Unglingar — látið ekki blekkjast
„Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.“ — 2. KORINTUBRÉF 11:14.
1. (a) Á hvaða vegu hafa mörg okkar verið blekkt? (b) Hverja er yfirleitt auðveldast að blekkja?
VAFALAUST höfum við öll verið blekkt einhvern tíma á ævinni. Kannski hefur það hent þig í boltaleik að mótleikari villti um fyrir þér með einhverri hreyfingu, og þú tókst viðbragð sem auðveldaði honum að skora mark. Kannski hefur þú einhvern tíma keypt vel útlítandi flík sem reyndist, eftir dálitla notkun og þvott, lakari að gæðum en hún leit út fyrir. Hverja er yfirleitt auðveldast að blekkja eða svíkja? Yfirleitt þá sem minnsta reynslu hafa. Og oft eru afleiðingarnar miklum mun alvarlegri en þær að tapa í boltaleik eða kaupa lélega vöru.
2. Hvernig hafa sumir unglingar leiðst út í alvarlega synd?
2 Tökum sem dæmi stúlku að nafni Júlía sem var nemandi á öðru ári í almennum framhaldsskóla. Hún sagðist vera „ástfangin“ af „laglegasta og vinsælasta stráknum í öllum skólanum.“ Hún segir: „Ég sagði honum að ég væri ekki fús til að gera það sem hann vildi, en hann hélt áfram að tala um hve heitt hann elskaði mig og ég þyrfti ekkert að vera smeyk. Þegar ég hélt áfram að neita gerði hann harkalega árás. Hann sagði: ‚Ég er mjög hrifinn af þér og ég hélt að þú værir líka hrifin af mér. Ef þú sannar mér það ekki verðum við líklega að hætta að hittast.‘ “ Þá lét Júlía undan og drýgði hór. Daginn eftir uppgötvaði hún að pilturinn hafði verið að grobba af „sigri“ sínum. Þá gerði hún sér ljóst hve gjörsamlega hún hafði látið blekkjast. Hún hefði átt að vita að pilturinn hefði ekki þvingað hana til neins ef hann hefði elskað hana í alvöru.
3. (a) Hvers vegna er siðferðisbrot alvarleg synd? (b) Hvert er markmið Satans djöfulsins?
3 Það sem Júlía hafði látið tæla sig til að gera var alvarlegt brot á lögum Guðs. Þess vegna hvetur Biblían: „Flýið saurlifnaðinn!“ Og hún segir opinskátt: „Enginn frillulífismaður . . . á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.“ (1. Korintubréf 6:18; Efesusbréfið 5:5) Satan djöflinum stendur sjálfsagt á sama hvort þú sigrar eða tapar í boltaleik eða gerir góð eða slæm kaup, en víst er að hann reynir að blekkja þig og tæla til að brjóta lög Guðs. „Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt,“ aðvarar Biblían. (1. Pétursbréf 5:8) Hann beitir allri sinni kænsku til að reyna að draga okkur frá þjónustunni við Jehóva Guð, meira að segja með því að koma fram í ljósengilsmynd! Er það ekki alvarlegt umhugsunarefni? — 2. Korintubréf 11:14.
Lærðu af því sem henti Evu
4. Með hvaða hætti má segja að unglingar séu sérstakur skotspónn Satans?
4 En annað atriði ætti að vera ykkur unga fólkinu enn alvarlegra umhugsunarefni: Þið eruð sérstakur skotspónn Satans. Hvers vegna? Vegna æsku ykkar hafið þið fremur skamman tíma haft til að afla ykkur þekkingar og visku, og Satan ræðst að þeim sem minnsta reynslu hafa. Hann gerði það strax í byrjun uppreisnar sinnar. Manstu hvernig hann nálgaðist Evu í Edengarðinum, ekki Adam, mann hennar, sem skapaður var nokkru á undan henni? Og Satan tókst það sem hann ætlaði sér. Með því að sigla undir fölsku flaggi blekkti hann og afvegaleiddi hina ungu og óreyndu Evu. „Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva,“ segir Biblían. „Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:13, 14.
