Abraham — fyrirmynd um trú
„[Abraham er] faðir allra þeirra, sem trúa.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 4:11.
1, 2. (a) Hvernig minnast sannkristnir menn Abrahams? (b) Af hverju er Abraham kallaður ‚faðir allra sem trúa‘?
HANN var forfaðir mikillar þjóðar, spámaður, kaupsýslumaður og leiðtogi. En kristnir menn minnast hans fyrst og fremst fyrir óhagganlega trú, en það var hennar vegna sem Jehóva Guð leit á hann sem vin. (Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23) Hann hét Abraham og Biblían kallar hann ‚föður allra þeirra sem trúa.‘ — Rómverjabréfið 4:11.
2 En voru ekki uppi trúmenn á undan Abraham eins og þeir Abel, Enok og Nói? Jú, en það var við Abraham sem Jehóva gerði sáttmálann um að blessa allar þjóðir jarðar. (1. Mósebók 22:18) Þar með varð hann táknrænn faðir allra sem áttu eftir að trúa á hið fyrirheitna sæði eða afkvæmi. (Galatabréfið 3:8, 9) Að vissu leyti má líta á Abraham sem föður okkar því að hann er fordæmi til eftirbreytni vegna trúar sinnar. Það má líta á líf hans í heild sem trúarfordæmi vegna þess að hann stóðst margs konar prófraunir. Og löngu áður en honum var fyrirskipað að fórna syninum Ísak, sem kalla má mestu trúarprófraun hans, sannaði hann trú sína í ýmsum minni prófraunum. (1. Mósebók 22:1, 2) Við skulum kynna okkur nokkur dæmi um það hvernig trú hans var reynd og sjá hvaða lærdóm má draga af þeim.
Sagt að yfirgefa Úr
3. Hvaða vitneskju veitir Biblían um uppruna Abrams?
3 Biblían minnist fyrst á Abraham (þá nefndur Abram) í 1. Mósebók 11:26 þar sem stendur: „Er Tara var sjötíu ára, gat hann Abram, Nahor og Haran.“ Abram var afkomandi hins guðhrædda Sems. (1. Mósebók 11:10-24) Að sögn 1. Mósebókar 11:31 bjó hann ásamt fjölskyldu sinni í borginni „Úr í Kaldeu.“ Þetta var auðug borg sem lá austan við Efrat á þeim tíma.a Hann ólst ekki upp sem hirðingi í tjöldum heldur í borg þar sem margs konar munaður var í boði. Hægt var að kaupa innfluttar vörur á verslunartorgum Úr, og hvítkölkuð, 14 herbergja hús með frárennslislögnum stóðu í röðum meðfram strætum.
4. (a) Hvernig reyndi lífið í Úr á þá sem tilbáðu hinn sanna Guð? (b) Hvernig fékk Abram trú á Jehóva?
4 Að frátöldum hinum efnislegu þægindum var lífið í Úr töluverð þraut fyrir hvern þann sem vildi þjóna hinum sanna Guði. Hjátrú og skurðgoðadýrkun var mikil í borginni og yfir hana gnæfði hár stallapíramídi sem reistur var til heiðurs tunglguðinum Nanna. Eflaust hefur verið þrýst á Abram að taka þátt í spillandi tilbeiðslu borgarbúa, og hugsanlegt er að ættingjar hans hafi átt þar hlut að máli. Í sumum arfsögnum Gyðinga er sagt að Tara, faðir hans, hafi verið skurðgoðasmiður. (Jósúabók 24:2, 14, 15) Hvernig sem því var háttað stundaði Abram ekki auvirðilega falsguðadýrkun. Forfaðir hans, Sem, var enn á lífi, aldraður mjög, og hefur eflaust miðlað honum af þekkingu sinni á Guði. Abram trúði því á Jehóva en ekki Nanna. — Galatabréfið 3:6.
Trúin reynd
5. Hvað sagði Guð við Abram meðan hann bjó í Úr og hverju lofaði hann honum?
5 En það átti eftir að reyna á trú Abrams. Guð birtist honum og sagði: „Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ — 1. Mósebók 12:1-3; Postulasagan 7:2, 3.
