Meiri blessun fyrir atbeina nýja sáttmálans
„Jesús . . . er meðalgangari betri sáttmála.“ — HEBREABRÉFIÐ 8:6.
1. Hver reyndist vera ‚sæði konunnar‘ sem heitið var í Eden og hvernig var hann ‚marinn á hælnum‘?
EFTIR að Adam og Eva syndguðu felldi Jehóva dóm yfir Satan, sem blekkti Evu, og sagði: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Þegar Jesús lét skírast í Jórdan árið 29 kom sæðið, sem heitið var í Eden, loksins fram. Þegar hann dó á kvalastaur árið 33 rættist þessi forni spádómur að hluta. Satan hafði ‚marið hæl‘ sæðisins.
2. Hvernig hefur mannkynið gagn af dauða Jesú eins og hann sagði sjálfur?
2 Sem betur fer var sárið ekki varanlegt þótt það væri óbærilega kvalafullt. Jesús var reistur upp frá dauðum sem ódauðlegur andi og steig upp til föður síns á himnum þar sem hann bar fram verðgildi úthellts blóðs síns til „lausnargjalds fyrir marga.“ Þannig rættust hans eigin orð: „Þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Matteus 20:28; Jóhannes 3:14-16; Hebreabréfið 9:12-14) Nýi sáttmálinn gegnir lykilhlutverki í uppfyllingu spádóms Jesú.
Nýi sáttmálinn
3. Hvenær sáust þess fyrst merki að nýi sáttmálinn væri genginn í gildi?
3 Skömmu fyrir dauða sinn sagði Jesús fylgjendum sínum að úthellt blóð sitt væri „blóð [nýja] sáttmálans.“ (Matteus 26:28; Lúkas 22:20) Tíu dögum eftir að hann steig upp til himna sáust þess merki að nýi sáttmálinn væri genginn í gildi. Þá var heilögum anda úthellt yfir um það bil 120 lærisveina sem voru samankomnir í loftstofu í Jerúsalem. (Postulasagan 1:15; 2:1-4) Þegar þessum 120 lærisveinum var veitt aðild að nýja sáttmálanum var sýnt að sá „fyrri,“ það er að segja lagasáttmálinn, væri úreltur. — Hebreabréfið 8:13.
4. Var gamli sáttmálinn misheppnaður? Skýrðu svarið.
4 Var gamli sáttmálinn þá misheppnaður? Alls ekki. Að vísu var annar kominn í hans stað og holdlega Ísraelsþjóðin var ekki lengur útvalin þjóð Guðs. (Matteus 23:38) En það stafaði af óhlýðni Ísraelsmanna og því að þeir höfnuðu smurðum þjóni Jehóva. (2. Mósebók 19:5; Postulasagan 2:22, 23) Lagasáttmálinn áorkaði þó miklu áður en hann var látinn víkja. Um aldaraðir var hann leið til að nálgast Guð og vernd gegn falstrú. Hann veitti mönnum forsmekk að nýja sáttmálanum og sýndi fram á, með endurteknum fórnum sínum, að maðurinn þarfnaðist sárlega endurlausnar frá synd og dauða. Lögmálið var vissulega „tyftari . . . þangað til Kristur kom.“ (Galatabréfið 3:19, 24; Rómverjabréfið 3:20; 4:15; 5:12; Hebreabréfið 10:1, 2) En það var fyrir atbeina nýja sáttmálans að blessunarloforðið skyldi rætast að fullu sem Abraham var veitt.
Þjóðir blessaðar vegna afkvæmis Abrahams
5, 6. Hvert er sæði Abrahams í andlegri aðaluppfyllingu Abrahamssáttmálans og hvaða þjóð var fyrst til að hljóta blessun fyrir atbeina þess?
5 Jehóva hét Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:18) Undir gamla sáttmálanum hlutu margir auðmjúkir útlendingar blessun vegna umgengni sinnar við Ísrael, þjóðina sem var afkvæmi eða sæði Abrahams. Í andlegri aðaluppfyllingu sinni var afkvæmi Abrahams hins vegar einn fullkominn maður. Páll útskýrði það er hann sagði: „Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, — þar stendur ekki ‚og afkvæmum‘, eins og margir ættu í hlut, heldur ‚og afkvæmi þínu‘, eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.“ — Galatabréfið 3:16.