5. (a) Hvað ættum við aldrei að láta telja okkur trú um? (b) Af hverju hafði Páll postuli áhyggjur og hvers vegna var ástæða til þess?
5 Láttu aldrei telja þér trú um að aðferðir Satans hrífi ekki á þig; að hann gæti aldrei fengið þig til að brjóta lög Guðs. Mundu eftir aðvörun Guðs þess efnis að ‚Satan sjálfur taki á sig ljósengilsmynd.‘ (2. Korintubréf 11:14) Páll postuli hafði réttilega áhyggjur af því að blekkingameistaranum kynni að takast að villa um fyrir hinum óreyndari trúbræðrum Páls. Páll skrifaði: „Ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.“ — 2. Korintubréf 11:3.
6. Hvað merkir það að láta tælast?
6 Veittu því athygli að Eva lét ekki bara villa um fyrir sér eða blekkjast; hún lét líka tælast. Það þýðir að hún var lokkuð út á hættulega braut með freistingum sem lagðar voru fyrir hana. Samkvæmt Íslenskri samheitaorðabók merkir sögnin að tæla að „afvegaleiða, blekkja, dára, . . . gabba, ginna, glepja, lokka, svíkja, draga á tálar.“ Hún merkir líka að „fífla“ sem þýðir að „fleka, lokka til óskírlífis.“ (Orðabók menningarsjóðs) Við getum lært ýmislegt af því að skoða með hvaða hætti Satan tældi Evu (þótt ekki væri um kynmök að ræða hvað hana varðaði), svo og með því að veita athygli svipuðum aðferðum sem hann beitir núna.
7, 8. (a) Hver var tilgangurinn með spurningu Satans til Evu? (b) Hvernig lét Satan það virðast eftirsóknarvert að eta af trénu?
7 Strax í byrjun beitti Satan höggormi með lævísum hætti til að fá Evu til að fara að efast um ágæti laga Guðs. Hann valdi vandlega orðin í þeim tilgangi að vekja efa og tortryggni. Hann spurði: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ Með þessari illkvittnislegu spurningu gaf Satan í skyn að það væri miður að Eva skyldi ekki mega að eta af öllum trjám í garðinum. Meira að segja fullyrti hann að hún myndi ekki deyja, eins og Guð hafði sagt, heldur hafa gott af því að eta hinn forboðna ávöxt. „Guð veit,“ fullvissaði Satan hana um, „að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ — 1. Mósebók 3:1-5.
8 Það var slóttugt bragð hjá Satan að gefa í skyn að Guð væri að reyna að halda gagnlegri vitnesku frá Evu! Að sögn Satans beitti Guð jafnvel innantómri hótun um dauða til að koma í veg fyrir að hún beitti sjálfsákvörðunarrétti sínum. ‚Þú ert að missa af dálitlu!‘ sagði hann í reynd við hana. ‚Þú deyrð ekki. Þú getur fengið það sem Guð hefur. Þú getur ákveðið sjálf hvað sé gott eða illt.‘ Það höfðaði til Evu að geta tekið sjálf ákvarðanir án — þess að þurfa að standa einhverjum öðrum reikningsskap.
9. Hvaða atburðarás leiddi til syndar og dauða Evu eins og lýst er í Jakobsbréfinu 1:14, 15?
9 Af þessu leiddi að Eva fór að líta tréð girndarauga. „Er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át.“ (1. Mósebók 3:6) En eftir á, þegar Eva uppgötvaði að hún fékk ekki það sem Satan hafði heitið henni, sagði hún: „Höggormurinn tældi mig.“ (1. Mósebók 3:13) Höggormurinn hafði bæði blekkt hana og tælt með því að lokka og freista þar til ágirnd kom henni til að syndga sem síðan hafði dauðann í för með sér. — Jakobsbréfið 1:14, 15.
