Sjötti kafli
Forn sköpunarsaga — er hún trúverðug?
„HVER getur sagt hvaðan allt er komið og hvernig sköpunin fór fram?“ Þessa spurningu er að finna í kvæðinu „Sköpunarljóðið.“ Það var ort á sanskrít fyrir meira en 3000 árum og er hluti af Rigveda sem er eitt af helgiritum hindúa. Ljóðskáldið dró í efa að jafnvel hinir mörgu guðir hindúa gætu vitað „hvernig sköpunin fór fram“ vegna þess að „guðirnir eru sjálfir yngri en sköpunin.“ — Leturbreyting okkar.
Í ritum Babýloníumanna og Egypta eru settar fram goðsagnir af tilurð guða þeirra í alheimi sem þegar var til. Það sem skiptir hins vegar hvað mestu máli er að þessar goðsagnir gátu ekkert sagt um uppruna alheimsins. Ein sköpunarsaga hefur þó sérstöðu. Það er sköpunarsaga Biblíunnar sem hefst á orðunum: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ — 1. Mósebók 1:1.
Móse skrifaði þessa einföldu en tilþrifamiklu fullyrðingu fyrir um það bil 3500 árum. Hún beinir athyglinni að skapara, Guði, sem hafinn er yfir hinn efnislega alheim vegna þess að hann bjó hann til og var þar af leiðandi líka til á undan honum. Biblían kennir okkur einnig að ‚Guð sé andi‘ sem þýðir að tilvist hans er í mynd sem við getum ekki séð. (Jóhannes 4:24) Nú á dögum eiga menn ef til vill auðveldara með að hugsa sér slíka tilvist af því að vísindamenn hafa lýst öflugum nifteindastjörnum og svartholum í geimnum, ósýnilegum fyrirbærum sem greinast vegna áhrifanna sem þau hafa.
Í Biblíunni eru þessi athyglisverðu orð: „Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.“ (1. Korintubréf 15:40, 44) Þetta vísar ekki til þeirra ósýnilegu hluta í geimnum sem stjörnufræðingar rannsaka. ‚Himnesku líkamarnir‘ eru vitibornir andlegir líkamar. Hverjir skyldu hafa ‚himneskan líkama‘ aðrir en skaparinn?
Ósýnilegar, himneskar sköpunarverur
Af orðum Biblíunnar að dæma var hið sýnilega tilverusvið ekki það fyrsta sem skapað var. Þessi forna bók segir sköpunina hafa hafist með því að búin var til önnur andavera, hinn frumgetni sonur. Hann var „frumburður allrar sköpunar“ eða „upphaf sköpunar Guðs.“ (Kólossubréfið 1:15; Opinberunarbókin 3:14) Þessi fyrsti einstaklingur, sem skapaður var, átti engan sinn líka.
Hann var eina sköpunarverkið sem Guð vann aleinn og hann var gæddur miklum vitsmunum. Biblíuritari og konungur, sem uppi var eftir daga Móse og var nafntogaður vegna visku sinnar, lýsti þessum syni sem frábærri ‚verkstýru‘ sem tók þátt í öllu því sköpunarstarfi sem á eftir kom. (Orðskviðirnir 8:22, 30; sjá einnig Hebreabréfið 1:1, 2.) Um hann skrifaði líka Páll, kennari á fyrstu öld: „Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega.“ — Kólossubréfið 1:16; samanber Jóhannes 1:1-3.
Hvað er hið ósýnilega í himnunum sem skaparinn bjó til ‚í syni sínum‘ eða með aðstoð hans? Stjörnufræðingar greina frá milljörðum stjarna og ósýnilegra svarthola en Biblían er hér að tala um hundruð milljóna andavera sem hafa andlega líkama. ‚Hvers vegna var verið að skapa slíkar ósýnilegar vitsmunaverur?‘ kynni einhver að spyrja.
