Tímar og tíðir í hendi Jehóva
„Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ — POSTULASAGAN 1:7.
1. Hvernig svaraði Jesús spurningum postula sinna um tímasetningar?
ER NOKKUÐ eðlilegra en að þeir sem „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru“ í kristna heiminum og út um alla jörðina, velti fyrir sér hvenær þetta illa heimskerfi líði undir lok og víki fyrir réttlátum, nýjum heimi Guðs? (Esekíel 9:4; 2. Pétursbréf 3:13) Postular Jesú spurðu hann um tímasetningar rétt áður en hann dó og einnig eftir upprisu hans. (Matteus 24:3; Postulasagan 1:6) En í svari sínu gaf Jesús þeim ekki upplýsingar til að reikna út tímasetningar. Í öðru tilvikinu lýsti hann fyrir þeim samsettu tákni og í hinu sagði hann að það ‚væri ekki þeirra að vita tíma eða tíðir sem faðirinn hefði sett af sjálfs sín valdi.‘ — Postulasagan 1:7.
2. Af hverju má segja að Jesús hafi ekki alltaf vitað hvenær vissir atburðir áttu að gerast á endalokatímanum samkvæmt tímasetningum föður síns?
2 Þótt Jesús sé eingetinn sonur Jehóva hefur hann ekki alltaf þekkt stundaskrá föður síns. Í spádómi sínum um síðustu daga viðurkenndi Jesús auðmjúklega: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:36) Jesús var fús til að bíða þolinmóður eftir að faðir hans opinberaði honum nákvæmlega hvenær eyðing þessa illa heimskerfis hæfist.a
3. Hvað getum við lært af svari Jesú við spurningum um tilgang Guðs?
3 Tvennt má ráða af svari Jesú við þeim spurningum hvenær atburðir myndu uppfylla tilgang Guðs. Í fyrsta lagi að Jehóva hefur stundaskrá og í öðru lagi að hann einn ákveður hana og þjónar hans geta ekki búist við að þeir fái nákvæmar upplýsingar fyrirfram um tíma hans eða tíðir.
Tímar og tíðir Jehóva
4. Hvað merkja grísku orðin sem þýdd eru ‚tímar‘ og „tíðir“ í Postulasögunni 1:7?
4 Hvað er átt við með ‚tímum‘ og ‚tíðum‘? Orð Jesú í Postulasögunni 1:7 fela í sér tvennt varðandi tímann. Gríska orðið, sem þýtt er ‚tímar,‘ merkir „tími í merkingunni tímalengd.“ „Tíðir“ er þýðing orðs sem á við ákveðna eða tiltekna stund, visst tímaskeið sem einkennist af einhverju ákveðnu. Fræðimaðurinn W. E. Vine segir um þessi tvö grísku orð: „Í Postulasögunni 1:7 ‚setti faðirinn af sjálfs sín valdi‘ bæði tímana (khronos), lengd tímabilanna, og tíðirnar (kaíros), tímaskeiðin sem einkennast af ákveðnum atburðum.“
5. Hvenær upplýsti Jehóva Nóa um þá ætlun sína að eyða hinum spillta heimi og hvaða tvíþætt verkefni fékk Nói?
5 Fyrir flóðið setti Guð spilltum heimi, sem menn og holdgaðir uppreisnarenglar höfðu skapað, 120 ára tímatakmark. (1. Mósebók 6:1-3) Hinn guðhræddi Nói var þá 480 ára. (1. Mósebók 7:6) Hann var barnlaus og var það áfram í 20 ár. (1. Mósebók 5:32) Löngu síðar, eftir að synir Nóa voru orðnir fulltíða og kvæntir, upplýsti Guð hann um þá ætlun sína að afmá illskuna af jörðinni. (1. Mósebók 6:9-13, 18) Þótt Nóa væri falið það tvíþætta verkefni að smíða örkina og prédika fyrir samtíðarmönnum sínum opinberaði Jehóva honum ekki tímaáætlun sína. — 1. Mósebók 6:14; 2. Pétursbréf 2:5.
6. (a) Hvernig sýndi Nói að hann lét Jehóva um tímasetningar? (b) Hvernig getum við fylgt fordæmi Nóa?
6 Um áratuga skeið — kannski í hálfa öld — ‚gjörði Nói allt eins og Guð bauð honum.‘ Hann gerði það „fyrir trú“ þótt hann vissi ekki nákvæma tímasetningu. (1. Mósebók 6:22; Hebreabréfið 11:7) Jehóva gaf honum ekki upp nákvæman tíma fyrr en viku áður en flóðið átti að hefjast. (1. Mósebók 7:1-5) Nói trúði og treysti Jehóva skilyrðislaust og gat því látið hann um tímasetningar. Og hann hlýtur að hafa verið innilega þakklátur þegar hann fann fyrir vernd Jehóva í flóðinu og gekk síðar úr örkinni út á hreinsaða jörð. Ættum við ekki að iðka sams konar trú á Guð fyrst við höfum sams konar frelsunarvon?
