LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | SARA
„Þú ert kona fríð sýnum“
SARA stendur á miðju gólfinu og horfir í kringum sig. Sjáðu fyrir þér þessa konu frá Mið-Austurlöndum með dökk svipmikil augu. Vottar fyrir hryggð í augum hennar? Það væri skiljanlegt. Hún á sér langa sögu í þessu húsi. Hún hefur átt ótal ánægjulegar stundir hérna með Abraham, manninum sem hún elskar.a Þau hafa gert þetta hús að heimili sínu.
Abraham og Sara bjuggu í Úr sem var auðug borg með fjölda handverksmanna og kaupmanna. Þau voru því eflaust efnuð hjón. En heimilið var henni meira en bara efnisleg eign. Þau áttu sína sögu í þessu húsi. Hér höfðu þau deilt gleði og sorgum. Í þessu húsi höfðu þau beðið ótal sinnum til Jehóva Guðs sem þau elskuðu heitt. Hún hafði ótal ástæður til að þykja vænt um þennan stað.
Sara var samt sem áður fús til að flytja burt frá öllu sem hún þekkti. Hún var ef til vill um sextugt en átti eftir að ferðast til ókunnugra staða og búa við erfiðleika og hættur. Hún gat heldur ekki búist við að koma aftur heim. Hvað varð til þess að hún gerði svo gagngera breytingu á högum sínum? Og hvað getum við lært af trú hennar?
„FAR ÞÚ BURT ÚR LANDI ÞÍNU“
Sara ólst líklega upp í borginni Úr. Nú eru þar ekkert annað en rústir en á þeim tíma var hún blómleg borg. Skip kaupmanna sigldu þangað alls staðar að um farvegi Efratfljóts með verðmætan varning. Mikil mannmergð var á þröngum og hlykkjóttum götunum, skip stjökuðu hvert við öðru við bryggjurnar og vöruúrvalið var meira en nóg á mörkuðum. Sjáðu Söru fyrir þér í þessari borg sem iðar af lífi. Þarna óx hún úr grasi og þekkti eflaust marga borgarbúa með nafni. Og þeir könnuðust örugglega einnig við hana enda var hún einstaklega falleg kona. Sara átti líka stóra fjölskyldu í borginni.
Turn tileinkaður tunglguði, sem margir tilbáðu, gnæfði yfir borgina. Í Biblíunni er Sara að vísu þekkt fyrir sterka trú en hún trúði ekki á tunglguðinn heldur á Jehóva, hinn sanna Guð. Biblían greinir ekki frá því hvernig hún öðlaðist þá trú. Pabbi hennar var skurðgoðadýrkandi, að minnsta kosti um tíma. Sara giftist Abraham sem var tíu árum eldri en hún.b (1. Mósebók 17:17) Síðar varð hann þekktur sem „faðir allra þeirra sem trúa“. (Rómverjabréfið 4:11) Þau áttu sterkt hjónaband byggt á gagnkvæmri virðingu, góðum samskiptum og vilja beggja til að vinna saman úr erfiðum vandamálum. En framar öðru byggðist eining þeirra á kærleika til Guðs.
Söru þótti mjög vænt um eiginmann sinn og þau bjuggu sér heimili meðal ættingja sinna í borginni Úr. En áður en langt um leið urðu þau fyrir áfalli í hjónabandinu. Biblían skýrir frá því að Sara „var óbyrja. Hún átti ekki barn.“ (1. Mósebók 11:30) Á þessum tíma og í þessari menningu reyndi sérstaklega á fólk í slíkri stöðu. En Sara var bæði trúföst Guði og manni sínum. Ljóst er að Lot, föðurlaus bróðursonur þeirra, varð þeim sem sonur. Og lífið gekk sinn vanagang þar til dag einn þegar allt breyttist.