Á sama hátt og rannsókn á alheiminum getur svarað ýmsum spurningum um orsök hans getur rannsókn á Biblíunni veitt okkur mikilvægar upplýsingar um höfund hennar. Biblían segir okkur til dæmis að hann sé ‚hinn sæli Guð‘ og að áform hans og gerðir endurspegli kærleika. (1. Tímóteusarbréf 1:11; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Því er rökrétt að álykta að Guð hafi kosið að eiga félagsskap við aðrar skynsemigæddar andaverur sem gætu líka notið lífsins eins og hann. Hver og ein þeirra fengi ánægjulegt starf sem væri heillavænlegt fyrir þær allar og stuðlaði að því að fyrirætlanir skaparans næðu fram að ganga.
Ekkert bendir til þess að þessar andaverur hafi átt að hlýða Guði eins og vélmenni. Öllu heldur gaf hann þeim vitsmuni og frjálsan vilja. Margt í Biblíunni gefur til kynna að Guð hvetji til frjálsrar hugsunar og verka, fullviss um að slíkt frelsi sé engin varanleg ógnun við frið og samlyndi í alheiminum. Páll notaði einkanafn skaparans, eins og það birtist í hebresku biblíunni, og skrifaði: „[Jehóva] er andinn, og þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ — 2. Korintubréf 3:17.
Sýnilegir hlutir á himni
Hvað er hið sýnilega sem Guð skapaði með aðstoð frumgetins sonar síns? Meðal annars sólin og allar hinar stjörnurnar og hnettirnir í milljarðatali sem alheimurinn er gerður úr. Gefur Biblían okkur einhverja hugmynd um hvernig Guð bjó allt þetta til úr engu? Athugum það með því að skoða Biblíuna í ljósi nútímavísinda.
Á átjándu öld gerði vísindamaðurinn Antoine-Laurent Lavoisier athuganir á þunga efna. Hann tók eftir því að þegar efnabreyting hafði átt sér stað var þungi afurðarinnar sá sami og samanlagður þungi hráefnisins sem í hana fór. Ef pappír er brenndur í súrefni vegur askan og lofttegundirnar, sem myndast við brunann, það sama og pappírinn og súrefnið gerði. Lavoisier setti fram lögmál — ‚lögmálið um varðveislu massans eða efnisins.‘ Árið 1910 mátti lesa í The Encyclopædia Britannica: „Efni verður hvorki skapað né því eytt.“ Það virtist eiga við rök að styðjast, að minnsta kosti í þá daga.
Sprenging kjarnorkusprengjunnar yfir japönsku borginni Hírósíma árið 1945 opinberaði hins vegar veilu í lögmáli Lavoisiers. Þegar úran, í magni sem nægir til að viðhalda keðjuhvarfi, er sprengt á þennan hátt myndast önnur efni, en samanlagður massi þeirra er minni en upphaflega úransins. Af hverju tapast massi? Af því að hluti úranmassans breytist í ógnarorku sem losnar á svipstundu úr læðingi.
Annar galli á lögmáli Lavoisiers um varðveislu massans kom í ljós árið 1952 þegar vetnissprengjan var sprengd. Við þá sprengingu runnu vetnisatóm saman og mynduðu helíum. Massi þess helíums, sem myndaðist, var þó minni en massi hins upprunalega vetnis. Hluti vetnismassans breyttist í sprengiorku og var aflið langtum ógurlegra en kraftur sprengjunnar sem sprengd var yfir Hírósíma.
Geysileg orka býr í tiltölulega litlum efnismassa eins og þessar sprengingar sönnuðu. Þetta samband efnis og orku er skýringin á sólarorkunni sem viðheldur lífinu á jörðinni. Hvert er þetta samband? Um 40 árum áður, árið 1905, hafði Einstein reiknað út sambandið milli efnis og orku. Margir kannast við jöfnu hans E=mc2.a Eftir að Einstein hafði sett fram þetta samband gátu aðrir vísindamenn útskýrt hvernig sólin hefur getað skinið um milljarða ára. Inni í sólinni á sér í sífellu stað efnasamruni. Á hverri sekúndu breytir sólin um 564 milljónum tonna af vetni í 560 milljónir tonna af helíum. Það þýðir að um það bil 4 milljónum tonna af efni er breytt í sólarorku og örlítið brot af henni nær til jarðarinnar og viðheldur lífinu þar.