6. Hvers vegna þurfti Abram að sýna sanna trú til að yfirgefa Úr?
6 Abram var aldraður og barnlaus. Hvernig gat hann orðið að „mikilli þjóð“? Og hvar var þetta land sem hann átti að flytjast til? Guð sagði honum það ekki þá. Abram þurfti því að sýna mikla trú til að yfirgefa velmegun og þægindi borgarinnar Úr. Bókin Family, Love and the Bible segir um fornan tíma: „Þyngsta refsing, sem hægt var að leggja á ættingja fyrir alvarlegan glæp, var sú að vísa honum brott, að svipta hann ‚þegnrétti‘ í fjölskyldunni. . . . Þess vegna var það afar óvenjulegt dæmi um skilyrðislausa hlýðni og traust á Guði er Abraham hlýddi kalli hans og yfirgaf bæði ættland sitt og ættmenn.“
7. Hvernig gæti reynt á kristinn mann líkt og á Abram?
7 Áþekkar prófraunir geta orðið á vegi kristinna manna nú á tímum. Okkur finnst kannski á okkur þrýst að láta efnislega hagsmuni ganga fyrir þeim guðræðislegu. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Ef til vill reyna vantrúaðir ættingjar og skyldmenni, sem vikið hefur verið úr söfnuðinum, að tæla okkur út í óheilnæman félagsskap. (Matteus 10:34-36; 1. Korintubréf 5:11-13; 15:33) Abram er okkur því góð fyrirmynd. Hann tók vináttu Jehóva fram yfir allt annað — meira að segja fjölskylduböndin. Hann vissi ekki nákvæmlega hvernig, hvenær eða hvar fyrirheit Guðs myndu rætast. Samt var hann tilbúinn til að hafa þessi fyrirheit að leiðarljósi í lífinu. Hann er okkur sterk hvatning til að láta Guðsríki ganga fyrir. — Matteus 6:33.
8. Hvaða áhrif hafði trú Abrams á nánustu ættingja hans og hvað geta kristnir menn lært af því?
8 Hvað um nánustu ættingja Abrams? Líklegt er að trú hans og sannfæring hafi haft sterk áhrif á þá því að bæði Saraí eiginkona hans og Lot bróðursonur hans, sem hafði misst föður sinn, hlýddu kalli Guðs og yfirgáfu Úr. Nahor bróðir Abrams og sumir afkomendur hans fluttust einnig frá Úr, settust að í Harran og tilbáðu Jehóva þar. (1. Mósebók 24:1-4, 10, 31; 27:43; 29:4, 5) Tara, faðir Abrams, féllst jafnvel á að flytja búferlum með syni sínum. Þar sem hann var höfuð fjölskyldunnar eignar Biblían honum það að hafa flust áleiðis til Kanaanlands. (1. Mósebók 11:31) Gæti okkur líka orðið eitthvað ágengt ef við vitnuðum með háttvísi fyrir ættingjum okkar?
9. Hvernig undirbjó Abram ferðina og af hverju kann hún að hafa kostað ýmsar fórnir?
9 Abram hafði í mörg horn að líta áður en hann lagði upp í ferðalagið. Hann þurfti að selja fasteignir og lausamuni og kaupa tjöld, úlfalda, vistir og nauðsynlegan búnað. Vera má að hann hafi beðið fjárhagslegt tjón af því að þurfa að búast til ferðar í skyndingu, en hvað sem því leið var hann meira en fús til að hlýða Jehóva. Síðan rann dagurinn upp þegar undirbúningurinn var á enda og úlfaldalestin stóð ferðbúin fyrir utan borgarmúra Úr. Lestin fetaði sig í norðvesturátt meðfram Efrat. Eftir margra vikna 1000 kílómetra ferð kom lestin til borgarinnar Harran í norðvestanverðri Mesópótamíu sem var einn af helstu áningarstöðum á þessari leið.
10, 11. (a) Hver er líklega ástæðan fyrir því að Abram dvaldist um tíma í Harran? (b) Hvað er uppörvandi fyrir kristna menn sem annast aldraða foreldra?
10 Abram settist að í Harran, trúlega af tillitssemi við aldraðan föður sinn. (3. Mósebók 19:32) Margir kristnir menn þurfa líka að annast aldraða eða sjúka foreldra og sumir hafa þurft að hagræða málum sínum sérstaklega til þess. Þeir sem þurfa að gera það geta treyst að kærleiksríkar fórnir þeirra séu ‚þóknanlegar fyrir augliti Guðs.‘ — 1. Tímóteusarbréf 5:4.
11 Tíminn leið. „Dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.“ Abram hefur eflaust syrgt föður sinn, en þegar sorgartíminn var liðinn tók hann sig tafarlaust upp. „Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran. Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands.“ — 1. Mósebók 11:32; 12:4, 5.
