Að ganga með Guði — fyrstu skrefin
„Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:8.
1, 2. Af hverju eru það mikil sérréttindi að þjóna Jehóva?
HANN hafði setið í fangelsi um árabil. Þá var hann kallaður fyrir þjóðhöfðingja landsins. Nú gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Skyndilega var fanginn kominn í þjónustu voldugasta einvalds jarðar. Hann var skipaður í ábyrgðarmikið embætti og veittur óvenjulegur heiður. Jósef — sem hafði einu sinni verið fjötraður á fótum — gekk nú með konungi! — 1. Mósebók 41:14, 39-43; Sálmur 105:17, 18.
2 Nú á dögum eiga menn þess kost að þjóna margfalt æðri valdhafa en faraó Egyptalands. Alvaldur alheimsins býður okkur öllum að þjóna sér. Það eru stórkostleg sérréttindi að gera það og fá að byggja upp náið samband við Jehóva, alvaldan Guð! Ritningin talar um hátign, ljóma, friðsæld, fegurð og yndisleik í sambandi við hann. (Esekíel 1:26-28; Opinberunarbókin 4:1-3) Allt sem hann gerir einkennist af kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann lýgur aldrei. (4. Mósebók 23:19) Og hann veldur dyggum þjónum sínum aldrei vonbrigðum. (Sálmur 18:26) Með því að laga sig að réttlátum kröfum hans er hægt að vera hamingjusamur og lifa innihaldsríku lífi núna og eiga eilíft líf í vændum. (Jóhannes 17:3) Enginn mennskur valdhafi getur boðið neitt í líkingu við slíka blessun og sérréttindi.
3. Hvernig ‚gekk Nói með Guði‘?
3 Endur fyrir löngu ákvað ættfaðirinn Nói að lifa í samræmi við vilja Guðs og tilgang. Biblían segir um hann: „Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:9) Nói gekk auðvitað ekki bókstaflega með Jehóva því að enginn maður hefur „nokkurn tíma séð Guð.“ (Jóhannes 1:18) Hann gekk með Guði í þeirri merkingu að hann gerði það sem Guð sagði honum. Þar eð Nói helgaði sig því að gera vilja Jehóva átti hann hlýlegt og innilegt samband við hann. Milljónir manna nú á tímum ‚ganga með Guði‘ eins og Nói, með því að lifa í samræmi við ráð hans og fyrirmæli. Hvernig hefur maður slíka göngu?
Nákvæm þekking nauðsynleg
4. Hvernig fræðir Jehóva fólk sitt?
4 Til að ganga með Jehóva þurfum við fyrst að kynnast honum. Spámaðurinn Jesaja spáði: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum,‘ því að frá Síon mun kenning út ganga og orð [Jehóva] frá Jerúsalem.“ (Jesaja 2:2, 3) Já, við getum treyst því að Jehóva kenni öllum sem sækjast eftir að ganga á vegum hans. Hann hefur gefið okkur orð sitt, Biblíuna, og hjálpar okkur að skilja hana, meðal annars fyrir atbeina ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Hann notar ‚hinn trúa þjón‘ til að miðla andlegri fræðslu í biblíutengdum ritum, á kristnum samkomum og með ókeypis biblíunámskeiðum í heimahúsum. Hann beitir líka heilögum anda til að hjálpa fólki sínu að skilja orð sitt. — 1. Korintubréf 2:10-16.
5. Af hverju er sannleikur Biblíunnar mjög dýrmætur?
5 Sannleikur Biblíunnar er dýrmætur þótt við þurfum ekki að borga fyrir hann. Þegar við nemum orð Guðs fræðumst við um hann — nafn hans, persónuleika, tilgang og samskipti við menn. Við fáum líka fullnægjandi svör við stóru spurningunum í lífinu: Hver er tilgangur lífsins? Hvers vegna leyfir Guð þjáningar? Hvað ber framtíðin í skauti sínu? Af hverju hrörnum við og deyjum? Er líf eftir dauðann? Og við lærum hver sé vilji Guðs með okkur, það er að segja hvernig við eigum að framganga til að þóknast honum. Við komumst að raun um að kröfur hans eru sanngjarnar og að það er mjög gagnlegt að lifa eftir þeim. Án fræðslunnar frá Guði gætum við aldrei skilið neitt af þessu.