Það hefur verulega þýðingu að breytingin getur líka gengið í hina áttina. „Orka breytist í efni þegar eindir smærri en frumeind rekast saman á miklum hraða og mynda nýjar og stærri eindir,“ útskýrir The World Book Encyclopedia. Vísindamenn ná að gera þetta í takmörkuðum mæli með risastórum búnaði sem kallaður er eindahraðall, en í honum rekast eindir smærri en frumeind saman á fjarstæðukenndum hraða og úr verður efni. „Við erum að endurtaka eitt kraftaverka alheimsins — að breyta orku í efni,“ segir nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, dr. Carlo Rubbia.
‚Mikið rétt,‘ segir kannski einhver, ‚en hvað kemur það sköpunarsögu Biblíunnar við?‘ Biblían er að vísu ekki kennslubók í vísindum en það sem hún segir hefur hvorki reynst úrelt né í ósamræmi við vísindalegar staðreyndir. Frá upphafi til enda beinir Biblían athyglinni að þeirri persónu sem skapaði allt efnið í alheiminum, bendir á þann sem er öllum vísindamönnum fremri. (Nehemíabók 9:6; Postulasagan 4:24; Opinberunarbókin 4:11) Af orðum Biblíunnar má draga þá ályktun að samband sé á milli orku og efnis.
Biblían segir meðal annars við lesendur sína: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ (Jesaja 40:26) Já, Biblían segir að skapari, sem býr yfir geysimikilli orku, hafi búið til hinn efnislega alheim. Það er í fullkomnu samræmi við það sem menn hafa komist að raun um með nýjustu tækni. Þessi ástæða ein og sér nægir til að sköpunarsaga Biblíunnar verðskuldi virðingu okkar.
Eftir að hafa skapað jafnt hið ósýnilega sem hið sýnilega á himni einbeittu skaparinn og frumgetinn sonur hans sér að jörðinni. Hvaðan kom hún? Guð gæti hafa búið til hin margvíslegu frumefni, sem jörðin okkar er samsett úr, beinlínis með því að breyta takmarkalausri orku í efni sem er gerlegt að mati eðlisfræðinga nú á tímum. Annar möguleiki, og hann aðhyllast margir vísindamenn, er sá að jörðin hafi verið mynduð úr efni sem þeyttist út frá sprengistjörnu. Hver getur samt sagt hvort ýmsum aðferðum hafi ekki verið slegið saman, þeim sem hér eru nefndar og öðrum sem vísindamenn hafa ekki enn komið auga á? Hvernig sem þetta hefur átt sér stað er skaparinn hinn mikli orkugjafi sem þörf var á til að mynda efnin sem jörðin er búin til úr, þar með talin öll steinefnin sem okkur eru lífsnauðsynleg.
Ljóst er að til að grundvalla jörðina þurfti að gera meira en útvega allt efnið í hana í réttum hlutföllum. Margir þættir, eins og stærð jarðarinnar, möndulsnúningur, fjarlægð frá sólu svo og möndulhalli og nærri hringlaga ferill hennar um sólu, þurftu líka að vera alveg réttir — nákvæmlega eins og þeir eru. Skaparinn kom bersýnilega af stað hringrásum í náttúrunni sem hafa orðið til þess að mikið og fjölbreytt líf fær þrifist á jörðinni. Við höfum fulla ástæðu til að vera agndofa yfir öllu þessu. En sjáðu fyrir þér viðbrögð hinna himnesku andasona þegar þeir horfðu á sköpun jarðarinnar og lífsins á henni. Í einni af bókum Biblíunnar segir að þeir hafi ‚sungið gleðisöng allir saman‘ og ‚fagnað.‘ — Jobsbók 38:4, 7.