7, 8. (a) Hvernig urðu þjóðir og heimsveldi til? (b) Á hvaða hátt ákvað Jehóva ‚setta tíma og mörk bólstaða manna‘?
7 Eftir flóðið sneru flestir afkomenda Nóa baki við sannri tilbeiðslu á Jehóva. Þeir vildu halda hópinn og tóku að byggja borg og turn til falskrar tilbeiðslu. Jehóva ákvað að nú væri kominn tími til að taka í taumana. Hann ruglaði tungumál þeirra og „tvístraði þeim [frá Babel] um alla jörðina.“ (1. Mósebók 11:4, 8, 9) Síðar urðu tungumálahóparnir að þjóðum og sumar þeirra innlimuðu aðrar þjóðir og urðu svæðisbundin stórveldi eða jafnvel heimsveldi. — 1. Mósebók 10:32.
8 Tilgangur Guðs krafðist þess stundum að hann ákvæði landamæri þjóða og tímann þegar viss þjóð átti að ríkja yfir takmörkuðu svæði eða verða heimsveldi. (1. Mósebók 15:13, 14, 18-21; 2. Mósebók 23:31; 5. Mósebók 2:17-22; Daníel 8:5-7, 20, 21) Páll postuli talaði um þennan þátt tíma og tíða Jehóva þegar hann sagði grískum menntamönnum í Aþenu: „Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, . . . skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra.“ — Postulasagan 17:24, 26.
9. Hvernig ‚breytti Jehóva tímum og tíðum‘ gagnvart konungum?
9 Þetta merkir ekki að Jehóva hafi stýrt öllum pólitískum landvinningum og umróti meðal þjóðanna. En hann getur skorist í leikinn hvenær sem hann vill til að ná fram tilgangi sínum. Spámaðurinn Daníel, sem varð síðar vitni að falli babýlonska heimsveldisins og uppgangi Medíu-Persíu, sagði því um Jehóva: „Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda, hann gefur spekingunum speki og hinum hyggnu hyggindi.“ — Daníel 2:21; Jesaja 44:24–45:7.
„Tók að nálgast sá tími“
10, 11. (a) Með hve löngum fyrirvara ákvað Jehóva tímann þegar afkomendur Abrahams yrðu leystir úr ánauð? (b) Hvað bendir til að Ísraelsmenn hafi ekki vitað nákvæmlega hvenær þeir hlytu frelsi?
10 Með meira en fjögurra alda fyrirvara tiltók Jehóva nákvæmlega hvaða ár hann myndi auðmýkja konung egypska heimsveldisins og frelsa afkomendur Abrahams úr þrælkun. Hann opinberaði Abraham ætlun sína og lofaði: „Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár. En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut.“ (1. Mósebók 15:13, 14) Í ágripi sínu af sögu Ísraels frammi fyrir æðstaráðinu minntist Stefán á þetta 400 ára tímabil og sagði: „Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi. ‚Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.‘“ — Postulasagan 7:6, 17, 18.
11 Þessi nýi Faraó hneppti Ísraelsmenn í þrælkun. Fyrsta Mósebók var enn ekki skrifuð en líklegt er að loforð Jehóva við Abraham hafi gengið mann fram af manni annaðhvort munnlega eða skriflega. Þær upplýsingar, sem Ísraelsmenn höfðu, virðast þó ekki hafa nægt þeim til að reikna nákvæmlega út hvaða dag þeir yrðu frelsaðir úr þrælkun. Guð vissi hvenær hann ætlaði að frelsa þá en hinir þjáðu Ísraelsmenn vissu það greinilega ekki. Við lesum: „Löngum tíma eftir þetta dó Egyptalandskonungur. En Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs. Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Og Guð leit til Ísraelsmanna og kenndist við þá.“ — 2. Mósebók 2:23-25.
12. Hvernig benti Stefán á að Móse hafi reynt að vera á undan tilsettum tíma Jehóva?
12 Þessa óvissu um frelsunartíma Ísraels má einnig ráða af ágripi Stefáns. Hann sagði um Móse: „Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna. Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann. Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki.“ (Postulasagan 7:23-25) Móse var 40 árum á undan tímaáætlun Guðs. Stefán benti á að Móse hafi þurft að bíða í 40 ár áður en Guð ‚notaði hann til að bjarga þeim.‘ — Postulasagan 7:30-36.
