Jehóva hughreystir okkur í öllum raunum okkar
„Guð allrar huggunar ... hughreystir mig í sérhverri þrenging minni.“ – 2. KOR. 1:3, 4.
1, 2. Hvernig hughreystir Jehóva okkur í erfiðleikum og um hvað fullvissar hann okkur í orði sínu?
UNGUR einhleypur bróðir, sem við skulum kalla Eduardo, ræddi við Stephen, kvæntan öldung í eldri kantinum, um nokkuð sem hann hafði verið að velta fyrir sér. Í 1. Korintubréfi 7:28 lesum við: „Erfitt verður [þeim sem giftast] lífið hér á jörðu.“ Hann spurði Stephen hverjir þessir erfiðleikar væru og hvernig hann ætti að takast á við þá ef hann giftist. Áður en Stephen svaraði spurningunni bað hann Eduardo að hugleiða annað sem Páll postuli skrifaði, það að Jehóva skuli vera ,Guð allrar huggunar sem hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar‘. – 2. Kor. 1:3, 4.
2 Jehóva er sannarlega kærleiksríkur faðir og hann hughreystir okkur þegar erfiðleikar koma upp. Þú hefur ef til vill fundið fyrir því sjálfur hvernig Guð hefur stutt þig og veitt þér leiðsögn fyrir milligöngu orðs síns. Við getum treyst að leiðsögn hans sé okkur alltaf fyrir bestu, rétt eins og hún var þjónum hans til forna. – Lestu Jeremía 29:11, 12.
3. Hvaða spurningar skoðum við nú?
3 Við erum skiljanlega í betri aðstöðu til að takast á við vandamál og erfiðleika ef við áttum okkur á hvað veldur þeim. Það á líka við um erfiðleika sem koma upp í hjónabandi eða í fjölskyldunni. Hvaða aðstæður geta valdið þessum erfiðleikum sem Páll talar um? Hvaða dæmi á biblíutímanum og okkar tíma geta hjálpað okkur að fá þá hughreystingu sem við þurfum? Svarið við þessum spurningum hjálpar okkur að vera þolgóð í raunum.
ERFIÐLEIKAR Í HJÓNABANDINU
4, 5. Hvaða erfiðleikar geta komið upp í hjónabandi?
4 Þegar Jehóva gaf saman fyrstu hjónin í upphafi mannkynssögunnar sagði hann: „Maður [yfirgefur] föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.“ (1. Mós. 2:24) Þar sem við erum ófullkomin getur það að gifta sig og stofna fjölskyldu þó haft vissa erfiðleika í för með sér. (Rómv. 3:23) Áður hefur konan líklega þurft að lúta valdi foreldranna en nú er það eiginmaðurinn sem fer með forystuna. Guð hefur falið honum að vera höfuð konunnar. (1. Kor. 11:3) Sumum nýgiftum hjónum finnst þetta alls ekki auðvelt. En samkvæmt orði Guðs á konan að viðurkenna forystu eiginmannsins frekar en að lúta foreldrunum. Auk þess geta samskipti við tengdaforeldrana reynt á og valdið nýgiftum hjónum erfiðleikum.
5 Þegar kona tilkynnir manni sínum að þau eigi von á barni skjóta oft fleiri áhyggjur upp kollinum. Þau gleðjast mikið yfir barninu sem á að fæðast en oft fylgja þó ýmsar áhyggjur af meðgöngunni og heilsu barnsins. Hjónin vita líka að við þetta breytist fjárhagurinn, bæði til skemmri og lengri tíma litið. Þegar barnið svo fæðist er fleira sem breytist. Tími móðurinnar fer kannski aðallega í að hugsa um barnið og það fær nánast alla athyglina. Mörgum eiginmanni hefur fundist hann verða út undan vegna þess hve upptekin konan hans er við að sinna barninu. Faðirinn fær hins vegar líka aukna ábyrgð þar sem hann hefur nú fyrir fleirum að sjá.
6-8. Hvernig getur hjónum liðið ef þau geta ekki eignast börn?