Hvernig ber að skilja 1. kafla 1. Mósebókar?
Fyrsti kafli Biblíunnar greinir frá nokkru af því sem Guð gerði eitt af öðru til að gera jörðina að yndislegum bústað fyrir manninn. Frásögn kaflans er ekki tæmandi og þegar við lesum kaflann ættum við ekki að láta það fæla okkur frá þó að sleppt sé einstökum þáttum sem lesendur til forna hefðu hvort sem er ekki skilið. Þegar Móse skrifaði þessa frásögn greindi hann til dæmis ekki frá örsmáum þörungum eða gerlum. Slíkar lífverur urðu mönnum fyrst sýnilegar eftir að smásjáin var fundin upp á 16. öld. Móse minntist ekki heldur sérstaklega á risaeðlurnar en tilvist þeirra réðu menn á 19. öld af steingervingum. Þess í stað var Móse blásið í brjóst að nota orð sem samtímamenn hans skildu — en jafnframt orð sem voru nákvæm í öllu því sem þau sögðu um sköpun jarðarinnar.
Við lestur fyrsta kafla 1. Mósebókar frá 3. versi og áfram sést að kaflanum er skipt í sex „sköpunardaga.“ Sumir fullyrða að hér sé um bókstaflega sólarhringa, 24 klukkustundir, að ræða sem þýddi að lífið á jörðinni hefði verið skapað á minna en einni viku. En það er auðvelt að komast að raun um að Biblían kennir það ekki. Fyrsta Mósebók var skrifuð á hebresku. Á því tungumáli vísar orðið „dagur“ til ákveðins tímabils sem getur verið bókstaflegur sólarhringur en getur líka átt við mun lengri tíma. Í hebreska textanum í 1. Mósebók 2:4 er jafnvel talað um alla „sköpunardagana“ sex samanlagða sem ‚daginn þá er Jehóva Guð gerði jörð og himin.‘ (1. Mósebók 2:4, New World Translation; samanber 2. Pétursbréf 3:8.) Biblían sýnir að „sköpunardagarnir“ eða tímabilin ná tvímælalaust yfir þúsundir ára.
Þetta má sjá af því sem Biblían segir um sjöunda „daginn.“ Frásögunni af hverjum hinna fyrstu sex „daga“ lýkur með orðunum „það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur,“ og svo framvegis alla dagana sex. En ekkert slíkt er sagt um sjöunda „daginn.“ Á fyrstu öldinni eftir okkar tímatali, þegar liðin voru um 4000 ár, vísar Biblían í sjöunda „daginn,“ hvíldardaginn, eins og hann væri enn að líða. (Hebreabréfið 4:4-6) Sjöundi „dagurinn“ spannaði þannig þúsundir ára og það er rökrétt að álykta að það sama gildi um hina „dagana“ sex.
Fyrsti og fjórði „dagurinn“
Svo virðist sem jörðin hafi verið komin á sporbraut um sólu og hafi verið hnöttur þakinn vatni áður en „dagarnir“ eða tímabilin sex, þegar fram fór sérstakt sköpunarstarf, hófust. „Myrkur grúfði yfir djúpinu.“ (1. Mósebók 1:2) Á því byrjunarstigi hlýtur eitthvað — ef til vill blanda af vatnsgufu, öðrum lofttegundum og eldfjallaösku — að hafa hindrað að sólarljósið næði niður til yfirborðs jarðar. Biblían lýsir fyrsta sköpunartímabilinu með þessum orðum: „Guð sagði: ‚Megi verða ljós‘; og hægt og hægt kom ljósið fram,“ eða náði til yfirborðs jarðarinnar. — 1. Mósebók 1:3, úr enskri þýðingu J. W. Watts.
