„Far þú um landið“
„Far þú um landið þvert og endilangt.“ — 1. MÓSEBÓK 13:17.
1. Hvaða athyglisverðu fyrirmæli gaf Jehóva Abraham?
FINNST þér gaman að ferðast um landið? Sumir fara í helgarferð á bíl. Aðrir kjósa heldur að hjóla til að fá æfingu og geta virt landið betur fyrir sér. Enn aðrir fara fótgangandi til að komast í nánari snertingu við náttúruna. Þess konar skemmtiferðir vara yfirleitt stutt. En hugsaðu þér hvernig Abraham hefur liðið þegar Guð sagði við hann: „Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það.“ — 1. Mósebók 13:17.
2. Hvert fór Abraham eftir að hann yfirgaf Egyptaland?
2 Athugum samhengið. Abraham hafði haft viðdvöl í Egyptalandi ásamt konu sinni og öðrum. Í 13. kafla 1. Mósebókar er okkur sagt að þau hafi yfirgefið Egyptaland og flutt hjarðir sínar til „Suðurlandsins“. Því næst flutti hann sig „smátt og smátt sunnan að allt til Betel“. Þegar kom til árekstra milli fjárhirða hans og fjárhirða Lots, frænda hans, varð ljóst að þeir yrðu að finna hvor sitt beitilandið. Abraham sýndi það örlæti að leyfa Lot að velja fyrst. Lot valdi „Jórdansléttlendið“, gróskumikinn dal sem var „eins og aldingarður Drottins“ og þegar fram liðu stundir fluttist hann til Sódómu. Guð sagði við Abraham: „Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.“ Abraham gat líklega séð aðra landshluta frá fjalllendinu við Betel. En meira var í vændum. Guð sagði honum að ,fara um landið‘ og kynnast náttúru þess og hinum ýmsu svæðum.
3. Hvers vegna getur verið erfitt að sjá fyrir sér ferðalög Abrahams?
3 Hvernig sem ferðum Abrahams um fyrirheitna landið var háttað áður en hann kom til Hebron er ljóst að hann var mun kunnugri því en flest okkar. Hugsaðu um staðina sem nefndir eru í þessari frásögn — Suðurlandið, Betel, Jórdansléttlendið, Sódómu og Hebron. Áttu erfitt með að sjá fyrir þér hvar þessir staðir voru? Mörgum þjónum Jehóva reynist það erfitt vegna þess að fáir þeirra hafa heimsótt staðina sem þeir lesa um í Biblíunni og farið um landið þvert og endilangt. En við höfum samt ástæðu til að vera áhugasöm um þá staði sem nefndir eru í Biblíunni. Hvers vegna?
4, 5. (a) Hvernig tengjast Orðskviðirnir 18:15 þekkingu og skilningi á biblíulöndunum? (b) Um hvað er 2. kafli Sefanía lýsandi dæmi?
4 Orð Guðs segir: „Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“ (Orðskviðirnir 18:15) Hægt er að afla sér þekkingar á mörgu en nákvæm þekking á Jehóva Guði og starfsháttum hans er það sem skiptir höfuðmáli. Og þessa þekkingu fáum við aðallega frá Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:16) En skilningur er líka nauðsynlegur. Hann er hæfileikinn til að skyggnast undir yfirborðið, að sjá tengslin milli einstakra hluta og heildarinnar. Þetta á við um staði sem nefndir eru í Biblíunni. Flest okkar vita til dæmis hvar Egyptaland er en skiljum við hvað fólst í ferðalagi Abrahams frá Egyptalandi „til Suðurlandsins“, seinna til Betel og síðan til Hebron? Veistu hvar þessir staðir eru?
