Frelsun í nánd handa guðræknum mönnum!
„Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags.“ — 2. PÉTURSBRÉF 2:9.
1. (a) Hvaða þjakandi aðstæður blasa við mannkyninu nú á dögum? (b) Hvaða spurningar ættum við, í ljósi þess, að skoða?
HJÁ öllu mannkyni fara vandamál lífsins versnandi. Einu gildir hvort við búum þar sem nóg er til af efnislegum gæðum eða þar sem þau eru af skornum skammti. Alls staðar er öryggisleysi. Rétt eins og ótryggt efnahagsástand væri ekki nægilegt áhyggjuefni, bætast við alvarleg umhverfisvandamál sem herja á reikistjörnuna jörð og ógna öllu lífi á henni. Sjúkdómar eru miklir og útbreiddir. Smitsjúkdómar, hjartasjúkdómar og sú plága sem krabbamein er kosta ótalin mannslíf. Siðleysi hefur sett tilfinningalíf og fjölskyldulíf manna á annan endann. Auk alls þessa er heimurinn líka gagnsýrður ofbeldi. Í ljósi þess sem mannlegt samfélag stendur frammi fyrir er það raunsæi að spyrja: Er einhver heilbrigð ástæða til að búast við frelsun frá þessum vanda innan skamms? Ef svo er, hvernig mun hún koma og hverjir öðlast hana? — Samanber Habakkuk 1:2; 2:1-3.
2, 3. (a) Hvers vegna finnst okkur hughreystandi það sem segir í 2. Pétursbréfi 2:9? (b) Hvaða sérstök frelsunarverk bendir Biblían á til hughreystingar?
2 Það sem er að gerast á okkar tímum minnir okkur á ýmsa aðra örlagatíma mannkynssögunnar. Pétur postuli beinir athygli okkar að hjálpræðisverkum sem Guð vann við þau tækifæri, og síðan dregur hann þessa mjög uppörvandi ályktun: „Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu [„þrengingu,“ NW].“ (2. Pétursbréf 2:9) Við skulum gefa gaum að samhengi þessara orða í 2. Pétursbréfi 2:4-10:
3 „Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins. Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hina óguðlegu. Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega. En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sál dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði. Þannig veit [Jehóva], hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags, einkum þá sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald.“
Andinn sem ríkti á dögum Nóa
4. Hvers vegna leit Guð á jörðina sem spillta á dögum Nóa? (Sálmur 11:5)
4 Hin sannsögulega frásaga í 1. Mósebók 6. kafla segir okkur frá því að á dögum Nóa hafi jörðin orðið spillt í augum hins sanna Guðs. Hvers vegna? Vegna ofbeldis. Þar var ekki um að ræða aðeins einangruð glæpaverk. Fyrsta Mósebók 6:11 segir að ‚jörðin hafi fyllst glæpaverkum.‘
5. (a) Hvaða viðhorf manna stuðluðu að ofbeldinu á dögum Nóa? (b) Við hverju hafði Enok varað í tengslum við óguðleikann?
5 Hvað var að baki þessu ofbeldi? Ritningarkaflinn, sem við lásum í 2. Pétursbréfi, talaði um óguðlega menn. Guðleysisandi gagnsýrði mannlegt samfélag. Hér var ekki um að ræða aðeins almennt virðingarleysi fyrir lögum Guðs heldur hroka og andstöðu gegn Guði sjálfum.a Og þegar menn eru hrokafullir gagnvart Guði, hvernig er þá hægt að búast við að þeir séu vingjarnlegir við náunga sinn? Þetta guðleysi var orðið svo magnað, jafnvel áður en Nói fæddist, að Jehóva hafði látið Enok spá um afleiðingarnar. (Júdasarbréfið 14, 15) Öruggt var að Guð myndi fullnægja dómi á þeim sem buðu honum byrginn.
6, 7. Hve stóran hlut áttu englar í því slæma ástandi sem þróaðist fyrir flóðið?
6 Þá er að nefna önnur áhrif sem stuðluðu að ofbeldi þess tíma. Fyrsta Mósebók 6:1, 2 beinir athyglinni að þeim er hún segir: „Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur, sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.“ Hverjir voru þessir synir Guðs? Það voru ekki menn. Þegar hér var komið sögu höfðu menn um aldaraðir séð að dætur mannanna voru fríðar og gengið að eiga þær. Þessir synir Guðs voru englar sem holdguðust. Í 6. versi Júdasarbréfsins eru þeir kallaðir ‚englarnir, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað.‘ — Samanber 1. Pétursbréf 3:19, 20.