Orðalagið ‚hægt og hægt kom fram‘ nær mjög vel svonefndu horfi hebresku sagnarinnar á þessum stað er gefur til kynna áframhaldandi starfsemi sem tekur tíma að ljúka við. Hver sem les hebresku getur fundið þetta horf um 40 sinnum í 1. kafla 1. Mósebókar, og það er lykillinn að skilningi á kaflanum. Það sem Guð hóf að gera á hinu óeiginlega kveldi hvers sköpunartímabils eða tímaskeiðs varð smám saman skýrt eða augljóst eftir að morgunn þess „dags“ var runninn upp.b Það sem hafið var á einu tímabili þurfti heldur ekki að vera algerlega lokið þegar næsta tímabil rann upp. Dæmi um það er ljósið sem hægt og hægt fór að birtast á fyrsta „deginum“ en komið var fram á fjórða sköpunartímabilið þegar hægt var orðið að greina sólina, tunglið og stjörnurnar. — 1. Mósebók 1:14-19.
Annar og þriðji „dagurinn“
Áður en skaparinn lét þurrlendi birtast á þriðja „sköpunardeginum“ lét hann hluta af vatninu á yfirborði jarðar stíga upp og mynda nokkurs konar vatnsgufuteppi sem umlukti jörðina.c Hin forna frásaga lýsir ekki hvernig farið var að þessu enda ekki þörf á því. Í stað þess beinir Biblían athyglinni að víðáttunni (kölluð „festing“ í sumum þýðingum) milli vatnsins uppi yfir jörðinni og yfirborðsvatnsins. Hún kallar hana himin. Enn í dag er þetta orð notað yfir andrúmsloftið þar sem fuglar og flugvélar fljúga. Með tímanum fyllti Guð þennan andrúmsloftshimin með lífsnauðsynlegri blöndu lofttegunda.
Á meðan „sköpunardagarnir“ voru að líða sjatnaði hins vegar yfirborðsvatnið svo að land birtist. Guð virðist hafa ýtt sjávarhryggjum upp til að mynda meginlönd og hugsanlega notað þá jarðfræðilegu krafta sem enn valda flekahreyfingum í jarðskorpunni. Við það hefur myndast þurrlendi ofan sjávarmáls og djúpir dalir í sjávarbotninum sem haffræðingar hafa núna kortlagt og kanna ákaft. (Samanber Sálm 104:8, 9.) Þá er þurrlendið var fram komið átti önnur stórkostleg nýmyndun sér stað. Við lesum: „Guð sagði: ‚Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni.‘ Og það varð svo.“ — 1. Mósebók 1:11.
Eins og rætt var í fyrri kafla („Hvað býr að baki snilldarverkinu?“), er ljóstillífun jurtunum lífsnauðsynleg. Græn jurtafruma hefur allmörg svonefnd grænukorn sem beisla sólarorkuna. „Þessar smásæju verksmiðjur,“ útskýrir bókin Planet Earth, „framleiða sykrur og mjölva . . . Enginn maður hefur hannað jafnskilvirka verksmiðju og grænukornið né nokkra sem framleiðir svo eftirsótta vöru.“
Afkoma dýranna, sem seinna komu fram, var algerlega háð starfsemi grænukornanna. Án grænu jurtanna yrði andrúmsloft jarðarinnar auk þess ofmettað koltvíildi og við myndum deyja úr hita og súrefnisskorti. Nokkrir sérfræðingar hafa sett fram undarlegar skýringar á því hvernig lífverur, sem háðar eru ljóstillífun, hafi orðið til. Þeir segja til dæmis að þegar bera tók á fæðuskorti hjá einfrumungum í vatninu hafi „fáeinir frumkvöðlar meðal frumanna að lokum fundið upp lausn á vandanum. Þeir duttu niður á ljóstillífun.“ En er einhver möguleiki á því? Ljóstillífun er svo flókin að vísindamenn eru enn að reyna að komast að leyndarmálum hennar. Er trúlegt að lífverur, sem tímgast og eru háðar ljóstillífun, hafi orðið til af sjálfu sér og á einhvern óútskýranlegan hátt? Eða er skynsamlegra að trúa að tilvist þeirra megi rekja til vitsmunaveru sem bjó þær til í ákveðnum tilgangi, eins og segir í 1. Mósebók?