6 Sum hjón glíma við erfiðleika af öðru tagi. Þau þrá að eignast börn en geta það ekki. Það getur tekið konuna mjög sárt að verða ekki barnshafandi. Auðvitað er hvorki hjónaband né barneignir trygging fyrir áhyggjulausu lífi en það að þrá að eignast börn og geta það ekki veldur ákveðnu álagi á hjónabandið. (Orðskv. 13:12) Á biblíutímanum var það yfirleitt talin skömm að geta ekki átt börn. Rakel, kona Jakobs, lýsti kvöl sinni yfir því að geta ekki eignast börn þegar systir hennar átti sín börn. (1. Mós. 30:1, 2) Trúboðar, sem starfa í löndum þar sem stórar fjölskyldur eru algengar, eru oft spurðir af hverju þeir eigi ekki börn. Þó að þeir bendi á rök og skýri málið af nærgætni eru viðbrögð fólks oft þessi: „Æ, við skulum biðja fyrir ykkur.“
7 Hugsum um annað dæmi. Systir á Englandi þráði heitt að eignast börn en hafði ekki fengið ósk sína uppfyllta. Hún viðurkennir að hún hafi verið niðurbrotin þegar hún skildi að hún myndi ekki eignast börn í þessum heimi. Þau hjónin ákváðu að ættleiða barn en þrátt fyrir það segir hún: „Ég fór samt í gegnum eins konar sorgarferli. Ég vissi að þó að við ættleiddum barn yrði það ekki eins og að eignast sitt eigið.“
8 Í Biblíunni er sagt að ef kristin kona ,fæðir börn verði hún hólpin‘. (1. Tím. 2:15) En það þýðir ekki að hún hljóti eilíft líf bara af því að hún á börn. Það þýðir öllu heldur að þegar kona þarf að annast börn auk þess að hugsa um heimilið getur það forðað henni frá þeim ósið að slúðra og skipta sér af því sem henni kemur ekki við. (1. Tím. 5:13) Hún getur samt þurft að glíma við erfiðleika í hjónabandinu og í fjölskyldunni.
9. Hvaða raun geta þeir sem eru giftir þurft að takast á við?
9 Þegar rætt er um erfiðleika tengda hjónabandi er eitt sem kemur kannski ekki strax upp í hugann, það að missa maka. Það er mikil raun sem margir hafa þurft að þola. Margir þeirra höfðu ekki búist við að þurfa að upplifa það sjálfir. Þjónar Guðs trúa staðfastlega á loforð Jesú um upprisu í framtíðinni. (Jóh. 5:28, 29) Hvernig hjálpar það makanum sem hefur misst ástvin sinn? Það veitir honum mikla huggun. Það er meðal annars þannig sem kærleiksríkur faðir okkar styður okkur og hughreystir með orði sínu þegar við eigum við erfiðleika að glíma. Skoðum nú hvernig sumir þjónar Jehóva hafa fundið fyrir því að hann hughreysti þá og hvernig það hefur hjálpað þeim.
HUGHREYSTING Í RAUNUM
10. Hvernig fékk Hanna huggun? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
10 Hanna, ástkær eiginkona Elkana, átti við ákveðinn vanda að glíma. Hún gat ekki átt börn en horfði upp á Peninnu, sem var önnur eiginkona Elkana, eignast mörg börn. (Lestu 1. Samúelsbók 1:4-7.) Peninna hæddist að henni „ár eftir ár“ og það olli henni miklu hugarangri og vanlíðan. Hún leitaði huggunar með því að leggja málið fyrir Jehóva í bæn og ,bað lengi frammi fyrir honum‘. Bjóst hún við að Jehóva myndi svara bæn hennar? Það hlýtur að vera því að eftir það „var [hún] ekki lengur döpur í bragði“. (1. Sam. 1:12, 17, 18) Hún treysti því að Jehóva myndi annaðhvort gefa henni son eða veita henni huggun með öðrum hætti.
11. Hvernig getur bænin veitt okkur hughreystingu?
11 Eins lengi og við erum ófullkomin og búum í þessum heimi sem Satan stjórnar þurfum við að takast á við erfiðleika og raunir. (1. Jóh. 5:19) Það er þó yndislegt til þess að vita að Jehóva er „Guð allrar huggunar“. Ein leið til að fá hjálp til að takast á við erfiðleika okkar er að biðja til hans. Hanna úthellti hjarta sínu fyrir honum. Rétt eins og hún þurfum við að gera meira en aðeins að nefna það við Jehóva hvernig okkur líður þegar við eigum í erfiðleikum. Við þurfum að ákalla hann og tjá honum tilfinningar okkar með áköfum bænum frá hjartanu. – Fil. 4:6, 7.
12. Hvers vegna gat ekkjan Anna verið glöð?
12 Jafnvel þótt við finnum fyrir miklum tómleika í lífinu – hvort sem hann stafar af barnleysi eða ástvinamissi – getum við fengið hughreystingu. Spákonan Anna, sem var uppi á dögum Jesú, missti eiginmann sinn eftir aðeins sjö ára hjónaband. Biblían nefnir ekkert um að hún hafi átt börn. Hvað gerði Anna 84 ára að aldri sem hjálpaði henni? Í Lúkasi 2:37 segir: „Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.“ Já, það veitti Önnu bæði hughreystingu og gleði að tilbiðja Jehóva.
13. Nefndu dæmi sem sýnir að sannir vinir geta veitt hughreystingu jafnvel þótt nánir ættingjar geri það ekki.
13 Þegar við eigum náinn félagsskap við bræður okkar og systur eignumst við sanna vini. (Orðskv. 18:24) Paula minnist þess hve leið hún var fimm ára að aldri þegar mamma hennar yfirgaf sannleikann. Þetta var ekki auðvelt fyrir hana. En hún fékk mikla uppörvun þegar Ann, brautryðjandasystir í söfnuðinum, fór að sýna henni áhuga og styðja hana í trúnni. „Þó að Ann hafi ekki verið skyld mér var það mér mikil hjálp að finna fyrir umhyggju hennar,“ segir Paula. „Það hjálpaði mér að halda áfram að þjóna Jehóva.“ Mamma Paulu er nú aftur komin í söfnuðinn og það gleður Paulu mikið að þær geti þjónað Jehóva saman á ný. Ann er líka mjög ánægð þar sem hún hefur verið Paulu eins og andleg móðir.