6 Já, Jesús er afkvæmi eða sæði Abrahams og það er fyrir hans atbeina sem þjóðirnar hljóta langtum meiri blessun en hinn holdlegi Ísrael gat nokkurn tíma hlotið. Fyrsta þjóðin, sem hlaut þessa blessun, var reyndar Ísrael. Skömmu eftir hvítasunnu árið 33 sagði Pétur postuli hópi Gyðinga: „Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ‚Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.‘ Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni.“ — Postulasagan 3:25, 26.
7. Hvaða þjóðir hlutu blessun fyrir atbeina Jesú, sæðis Abrahams?
7 Skömmu síðar var blessunin færð út svo að hún næði til Samverja og síðan heiðingja. (Postulasagan 8:14-17; 10:34-48) Einhvern tíma á árunum 50 til 52 skrifaði Páll kristnum mönnum í Galatíu í Litlu-Asíu: „Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: ‚Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta.‘ Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham.“ (Galatabréfið 3:8, 9; 1. Mósebók 12:3) Enda þótt margir kristnir menn í Galatíu væru ekki Gyðingar hlutu þeir blessun fyrir atbeina Jesú vegna trúar sinnar. Á hvaða hátt?
8. Hvað fól það í sér fyrir kristna menn á dögum Páls að hljóta blessun vegna sæðis Abrahams, og hve margir hljóta slíka blessun að lokum?
8 Páll sagði kristnum mönnum í Galatíu, óháð uppruna þeirra: „Ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.“ (Galatabréfið 3:29) Fyrir þessa Galata fól blessunin vegna afkvæmis Abrahams í sér aðild að nýja sáttmálanum. Hún fól einnig í sér að vera samerfingjar Jesú, félagar hans af afkvæmi eða sæði Abrahams. Við vitum ekki hve Ísrael til forna var fjölmennur. Við vitum aðeins að þjóðin var ‚fjölmenn sem sandur á sjávarströnd.‘ (1. Konungabók 4:20) Við vitum hins vegar hve margir félagar Jesú af hinu andlega sæði eiga að vera — 144.000. (Opinberunarbókin 7:4; 14:1) Þessar 144.000 eru „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð“ mannkyns og eiga þátt í að miðla enn fleirum blessun Abrahamssáttmálans. — Opinberunarbókin 5:9.
Uppfylltur spádómur
9. Hvernig hafa þeir sem eiga aðild að nýja sáttmálanum lögmál Jehóva innra með sér?
9 Þegar Jeremía spáði nýja sáttmálanum skrifaði hann: „Í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta — segir [Jehóva]: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra.“ (Jeremía 31:33) Það er einkennandi fyrir aðila að nýja sáttmálanum að þeir þjóna Jehóva af kærleika. (Jóhannes 13:35; Hebreabréfið 1:9) Lög Jehóva eru rituð á hjörtu þeirra og þeir þrá innilega að gera vilja hans. Í Forn-Ísrael voru að vísu til trúfastir menn sem elskuðu lögmál Jehóva innilega. (Sálmur 119:97) En margir gerðu það ekki. Engu að síður tilheyrðu þeir þjóðinni. Enginn getur hins vegar átt aðild áfram að nýja sáttmálanum ef lög Guðs eru ekki rituð á hjarta hans.
10, 11. Á hvaða hátt verður Jehóva „þeirra Guð“ sem eiga aðild að nýja sáttmálanum og hvernig munu þeir allir þekkja hann?