Ekki er víst að nýjar plöntutegundir hafi hætt að koma fram þegar þriðja „sköpunardeginum“ lauk. Þær gætu jafnvel hafa haldið áfram að birtast fram á sjötta „daginn“ þegar skaparinn „plantaði aldingarð í Eden“ og „lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af.“ (1. Mósebók 2:8, 9) Andrúmsloft jarðar hlýtur líka að hafa verið orðið mun gegnsærra á fjórða „deginum,“ eins og þegar hefur komið fram, og meira ljós frá sólu og öðrum himinhnöttum því borist til jarðar.
Fimmti og sjötti „dagurinn“
Á fimmta „sköpunardeginum“ hóf skaparinn að fylla jörðina og andrúmsloftið eða himininn með „lifandi skepnum“ sem voru annars eðlis en jurtirnar. Það er athyglisvert að líffræðingar tala um plönturíkið og dýraríkið og skipta þeim síðan niður í undirdeildir. Hebreska orðið (nefes), sem hér er þýtt „skepna“ en „sál“ víða annars staðar í íslensku biblíunni, þýðir „einhver sem andar.“ Biblían segir líka að „lifandi skepnur (sálir)“ séu með blóð. Þar af leiðandi getum við dregið þá ályktun að skepnur með bæði öndunarfæri og blóðrásarkerfi — þeir íbúar hafs og himins sem anda — hafi byrjað að koma fram á sjónarsviðið á fimmta sköpunartímabilinu. — 1. Mósebók 1:20; 9:3, 4.
Á sjötta „deginum“ beindi Guð athyglinni meira að þurrlendinu. Hann skapaði „fénað“ (húsdýr) og „villidýr“ sem var skiljanleg flokkun og nafngift þegar Móse skráði þessa frásögn. (1. Mósebók 1:24) Það var því á þessu sjötta sköpunartímabili sem landspendýr komu fram. En hvað um manninn?
Forna frásagan segir okkur að skaparinn hafi að lokum búið til alveg einstaka lífveru á jörðinni. Hann sagði við himneskan son sinn: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:26) Maðurinn skyldi þar af leiðandi endurspegla andlega mynd skapara síns, búa yfir þeim eiginleikum sem skaparinn hefur. Maðurinn skyldi líka vera fær um að afla sér feikilega mikillar þekkingar og skara langt fram úr dýrunum í greind. Auk þess var maðurinn, ólíkt dýrunum, skapaður með hæfileikann til að fylgja sínum eigin frjálsa vilja í stað þess að láta einkum stjórnast af eðlisávísun.
Undanfarin ár hafa vísindamenn stundað umfangsmiklar rannsóknir á genum mannsins. Með samanburði á genamynstri manna um víða veröld hafa þeir fundið skýrar vísbendingar þess að allir menn eigi sama forföður, þar sé upphaf DNA allra manna á öllum tímum, okkar þar með talið. Árið 1988 kynnti tímaritið Newsweek þessar niðurstöður í grein sem hét „Leitin að Adam og Evu.“ Rannsóknirnar voru byggðar á vissri tegund hvatbera-DNA, erfðaefni sem gengur aðeins í kvenlegg. Skýrsla frá árinu 1995 um rannsóknir á DNA í körlum bendir til sömu niðurstöðu — að „til hafi verið forfaðir, einhver ‚Adam,‘ sem var með erfðaefni á [Y] litningunum sem núna er sameiginlegt öllum mönnum á jörðinni,“ eins og tímaritið Time orðaði það. Hvort sem þessar niðurstöður eru réttar í einu og öllu eða ekki, sýna þær að frásagan í 1. Mósebók er mjög trúverðug og að hinn eiginlegi höfundur hennar hefur verið viðstaddur þegar atburðirnir gerðust.