Abraham var mjög spenntur þegar hann kom til Söru. Hann trúði varla því sem hafði gerst. Guð þeirra hafði talað til hans og meira að segja birst honum – án efa fyrir milligöngu engils. Sjáðu Söru fyrir þér þar sem hún horfir spennt á mann sinn og spyr: „Hvað sagði hann við þig? Segðu mér frá!“ Kannski settist Abraham fyrst niður til að jafna sig aðeins og sagði henni síðan hvað Jehóva hefði sagt: „Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins sem ég mun vísa þér á.“ (Postulasagan 7:2, 3) Þegar þau höfðu komist yfir mesta spenninginn veltu þau fyrir sér verkefninu sem Jehóva hafði gefið þeim. Þau áttu að yfirgefa öryggið og þægindin og búa sem hirðingjar. Hvernig ætli Sara tæki þessu? Abraham hefur vafalaust fylgst vel með viðbrögðum hennar. Væri hún fús að styðja hann í að gera svona afdrifaríkar breytingar?
Við eigum kannski erfitt með að setja okkur í spor Söru. Þú hugsar ef til vill með þér: „Guð hefur aldrei beðið mig eða maka minn að gera neitt þessu líkt.“ En þurfum við samt ekki öll að taka svipaðar ákvarðanir og hún stóð frammi fyrir? Við búum í heimi þar sem efnishyggja er allsráðandi og ýtt er undir að við látum eigin þægindi, eigur eða öryggistilfinningu hafa forgang. Í Biblíunni erum við aftur á móti hvött til að láta andlegu málin ganga fyrir og þóknast Guði framar okkur sjálfum. (Matteus 6:33) Þegar við hugleiðum það sem Sara gerði gætum við spurt okkur: „Hvaða lífsstefnu ætla ég að taka?“
ÞAU FÓRU BURT ÚR LANDINU
Sara átti úr vöndu að ráða þegar hún pakkaði niður eigum sínum. Hún þurfti að ákveða hvað hún ætti að taka með og hvað hún ætti að skilja eftir. Hún gat ekki tekið neitt með sem úlfaldar og asnar gátu ekki borið eða var óhentugt fyrir líf hirðingja. Þau þurftu örugglega að selja eða gefa frá sér megnið af eigum sínum. Þau myndu líka yfirgefa þægindi borgarlífsins – markaðina þar sem hún gat keypt korn, kjöt, ávexti, fatnað og aðrar nauðsynjar og munaðarvörur.
Hugsanlega var þó enn erfiðara fyrir Söru að yfirgefa heimili sitt. Hún þurfti að sjá á eftir miklum þægindum ef húsið var eitthvað í líkingu við mörg hús sem fornleifafræðingar hafa grafið upp í borginni Úr. Í sumum þessara húsa voru meira en tíu herbergi auk vatnsbrunna og frárennslislagna. Vel má vera að jafnvel fábrotið hús hafi verið með traustu þaki og veggjum og hurð sem hægt var að læsa. Gat tjald veitt svipaða vörn gegn þjófum? Eða gegn ljónum, hlébörðum, björnum og úlfum? Þetta voru algengar ógnir í biblíulöndunum á þessum tíma.
Hvað með fjölskyldu Söru? Hverja myndi Sara þurfa að kveðja? Guð sagði: „Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu.“ Það gæti hafa reynst henni sérstaklega erfitt. Þessi hlýlega og elskulega kona kann að hafa átt systkini og frændfólk sem henni þótti mög vænt um og sem hún myndi líklega aldrei sjá aftur. Samt sem áður hélt Sara ótrauð áfram, dag eftir dag, að undirbúa för þeirra.
Sara var búin að pakka öllu og tilbúin að leggja af stað á tilsettum degi þó að það hafi verið erfitt. Tera var ættfaðirinn og átti að fara með Abraham og Söru þó að hann væri orðinn um 200 ára gamall. (1. Mósebók 11:31) Sara myndi eflaust hafa í nógu að snúast við að annast aldrað foreldri. Lot fór líka með þeim þegar þau hlýddu Jehóva og fóru „burt úr Kaldealandi“. – Postulasagan 7:4.