7 Hver var afleiðingin þegar þessar ofurmannlegu verur tóku sér mannslíkama og höfðu mök við dætur mannanna? „Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.“ Afkvæmi þessara óeðlilegu maka voru risarnir, kapparnir sem notuðu ofurafl sitt til að kúga eða hræða aðra með offorsi og þjösnaskap. — 1. Mósebók 6:4.
8. Hvernig brást Jehóva við hinu slæma ástandi á jörðinni?
8 Hve slæmt varð ástandið? Svo slæmt að „[Jehóva] sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og . . . allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ Hvernig brást Jehóva við? „Þá iðraðist [Jehóva] þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.“ Þessi orð ber ekki að skilja svo að Guði hafi fundist hann hafa gert mistök er hann skapaði mannkynið. Hann harmaði það að eftir hann skapaði mennina skyldi hegðun þeirra verða svo slæm að hann væri nauðbeygður til að tortíma þeim. — 1. Mósebók 6:5-7.
Lífsstefna sem leiddi til frelsunar
9. (a) Hvers vegna fann Nói náð í augum Guðs? (b) Hvað lét Guð Nóa vita?
9 „En Nói fann náð í augum [Jehóva]. . . . Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:8, 9) Jehóva gerði Nóa því viðvart um að hann ætlaði að láta koma heimsflóð og bauð honum að smíða örk. Allt mannkynið, að Nóa og fjölskyldu hans undanskilinni, yrði afmáð af yfirborði jarðar. Jafnvel dýrunum yrði eytt, nema þeim fáeinu fulltrúum hverrar megintegundar sem Nói átti að taka inn í örkina. — 1. Mósebók 6:13, 14, 17.
10. (a) Hvað þurfti að undirbúa til björgunar og hversu mikið verk var það? (b) Hvað er eftirtektarvert í sambandi við það hvernig Nói sinnti verkefni sínu?
10 Þessi vitneskja lagði mikla ábyrgð á herðar Nóa. Hann varð að smíða örkina. Hún var í laginu eins og risastór kista og heildarrúmmál hennar var um 40.000 rúmmetrar. Nói átti að draga að fóður og matvæli og koma fyrir í örkinni, og síðan safna saman dýrum og fuglum „af öllu holdi“ til björgunar. Þetta var verkefni sem kostaði áralanga vinnu. „Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ — 1. Mósebók 6:14-16, 19-22; Hebreabréfið 11:7.
11. Hvaða alvarleg ábyrgð hvíldi á Nóa gagnvart fjölskyldu sinni?
11 Jafnhliða því er Nói vann þetta verk þurfti hann einnig að verja nokkrum tíma til þess að byggja upp andlegt hugarfar fjölskyldu sinnar. Það þurfti að vernda fjölskylduna til að hún tæki ekki upp ofbeldisfullt hátterni og ögrandi viðhorf fólksins í kring. Það var mikilvægt að hún sökkti sér ekki um of niður í hið daglega amstur lífsins. Guð hafði verk handa þeim að vinna og þeim var lífsnauðsyn að láta daglegt líf sitt snúast um það. Við vitum að fjölskylda Nóa brást jákvætt við fræðslu hans og fylgdi honum í trú hans, því að farið er lofsamlegum orðum um Nóa, konu hans, syni þeirra þrjá og tengdadætur — alls átta manns — í Ritningunni. — 1. Mósebók 6:18; 1. Pétursbréf 3:20.
12. Hvaða skyldu rækti Nói af trúmennsku eins og sjá má af 2. Pétursbréfi 2:5?
12 Nói þurfti að rækja aðra skyldu — að vara við hinu væntanlega flóði og gera mönnum kunnugt hvers vegna það kæmi. Ljóst er að hann rækti þá skyldu sína af trúmennsku, því að orð Guðs kallar hann „prédikara réttlætisins.“ — 2. Pétursbréf 2:5.
13. Hvaða aðstæðum stóð Nói frammi fyrir er hann vann að því verki sem Guð fól honum?
13 Hugsaðu þér við hvílíkar aðstæður Nói þurfti að inna af hendi það verkefni sem honum hafði verið falið. Settu þig í spor hans. Ef þú hefðir tilheyrt fjölskyldu Nóa hefðir þú verið umkringdur því ofbeldi sem risarnir og óguðlegir menn báru ábyrgð á. Þú hefðir staðið beint frammi fyrir áhrifum hinna uppreisnargjörnu engla. Það hefði verið gert óspart gys að þér þegar þú hefðir verið að vinna við örkina. Og þegar þú varaðir við flóðinu ár eftir ár hefðir þú komist að raun um að menn voru svo uppteknir af amstri hins daglega lífs að þeir ‚vissu ekki‘ — þeir gáfu engan gaum — „fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ — Matteus 24:39; Lúkas 17:26, 27.
Hvað merkir reynsla Nóa fyrir þig?