5 Þú hefur kannski lesið 2. kafla Sefanía í biblíulestri þínum. Þar lastu nöfn á borgum, þjóðum og löndum. Í þessum eina kafla eru nöfn eins og Gasa, Askalon, Asdód, Ekron, Sódóma og Níníve ásamt Kanaan, Móab, Ammón og Assýríu. Þar bjó fólk sem tengdist uppfyllingu á spádómum Guðs. Hvernig gekk þér að sjá staðina fyrir þér?
6. Hvers vegna kunna sumir kristnir menn að meta kort? (Sjá rammagrein.)
6 Margir biblíunemendur hafa haft ómælt gagn af því að skoða kort af biblíulöndunum. Það er ekki aðeins áhugi á kortum sem veldur heldur gera þeir sér grein fyrir að kort geta aukið við þekkingu þeirra á orði Guðs. Kort geta einnig bætt skilning þeirra. Þeir sjá hvernig fyrri vitneskja tengist öðrum upplýsingum. Þú munt áreiðanlega líka verða þakklátari Jehóva og fá enn betri skilning á frásögum í orði hans þegar þú skoðar dæmin sem á eftir fara. — Sjá rammagrein á bls. 14.
Vegalengdir skipta máli
7, 8. (a) Hvaða þrekvirki vann Samson? (b) Hvað sýnir að þetta var mikið afrek? (c) Hvernig getur þekking og skilningur á þessari frásögu hjálpað okkur?
7 Í Dómarabókinni 16:2 getum við lesið um það þegar Samson dómari var í Gasa. Nafnið Gasa kemur oft fyrir í fréttum þannig að þú getur ef til vill gert þér nokkra hugmynd um hvar Samson var, á svæði í Filisteu nálægt strönd Miðjarðarhafs. [11] Taktu eftir hvað segir í Dómarabókinni 16:3: „Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron.“
8 Hurðir og dyrastafir í víggirtri borg eins og Gasa hafa án efa verið stór og þung. Hugsaðu þér að reyna að bera þessa þungu hluti. Það gerði Samson. En hvert fór hann með þá og hvers konar ferðalag var það? Gasa er við ströndina rétt yfir sjávarmáli. [15] Hebron er hins vegar til austurs í 900 metra hæð. Það er talsvert á fótinn. Ekki er hægt að vita með vissu nákvæma staðsetningu ,fjallsins sem er gegnt Hebron‘, en borgin er um 60 kílómetra frá Gasa og það upp í móti. Þegar við þekkjum fjarlægðirnar sem um ræðir sjáum við afrek Samsonar í nýju ljósi. Og mundu hvers vegna Samson gat unnið slík afrek — ,andi Drottins kom yfir hann‘. (Dómarabókin 14:6, 19; 15:14) Kristnir menn nú á dögum búast ekki við að fá ofurmannlegan vöðvastyrk. En sami máttugi andinn getur aukið skilning okkar á djúpstæðum andlegum málum og gert okkur styrk hið innra. (1. Korintubréf 2:10-16; 13:8; Efesusbréfið 3:16; Kólossubréfið 1:9, 10) Já, þegar við skiljum frásöguna af Samson verðum við enn sannfærðari um að andi Guðs geti hjálpað okkur.
9, 10. (a) Hvað fólst í sigri Gídeons á Midíanítum? (b) Hvernig getur landafræðiþekking gert þessa frásögu enn lærdómsríkari?
9 Í frásögunni af sigri Gídeons á Midíanítum koma vegalengdir aftur til skjalanna. Flestir biblíulesendur vita að 300 manna lið Gídeons dómara sigraði 135.000 manna her. Þetta var sameinaður her Midíaníta, Amalekíta og annarra sem voru með búðir sínar á Jesreelsléttunni nærri Mórehæð. [18] Menn Gídeons blésu í lúðra, brutu krúsir utan af kyndlum og kölluðu: „Sverð Drottins og Gídeons!“ Þetta olli ringulreið og ótta meðal óvinanna þannig að þeir réðust hver á annan. (Dómarabókin 6:33; 7:1-22) Var þetta allt og sumt, ein stutt hernaðaraðgerð í skjóli nætur? Lestu áfram í 7. og 8. kafla Dómarabókarinnar. Þar sérðu að Gídeon rak flóttann. Þar eru nefnd mörg staðarnöfn en ekki er hægt að tengja þau öll við þekkta staði þannig að sum þeirra koma ekki fram á biblíukortum. En nógu margir eru þekktir til að við getum rakið ferðir Gídeons.