6. Hvaða stefnu getum við tekið vegna nákvæmrar þekkingar okkar á Biblíunni?
6 Sannleikur Biblíunnar er kröftugur og knýr okkur til að gera breytingar í lífinu. (Hebreabréfið 4:12) Áður en við öfluðum okkur biblíuþekkingar gátum við einungis lifað „samkvæmt aldarhætti þessa heims.“ (Efesusbréfið 2:2) En nákvæm þekking á orði Guðs vísar okkur annan veg svo að við getum ‚hegðað okkur eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ (Kólossubréfið 1:10) Hvílík gleði að stíga fyrstu skrefin með Jehóva, mikilfenglegustu persónu alheimsins! — Lúkas 11:28.
Tvö mikilvæg skref — vígsla og skírn
7. Hvaða sannleikur um forystu manna rennur upp fyrir okkur þegar við kynnum okkur orð Guðs?
7 Þegar skilningur okkar á Biblíunni eykst förum við að sjá mannleg mál og líf okkar í andlegu ljósi orðs Guðs. Þá rennur upp fyrir okkur mikilvægur sannleikur. Spámaðurinn Jeremía orðaði þennan sannleika svo endur fyrir löngu: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Mennirnir — allir menn — þarfnast handleiðslu Guðs.
8. (a) Hvað fær fólk til að vígjast Guði? (b) Hvað er kristin vígsla?
8 Skilningur á þessari mikilvægu staðreynd er okkur hvatning til að leita leiðsagnar Jehóva. Og kærleikur til hans fær okkur til að vígja honum líf okkar. Að vígjast Guði merkir að nálgast hann í bæn og gefa honum hátíðlegt heit um að nota líf okkar í þjónustu hans og ganga trúfastir á vegum hans. Með því fylgjum við fordæmi Jesú sem bauð sig Jehóva, staðráðinn í að gera vilja hans. — Hebreabréfið 10:7.
9. Af hverju vígja menn Jehóva líf sitt?
9 Jehóva Guð þvingar engan til að vígjast sér. (Samanber 2. Korintubréf 9:7.) Hann ætlast ekki heldur til að nokkur maður vígist sér í stundlegum tilfinningahita. Áður en maður skírist þarf hann að vera orðinn lærisveinn og það kostar einlæga viðleitni til að afla sér þekkingar. (Matteus 28:19, 20) Páll brýndi fyrir þeim sem voru skírðir að ‚bjóða sjálfa sig fram að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn‘ og benti á að það væri „skynsamleg guðsdýrkun.“ (Rómverjabréfið 12:1, Biblían 1912) Við beitum líka skynseminni þegar við vígjumst Jehóva Guði. Eftir að við höfum lært hvað er fólgið í því og höfum hugleitt það vandlega vígjum við líf okkar Guði fúslega og fagnandi. — Sálmur 110:3.
10. Hvernig tengjast vígsla og skírn?
10 Eftir að við höfum snúið okkur einslega til Guðs í bæn og tjáð honum þann ásetning okkar að ganga á vegum hans, þá stígum við næsta skrefið. Við opinberum vígslu okkar með niðurdýfingarskírn. Þetta er opinber yfirlýsing um að við höfum heitið að gera vilja Guðs. Jesús gaf okkur fordæmið með því að skírast hjá Jóhannesi við upphaf þjónustu sinnar á jörð. (Matteus 3:13-17) Síðar fól hann fylgjendum sínum að gera menn að lærisveinum og skíra þá. Vígsla og skírn er því nauðsynleg fyrir hvern þann sem vill ganga með Jehóva.
11, 12. (a) Hvað er líkt með skírn og stofnun hjónabands? (b) Hvernig er samband okkar við Jehóva hliðstætt sambandi hjóna?