Varaðu þig á vélabrögðum Satans
10. Hvers vegna þarf okkur ekki að vera ókunnugt um vélabrögð Satans, og hvaða fyrirmælum er viturlegt að fylgja?
10 Satan hefur ekkert breyst. Hann beitir sams konar blekkingum og undirferli til að blekkja og tæla unglinga nútímans. Biblían segir hins vegar ítarlega frá blekkingaraðferðum Satans svo að þú þarft ekki að vera fávís um vélabrögð hans. (2. Korintubréf 2:11) Þú þarft einfaldlega að hafa skynsemi til að hlýða þeim aðvörunum og fyrirmælum sem Jehóva gefur í gegnum orð sitt og skipulag. — Orðskviðirnir 2:1-6; 3:1-7, 11, 12; 4:1, 2, 20-27; 7:1-4.
11. Hvernig blekkir eða tælir Satan oft ungt fólk út í ranga breytni?
11 Hvernig lokkar Satan oft hina ungu út í ranga breytni? Hann gerir það með því að láta það sem Guð fordæmir, athafnir sem geta haft í för með sér missi velþóknunar Guðs, virðast mjög eftirsóknarvert og um leið skaðlaust, alveg eins og ávöxturinn leit út í augum Evu. Og eins og hann fór að gagnvart Evu reynir hann að koma inn hjá þér þeirri hugmynd að þú sért að ástæðulausu að missa af einhverju ánægjulegu. Með þessum slóttuga hætti reynir Satan að grafa undan virðingu þinni fyrir orði Jehóva, svo og þeirri fræðslu sem guðhræddir foreldrar þínir og skipulag Guðs veita. Það er því ærið efni til aðvörunar Biblíunar: „Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.“ — Efesusbréfið 6:11.
12. (a) Hvaða vitneskju um Satan ættum við öll að taka alvarlega og hvers vegna? (b) Hvernig lítur þú á það sem segir í 1. Jóhannesarbréfi 2:15 og Jakobsbréfinu 4:4? (c) Hvað vill Satan gjarnan telja þér trú um?
12 Bersýnilega var það heimskulegt af Evu að trúa lygum Satans. En sýna ekki margir unglingar sams konar flónsku þegar þeir gera lítið úr aðvörunum orðs Jehóva, foreldra sinna eða kristinna öldunga? Hvað um þig? Tekur þú til dæmis alvarlega þá staðreynd að Satan djöfullinn er höfðingi og guð þessa heims og blindar sem slíkur hugi manna? (1. Jóhannesarbréf 5:19; Jóhannes 12:31; 14:30; 16:11; 2. Korintubréf 4:4) Reynir þú í einlægni að hlýða boði Guðs: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru“? (1. Jóhannesarbréf 2:15) Og spyrðu þig: ‚Trúi ég í alvöru þeim orðum Biblíunnar að hver sem vilji vera vinur heimsins gjöri sig að óvini Guðs‘? (Jakobsbréfið 4:4) Satan vill gjarnan blekkja þig til að halda að þér stafi engin ógn af heiminum, að það sem heimurinn gefur sig að sé skaðlaust. En gættu þín! Láttu ekki blekkjast!
Lævísar freistingar nútímans
13. Hvaða siður hefur náð vinsældum víða um heim og hverju vill Satan telja okkur trú um í sambandi við hann?
13 Satan notar oft hluti, sem í sjálfu sér er ekkert rangt við eða eru ekki beinlínis fordæmdir í Biblíunni, til að lokka fólk út í ranga breytni. Flest hjón eiga ánægjulegar endurminningar frá þeim tíma þegar þau voru að draga sig saman, en þegar tvö ungmenni eru ein saman liggja ýmsar hættur í leyni. Það að eiga stefnumót við og „vera með“ einhverjum af hinu kyninu, eins og það þekkist núna, er fremur nýlegur siður sem náði fyrst útbreiðslu eftir síðari heimsstyrjöldina. Satan vill gjarnan fá þig til að trúa að þetta sé aðeins saklaus skemmtun sem geri ungu fólki kleift að kynnast einhverjum af hinu kyninu á einstaklingsgrundvelli. Í rauninni eru þó margar siðferðilegar hættur samfara þessum sið.
14. (a) Hvernig er hægt að leggja mat á þann sið að vera með einhverjum af hinu kyninu? (b) Hvaða tilfinningar geta komið upp þegar tvö ungmenni eru ein saman?