13. Hvernig erum við í líkri aðstöðu og Ísraelsmenn áður en þeir voru frelsaðir frá Egyptalandi?
13 Enda þótt ‚nálgaðist sá tími er rætast skyldi fyrirheitið‘ og Guð hefði fastsett árið nákvæmlega urðu Móse og Ísraelsmenn að iðka trú. Þeir urðu að bíða eftir tilsettum tíma Jehóva og virðast ekki hafa getað reiknað hann út fyrirfram. Við erum líka sannfærð um að frelsun okkar úr núverandi illu heimskerfi sé nálæg. Við vitum að við lifum á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Ættum við þá ekki að vera fús til að sýna trú okkar og bíða eftir að hinn mikli dagur Jehóva renni upp á tilsettum tíma hans? (2. Pétursbréf 3:11-13) Þá getum við sungið Jehóva lofsöng fyrir frelsunina líkt og Móse og Ísraelsmenn gerðu. — 2. Mósebók 15:1-19.
‚Þegar tíminn kom‘
14, 15. Hvernig vitum við að Guð hafði ákveðið komutíma sonar síns til jarðar og með hverju fylgdust spámenn og jafnvel englar?
14 Jehóva hafði ákveðið hvenær eingetinn sonur hans ætti að koma til jarðar sem Messías. Páll skrifaði: „Þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli.“ (Galatabréfið 4:4) Þetta var uppfylling fyrirheits Guðs um að senda sæði — ‚þann sem valdið hefði og þjóðirnar myndu ganga á hönd.‘ — 1. Mósebók 3:15; 49:10.
15 Spámenn Guðs — og jafnvel englar — fylgdust gaumgæfilega með ‚tímanum‘ þegar Messías átti að koma fram á jörðinni og syndugu mannkyni að opnast leið til hjálpræðis. „Þessa frelsun könnuðu spámennirnir,“ segir Pétur, „og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast. Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir. . . . Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.“ — 1. Pétursbréf 1:1-5, 10-12.
16, 17. (a) Hvaða spádómur varð þess valdandi að Gyðingar á fyrstu öld væntu Messíasar? (b) Hvaða áhrif hafði spádómur Daníels á Messíasarvæntingar Gyðinga?
16 Jehóva hafði látið spámanninn Daníel — mann sem hafði óhagganlega trú — flytja spádóm um „sjötíu sjöundir.“ Þessi spádómur átti að hjálpa Gyðingum á fyrstu öld að finna út hvenær hinn fyrirheitni Messías væri í nánd. Spádómurinn segir að hluta til: „Frá þeim tíma, að sú skipun út geingur, að Jerúsalemsborg skuli uppreist og byggð verða og allt til þess smurða, til höfðíngjans, eru sjö sjöundir, og tvær og 60 sjöundir.“ (Daníel 9:24, 25, Biblían 1859) Fræðimenn Gyðinga, kaþólskra og mótmælenda eru almennt á einu máli um að þessar „sjöundir“ séu sjöundir ára. ‚Sjöundirnar‘ 69 (483 ár) í Daníel 9:25 hófust árið 455 f.o.t. þegar Artaxerxes Persakonungur heimilaði Nehemía að endurreisa Jerúsalem. (Nehemíabók 2:1-8) Þeim lauk 483 árum síðar, árið 29 þegar Jesús var skírður og smurður með heilögum anda og varð Messías eða Kristur. — Matteus 3:13-17.
17 Óvíst er hvort Gyðingar á fyrstu öld vissu nákvæmlega hvenær 483 ára tímabilið hófst. En þegar Jóhannes skírari hóf þjónustu sína „var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.“ (Lúkas 3:15) Sumir biblíufræðingar tengja þessa eftirvæntingu við spádóm Daníels. Matthew Henry segir í athugasemdum um þetta vers: „Okkur er sagt hér . . . hvernig þjónusta og skírn Jóhannesar var fólkinu tilefni til að hugsa um Messías og hugsa um að hann væri í þann mund að birtast. . . . Hinar sjötíu sjöundir Daníels voru nærri á enda.“ Franska fræðibókin Manuel Biblique eftir Vigouroux, Bacuez og Brassac segir: „Fólk vissi að hinar sjötíu sjöundir ára, sem Daníel tiltók, voru senn á enda; engum kom á óvart að Jóhannes skírari skyldi boða að Guðsríki væri í nánd.“ Gyðinglegi fræðimaðurinn Abba Hillel Silver skrifaði að samkvæmt „vinsælu tímatali“ samtíðarinnar hafi ‚Messíasar verið vænst á öðrum fjórðungi fyrstu aldar okkar tímatals.‘
Atburðir — ekki tímatalsreikningur
18. Hvað sýndi best fram á að Jesús væri Messías, þótt spádómur Daníels hafi bent Gyðingum á hvenær Messías ætti að koma?