Hópurinn fór fyrst um 960 kílómetra í norðaustur meðfram Efratfljóti til Harran. Þar settist fjölskyldan að um tíma. Tera var kannski orðinn lasburða og gat ekki haldið ferðinni áfram. Fjölskyldan var um kyrrt í Harran þangað til hann lést, 205 ára gamall. Áður en þau héldu ferðinni áfram talaði Jehóva aftur við Abraham og endurtók við hann að fara burt úr landinu og til þess lands sem hann myndi sýna honum. Í þetta sinn gaf hann honum að auki spennandi loforð: „Ég mun gera þig að mikilli þjóð.“ (1. Mósebók 12:2-4) En þegar þau fóru frá Harran var Abraham 75 ára og Sara 65 og þau voru barnlaus. Hvernig gat heil þjóð komið af Abraham? Myndi hann taka sér aðra konu? Sara getur hafa velt því fyrir sér vegna þess að fjölkvæni var algengt á þessum tíma.
Hvað sem því líður héldu þau leið sinni áfram frá Harran. Og þau voru ekki ein í för. Frásagan segir að fjölskylda Abrahams hafi tekið með sér þau auðæfi og „það vinnufólk er þau höfðu aflað sér í Harran“. (1. Mósebók 12:5) Án efa boðuðu Abraham og Sara trú sína fólki sem vildi hlusta. Enda segir í sumum endursögnum Gyðinga að vinnufólkið sem talað er um í þessu versi hafi verið trúskiptingar sem höfðu farið að tilbiðja Jehóva með Abraham og Söru. Ef svo er talaði Sara örugglega af mikilli sannfæringu þegar hún sagði öðrum frá Guði og voninni sem hún bar í brjósti. Það er gott fyrir okkur að hugleiða það vegna þess að nú á dögum skortir fólk sárlega trú og von. Getur þú sagt öðrum frá því góða sem þú lærir úr Biblíunni?
„SUÐUR TIL EGYPTALANDS“
Eftir að þau fóru yfir Efrat, sennilega 14. nísan 1943 f.Kr., fóru þau suður til landsins sem Jehóva hafði lofað þeim. (2. Mósebók 12:40, 41) Sjáðu Söru fyrir þér þar sem hún horfir yfir landið og heillast af fegurð þess, fjölbreytileika og notalegu loftslagi. Nálægt Móreeikinni við Síkem birtist Jehóva Abraham aftur. Í þetta sinn sagði hann: „Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.“ Orðið ,niðji‘ hlýtur að hafa haft mjög djúp áhrif á Abraham. Það hefur örugglega minnt hann á loforð Jehóva í Edengarðinum um að leiða fram niðja sem myndi gera út af við Satan. Jehóva var áður búinn að segja Abraham að þjóðin, sem kæmi af honum, ætti eftir að opna leið til blessunar fyrir fólk af öllum þjóðum. – 1. Mósebók 3:15; 12:2, 3, 6, 7.
Fjölskyldan var þó ekki undanþegin erfiðleikum þessa heims. Hungursneyð varð í Kanaanslandi og Abraham ákvað að fara suður til Egyptalands með fjölskyldu sína. En þar skynjaði hann ákveðna hættu og sagði því við Söru: „Ég veit hversu fögur þú ert. Þegar Egyptar sjá þig munu þeir segja: ,Hún er kona hans,‘ og þeir munu drepa mig en láta þig halda lífi. Segðu því að þú sért systir mín til þess að mér farnist vel þín vegna og ég megi halda lífi sakir þín.“ (1. Mósebók 12:10-13) Hvers vegna bað Abraham Söru svona óvenjulegrar bónar?
Abraham var hvorki huglaus né lyginn eins og sumir gagnrýnendur hafa haldið fram. Sara var í raun hálfsystir hans. Og varfærni Abrahams átti rétt á sér. Abraham og Sara voru sannfærð um að ekkert væri mikilvægara en að áform Guðs næðu fram að ganga um að leiða fram sérstakan niðja og þjóð af Abraham. Þess vegna var öryggi Abrahams mikilvægast í þeirra augum. Þar að auki hefur fornleifafræðin sýnt fram á að valdamiklir menn í Egyptalandi rændu stundum giftum konum og drápu eiginmennina. Ákvörðun Abrahams var því skynsamleg og Sara var hógvær og studdi hann.