10 Gídeon elti þá sem eftir voru af óvinahernum. Þeir fóru fram hjá Bet Sitta og síðan suður á bóginn til Abel Mehóla, nálægt Jórdanánni. (Dómarabókin 7:22-25) Frásagan segir: „Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna, er með honum voru, en þeir voru þreyttir orðnir að reka flóttann.“ Þegar Ísraelsmennirnir höfðu farið yfir ána eltu þeir óvinina suður til Súkkót og Penúel, nálægt Jabbok, og síðan upp til Jogbeha (nálægt nútímaborginni Amman í Jórdaníu). Þeir fóru um 80 kílómetra veg og börðust á leiðinni. Gídeon hertók og vó tvo midíanska konunga. Síðan sneri hann heim til Ofra, borgar sinnar, nálægt þeim stað þar sem bardaginn hófst. (Dómarabókin 8:4-12, 21-27) Það er augljóst af þessu að þrekvirki Gídeons var meira en að blása í lúðra í nokkrar mínútur, veifa kyndlum og hrópa. Og hugsaðu þér hvernig það eykur gildi þess sem er sagt um trúmenn fortíðar: „Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon [og öðrum sem] urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir [og] gjörðust öflugir í stríði.“ (Hebreabréfið 11:32-34) Kristnir menn verða ef til vill líkamlega þreyttir en er ekki mikilvægt að halda áfram að gera vilja Guðs? — 2. Korintubréf 4:1, 16; Galatabréfið 6:9.
Ólík viðbrögð og hugsunarháttur
11. Lýstu för Ísraelsmanna til Kades og ferðum þeirra eftir það.
11 Sumir nota kannski biblíukort til að finna staði en heldurðu að kort geti gefið okkur hugmynd um hugsunarhátt fólks? Tökum sem dæmi Ísraelsmennina sem fóru frá Sínaífjalli og í átt til fyrirheitna landsins. Eftir að hafa haft viðkomu á nokkrum stöðum á leiðinni komu þeir loks til Kades (eða Kades Barnea). [9] Í 5. Mósebók 1:2 er talað um að þetta séu 11 dagleiðir, um 270 kílómetrar. Þaðan sendi Móse 12 njósnara inn í fyrirheitna landið. (4. Mósebók 10:12, 33; 11:34, 35; 12:16; 13:1-3, 25, 26) Njósnararnir fóru til norðurs um Suðurlandið, líklega fram hjá Beerseba og síðan Hebron og fóru allt að norðurmörkum fyrirheitna landsins. (4. Mósebók 13:21-24) Þar sem Ísraelsmenn tóku mark á neikvæðri umsögn tíu af njósnurunum þurftu þeir að reika um í eyðimörkinni í 40 ár. (4. Mósebók 14:1-34) Hvað leiðir þetta í ljós um trú þeirra og traust á Jehóva? — 5. Mósebók 1:19-33; Sálmur 78:22, 32-43; Júdasarbréfið 5.