Sköpunin náði hámarki þegar skaparinn setti saman nokkur af frumefnum jarðarinnar og myndaði af þeim fyrsta jarðneska son sinn sem hann nefndi Adam. (Lúkas 3:38) Frásagan segir okkur að skapari þessa hnattar og lífsins á honum hafi sett manninn, sem hann myndaði, í „garð“ til þess „að yrkja hann og gæta hans.“ (1. Mósebók 2:15) Þegar þar var komið sögu kann skaparinn enn þá að hafa verið að búa til nýjar dýrategundir. Biblían segir: „Guð [var að mynda] af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og [hóf að láta] þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra.“ (1. Mósebók 2:19) Biblían gefur ekki á nokkurn hátt í skyn að fyrsti maðurinn, Adam, hafi einungis verið goðsögn. Hann var þvert á móti raunveruleg persóna, maður með huga og tilfinningar, sem gat haft ánægju af því að starfa í þessum paradísargarði. Hvern dag lærði hann meira um það sem skapari hans hafði búið til og um eiginleika skaparans og persónuleika.
Þá, eftir að ótilgreindur tími var liðinn, skapaði Guð fyrstu konuna til að hún yrði eiginkona Adams. Guð gerði auk þess líf þeirra enn innihaldsríkara með því að gefa þeim þýðingarmikið verkefni: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:27, 28) Ekkert getur breytt þessum yfirlýsta tilgangi skaparans, þeim að öll jörðin skuli gerð að paradís og byggð hamingjusömu fólki sem lifir í friði innbyrðis og við dýrin.
Efnislegi alheimurinn, þar með talin jörðin og lífið á henni, ber greinilega vitni um visku Guðs. Sú viska gerði honum augljóslega kleift að sjá fyrir þann möguleika að með tímanum kynnu einhverjir menn að kjósa að fara sínar eigin leiðir eða rísa upp gegn vilja Guðs þó að hann væri skapari þeirra og lífgjafi. Slík uppreisn gæti truflað framgang þess mikla verkefnis að gera jörðina að paradís. Frásagan segir að Guð hafi lagt einfalt próf fyrir Adam og Evu sem minnti þau á nauðsyn þess að sýna hlýðni. Guð sagði að óhlýðni leiddi til þess að þau fyrirgerðu lífinu sem hann hafði gefið þeim. Það var umhyggjusemi af hálfu skaparans að vara fyrstu foreldra okkar við rangri breytni sem hefði áhrif á hamingju alls mannkyns. — 1. Mósebók 2:16, 17.
Þegar sjötta „sköpunardeginum“ lauk hafði Guð gert allt sem nauðsynlegt var til að fyrirætlun hans næði fram að ganga. Hann gat með réttu lýst því yfir að allt sem hann hafði gert væri „harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Þegar hér er komið kynnir Biblían til sögunnar annað mikilvægt tímabil með því að segja að Guð „hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.“ (1. Mósebók 2:2) Hvers vegna skyldi skaparinn sagður hvíla sig þar sem „hann þreytist ekki, hann lýist ekki“? (Jesaja 40:28) Þetta orðalag í sköpunarsögunni gefur til kynna að hann hafi hætt að vinna við efnislega sköpun. Hann getur líka hvílst í þeirri fullvissu að ekkert, jafnvel ekki uppreisn á himni eða á jörðu, geti komið í veg fyrir að stórkostleg fyrirætlun hans verði að veruleika. Öruggur um verk sitt blessaði Guð því sjöunda „sköpunardaginn.“ Drottinhollar, skynsemigæddar sköpunarverur Guðs — menn og ósýnilegar andaverur — geta þess vegna verið vissar um að friður og hamingja ríki um allan alheim þegar sjöunda „sköpunardeginum“ lýkur.
Er sköpunarsaga Biblíunnar trúverðug?