Áður en langt um leið kom í ljós að ótti Abrahams var á rökum reistur. Höfðingjar faraós tóku eftir að Sara var gullfalleg – óvenjufögur miðað við aldur. Þeir létu faraó vita af henni og hann fyrirskipaði að hún skyldi sótt. Við getum rétt ímyndað okkur angist Abrahams eða óttann sem hlýtur að hafa þjakað Söru. Það virðist þó ekki hafa verið komið fram við hana eins og gísl heldur eins og virtan gest. Ef til vill hugðist faraó biðla til hennar, heilla hana með auði sínum og síðan semja við „bróður“ hennar um að fá hana fyrir konu. – 1. Mósebók 12:14-16.
Sjáðu Söru fyrir þér þar sem hún stendur við glugga í höllinni eða á svölunum og horfir yfir landslagið í Egyptalandi. Hvernig fannst henni að búa aftur í húsi, með þak yfir höfuðið og fá fínasta mat? Freistaði lúxuslífið hennar? Trúlega var það ríkmannlegra en nokkuð sem hún hafði kynnst þegar hún bjó í Úr. Þú getur rétt ímyndað þér hvað það hefði glatt Satan ef Sara hefði sóst eftir að yfirgefa Abraham og orðið kona faraós. En hún gerði ekkert slíkt. Hún var trú eiginmanni sínum, hjónabandinu og Guði. Það væri óskandi að allir giftir einstaklingar, í siðlausum heimi nútímans, væru jafn tryggir. Getur þú líkt eftir tryggð og trúfesti Söru í samskiptum við fjölskyldu þína og vini?
Jehóva skarst í leikinn til að vernda þessa ástsælu konu með því að senda plágur yfir faraó og hús hans. Faraó komst einhvern veginn að því að Sara var eiginkona Abrahams. Þá sendi hann hana til baka og skipaði Abraham að fara burt úr Egyptalandi með fjölskyldu sína. (1. Mósebók 12:17-20) Abraham var himinlifandi að fá konuna sem hann elskaði til baka. Mundu að hann hafði sagt ástúðlega við hana: „Ég veit að þú ert kona fríð sýnum.“ (1. Mósebók 12:11, Biblían 1981) En hann kunni enn betur að meta annars konar fegurð hjá Söru – fegurð sem náði dýpra en ytra útlit. Sara bjó yfir innri fegurð sem Jehóva Guð metur mikils. (1. Pétursbréf 3:1-5) Við getum öll ræktað slíka fegurð með okkur. Við líkjum eftir trú Söru ef við látum andleg mál ganga fyrir efnislegum hlutum, reynum að segja öðrum frá því sem við lærum um Guð og höldum okkur við siðferðiskröfur hans þegar okkar er freistað.
a Þau hétu upphaflega Abram og Saraí en eru betur þekkt undir nöfnunum sem Jehóva gaf þeim síðar. – 1. Mósebók 17:5, 15.
b Sara var hálfsystir Abrahams. Tera var faðir þeirra en þau voru ekki sammæðra. (1. Mósebók 20:12) Slík hjónabönd eru að vísu óviðeigandi í dag en hafa ber í huga hve ólíkar aðstæðurnar voru í þá daga. Mannkynið var nær því að vera fullkomið eins og Adam og Eva voru í byrjun. Það skapaði greinilega ekki neinn erfðagalla fyrir svona hraust fólk, nálægt fullkomleikanum, að giftast nánum ættingja. En um það bil 400 árum síðar var æviskeið manna orðið svipað og það er nú á dögum. Þá voru Móselögin komin en þau bönnuðu hvers konar kynferðissamband milli náinna ættingja. – 3. Mósebók 18:6.