„Standið gegn djöflinum“ eins og Jesús gerði
„Standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur.“ — JAK. 4:7.
1. Hvaða andstöðu vissi Jesús að hann myndi mæta á jörðinni og hvernig færi að lokum?
JESÚS KRISTUR vissi að hann myndi mæta andstöðu frá djöflinum. Það mátti sjá af því sem Guð sagði við höggorminn og þar með við illa andann sem gerði uppreisn og talaði í gegnum höggorminn: „Ég set fjandskap milli þín og konunnar [hins himneska hluta alheimssafnaðar Guðs] og milli þinna niðja og hennar niðja. Þeir [hér er átt við aðalniðja konunnar, Jesú Krist] skulu merja höfuð þitt og þú skalt höggva þá [Jesú] í hælinn.“ (1. Mós. 3:14, 15; Opinb. 12:9) Að Jesús yrði höggvinn í hælinn þýddi að hann yrði drepinn hér á jörð en dauði hans yrði aðeins tímabundinn því að Jehóva myndi reisa hann upp til himneskrar dýrðar. En að höfuð höggormsins yrði marið þýddi að Satan yrði greitt endanlegt banahögg. — Lestu Postulasöguna 2:31, 32; Hebreabréfið 2:14.
2. Af hverju var Jehóva viss um að Jesús myndi standa gegn djöflinum?
2 Jehóva treysti því að Jesú tækist að skila af sér verkefni sínu hér á jörð og standa gegn djöflinum. Af hverju var Jehóva fullviss um þetta? Af því að hann hafði skapað Jesú á himnum öldum áður, hafði fylgst með honum og vissi að þessi samverkamaður hans og „frumburður allrar sköpunar“ var hlýðinn og trúfastur. (Orðskv. 8:22-31; Kól. 1:15) Þegar Jesús var sendur til jarðar og djöflinum leyft að reyna hann allt til dauða var Guð viss um að einkasonur hans myndi ganga með sigur af hólmi. — Jóh. 3:16.
Jehóva verndar þjóna sína
3. Hvernig hegðar Satan sér gagnvart þjónum Jehóva?
3 Jesús kallaði Satan djöfulinn „höfðingja þessa heims“ og varaði lærisveina sína við því að þeir yrðu ofsóttir eins og hann. (Jóh. 12:31; 15:20) Heimurinn er á valdi Satans og hatar sannkristna menn af því að þeir þjóna Jehóva og prédika réttlæti. (Matt. 24:9; 1. Jóh. 5:19) Satan beinir spjótum sínum sérstaklega að hinum andasmurðu hér á jörð sem eiga eftir að ríkja með Kristi á himnum. Hann ræðst líka á þá mörgu votta Jehóva sem eiga von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. Í orði Guðs er að finna þessa viðvörun: „Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ — 1. Pét. 5:8.
4. Hvað sannar að þjónar Guðs nú á dögum hafa staðið gegn djöflinum?
4 Söfnuður Jehóva nýtur stuðnings hans og stendur gegn djöflinum. Lítum á eftirfarandi staðreynd: Á síðastliðnum 100 árum hafa einhverjar grimmustu einræðisstjórnir sögunnar reynt að útrýma vottum Jehóva. En vottunum heldur áfram að fjölga og nú eru þeir næstum 7.000.000 í meira en 100.000 söfnuðum um allan heim. Einræðisstjórnirnar, sem ofsóttu þá, eru hins vegar liðnar undir lok.
5. Hvernig hafa orðin í Jesaja 54:17 ræst á þjónum Jehóva?
5 Guð gaf söfnuði Ísraelsmanna til forna þetta loforð: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt og sérhverja tungu, sem mælir gegn þér, skaltu dæma seka. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og sá réttur sem þeir fá frá mér.“ (Jes. 54:17) Þetta fyrirheit hefur ræst á þjónum Jehóva um alla jörð nú á „síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1-5, 13) Þeir halda áfram að standa gegn djöflinum og ekkert vopn, sem hann notar til að reyna að útrýma þeim, hrífur því að Jehóva stendur með þeim. — Sálm. 118:6, 7.
6. Hvað bíður stjórnar Satans samkvæmt spádómi Daníels?
6 Endalok þessa illa heimskerfis nálgast óðfluga. Þá verður stjórn Satans gereytt. Daníel var innblásið að spá: „Á dögum þessara konunga [sem uppi eru núna] mun Guð himnanna magna upp ríki [á himnum] sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum [sem nú eru] og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“ (Dan. 2:44) Þegar það gerist hverfa bæði stjórn Satans og stjórnir ófullkominna manna. Ekki verður snefill eftir af heimskerfi Satans, og stjórn Guðs mun ríkja óhindrað yfir allri jörðinni. — Lestu 2. Pétursbréf 3:7, 13.