11 Að verða vígður og skírður lærisveinn Jesú Krists er að sumu leyti áþekkt því að ganga í hjónaband. Brúðkaupsdagurinn á sér yfirleitt nokkurn aðdraganda. Maður og kona hittast, kynnast og verða ástfangin. Síðan trúlofast þau. Brúðkaupið er opinber yfirlýsing um það sem ákveðið hefur verið einslega — að stofna til hjónabands og búa saman eftir það. Brúðkaupið er opinbert upphaf að þessu sérstaka sambandi. Brúðkaupsdagurinn er upphaf hjónabandsins. Skírnin er á sama hátt upphafið að vígslusambandi við Jehóva og ævilangri göngu með honum.
12 Lítum á aðra hliðstæðu. Ástin milli hjóna ætti að dýpka og þroskast eftir brúðkaupið. Þau þurfa bæði að leggja sig fram í óeigingirni um að styrkja hjónaband sitt og viðhalda því. Við göngum að vísu ekki í hjónaband við Guð, en við verðum engu að síður að vinna að því að viðhalda nánu sambandi við hann eftir skírnina. Hann tekur eftir viðleitni okkar til að gera vilja sinn og kann að meta hana, og hann nálægir sig okkur. „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. — Jakobsbréfið 4:8.
Að feta í fótspor Jesú
13. Fordæmi hvers eigum við að fylgja í því að ganga með Guði?
13 Til að ganga með Jehóva verðum við að fylgja fordæmi Jesú Krists. Pétur postuli skrifaði: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Þar eð Jesús var fullkominn en við erum ófullkomin getum við ekki fylgt fordæmi hans lýtalaust. Jehóva ætlast samt til að við gerum okkar besta. Við skulum skoða fimm þætti í lífi og þjónustu Jesú sem vígðir kristnir menn ættu að gera sér far um að líkja eftir.
14. Hvað er fólgið í því að þekkja orð Guðs?
14 Jesús var þaulkunnugur orði Guðs. Hann vitnaði oft í Hebresku ritningarnar í þjónustu sinni. (Lúkas 4:4, 8) Hinir óguðlegu trúarleiðtogar samtímans vitnuðu auðvitað líka í Ritninguna. (Matteus 22:23, 24) Munurinn var hins vegar sá að Jesús skildi Ritninguna og fór eftir henni. Hann þekkti ekki bara bókstaf lögmálsins heldur líka anda þess. Við ættum að líkja eftir Kristi með því að leitast við að skilja orð Guðs, að skynja andann í því. Þar með getum við orðið verkamenn sem Guð hefur velþóknun á og ‚fara rétt með orð sannleikans.‘ — 2. Tímóteusarbréf 2:15.
15. Hvernig gaf Jesús fordæmi í því að tala um Guð?
15 Kristur Jesús talaði við aðra um himneskan föður sinn. Hann lá ekki á þekkingunni á orði Guðs. Jafnvel óvinir hans ávörpuðu hann ‚meistara‘ af því að hann talaði hvar sem var um Jehóva og tilgang hans. (Matteus 12:38) Jesús prédikaði opinberlega á musterissvæðinu, í samkunduhúsunum, í borgunum og í sveitinni. (Markús 1:39; Lúkas 8:1; Jóhannes 18:20) Hann kenndi fólki með samkennd og góðvild og sýndi að honum þótti vænt um þá sem hann hjálpaði. (Matteus 4:23) Þeir sem fylgja fordæmi Jesú finna líka ótal staði og leiðir til að segja öðrum frá Jehóva Guði og stórkostlegum tilgangi hans.
16. Hve náið samband átti Jesús við aðra tilbiðjendur Jehóva?
16 Jesús átti náin tengsl við aðra tilbiðjendur Jehóva. Einhverju sinni var hann að tala við mannfjöldann þegar móðir hans og vantrúaðir bræður komu til að ná tali af honum. Frásaga Biblíunnar segir: „Einhver sagði við hann: ‚Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig.‘ Jesús svaraði þeim, er við hann mælti: ‚Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?‘ Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: ‚Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.‘“ (Matteus 12:47-50) Þetta merkir ekki að Jesús hafi hafnað fjölskyldu sinni því að síðar kom greinilega í ljós að svo var ekki. (Jóhannes 19:25-27) En þessi frásaga leggur áherslu á kærleika Jesú til trúsystkina sinna. Eins er það núna að þeir sem ganga með Jehóva Guði sækjast eftir félagsskap annarra þjóna hans og þykir afar vænt um þá. — 1. Pétursbréf 4:8.