14. Hvers vegna eigum við ekki erfitt með að skilja þær aðstæður sem Nói og fjölskylda hans bjuggu við?
14 Flestir eiga alls ekkert erfitt með að setja sig í spor Nóa. Hvers vegna? Vegna þess að ástandið nú á dögum er afar líkt því sem ríkti á dögum Nóa. Jesús Kristur sagði að við því væri að búast. Í hinum mikla spádómi sínum um nærverutíma sinn við endalok heimskerfisins, sagði hann fyrir: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.“ — Matteus 24:37.
15, 16. (a) Er hægt að segja að jörðin sé full af glæpaverkum og ofbeldi eins og var á dögum Nóa? (b) Hvers konar ofbeldi hafa þjónar Jehóva sérstaklega mátt þola?
15 Hefur Jesús reynst sannspár? Er heimur nútímans ‚fullur af glæpaverkum‘ og ofbeldi? Já! Yfir hundrað milljónir manna hafa fallið í styrjöldum þessarar aldar. Sum ykkar hafa líklega fundið fyrir áhrifunum af því. Sum ykkar hafa kynnst glæpaverkum af eigin raun er reynt hefur verið að ræna peningum ykkar eða öðrum verðmætum. Og börn og unglingar hafa kynnst ofbeldi í skólanum.
16 En vottar Jehóva kynnast ekki aðeins ofbeldi af völdum styrjalda eða glæpaverkum sem hver sem er getur orðið fyrir. Þeir mega líka þola ofbeldi vegna þess að þeir tilheyra ekki heiminum heldur kappkosta að vera guðræknir menn. (2. Tímóteusarbréf 3:10-12) Stundum er ofbeldið ekki alvarlegra en smáhrindingar eða löðrungar, en stundum fer það líka út í eyðileggingu á eignum, grimmilega barsmíð eða jafnvel morð. — Matteus 24:9.
17. Er óguðleiki mikill nú á dögum? Gefðu nánari skýringu.
17 Óguðlegir menn, sem sýna af sér slíkt ofbeldi, hafa stundum lýst blygðunarlaust yfir fyrirlitningu sinni á Guði. Á einum stað í Afríku lýstu opinberir embættismenn yfir: „Stjórnin er í okkar höndum. Þið farið til Guðs, ef hann er til, og biðjið hann að koma og hjálpa ykkur.“ Í fangelsum og fangabúðum hafa vottar Jehóva staðið frammi fyrir mönnum á borð við Baranowsky í Sachsenhausen í Þýskalandi sem sagði hæðnislega: „Ég hef lýst Jehóva stríði á hendur. Við skulum sjá hvor er sterkari, ég eða Jehóva.“ Skömmu síðar veiktist Baranowsky og dó, en aðrir halda áfram að sýna sams konar viðhorf. Opinberir embættismenn, sem hafa lagt upp í krossferð og beita ofsóknum sem vopni, eru ekki þeir einu sem ögra Guði. Út um allan heim heyra þjónar Guðs á máli manna og sjá á verkum þeirra að þeir hafa engan guðsótta í hjörtum sér.
18. Á hvaða hátt stuðla illir andar að ólgu mannkynsins?
18 Nú á dögum, sem líkjast svo mjög dögum Nóa, veitum við einnig athygli áhrifum illra anda. (Opinberunarbókin 12:7-9) Þessir illu andar eru sömu englarnir og holdguðust og tóku sér konur á dögum Nóa. Þegar flóðið kom fórust konur þeirra og börn, en þessir óhlýðnu englar neyddust til að hverfa aftur yfir á andlegt tilverusvið. Þeir áttu ekki lengur heima í heilögu skipulagi Jehóva heldur voru þeir settir í myrkrahella, í niðamyrkur þar sem þeir eru útilokaðir frá ljósi og upplýsingu Guðs. (2. Pétursbréf 2:4, 5) Þaðan hafa þeir starfað undir forystu Satans, haldið áfram að eiga náin tengsl við mennina og leitast við að stjórna konum, körlum og jafnvel börnum, þótt þeir geti ekki lengur holdgast. Það gera þeir að hluta til í tengslum við alls konar dulariðkanir. Þeir æsa einnig mannkynið upp til ódæðisverka þar sem menn tortíma hver öðrum án þess að nokkur heilbrigð skynsemi virðist búa að baki. En þá er ekki allt talið.
19. (a) Gegn hverjum beina illir andar hatri sínu sérstaklega? (b) Hvað reyna illir andar að þvinga okkur til að gera?