12. Hvað gerði Abram meðan hann dvaldist í Harran?
12 Það er athyglisvert að Abram ‚eignaðist fjárhluti‘ meðan hann bjó í Harran. Þótt hann hafi þurft að fórna ýmsu til að flytjast frá Úr var hann auðugur maður er hann fór frá Harran. Ljóst er að það var blessun Guðs að þakka. (Prédikarinn 5:18) Þó svo að Guð hafi ekki lofað öllum þjónum sínum auðæfum stendur hann við loforð sitt um að sjá fyrir þeim sem ‚yfirgefa heimili, bræður eða systur‘ vegna Guðsríkis. (Markús 10:29, 30) Og Abram ‚eignaðist líka sálir,‘ það er að segja þjóna. Jerúsalem-targúminn og Kaldeíska endursögnin segja að Abram hafi ‚snúið öðrum til trúar.‘ (1. Mósebók 18:19) Fær trúin þig til að tala við nágranna, vinnufélaga eða skólafélaga? Abram settist ekki að í Harran og gleymdi boði Guðs heldur notaði vel þann tíma sem hann dvaldist þar. En nú var tímabært að leggja upp að nýju. ‚Abram lagði af stað, eins og Jehóva hafði sagt honum.‘ — 1. Mósebók 12:4.
Yfir Efrat
13. Hvenær fór Abram yfir Efrat og hvaða þýðingu hafði það?
13 Enn var Abram á faraldsfæti. Hann yfirgaf Harran og stefndi úlfaldalestinni um 90 kílómetra leið til vesturs. Vera má að hann hafi haft stutta viðdvöl við Efrat gegnt hinni fornu verslunarmiðstöð Karkemis en þar fóru úlfaldalestir gjarnan yfir um ána.b Biblían gefur til kynna að förin yfir Efrat hafi átt sér stað 430 árum áður en Gyðingar yfirgáfu Egyptaland hinn 14. nísan árið 1513 f.o.t. Önnur Mósebók 12:41 segir: „Að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir [Jehóva] út af Egyptalandi.“ Sennilega tók Abrahamssáttmálinn gildi hinn 14. nísan árið 1943 f.o.t. þegar Abram hlýddi Guði og hélt yfir um Efrat.
14. (a) Hvað gat Abram séð með augum trúarinnar? (b) Í hvaða skilningi er fólk Guðs nú á tímum miklu betur sett en Abram?
14 Abram hafði kvatt mikla velmegunarborg en nú gat hann séð fyrir sér ‚borg sem hefur traustan grunn,‘ það er að segja réttláta stjórn yfir mannkyninu. (Hebreabréfið 11:10) Þótt hann hefði mjög takmarkaða vitneskju skynjaði hann óljós drög að þeim ásetningi Guðs að endurleysa deyjandi mannkyn. Við búum yfir margfalt meiri skilningi á fyrirætlun Guðs en Abram hafði. (Orðskviðirnir 4:18) ‚Borgin‘ eða Guðsríki, sem Abram vonaðist eftir, er nú orðin að veruleika því að hún var stofnsett á himnum árið 1914. Ættum við þá ekki að sýna trú okkar og traust á Jehóva í verki?
Dvölin í fyrirheitna landinu hefst
15, 16. (a) Af hverju þurfti Abram hugrekki til að reisa Jehóva altari? (b) Hvernig geta kristnir menn verið djarfmannlegir líkt og Abram?
15 Fyrsta Mósebók 12:5, 6 upplýsir: „Þeir komu til Kanaanlands. Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar.“ Síkem lá um 50 kílómetrum norður af Jerúsalem í frjósömum dal sem kallaður hefur verið „paradís landsins helga.“ „En þá voru Kanaanítar í landinu.“ Þeir voru siðspilltir svo að Abram hefur gert ráðstafanir til að vernda fjölskylduna fyrir spillandi áhrifum þeirra. — 2. Mósebók 34:11-16.
16 ‚Þá birtist Jehóva Abram öðru sinni og sagði við hann: „Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.“‘ (1. Mósebók 12:7) Þetta var ákaflega spennandi! Það kostaði auðvitað trú af hálfu Abrams að fagna einhverju sem ókomnir afkomendur hans áttu að njóta en hann ekki. Engu að síður reisti hann „altari [Jehóva], sem hafði birst honum.“ (1. Mósebók 12:7) Biblíufræðingur telur að það „að reisa altari í landinu hafi verið formleg aðgerð til að eigna sér það á grundvelli réttar sem trúariðkun hans veitti.“ Það þurfti hugrekki til að reisa slíkt altari. Eflaust hefur það verið hlaðið úr óhöggnum steini, líkt og kveðið var á um í lögmálinu síðar meir. (2. Mósebók 20:24, 25) Það hefur þá verið gerólíkt þeim ölturum sem Kanaanítar gerðu sér. Þannig tók Abram djarfmannlega afstöðu sem tilbiðjandi hins sanna Guðs, Jehóva, og hætti á óvild landsmanna og ef til vill líkamsmeiðingar. Hvað um okkar daga? Eru sum okkar, einkum unga fólkið, smeyk við að láta nágranna eða skólafélaga vita að við tilbiðjum Jehóva? Hið hugrakka fordæmi Abrams ætti að hvetja okkur öll til að vera stolt af því að þjóna Jehóva!