10 Jehóva sagði enn fremur um aðila að nýja sáttmálanum: „Ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“ (Jeremía 31:33) Margir í Forn-Ísrael tilbáðu guði þjóðanna en voru samt Ísraelsmenn áfram. Á grundvelli nýja sáttmálans skapaði Jehóva andlega þjóð, „Ísrael Guðs,“ sem koma átti í stað Ísraels að holdinu. (Galatabréfið 6:16; Matteus 21:43; Rómverjabréfið 9:6-8) Enginn tilheyrir hins vegar nýju, andlegu þjóðinni áfram ef hann hættir að tilbiðja Jehóva og hann einan.
11 Jehóva sagði einnig: „Þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir.“ (Jeremía 31:34) Margir í Ísrael hreinlega hunsuðu Jehóva og sögðu í reynd: „[Jehóva] gjörir hvorki gott né illt.“ (Sefanía 1:12) Enginn tilheyrir Ísrael Guðs áfram ef hann hunsar Jehóva eða spillir hreinni tilbeiðslu. (Matteus 6:24; Kólossubréfið 3:5) Andlegir Ísraelsmenn eru „menn, sem þekkja Guð sinn.“ (Daníel 11:32) Þeir hafa yndi af því að ‚þekkja hinn eina sanna Guð og Jesú Krist.‘ (Jóhannes 17:3) Að þekkja Jesú dýpkar þekkingu þeirra á Guði því að Jesús ‚birti‘ Guð á einstakan hátt. — Jóhannes 1:18; 14:9-11.
12, 13. (a) Á hvaða grundvelli fyrirgefur Jehóva syndir þeirra sem eiga aðild að nýja sáttmálanum? (b) Hvað hefur nýi sáttmálinn fram yfir þann gamla í sambandi við fyrirgefningu synda?
12 Loks hét Jehóva: „Ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.“ (Jeremía 31:34) Í Móselögunum voru hundruð ritaðra ákvæða sem Ísraelsmenn áttu að hlýða. (5. Mósebók 28:1, 2, 15) Allir sem gerðust brotlegir við lögmálið færðu fórnir til að breiða yfir syndir sínar. (3. Mósebók 4:1-7; 16:1-31) Margir Gyðingar komust á þá skoðun að þeir gætu orðið réttlátir vegna eigin verka samkvæmt lögmálinu. Kristnir menn gera sér hins vegar ljóst að þeir geta aldrei áunnið sér réttlæti með eigin verkum. Þeir komast ekki hjá því að syndga. (Rómverjabréfið 5:12) Undir nýja sáttmálanum er aðeins hægt að standa réttlátur frammi fyrir Guði á grundvelli fórnar Jesú. En slíka stöðu fá menn að gjöf, af óverðskuldaðri góðvild Guðs. (Rómverjabréfið 3:20, 23, 24) Jehóva krefst enn hlýðni af þjónum sínum. Páll segir að þeir sem aðild eiga að nýja sáttmálanum séu ‚bundnir lögmáli Krists.‘ — 1. Korintubréf 9:21.
13 Syndafórn er því líka færð fyrir kristna menn, en hún er margfalt verðmætari en fórnirnar undir lagasáttmálanum. Páll skrifaði: „Svo er því farið um hvern prest [undir lagasáttmálanum], að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir. En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs.“ (Hebreabréfið 10:11, 12) Þar eð kristnir menn undir nýja sáttmálanum iðka trú á fórn Jesú lýsir Jehóva þá réttláta, án syndar og þar með í aðstöðu til að hljóta smurningu sem andlegir synir sínir. (Rómverjabréfið 5:1; 8:33, 34; Hebreabréfið 10:14-18) Þegar þeir syndga vegna mannlegs ófullkomleika geta þeir sárbænt Jehóva um fyrirgefningu, og hann fyrirgefur þeim á grundvelli fórnar Jesú. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) En ef þeir kjósa að syndga að yfirlögðu ráði glata þeir réttlæti sínu og þeim sérréttindum að eiga aðild að nýja sáttmálanum. — Hebreabréfið 2:2, 3; 6:4-8; 10:26-31.
