllum mönnum tækifæri til að hljóta eilíft líf. En lausnarfórnin kom enn meiru til leiðar. Í næstu grein er rætt hvernig hún gerir út um siðferðileg deilumál sem Satan stofnaði til í Edengarðinum.