17. Hvernig boðaði Abram nafn Guðs og á hvað minnir það okkur?
17 Tilbeiðslan á Jehóva var alltaf í fyrirrúmi hjá Abram, hvert sem hann fór. „Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar [Jehóva] altari og ákallaði nafn [Jehóva].“ (1. Mósebók 12:8) Að ‚ákalla nafn Jehóva‘ merkir einnig á hebresku „að boða (prédika) nafnið.“ Eflaust hefur Abram boðað nafn Jehóva djarfmannlega meðal Kanaanítanna umhverfis. (1. Mósebók 14:22-24) Þetta minnir okkur á þá skyldu að eiga sem mestan þátt í því að „játa nafn hans“ nú á tímum. — Hebreabréfið 13:15; Rómverjabréfið 10:10.
18. Hvernig samband átti Abram við íbúa Kanaanlands?
18 Abram dvaldist hvergi lengi á þessum stöðum. „Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins“ sem er gresjusvæði suður af Júdafjöllum. (1. Mósebók 12:9) Abram og heimamenn hans játuðu að þeir „væru gestir og útlendingar á jörðinni“ með því að vera á faraldsfæti og staðfesta, hvar sem þeir höfðu viðdvöl, að þeir tilbæðu Jehóva. (Hebreabréfið 11:13) Þeir gættu þess ávallt að eiga ekki of mikið samneyti við heiðna nágranna sína. Kristnir menn mega ekki heldur ‚vera af heiminum.‘ (Jóhannes 17:16) Við erum vingjarnleg og kurteis við nágranna okkar og vinnufélaga en gætum þess að leiðast ekki út í hegðun heimsins sem er fjarlægur Guði. — Efesusbréfið 2:2, 3.
19. (a) Hvers vegna hefur flökkulífið verið Abram og Saraí erfitt? (b) Hvaða prófraunir voru í aðsigi?
19 Gleymum ekki að flökkulífið hefur hvorki verið auðvelt fyrir Abram né Saraí. Þau lifðu á afurðum hjarðarinnar í stað matvæla af vel birgum verslunartorgum Úr, og þau bjuggu í tjöldum í stað þess að búa í vel byggðu húsi. (Hebreabréfið 11:9) Abram hafði í mörg horn að líta því að talsverður erill fylgdi gæslu hjarðarinnar og umsjón með þjónaliðinu. Saraí hefur eflaust unnið hefðbundin kvennastörf síns menningarheims, hnoðað deig, bakað brauð, spunnið ullarband og saumað föt. (1. Mósebók 18:6, 7; 2. Konungabók 23:7; Orðskviðirnir 31:19; Esekíel 13:18) En nýjar prófraunir voru í aðsigi og innan skamms var Abram og heimili hans stofnað í lífshættu. Yrði trú hans nógu sterk til að standast álagið?
[Neðanmáls]
a Nú á tímum rennur Efrat um 16 kílómetrum austan við rústir Úr, en forðum daga mun áin hafa runnið rétt vestan við borgina. Það var því hægt að segja að Abram hefði komið „handan yfir Fljótið [Efrat].“ — Jósúabók 24:3.
b Öldum síðar fór Assúrbanípal annar Assýríukonungur yfir Efrat á flekum í grennd við Karkemis. Biblían lætur ósagt hvort Abram þurfti að gera sér fleka til að komast yfir eða hvort úlfaldalestin fór yfir um á vaði.
Veittirðu athygli?
• Hvers vegna er Abram kallaður „faðir allra þeirra, sem trúa“?
• Hvers vegna þurfti Abram að hafa sterka trú til að yfirgefa Úr í Kaldeu?
• Hvernig sýndi Abram að hann lét tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öðru?
[Kort á blaðsíðu 20]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
FERÐ ABRAMS
Úr
Harran
Karkemis
KANAAN
Hafið mikla
[Credit line]
Byggt á korti í eigu Pictorial Archive (Near Eastern History) Est. og Survey of Israel.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Abram þurfti að hafa sterka trú til að yfirgefa þægindin sem lífið í Úr bauð upp á.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Með því að búa í tjöldum boðuðu Abram og heimamenn hans að þau „væru gestir og útlendingar á jörðinni.“