7. Hvernig vitum við að þjónar Jehóva sem einstaklingar geta staðið einbeittir gegn djöflinum?
7 Það er enginn vafi á því að Jehóva verndar söfnuð sinn og sér til þess að hann dafni. (Lestu Sálm 125:1, 2.) En hvað um okkur sem einstaklinga? Í Biblíunni er okkur sagt að við séum fær um að standa gegn djöflinum eins og Jesús gerði. Í spádóminum, sem Kristur birti fyrir milligöngu Jóhannesar postula, má sjá að þrátt fyrir andstöðu Satans mun „mikill múgur“ með jarðneska von lifa af endalok þessa heims. Samkvæmt Biblíunni hrópa þeir: „Hjálpræðið kemur frá Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu [Jesú Kristi].“ (Opinb. 7:9-14) Í spádóminum segir að hinir andasmurðu sigri Satan, og félagar þeirra, aðrir sauðir, standa líka einbeittir gegn honum. (Jóh. 10:16; Opinb. 12:10, 11) En þetta krefst stöðugrar viðleitni og einlægra bæna um frelsun „frá hinum vonda“. — Matt. 6:13, neðanmáls.
Besta fyrirmyndin
8. Hver var fyrsta freistingin sem Satan lagði fyrir Jesú í óbyggðinni og hvernig brást Jesús við?
8 Í óbyggðinni beitti Satan ýmsum freistingum til að reyna að fá Jesú til að láta af ráðvendni sinni og óhlýðnast Guði. En Jesús stóð gegn honum og er okkur frábær fyrirmynd. Eftir að hafa fastað í 40 daga og 40 nætur var hann líklega mjög hungraður. „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum,“ sagði Satan. En Jesús neitaði að nota máttinn frá Guði í eigin þágu. Hann sagði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ — Matt. 4:1-4; 5. Mós. 8:3.
9. Af hverju verðum við að standast tilraunir Satans til að notfæra sér eðlilegar langanir okkar?
9 Nú á dögum reynir Satan að notfæra sér eðlilegar langanir þeirra sem þjóna Jehóva. Þess vegna verðum við að vera staðráðin í að standast freistingar af kynferðislegu tagi, en þær eru sérstaklega algengar í siðlausum heimi nútímans. Í orði Guðs er sagt með miklum áhersluþunga: „Vitið þið ekki að ranglátir munu ekki erfa Guðs ríki? Villist ekki! Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar . . . fær að erfa Guðs ríki.“ (1. Kor. 6:9, 10) Ljóst er því að þeir sem lifa siðlausu lífi og vilja ekki breyta sér fá ekki að lifa í nýjum heimi Guðs.
10. Hvernig reyndi Satan öðru sinni að fá Jesú til að láta af ráðvendni sinni samkvæmt Matteusi 4:5, 6?
10 Í Biblíunni segir um eina af freistingunum sem Jesús varð fyrir í óbyggðinni: „Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins og segir við hann: ‚Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini.‘“ (Matt. 4:5, 6) Satan gaf í skyn að þannig gæti Jesús sýnt á tilkomumikinn hátt að hann væri Messías. En í rauninni hefði það verið óviðeigandi og hrokafullt og Guð hefði hvorki haft velþóknun á því né stutt það. Enn á ný var Jesús ráðvandur Jehóva og svaraði Satan með því að vitna í ritningarstað. Hann sagði: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ — Matt. 4:7; 5. Mós. 6:16.
11. Hvernig gæti Satan freistað okkar og með hvaða afleiðingum?
11 Satan gæti freistað okkar til að sækjast eftir ýmiss konar upphefð. Hann gæti reynt að fá okkur til að elta veraldleg tískufyrirbrigði eða stunda vafasama skemmtun og afþreyingu. Getum við ætlast til þess að englarnir hlífi okkur við slæmum afleiðingum verka okkar ef við hunsum ráð Biblíunnar og líkjum eftir heiminum? Þótt Davíð konungur hafi iðrast syndarinnar, sem hann drýgði með Batsebu, var honum ekki hlíft við afleiðingum gerða sinna. (2. Sam. 12:9-12) Við skulum ekki freista Jehóva með því, til dæmis, að vingast við heiminn. — Lestu Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
12. Um hvaða freistingu er fjallað í Matteusi 4:8, 9 og hvernig brást sonur Guðs við henni?
12 Önnur leið, sem Satan notaði til að freista Jesú í óbyggðinni, var að bjóða honum pólitísk völd. Hann sýndi Jesú öll ríki veraldar og dýrð þeirra og sagði: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ (Matt. 4:8, 9) Þetta var ófyrirleitin tilraun til að hljóta tilbeiðslu sem Jehóva einum bar og fá Jesú til að vera honum ótrúr. Freistarinn Satan hafði áður verið trúfastur engill en þegar hann ól á þeirri löngun að vera tilbeðinn varð hann syndugur, gráðugur og illur. (Jak. 1:14, 15) Jesús var gerólíkur honum og staðráðinn í að vera trúr himneskum föður sínum. Hann sagði: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Enn á ný báru skýr orð Jesú vitni um að hann tók eindregna afstöðu gegn djöflinum. Sonur Guðs vildi ekki hafa neitt með heim Satans að gera og myndi aldrei tilbiðja þessa illu andaveru. — Matt. 4:10; 5. Mós. 6:13; 10:20.