18 Enda þótt tímatalið virðist hafa hjálpað Gyðingum að gera sér nokkra hugmynd um hvenær Messías ætti að koma fram sýndu síðari atburðir að það dugði skammt til að sannfæra flesta þeirra um að Jesús væri Messías. Tæplega ári fyrir dauða sinn spurði Jesús lærisveinana: „‚Hvern segir fólkið mig vera?‘ Þeir svöruðu: ‚Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp.‘“ (Lúkas 9:18, 19) Þess er hvergi getið að Jesús hafi nokkurn tíma vitnað í spádóminn um sjöundirnar til að sanna að hann væri Messías. En einu sinni sagði hann: „Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.“ (Jóhannes 5:36) Í stað opinberaðs tímatals var það prédikun Jesú, kraftaverk og atburðir tengdir dauða hans (myrkrið, jarðskjálftinn og fortjald musterisins sem rifnaði) sem bar vitni um að hann væri sá Messías sem Guð hefði sent. — Matteus 27:45, 51, 54; Jóhannes 7:31; Postulasagan 2:22.
19. (a) Hvernig gátu kristnir menn vitað að eyðing Jerúsalem væri í nánd? (b) Af hverju þurftu frumkristnir menn, sem flúðu Jerúsalem, eftir sem áður að sýna mikla trú?
19 Eins var það eftir dauða Jesú að frumkristnum mönnum voru ekki gefnar neinar upplýsingar til að reikna út hvenær gyðingakerfið liði undir lok. Spádómur Daníels um sjöundirnar nefndi að vísu eyðingu gyðingakerfisins. (Daníel 9:26b, 27b) En hún átti að eiga sér stað eftir að hinar „sjötíu sjöundir“ væru liðnar. (455 f.o.t.–36 e.o.t.). Með öðrum orðum var komið fram yfir tímatalsviðmiðanir 9. kafla Daníelsbókar þegar fyrstu heiðingjarnir tóku að fylgja Jesú árið 36. Það voru atburðir, ekki tímatal, sem kristnir menn höfðu til viðmiðunar um hvenær Gyðingakerfið hlyti að líða undir lok. Þessir atburðir, sem Jesús sagði fyrir, stefndu að hámarki frá árinu 66 þegar rómverskar hersveitir settust um Jerúsalem en hurfu svo af vettvangi. Þar með fengu trúfastir og vökulir kristnir menn í Jerúsalem og Júdeu tækifæri til að ‚flýja til fjalla.‘ (Lúkas 21:20-22) Þessir frumkristnu menn höfðu ekkert tímatal til viðmiðunar og vissu ekki hvenær Jerúsalem yrði eytt. Það þurfti sterka trú til að yfirgefa heimili, bújarðir og vinnustofur og forðast Jerúsalem í ein fjögur ár áður en rómverski herinn kom á ný árið 70 og gerði út af við gyðingakerfið. — Lúkas 19:41-44.
20. (a) Hvernig getum við haft gagn af fordæmi Nóa, Móse og kristinna manna í Júdeu á fyrstu öld? (b) Hvað er rætt í greininni á eftir?
20 Líkt og Nói, Móse og kristnir menn í Júdeu á fyrstu öld getum við óhikað látið Jehóva um tíma og tíðir. Sú sannfæring okkar að við lifum á endalokatímanum og að frelsun okkar sé í nánd er ekki eingöngu háð tímareikningi heldur einnig ljóslifandi atburðum sem uppfylla spár Biblíunnar. Og þótt við lifum á nærverutíma Krists þurfum við engu að síður að iðka trú og halda vöku okkar. Við verðum að halda áfram að bíða eftirvæntingarfull eftir þeim spennandi atburðum sem boðaðir eru í Ritningunni. Það er efni greinarinnar á eftir.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. ágúst 1996, bls. 30-1.
Til upprifjunar
◻ Hvað sagði Jesús postulum sínum um tíma og tíðir Jehóva?
◻ Með hve löngum fyrirvara vissi Nói hvenær flóðið ætti að byrja?
◻ Hvað bendir til að Móse og Ísraelsmenn hafi ekki vitað nákvæmlega hvenær þeir yrðu frelsaðir frá Egyptalandi?
◻ Hvernig getum við haft gagn af fordæmi manna á biblíutímanum í sambandi við tíma og tíðir Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Vegna trúar sinnar gat Nói látið Jehóva um tímasetningar.