14 Þroskaðir kristnir menn, sem eldri eru, gera sér vegna reynslu sinnar betri grein fyrir þessum hættum og geta því gefið ungu fólki leiðbeiningar. (Orðskviðirnir 27:12) En vera má að þér finnist ekkert hættulegt við það að vera með einhverjum af hinu kyninu, og að foreldrar þínir séu alltof strangir og hindri þig í að njóta lífsins. En með sama hætti og dæma má fólk af ávöxtum þess, eins má dæma um siði eins og þennan. (Orðskviðirnir 20:11; Matteus 7:16) Átján ára stúlka, sem var með pilti og hitti hann reglulega, varð barnshafandi. Hún sagði: „Ég var ein af þúsundum stelpna sem hélt að þetta gæti ekki komið fyrir sig.“ Hún viðurkenndi að eftir að hafa verið með pilti um tíma ‚hætti það að vera spennandi að haldast í hendur og kyssast.‘ Sautján ára stúlka, sem oft fór út með ungum piltum, segir: „Kossar og faðmlög æsa mig upp svo að ég verð sjúk í að hafa mök við strákinn.“ Er þetta óvenjuleg tilfinning? Alls ekki.
15. Á hvaða harmleikjum bera stefnumót töluverða ábyrgð?
15 Þegar tveir unglingar, sem finna fyrir líkamlegu aðdráttarafli hvor til annars, eru einir saman getur kynferðisleg löngun vaxið svo að unglingar, sem jafnvel ætla sér ekkert slíkt, brjóta lög Guðs. Leiddu hugann að því að langt yfir milljón unglingsstúlkna í Bandaríkjunum verða barnshafandi ár hvert, og hundruð þúsundir þeirra láta eyða fóstri eða fæða barn utan hjónabands. Því miður eru sumar þessara stúlkna og piltanna, sem eru meðsekir um vanda þeirra, börn votta Jehóva. Sá siður ungs fólks að vera með einhverjum af hinu kyninu á töluverða sök á þessum harmleikjum, svo og á hugsanlega milljónum nýrra samræðissjúkdómatilfella ár hvert.
16. (a) Hvernig aðeins er kynhvötinni réttilega fullnægt? (b) Hvað kemur fyrir fjölda þjóna Guðs?
16 Ætlun Guðs var að kynhvötinni skyldi fullnægt innan vébanda hjónabands þar sem hún getur verið til heilbrigðs unaðar. (Hebreabréfið 13:4; Orðskviðirnir 5:15-19) En Satan hefur tælt fólk til að misnota þessa gjöf frá Guði og drýgja saurlifnað. Endur fyrir löngu týndu 24.000 Ísraelsmenn lífi á einum degi fyrir þessa synd gegn Guði, og þúsundir manna eru gerðir rækir úr kristna söfnuðinum ár hvert vegna saurlifnaðar. Gættu þess að það hendi ekki þig. Hlýddu ráðum og umvöndun. Láttu ekki blekkjast. — 4. Mósebók 25:1-9, 16-18; 31:16.
17. (a) Hvaða blekkingu hefur Satan komið á framfæri viðvíkjandi íþróttum, tónlist og dansi? (b) Hvers vegna stafar fólki Guðs ógn af skemmtanalífi heimsins?
17 Vertu líka á varðbergi gagnvart öðrum brögðum Satans. Íþróttir, tónlist og dans gegna til dæmis stóru hlutverki í skemmtanalífi þessa heims. Að vísu þarf ekkert af þessu að vera rangt — það getur jafnvel verið ánægjulegt og gagnlegt. (1. Tímóteusarbréf 4:8; Sakaría 8:5; Lúkas 15:25) En Satan hefur komið þeirri blekkingu á framfæri að engin hætta geti falist í skemmtun af þessu tagi, jafnvel þótt hún sé reglulega stunduð með fólki úr heiminum. En orð Guðs aðvarar: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Hugleiddu þetta: Ef trúarbrögð og stjórnmál eru hluti af kerfi Satans, er þá ekki heimskulegt að halda að sú skemmtun, sem þessi heimur beitir sér fyrir, sé laus undan áhrifum hans? Þú þarft stöðugt að vera á verði til að ‚láta ekki heiminn umhverfis þig þröngva þér í sitt mót.‘ — Rómverjabréfið 12:2, The New Testament In Modern English eftir J. B. Phillipps.