14. Hvaða blessun geta þeir hlotið sem hughreysta aðra?
14 Þegar við sýnum öðrum kærleika og einlægan áhuga getur það oft dregið úr eigin vanlíðan. Systur, jafnt giftar sem ógiftar, vita að það veitir þeim mikla ánægju að segja frá fagnaðarerindinu sem samverkamenn Guðs. Markmið þeirra er að heiðra Guð með því gera vilja hans. Sumar systur líta jafnvel á þátttöku sína í boðuninni sem eins konar meðferð. Við stuðlum öll að því að styrkja eininguna í söfnuðinum þegar við sýnum öðrum umhyggju, hvort heldur fólki á svæði okkar eða trúsystkinum. (Fil. 2:4) Páll postuli var góð fyrirmynd að þessu leyti. Hann var trúsystkinum sínum í Þessaloníku „eins og móðir sem hlúir að börnum sínum“ en líka sem andlegur faðir. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 11, 12.
HUGHREYSTING FYRIR FJÖLSKYLDUR
15. Hverjir bera aðalábyrgðina á því að kenna börnum sannleikann?
15 Hvernig getum við stutt og hughreyst fjölskyldur í söfnuðinum? Þeir sem eru nýir í söfnuðinum biðja stundum reyndari boðbera að hjálpa sér að kenna börnum sínum sannleikann, jafnvel að leiðbeina þeim við biblíunám. Biblían bendir á að það sé fyrst og fremst á ábyrgð foreldranna að kenna börnum sínum. (Orðskv. 23:22; Ef. 6:1-4) En stundum þurfa aðrir að hjálpa til og það er mikils metið. Það breytir því samt ekki að foreldrarnir bera ábyrgðina. Það er nauðsynlegt að þeir haldi uppi góðum samskiptum í fjölskyldunni.
16. Hvað ætti að hafa í huga þegar maður hjálpar börnum að fræðast um Jehóva?
16 Ef foreldri biður einhvern um að leiðbeina barni sínu við biblíunám ætti sá sem gerir það ekki að reyna að taka á sig hlutverk foreldrisins. Það hefur gerst að vottur hafi verið beðinn um að aðstoða barn við biblíunám þó að foreldrarnir hafi ekki áhuga á sannleikanum. Við slíkar aðstæður væri skynsamlegt að halda biblíunámið annaðhvort á heimili barnsins þar sem foreldri eða þroskaður vottur er viðstaddur, eða á stað þar sem aðrir sjá til. Þannig getur enginn rangtúlkað það sem fer fram. Með tímanum má vona að foreldrarnir vilji fræða börnin sín um Jehóva eins og hann hefur falið þeim.
17. Hvernig geta börn verið fjölskyldu sinni til styrktar og hughreystingar?
17 Börn og unglingar, sem læra að elska hinn sanna Guð og fara eftir leiðbeiningum hans, geta verið fjölskyldunni til styrktar og hughreystingar. Þau geta gert það með því að sýna foreldrum sínum virðingu og hjálpa til á ýmsa vegu. Auk þess er það mjög hvetjandi fyrir alla fjölskylduna þegar þau þjóna Jehóva dyggilega. Lamek, afkomandi Sets, tilbað Jehóva á tímanum fyrir flóðið. Hann sagði um son sinn Nóa: „Hann mun veita okkur styrk í erfiði og striti handa okkar á jörðinni sem Drottinn lýsti bölvun yfir.“ Þessi spádómur rættist þegar bölvuninni yfir jörðinni var aflétt eftir flóðið. (1. Mós. 5:29; 8:21) Börn nú á dögum, sem leggja sig fram í þjónustunni við Jehóva, geta líka verið fjölskyldu sinni til styrktar og hughreystingar. Þau geta hjálpað öllum í fjölskyldunni að vera þolgóð í prófraunum núna og að bjargast í þeirri þrengingu sem er fram undan.
18. Hvað getur hjálpað okkur að vera þolgóð og hugrökk þrátt fyrir erfiðleika og raunir sem mæta okkur?
18 Milljónir manna nú á tímum hljóta hughreystingu í erfiðleikum sínum með því að biðja, hugleiða fordæmi fólks sem Biblían segir frá og eiga náinn félagsskap við þjóna Jehóva. (Lestu Sálm 145:18, 19.) Við vitum að Jehóva er alltaf tilbúinn til að hughreysta okkur. Það hjálpar okkur að vera þolgóð og hugrökk í hvaða raunum sem kunna að mæta okkur – bæði núna og í framtíðinni.