12. Hvað getum við ályktað um trú Ísraelsmanna og hvers vegna er það umhugsunarvert fyrir okkur?
12 Skoðaðu málið út frá landfræðilegu sjónarmiði. Hefðu Ísraelsmenn átt langa leið fyrir höndum til fyrirheitna landsins ef þeir hefðu sýnt trú og fylgt Jósúa og Kaleb að ráðum? Kades var um 16 kílómetra frá Beer-lahaj-róí þar sem Ísak og Rebekka höfðu dvalist. [7] Þaðan var um 95 kílómetra leið til Beerseba, sem var kölluð suðurmörk fyrirheitna landsins. (1. Mósebók 24:62; 25:11; 2. Samúelsbók 3:10) Eftir að hafa farið frá Egyptalandi til Sínaífjalls og síðan 270 kílómetra til Kades voru þeir nánast komnir til fyrirheitna landsins. Við erum nánast komin inn í hina fyrirheitnu jarðnesku paradís. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari frásögn? Páll postuli tengdi aðstæður Ísraelsmanna við eftirfarandi ráð: „Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.“ — Hebreabréfið 3:16–4:11.
13, 14. (a) Við hvaða aðstæður tóku Gíbeonítar til sinna ráða? (b) Hvað er til vitnis um viðhorf Gíbeonítanna og hvaða lærdóm ættum við að draga af því?
13 Gíbeonítarnir sýndu annað hugarfar. Augljóst er af frásögn Biblíunnar að þeir treystu því að Guð myndi framkvæma fyrirætlanir sínar. Þegar Jósúa hafði leitt Ísraelsmenn yfir Jórdanána inn í landið, sem Guð hafði lofað að gefa fjölskyldu Abrahams, var kominn tími til að reka Kanaaníta burt. (5. Mósebók 7:1-3) Þar á meðal voru Gíbeonítar. Ísraelsmenn unnu sigur á Jeríkó og Aí og tjaldbúðir þeirra voru í nánd við Gilgal. Gíbeonítarnir vildu ekki deyja sem fordæmdir Kanaanítar þannig að þeir sendu menn til Jósúa þar sem hann var við Gilgal. Þeir þóttust vera komnir langt að svo að þeir gætu gert friðarsamkomulag við Hebreana.
14 Sendimennirnir sögðu: „Vér þjónar þínir erum komnir frá mjög fjarlægu landi fyrir sakir nafns Drottins Guðs þíns.“ (Jósúabók 9:3-9) Föt þeirra og matur báru þess vitni að þeir væru komnir langt að en í raun var Gíbeon í um 30 kílómetra fjarlægð frá Gilgal. [19] Jósúa og höfðingjar hans létu sannfærast og gerðu friðarsáttmála við Gíbeon og nálægar borgir sem tengdust henni. Gíbeonítar gripu ekki aðeins til þessa bragðs til að komast hjá aftöku heldur endurspeglaði það löngun þeirra til að hafa velþóknun Guðs Ísraels. Jehóva lagði blessun sína yfir að Gíbeonítar væru gerðir að „viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari Drottins“. Þeir sáu fyrir eldiviði á fórnaraltarið. (Jósúabók 9:11-27) Gíbeonítarnir voru fúsir til að vinna lítilmótleg verkefni í þjónustu Jehóva. Líklega voru þeir á meðal musterisþjónanna sem sneru heim frá Babýlon og þjónuðu í endurbyggðu musterinu. (Esrabók 2:1, 2, 43-54; 8:20) Við getum líkt eftir hugarfari þeirra með því að leitast við að hafa frið við Guð og vera fús til að vinna jafnvel lítilmótleg störf í þjónustunni við hann.
Að leggja lykkju á leið sína
15. Hvers vegna er landafræði áhugaverð í tengslum við kristnu Grísku ritningarnar?
15 Staðhættir í biblíulöndunum koma mjög við sögu í kristnu Grísku ritningunum eins og í frásögum af ferðalögum og þjónustu Jesú og Páls postula. (Markús 1:38; 7:24, 31; 10:1; Lúkas 8:1; 13:22; 2. Korintubréf 11:25, 26) Reyndu að sjá fyrir þér ferðalögin í eftirfarandi frásögum.