Gamli sáttmálinn og nýi sáttmálinn
14. Hvaða umskurnar var krafist undir lagasáttmálanum? En undir nýja sáttmálanum?
14 Samkvæmt gamla sáttmálanum voru karlmenn umskornir til tákns um að þeir væru undir lögmálinu. (3. Mósebók 12:2, 3; Galatabréfið 5:3) Eftir að kristni söfnuðurinn var stofnsettur fannst sumum að kristnir menn, sem ekki voru Gyðingar, ættu líka að láta umskerast. En undir handleiðslu heilags anda og orðs Guðs skildu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem að það væri ekki nauðsynlegt. (Postulasagan 15:1, 5, 28, 29) Fáeinum árum síðar sagði Páll: „Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu. En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf.“ (Rómverjabréfið 2:28, 29) Bókstafleg umskurn, jafnvel Gyðinga að holdinu, hafði ekkert andlegt gildi lengur í augum Jehóva. Það er hjartað, ekki holdið, sem þarf að umskera hjá þeim sem aðild eiga að nýja sáttmálanum. Skera þarf burt allt úr hugsun þeirra, löngunum og hvötum sem er Jehóva vanþóknanlegt eða óhreint í augum hans.a Margir eru lifandi vitni um mátt heilags anda til að breyta hugsunarhætti manna á þennan hátt. — 1. Korintubréf 6:9-11; Galatabréfið 5:22-24; Efesusbréfið 4:22-24.
15. Hvernig er konungdómur Ísraels að holdinu í samanburði við konungdóm Ísraels Guðs?
15 Meðan lagasáttmálinn var í gildi var Jehóva konungur Ísraels, og þegar fram liðu stundir beitti hann drottinvaldi sínu fyrir milligöngu mennskra konunga í Jerúsalem. (Jesaja 33:22) Jehóva er líka konungur Ísraels Guðs, hins andlega Ísraels, og frá árinu 33 hefur hann ríkt fyrir milligöngu Jesú Krists sem var gefið „allt vald . . . á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18; Efesusbréfið 1:19-23; Kólossubréfið 1:13, 14) Ísrael Guðs viðurkennir Jesú núna sem konung ríkis Guðs á himnum sem var stofnsett árið 1914. Jesús er langtum betri konungur en jafnvel Hiskía, Jósía og aðrir trúfastir konungar Forn-Ísraels. — Hebreabréfið 1:8, 9; Opinberunarbókin 11:15.
16. Hvers konar prestafélag er Ísrael Guðs?
16 Ísrael var ekki einasta konungsríki heldur hafði líka smurða prestastétt eða prestafélag. Árið 33 kom Ísrael Guðs í stað Ísraels að holdinu sem „þjónn“ Jehóva og „vottar“ hans. (Jesaja 43:10) Orð Jehóva til Ísraels, sem er að finna í Jesaja 43:21 og 2. Mósebók 19:5, 6, áttu þaðan í frá við hinn andlega Ísrael Guðs. Hin nýja andlega þjóð Guðs var nú „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður“ sem bar þá ábyrgð að ‚víðfrægja dáðir Jehóva.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Allir í Ísrael Guðs, jafnt karlar sem konur, mynda sameiginlegt prestafélag. (Galatabréfið 3:28, 29) Sem viðbótarhluti sæðis Abrahams segja þeir nú: „Vegsamið, þjóðir, lýð hans!“ (5. Mósebók 32:43) Þeir sem enn eru eftir á jörðinni af hinum andlega Ísrael mynda hinn ‚trúa og hyggna þjón.‘ (Matteus 24:45-47) Það er aðeins í samfélagi við þá að hægt er að veita Guði heilaga þjónustu sem hann viðurkennir.