19 Biblían segir að illu andarnir heyi stríð gegn þeim sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ (Opinberunarbókin 12:12, 17) Þessir illu andar eru aðalforsprakkar ofsóknanna gegn þjónum Jehóva. (Efesusbréfið 6:10-13) Þeir beita öllum hugsanlegum ráðum til að reyna að þvinga eða tæla trúfasta menn til að láta af ráðvendni við Jehóva og hætta að boða ríki Jehóva í höndum Jesú, Messíasarkonungsins.
20. Hvernig reyna illir andar að hindra fólk í að slíta sig undan áhrifum þeirra? (Jakobsbréfið 4:7)
20 Illu andarnir reyna að tálma fólki sem þráir að losna undan kúgun þeirra. Fyrrum spíritisti í Brasilíu segir svo frá að þegar vottarnir knúðu fyrst dyra hjá henni hafi raddir úr andaheiminum fyrirskipað henni að opna ekki dyrnar, en hún gerði það samt sem áður og kynntist sannleikanum. Víða nota illir andar galdrakuklara fyrir opnum tjöldum til að reyna að stöðva starf votta Jehóva. Það gerðist til dæmis í þorpi í Súrinam að andstæðingar votta Jehóva leituðu til spíritista sem var vel þekktur fyrir að geta valdið skyndilegum dauða fólks með því einu að benda á það með töfrastaf sínum. Spíritistinn, haldinn illum anda, fór til fundar við votta Jehóva í fylgd dansara og trumbuleikara. Hann fór með galdraþulur sínar og benti á þá með staf sínum. Þorpsbúar bjuggust við því að vottarnir dyttu dauðir til jarðar, en það var spíritistinn sem féll í yfirlið og sneyptir fylgjendur hans máttu bera hann burt.
21. Hver eru viðbrögð þorra manna við prédikun okkar, eins og var á dögum Nóa, og hvers vegna?
21 Jafnvel þar sem galdrakukl og særingar eru ekki stundaðar fyrir opnum tjöldum hafa allir vottar Jehóva kynnst því hvernig það er að reyna að prédika fyrir fólki sem er svo upptekið af daglegu amstri að það vill ekki gefa boðskapnum gaum. Yfirgnæfandi meirihluti manna gefur engan gaum frekar en var á dögum Nóa. (Matteus 24:37-39) Sumir dást kannski að einingu okkar og jákvæðum árangri, en hið andlega byggingarstarf okkar, sem felur í sér margra klukkustunda einkanám, reglulega samkomusókn og þjónustu á akrinum, er tóm heimska í þeirra augum. Þeir gera gys að því að við skulum treysta fyrirheitum orðs Guðs, vegna þess að líf þeirra snýst um efnislegar eigur og þann holdlega unað sem þeir geta notið núna.
22, 23. Hvernig eru atburðirnir á dögum Nóa trygging fyrir því að Jehóva muni frelsa guðrækna menn úr þrengingu?
22 Munu drottinhollir þjónar Jehóva endalaust þurfa að þola hrakyrði þeirra sem ekki elska Guð? Alls ekki! Hvað gerðist á dögum Nóa? Að boði Guðs fór Nói inn í örkina eftir að hún var fullgerð. Síðan, á tilsettum tíma Guðs, „opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp.“ Úrfellið stóð uns hæstu fjöll voru komin í kaf. (1. Mósebók 7:11, 17-20) Englarnir, sem yfirgáfu sinn eigin bústað, neyddust til að yfirgefa mannslíkamana, sem þeir höfðu myndað, og snúa aftur yfir í andaheiminn. Risarnir og allir aðrir sem tilheyrðu heimi hinna óguðlegu, meðal annars þeir sem ekki skeyttu um aðvörun Nóa, tortímdust. Nói, kona hans, synir þeirra þrír og tengdadætur björguðust hins vegar öll. Þannig frelsaði Guð Nóa og fjölskyldu hans úr þrengingu sem þau höfðu haldið út drottinholl í svo mörg ár.
23 Mun Jehóva gera hið sama fyrir guðrækna menn nú á tímum? Á því leikur ekki minnsti vafi. Hann hefur heitið því og hann getur ekki logið. — Títusarbréfið 1:2; 2. Pétursbréf 3:5-7.
[Neðanmáls]
a „Anomia er lítilsvirðing eða andstaða gegn lögum Guðs; asebeia [nafnorð þýtt ‚óguðlegir menn‘] lýsir sömu afstöðu til Guðs sem persónu.“ — Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words, 4. bindi, bls. 170.
Manst þú?
◻ Hvernig sýndi Pétur fram á að Jehóva veit hvernig hann á að frelsa guðrækna menn úr þrengingu?
◻ Hvað stuðlaði að ofbeldinu á dögum Nóa?
◻ Hvaða ábyrgð hvíldi á Nóa með tilliti til flóðsins sem framundan var?
◻ Hvaða hliðstæður við daga Nóa sjáum við nú á tímum?