17. Hvernig leit Jesús á það að gera vilja föður síns á himnum og hvernig ætti það að snerta okkur?
17 Jesús sýndi að hann elskaði föður sinn á himnum með því að gera vilja hans. Hann hlýddi Jehóva í öllu. „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans,“ sagði hann. (Jóhannes 4:34) Og öðru sinni sagði hann: „Ég gjöri ætíð það sem [Guði] þóknast.“ (Jóhannes 8:29) Jesús elskaði himneskan föður sinn svo heitt að hann „lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ (Filippíbréfið 2:8) Jehóva blessaði hann síðan og hóf hann upp í næstu tignar- og valdastöðu við sjálfan sig. (Filippíbréfið 2:9-11) Líkt og Jesús sýnum við Guði kærleika okkar með því að halda boðorð hans og gera vilja hans. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
18. Hvaða fordæmi gaf Jesús í sambandi við bænina?
18 Jesús var bænrækinn. Hann baðst fyrir við skírn sína. (Lúkas 3:21) Hann var alla nóttina á bæn áður en hann valdi postulana 12. (Lúkas 6:12, 13) Hann kenndi lærisveinunum að biðja. (Lúkas 11:1-4) Kvöldið fyrir dauða sinn bað hann fyrir lærisveinum sínum og með þeim. (Jóhannes 17:1-26) Bæn var þýðingarmikill þáttur í lífi Jesú og ætti líka að vera það hjá okkur því að við erum fylgjendur hans. Það er mikill heiður að mega tala við Drottin alheimsins í bæn! Og Jehóva svarar bænum því að Jóhannes skrifaði: „Þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss. Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.
19. (a) Hvaða eiginleikum Jesú ættum við að líkja eftir? (b) Hvaða gagn höfum við af því að kynna okkur ævi og þjónustu Jesú?
19 Það má læra mikið af því að kynna sér ævi og þjónustu Jesú Krists á jörð. Hugsaðu um eiginleika hans, kærleika, meðaumkun, góðvild, styrk, jafnvægi, sanngirni, auðmýkt, hugrekki og óeigingirni. Því meira sem við fræðumst um Jesú, þeim mun heitar þráum við að vera trúfastir fylgjendur hans. Þekking á honum styrkir líka tengsl okkar við Jehóva, því að hann var fullkomin spegilmynd síns himneska föður. Svo náið var samband hans við Jehóva að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ — Jóhannes 14:9.
Láttu traust á Guði halda þér uppi
20. Hvernig getum við öðlast öryggi á göngu okkar með Jehóva?
20 Börn eru óstöðug þegar þau stíga fyrstu skrefin. Hvernig verða þau örugg í skrefi? Með æfingu og þrautseigju. Þeir sem ganga með Jehóva leitast við að vera stefnufastir og öruggir í spori. Það kostar líka tíma og þrautseigju. Páll benti á mikilvægi þess að ganga þrautseigir með Guði er hann skrifaði: „Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:1.
21. Hvaða blessun getur það veitt okkur að ganga með Jehóva?
21 Ef við erum Guði fullkomlega trú hjálpar hann okkur að ganga með sér. (Jesaja 40:29-31) Þessi heimur hefur ekkert upp á að bjóða sem jafnast á við blessunina sem hann veitir þeim er ganga á vegum hans. Það er hann sem ‚kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt, sem vísar okkur þann veg er við skulum ganga. Ef við gefum gaum að boðorðum hans verður heill okkar sem fljót og réttlæti okkar sem bylgjur sjávarins.‘ (Jesaja 48:17, 18) Með því að þiggja boðið um að ganga með Guði og með því að gera það í trúfesti, getum við átt frið við hann að eilífu.
Hvert er svar þitt?
◻ Af hverju er það heiður að mega ganga með hinum sanna Guði?
◻ Hvers vegna eru nám, vígsla og skírn fyrstu skrefin á göngu okkar með Jehóva?
◻ Hvernig getum við fetað í fótspor Jesú?
◻ Hvernig vitum við að Jehóva heldur okkur uppi þegar við göngum með honum?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Nám, vígsla og skírn eru fyrstu skrefin á göngu okkar með Guði.