16. Hvernig sýndu kristnir menn í Beroju að þeir kunnu að meta Pál?
16 Í annarri trúboðsferð sinni (fjólublá lína á korti) kom Páll við í Filippí þar sem nú er Grikkland. [33] Þar prédikaði hann, var fangelsaður og síðan losaður úr haldi og fór þá til Þessaloníku. (Postulasagan 16:6–17:1) Þegar Gyðingar æstu til uppþota hvöttu bræðurnir í Þessaloníku Pál til að fara til Beroju, sem er um 65 kílómetra leið. Boðunarstarfið gekk vel í Beroju en Gyðingar komu og æstu lýðinn. „Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar“ og „leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu“. (Postulasagan 17:5-15) Ljóst er að sumir sem nýlega höfðu tekið trú voru fúsir til að ganga 40 kílómetra til Eyjahafs, borga skipsferð og sigla um 500 kílómetra leið. Þess konar ferð gat verið hættuleg en bræðurnir létu það ekki aftra sér og gátu þar með verið lengur með þessum fulltrúa Guðs.
17. Hvað skiljum við betur þegar við þekkjum vegalengdina milli Míletus og Efesus?
17 Í þriðju ferð sinni (græn lína á korti) kom Páll við í höfninni í Míletus. Hann sendi eftir öldungunum í söfnuðinum í Efesus sem var um 50 kílómetra í burtu. Öldungarnir fóru að hitta Pál þó svo að þeir hefðu ýmsum öðrum verkefnum að sinna. Á leiðinni hafa þeir líklega talað eftirvæntingarfullir um fundinn sem var í vændum. Eftir að þeir höfðu hitt Pál og heyrt hann biðja ,tóku allir að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann‘. „Síðan fylgdu þeir honum til skips“ sem fór til Jerúsalem. (Postulasagan 20:14-38) Þeir hafa haft um mikið að hugsa og tala á leiðinni aftur til Efesus. Finnst þér ekki aðdáunarvert þakklætið sem þeir sýndu með því að ganga þessa vegalengd til að vera með farandþjóni sem gat frætt þá og hvatt? Tekurðu eftir einhverju sem þú getur tekið til þín?
Kynnstu landinu og því sem fram undan er
18. Hvað getum við verið staðráðin í að gera varðandi staði sem Biblían nefnir?
18 Dæmin hér á undan sýna fram á gildi þess að kynnast landinu sem Guð gaf Ísraelsmönnum en það er veigamikill þáttur í mörgum frásögum Biblíunnar. (Við getum líka víkkað sjóndeildarhringinn með því að læra um nágrannalönd sem nefnd eru í biblíufrásögum.) Þegar við aukum við þekkingu okkar og skilning á fyrirheitna landinu getum við haft í huga grundvallarforsendu fyrir því að Ísraelsmenn fengju að ganga inn í landið sem ,flaut í mjólk og hunangi‘ og búa í því. Þeir áttu að óttast Jehóva og halda fyrirmæli hans. — 5. Mósebók 6:1, 2; 27:3.
19. Hvaða tvær paradísir verðskulda óskipta athygli okkar?
19 Við þurfum sömuleiðis að leggja okkar af mörkum, óttast Jehóva og halda okkur við vegi hans. Þannig eflum við og fegrum andlegu paradísina innan kristna safnaðarins um heim allan. Þekking okkar eykst til mikilla muna á andlegu paradísinni og þeim blessunum sem henni fylgja. Og við vitum að meira er í vændum. Jósúa leiddi Ísraelsmenn yfir Jórdanána inn í gróðursælt og fallegt land. Við höfum fulla ástæðu til að horfa með trúartrausti fram til jarðnesku paradísarinnar, landsins góða sem er rétt fram undan.
Manstu?
• Hvers vegna ætti okkur að langa til að auka við þekkingu okkar og skilning á biblíulöndunum?
• Hvaða landfræðilegu upplýsingar hafa þér fundist sérstaklega athyglisverðar í þessari grein?
• Hvað lærðirðu sérstaklega af því að kynna þér staðhætti þar sem ákveðnir atburðir gerðust?