„Standið gegn djöflinum og þá mun hann flýja ykkur“
13, 14. (a) Hvað var Satan að bjóða Jesú þegar hann sýndi honum öll ríki veraldar? (b) Hvernig reynir Satan að spilla okkur?
13 Með því að sýna Jesú öll ríki veraldar var Satan að bjóða honum meiri völd en nokkur maður hafði áður haft. Hann vonaðist til þess að það sem Jesús sá myndi höfða til hans og sannfæra hann um að hann gæti orðið voldugasti stjórnmálaleiðtogi veraldar. Núna býður Satan okkur ekki heilu ríkin en hann reynir að nota það sem við sjáum, heyrum og hugsum til að spilla hjarta okkar.
14 Satan stjórnar þessum heimi og þar af leiðandi fjölmiðlum heimsins. Það kemur því ekki á óvart að það efni sem heimurinn horfir á, hlustar á og les skuli vera gegnsýrt siðleysi og ofbeldi. Auglýsendur reyna að vekja með okkur löngun til að eignast fjöldann allan af vörum sem við höfum enga þörf fyrir. Með þessum hætti reynir Satan stöðugt að freista okkar með efnislegum hlutum sem geta höfðað til skilningarvitanna. En ef við neitum að horfa á, hlusta á og lesa það sem brýtur í bága við meginreglur Biblíunnar erum við í raun að segja: „Vík brott, Satan!“ Við líkjum eftir Jesú með því að hafna óhreinum heimi Satans af einbeitni og festu. Við gefum til kynna að við erum ekki hluti af heimi Satans með því að vera ófeimin að segja vinnufélögum, skólafélögum, nágrönnum og ættingjum að við séum vottar Jehóva og fylgjendur Krists. — Lestu Markús 8:38.
15. Af hverju þurfum við alltaf að vera á verði til að standa gegn Satan?
15 „Djöfullinn [fór] frá Jesú“ eftir að hafa reynt í þriðja sinn að fá hann til að víkja frá ráðvendni sinni við Guð. (Matt. 4:11) En Satan ætlaði sér ekki að hætta að freista Jesú því að í Biblíunni segir: „Þegar djöfullinn hafði gefist upp við að fella hann [í óbyggðinni] vék hann frá honum að sinni.“ (Lúk. 4:13) Við ættum að þakka Jehóva þegar okkur tekst að standa gegn djöflinum. En við ættum líka stöðugt að leita hjálpar Guðs því að djöfullinn kemur aftur til að freista okkar þegar honum hentar. Það er ekki víst að við séum viðbúin freistingu þegar það gerist. Þess vegna þurfum við að vera á verði öllum stundum og halda ótrauð áfram að veita Jehóva heilaga þjónustu óháð þeim prófraunum sem við verðum fyrir.
16. Hvaða afl veitir Jehóva okkur og af hverju ættum við að biðja um það?
16 Til að standa gegn djöflinum verðum við að biðja um heilagan anda Guðs. Og Guð gefur okkur anda sinn sem er sterkasta aflið í alheiminum. Með hjálp hans getum við gert það sem við gætum ekki í eigin mætti. Jesús fullvissaði fylgjendur sína um að þeir hefðu aðgang að anda Guðs og sagði: „Fyrst þér, sem eruð [ófullkomnir og í þeim skilningi] vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda sem biðja hann.“ (Lúk. 11:13) Höldum áfram að biðja Jehóva um heilagan anda. Ef við erum staðráðin í að standa gegn djöflinum og höfum sterkasta aflið í alheimi á bak við okkur getum við gengið með sigur af hólmi. Auk þess að biðja einlæglega og að staðaldri verðum við að klæðast alvæpni Guðs til að standast „vélabrögð djöfulsins“. — Ef. 6:11-18.
17. Hvað hjálpaði Jesú að standa gegn djöflinum?
17 Það var annað sem hjálpaði Jesú að standa gegn djöflinum og það getur hjálpað okkur líka. Í Biblíunni segir: „[Jesús] leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs.“ (Hebr. 12:2) Við upplifum svipaða gleði með því að upphefja drottinvald Jehóva, heiðra heilagt nafn hans og hafa vonina um eilíft líf fyrir augum. Það er mikið tilhlökkunarefni að Satan og verk hans verði að eilífu afmáð en þá fá „hinir hógværu . . . landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi“. (Sálm. 37:11) Höldum því áfram að standa gegn djöflinum eins og Jesús gerði. — Lestu Jakobsbréfið 4:7, 8.
Hvert er svarið?
• Hvaða sönnun er fyrir því að Jehóva verndi fólk sitt?
• Hvernig stóð Jesús gegn djöflinum?
• Hvernig getur þú staðið gegn djöflinum?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Vinátta við heiminn gerir okkur að óvinum Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Jesús hafnaði boði Satans um öll ríki veraldar.