Ríki Guðs — lokauppfyllingin
17. Hvaða fæðingu fæðast aðilar að nýja sáttmálanum?
17 Þeir Ísraelsmenn, sem fæddust eftir árið 1513 f.o.t., voru fæddir undir lagasáttmálanum. Þeir sem Jehóva veitir aðild að nýja sáttmálanum fæðast líka — en það er andleg fæðing. Jesús nefndi hana við faríseann Nikódemus þegar hann sagði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.“ (Jóhannes 3:3) Lærisveinarnir 120 voru fyrstu ófullkomnu mennirnir sem fæddust að nýju og það gerðist á hvítasunnunni árið 33. Þeir voru lýstir réttlátir undir nýja sáttmálanum og fengu heilagan anda sem ‚pant‘ fyrir konunglegri arfleifð sinni. (Efesusbréfið 1:14) Þeir voru ‚fæddir af anda‘ sem kjörsynir Guðs er gerði þá að bræðrum og ‚samerfingjum Krists.‘ (Jóhannes 3:6; Rómverjabréfið 8:16, 17) Við það að ‚fæðast að nýju‘ opnuðust þeim stórkostlegar framtíðarhorfur.
18. Hvaða stórkostlegar framtíðarhorfur eignast þeir sem fá aðild að nýja sáttmálanum?
18 Þegar Jesús miðlaði nýja sáttmálanum gerði hann viðbótarsáttmála við fylgjendur sína og sagði: „Ég geri við ykkur sáttmála um ríki eins og faðir minn hefur gert sáttmála við mig.“ (Lúkas 22:29, NW) Þessi sáttmáli um ríkið var undanfari þess að eftirtektarverð sýn uppfylltist en hún er skráð í Daníel 7:13, 14, 22, 27. Daníel sá ‚hinn aldraða,‘ Jehóva Guð, fá ‚einhverjum sem mannssyni líktist‘ konungsvald í hendur. Síðan sá hann að „hinir heilögu settust að völdum.“ Það er Jesús sem „mannssyni líktist“ og hann fékk hið himneska ríki frá Jehóva Guði árið 1914. Andasmurðir lærisveinar hans eru „hinir heilögu“ sem eiga sæti í þessu ríki með honum. (1. Þessaloníkubréf 2:12) Hvernig?
19, 20. (a) Hvaða dýrlega lokauppfyllingu fær fyrirheit Jehóva við Abraham hjá aðilum nýja sáttmálans? (b) Hvaða spurningu eigum við eftir að skoða?
19 Eftir dauða sinn eru þessir andasmurðu menn reistir upp sem ódauðlegar andaverur líkt og Jesús til að þjóna með honum sem konungar og prestar á himnum. (1. Korintubréf 15:50-53; Opinberunarbókin 20:4, 6) Hvílík von! „Þeir eiga að ríkja sem konungar yfir jörðinni,“ ekki aðeins Kanaanlandi. (Opinberunarbókin 5:10, NW) Eiga þeir að „eignast borgarhlið óvina sinna“? (1. Mósebók 22:17) Já, alveg endanlega þegar þeir horfa upp á eyðingu hinnar fjandsamlegu trúarskækju, Babýlonar hinnar miklu, og þegar þessir upprisnu, smurðu menn fá hlutdeild með Jesú í að stjórna þjóðunum „með járnsprota“ og merja höfuð Satans. Þannig eiga þeir hlutdeild í að uppfylla lokaþátt spádómsins í 1. Mósebók 3:15. — Opinberunarbókin 2:26, 27; 17:14; 18:20, 21; Rómverjabréfið 16:20.
20 Okkur er kannski enn þá spurn hvort Abrahamssáttmálinn og nýi sáttmálinn nái aðeins til þessara 144.000 trúföstu sálna? Nei, fleiri hljóta blessun fyrir tilstilli þessara sáttmála þótt þeir eigi ekki beina aðild að þeim, eins og við sjáum í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Sjá Innsýn í Ritninguna, 1. bindi, bls. 470, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Hvenær sáust þess fyrst merki að nýi sáttmálinn væri genginn í gildi?
◻ Hverju var áorkað með gamla sáttmálanum?
◻ Hvert er aðalsæði Abrahams og í hvaða röð hlutu þjóðir blessun fyrir atbeina þess?
◻ Hver er lokauppfylling Abrahamssáttmálans og nýja sáttmálans fyrir hinar 144.000?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Syndafyrirgefning hefur djúpstæðari merkingu fyrir þá sem eiga aðild að nýja sáttmálanum en þá sem voru undir þeim gamla.