En er í raun og veru hægt að leggja trúnað á þessa sköpunarsögu og þá framtíðarsýn sem hún veitir? Eins og fram hefur komið eru niðurstöður erfðafræðilegra rannsókna farnar að benda til þess sama og Biblían fullyrti fyrir löngu. Sumir vísindamenn hafa líka tekið eftir þeirri atburðaröð sem fram kemur í 1. Mósebók. Til dæmis sagði þekktur jarðfræðingur, Wallace Pratt: „Ef ég sem jarðfræðingur fengi það verkefni að greina óbreyttum hirðingjum, eins og ættbálkunum sem 1. Mósebók var skrifuð fyrir, í stuttu máli frá nútímahugmyndum um uppruna jarðar og tilurð lífs á henni, gæti ég tæplega gert betur en að halda mig í stórum dráttum við orðfæri fyrsta kaflans í 1. Mósebók.“ Hann getur þess einnig að röð atburðanna, eins og 1. Mósebók lýsir þeim, sé í meginatriðum samstíga þeim tímabilum sem jarðfræðingar skipta jarðsögunni í — höfin komu fyrst, síðan kom þurrlendið í ljós, þar næst kom lífið fram í hafinu og síðan fuglar og spendýr.
Við getum spurt okkur: Hvernig gat Móse fyrir þúsundum ára lýst þessum atburðum í réttri röð ef upplýsingar hans voru ekki komnar frá skaparanum og hönnuðinum sjálfum?
„Fyrir trú,“ segir Biblían, „skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.“ (Hebreabréfið 11:3) Margir eru ekkert á því að viðurkenna þá staðreynd, kjósa heldur að trúa á tilviljun eða eitthvert blint ferli sem á að hafa myndað alheiminn og lífið.d En eins og við höfum séð eru margar og margvíslegar ástæður til að trúa því að alheiminn og lífið á jörðinni, maðurinn þar með talin, megi rekja til greindrar frumorsakar, skapara, Guðs.
Biblían viðurkennir hreinskilnislega að „ekki er trúin allra.“ (2. Þessaloníkubréf 3:2) Trúaður maður þarf þó ekki að vera auðtrúa. Trú byggist á traustum grunni. Í næsta kafla tökum við til umfjöllunar fleiri gildar og sannfærandi ástæður fyrir því hvers vegna hægt er að setja traust sitt á Biblíuna og hinn mikla skapara sem er annt um okkur hvert og eitt.
[Neðanmáls]
a Orkan er jafnt og massinn margfaldaður með ljóshraðanum í öðru veldi.
b Hjá Hebreum hófst dagurinn að kvöldi og lauk við næsta sólarlag.
c Skaparinn gæti hafa beitt náttúruöflunum til að lyfta þessu vatni og halda því á lofti. Vatnið féll síðan til jarðar á dögum Nóa. (1. Mósebók 1:6-8; 2. Pétursbréf 2:5; 3:5, 6) Sá sögulegi atburður grópaðist í minni þess fólks sem lifði flóðið af og afkomenda þess, eins og mannfræðingar geta staðfest. Arfsagnir af flóðum, sem varðveist hafa hjá þjóðum um víða veröld, endurspegla þennan atburð.
d Nánari umfjöllun um tilurð lífsins á jörðinni má finna í bókinni Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 86]
Rykskífa, eins og þessi í vetrarbrautinni NGC 4261, er vísbending um öflug svarthol sem ekki er unnt að sjá. Biblían greinir frá tilvist voldugra sköpunarvera á öðru tilverusviði sem við fáum ekki séð.
[Mynd á blaðsíðu 89]
Tilraunir hafa staðfest þá vísindakenningu að breyta megi efni í orku og orku í efni.
[Mynd á blaðsíðu 94]
Sköpunarstarfið, sem átti sér stað fyrsta, annan og þriðja „sköpunardaginn,“ skapaði skilyrði fyrir feiknalega fjölbreytt jurtalíf.
[Mynd á blaðsíðu 99]
Með einföldu orðalagi en nákvæmu lýsir Biblían í hvaða röð lífið í ýmsum myndum kom fram á jörðinni.
[Mynd á blaðsíðu 101]
„Sem jarðfræðingur . . . gæti ég tæplega gert betur en að halda mig í stórum dráttum við orðfæri fyrsta kaflans í 1. Mósebók.“ — Wallace Pratt.