[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 14]
„Sjáðu landið góða“
Á umdæmismótum árið 2003 og 2004 voru vottar Jehóva þeirrar gleði aðnjótandi að fá bæklinginn „See the Good Land“ („Sjáðu landið góða“). Þetta nýja rit, sem er til á um 80 tungumálum, er uppfullt af kortum í litum sem sýna hin ýmsu svæði biblíulandanna, einkum fyrirheitna landið á mismunandi tímaskeiðum.
Í meðfylgjandi námsgrein er vísað til einstakra korta með feitletruðu blaðsíðunúmeri eins og [15]. Ef þú átt þennan bækling skaltu verja svolitlum tíma í að kynna þér uppsetningu hans. Það getur hjálpað þér að auka við þekkingu þína og skilning á orði Guðs.
(1) Við mörg kortanna er rammi þar sem gefnar eru skýringar á ýmsum táknum og merkingum á kortinu [18]. (2) Á flestum kortunum er mælikvarði í mílum og kílómetrum sem auðveldar þér að skilja stærðir og vegalengdir [26]. (3) Yfirleitt bendir ör í norður svo að þú getir fundið út áttirnar [19]. (4) Á mörgum kortum eru notaðir litir til að gefa hugmynd um hæð yfir sjávarmáli [12]. (5) Á jöðrunum eru yfirleitt bókstafir/tölur til að þú getir séð fyrir þér rúðunet. Þannig geturðu staðsett borgir og nöfn [23]. (6) Í nafnaskránni [34-5] eru blaðsíðunúmerin feitletruð og oft er gefin upp staðsetning á kortinu eins og til dæmis E2. Þegar þú hefur notað bæklinginn nokkrum sinnum áttarðu þig örugglega á að hann getur hjálpað þér að auka við þekkingu þína og dýpka skilning þinn á Biblíunni.
[Kort á blaðsíðu 16, 17]
HELSTU LANDSVÆÐI
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
A. Strönd hafsins mikla
B. Sléttlendi vestur af Jórdan
1. Assersléttan
2. Dórströnd
3. Haglendi Sarons
4. Filisteusléttan
5. Austur-vestur-dalur
a. Meggiddóvellir
b. Jesreelslétta
C. Hæðir vestur af Jórdan
1. Galíleuhæðir
2. Karmelhæðir
3. Samaríufjöll
4. Láglendið
5. Júdahæðir
6. Júdaeyðimörk
7. Suðurlandið
8. Paraneyðimörk
D. Sléttlendið (Sigdalur)
1. Húladalur
2. Galíleuvatn og svæðið umhverfis
3. Jórdandalur
4. Saltisjór (Dauðahafið)
5. Sléttlendið suður af Saltasjó
E. Fjöll og hásléttur austur af Jórdan
1. Basan
2. Gíleað
3. Ammón og Móab
4. Edómháslétta
F. Líbanonsfjöll
[Kort]
Hermonfjall
Mórehæð
Abel Mehóla
Súkkót
Jogbeha
Betel
Gilgal
Gíbeon
Jerúsalem
Hebron
Gasa
Beerseba
Sódóma?
Kades
[Kort/mynd á blaðsíðu 15]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
KANAAN
Megiddó
GÍLEAÐ
Dótan
Síkem
Betel (Lúz)
Aí
Jerúsalem (Salem)
Betlehem (Efrata)
Mamre
Hebron (Makpela)
Gerar
Beerseba
Sódóma?
SUÐURLANDIÐ
Rehóbót?
[Fjöll]
Móríafjall
[Vatn]
Saltisjór
[Ár]
Jórdan
[Mynd]
Abraham ferðaðist um landið.
[Kort á blaðsíðu 18]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Tróas
SAMÓÞRAKE
Neapólis
Filippí
Amfípólis
Þessaloníka
Beroja
Aþena
Korinta
Efesus
Míletus
RÓDUS