Ráðstafanir til verndar unglingum
18. Hvers vegna ættir þú að vera þakklátur fyrir foreldra sem fræða þig og leiðbeina?
18 Jehóva Guð hefur í kærleika sínum gert ráðstafanir til að vernda ykkur unglingana fyrir blekkingu. Í fyrsta lagi hefur hann gefið ykkur foreldra til að fræða ykkur og leiðbeina. Og þið megið fagna því þegar þeir gera það. Óhamingjusöm, átján ára stúlka, sem varð barnshafandi utan hjónabands, kvartaði undan því að það hefði ekki gerst ‚ef foreldrar hennar hefðu gert skyldur sínar sem foreldrar, sagt henni frá hættunni við það að vera á föstu með strák og bannað henni að vera á föstu.‘ Vertu því þakklátur ef þú átt guðhrædda foreldra. Þeir eru ekki að reyna að fjötra þig og gera þér lífið óbærilegt með þeim hömlum sem þeir setja þér. Þeir elska þig og vilja vernda þig. Notfærðu þér reynslu þeirra og visku með því að leita ráða hjá þeim.
19. Hvað hefur auk þess verið gert til verndar ungu fólki?
19 Auk þess hefur Jehóva gefið hið jarðneska skipulag sitt til að hjálpa þér. Í Vaknið! birtist til dæmis greinaröð með yfirskriftinni „Ungt fólk spyr . . . “ sem sýnir fram á hversu skynsamlegir staðlar Jehóva séu. Bæklingurinn Skólinn og vottar Jehóva var líka gefinn út til að hjálpa þér að fylgja lögum Guðs og meginreglum í skólanum. Á síðum Varðturnsins og á safnaðarsamkomum, svæðismótum og umdæmismótum færð þú auk þess hvatningu og leiðbeiningar. Meira að segja þetta efni, sem við núna fjöllum um, „Unglingar — látið ekki blekkjast,“ var flutt sem ræða á umdæmismóti ekki alls fyrir löngu og hefur verið til umræðu á þjónustusamkomu.
20. (a) Hvers vegna er ungu fólki veitt mikil hjálp? (b) Hvaða viðhorf hjálpa þér að standa á móti tilraunum Satans til að blekkja þig?
20 Láttu þér ekki til hugar koma að við séum með öllu þessu að reyna að ræna þig hamingjunni. Skipulag Guðs elskar þig, og öllu sem sagt er og prentað er ætlað að vernda þig — að bjarga lífi þínu! Lærðu að meta þessar ráðstafanir að verðleikum. Gerðu þér að venju að nema Biblíuna með hjálp rita Varðturnsfélagsins; láttu sannindi Biblíunnar hrífa þig. Megir þú hafa sama viðhorf og átján ára unglingur sem sagði eftir að hafa íhugað beinskeyttar leiðbeiningar til unglinga: „Þær komu mér til að skilja hve heppnir við unglingarnir erum að vera í sannleikanum! Ekkert annað skipulag á jörðinni elskar unga fólkið sín á meðal svona mikið!“ Megum við halda saman og standast tilraunir djöfulsins til að blekkja okkur, því að okkur er ekki ókunnugt um vélabrögð hans!
Upprifjun
◻ Hvers vegna er ungt fólk sérstakur skotspónn Satans?
◻ Hvernig tældi Satan Evu til að brjóta lög Guðs?
◻ Hvernig tælir Satan oft ungmenni út í ranga breytni?
◻ Hvað er gert til verndar ungu fólki?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Unglingar eru sérstakur skotspónn Satans á sama hátt og hann læddist að Evu sem var óreyndari en Adam.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Þegar tvö ungmenni eru ein saman getur kynferðisleg löngun orðið svo sterk að þau brjóti lög Guðs.