Spurningar frá lesendum
Hvers vegna sendi Nói hrafn og síðan dúfu út frá örkinni?
Biblían gefur ekki nákvæma skýringu á því. Hins vegar virðist Nói hafa farið rökrétt að.
Í 40 daga og 40 nætur mátti jörðin þola úrhellisrigningu sem olli slíku flóði að jafnvel fjallatopparnir fóru á kaf í fimm mánuði. Að þeim liðnum ‚nam örkin staðar á Araratsfjöllunum.‘ (1. Mósebók 7:6-8:4) Nokkrum mánuðum síðar „sáust fjallatindarnir“ og eftir það lét Nói „út hrafn og hann hélt áfram að fljúga úti við, fór og kom aftur.“ — 1. Mósebók 8:5, 7, NW.
Hvers vegna hrafn? Sá fugl hefur mikið flugþol og getur dregið fram lífið á margs konar fæðu, og eru hræ þar með talin. Nói kann að hafa sent út hrafninn til að sjá hvort hann myndi koma aftur eða halda sér fjarri örkinni og ef til vill nærast á þeim leifum hræja sem kæmu í ljós þegar vatnið sjatnaði og land birtist. En hrafninn hélt sér ekki í burtu. Biblían segir að hann hafi komið aftur en hún segir ekki að hann hafi komið aftur til Nóa. Ef til vill kom hann aftur til að hvíla sig á örkinni milli þess sem hann hóf sig til flugs til að finna sér æti er flaut á vötnunum sem enn þöktu jörðina.
Síðan tók Nói þann kost að senda út dúfu. Við lesum: „En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina.“ (1. Mósebók 8:9) Þetta bendir til þess að á sinn eigin hátt gæti dúfan komið Nóa að gagni við að ákveða hvort flóðvötnin hefðu gengið niður. Dúfur treysta mönnum í talsverðum mæli. Nói gat vænst þess að dúfan sneri aftur, ekki aðeins til að hvílast á örkinni heldur til hans sjálfs.
Sagt er að dúfur setjist aðeins á þurra jörð, fljúgi lágt í dölum og nærist á gróðri. (Esekíel 7:16) Grzimek’s Animal Life Encyclopedia tekur fram: „Allir dúfnafuglar, sem lifa á fræjum og hnetum, eiga erfitt með að afla sér fæðu strax og snjór [eða vatn] leggst yfir landið í meira en einn dag, af því að það sem getur orðið þeim til fæðu liggur oftast niðri við jörð.“ Dúfan gæti þess vegna fært Nóa einhver merki þess að hún hefði fundið þurrt land eða plöntur sem farnar voru að spíra. Í fyrsta sinn sem Nói sendi út dúfuna kom hún einfaldlega aftur til hans í örkina. Í annað sinn kom hún aftur með olíuviðarblað. Í þriðja sinn kom hún ekki aftur sem bar því vitni að mögulegt væri og öruggt fyrir Nóa að yfirgefa örkina. — 1. Mósebók 8:8-12.
Sumir álíta þessi smáatriði ef til vill hreina tilviljun. En að frásagan skuli vera svo nákvæm án þess að nokkuð sé verið að streitast við að útskýra allt til hlítar ber vitni um trúverðugleika Biblíunnar. Það gefur okkur aukna ástæðu til að trúa að frásögnin sé ekki tilbúningur eða uppspuni heldur greini heiðarlega frá atburðarásinni. Þar skortir tæmandi smáatriði og útskýringar en trúfastir kristnir menn geta hlakkað til að spyrja Nóa um þau áhugaverðu atriði þegar hann hefur verið reistur upp frá dauðum og getur útskýrt þau frá fyrstu hendi. — Hebreabréfið 11:7, 39.