Spurningar frá lesendum
Hve alvarlega ber kristnum manni að líta á trúlofun?
Trúlofun er í senn ánægjuleg og alvarleg. Enginn þroskaður kristinn maður má ímynda sér að trúlofun sé léttvægt mál og að hann megi slíta henni ef sá gállinn er á honum. Og það er gott að nota trúlofunartímann til að kynnast tilvonandi maka sínum vel.
Þegar um þetta efni er fjallað er gott að gera sér grein fyrir því að siðir varðandi samdrátt og hjónaband hafa verið æði breytilegir frá einum tíma til annars og einu þjóðfélagi til annars. Þetta kemur vel fram í Biblíunni.
Hinar tvær dætur Lots voru með einhverjum hætti trúlofaðar tveim heimamönnum en ‚höfðu ekki karlmanns kennt.‘ ‚Tengdasynir Lots ætluðu að ganga að eiga dætur hans‘ en Biblían lætur ósagt hvers vegna og hvernig trúlofunin kom til. Voru dæturnar gjafvaxta? Réðu þær mannsefni sínu sjálfar? Fólst trúlofunin í einhverri opinberri athöfn? Það er ekki vitað. (1. Mósebók 19:8-14) Við vitum að Jakob gerði sjálfur samkomulag við föður Rakelar um að kvænast henni eftir að hafa unnið fyrir hann í sjö ár. Þó að Jakob talaði um Rakel sem ‚konu sína‘ hafði hann ekki kynmök við hana á þessum árum. (1. Mósebók 29:18-21) Sem annað dæmi má nefna að Davíð þurfti að vinna sigur á Filistum áður en hann fékk Míkalar, dóttur Sáls. Þegar kröfu Sáls var fullnægt fékk Davíð hana fyrir konu. (1. Samúelsbók 18:20-28) Þessar „trúlofanir“ voru hver annarri ólíkar og stinga einnig í stúf við algenga siði víða um lönd nú á tímum.
Í Móselögunum voru ákvæði bæði um hjónaband og trúlofun. Til dæmis gat maður átt fleiri en eina konu og skilið við konu af ýmsum ástæðum, en konan virðist ekki hafa haft þennan rétt. (1. Mósebók 22:16, 17; 5. Mósebók 24:1-4) Ef maður spjallaði ólofaða stúlku varð hann að kvænast henni ef faðir hennar samþykkti það og mátti aldrei skilja við hana. (5. Mósebók 22:28, 29) Í lögmálinu voru ýmis önnur ákvæði um hjónaband, til dæmis um það hvenær hjónin áttu að forðast kynmök. (3. Mósebók 12:2, 5; 15:24; 18:19) En hvaða ákvæði giltu um trúlofun?
Réttarstaða trúlofaðrar Ísraelskonu var önnur en ólofaðrar konu og var að sumu leyti litið á hana eins og hún væri gift. (5. Mósebók 22:23-29; Matteus 1:18, 19) Ísraelsmenn máttu ekki trúlofast eða giftast vissum ættingjum. Að öllu jöfnu voru þetta náin skyldmenni en stundum voru trúlofanir og hjónabönd bönnuð sökum erfðaréttinda. (3. Mósebók 18:6-20; sjá Varðturninn, enska útgáfu, 15. mars 1978, bls. 25-8) Ljóst er að þjónar Guðs máttu ekki líta á trúlofun sem léttvægt mál.
Ísraelsmenn þurftu að hlíta öllum þessum ákvæðum lögmálsins. Kristnir menn eru hins vegar ekki undir lögmálinu og gildir það einnig um ákvæði þess varðandi trúlofun og hjónaband. (Rómverjabréfið 7:4, 6; Efesusbréfið 2:15; Hebreabréfið 8:6, 13) Jesús kenndi reyndar að það giltu aðrar reglur um hjónabönd kristinna manna en gilt höfðu undir lögmálinu. (Matteus 19:3-9) Hann gerði þó ekki lítið úr alvöru hjónabands eða trúlofunar. Hvað má þá segja um spurninguna sem borin var fram í upphafi, það er að segja trúlofanir meðal kristinna manna?
Víða um lönd velja menn sér maka sjálfir. Karl og kona eru álitin trúlofuð þegar þau hafa gefið hvort öðru heit um að giftast. Yfirleitt er trúlofun ekki flóknari en það. Víða er algengt að maðurinn gefi tilvonandi eiginkonu sinni hring til tákns um trúlofun þeirra. Sums staðar er það siður að tilkynna ættingjum og vinum trúlofunina, til dæmis í fjölskylduboði eða fámennum hópi. En þetta er valfrjálst því að Biblían gerir ekki kröfu um neitt slíkt. Trúlofunin er fólgin í samkomulagi hjónaefnanna.a
Kristinn maður ætti ekki að flana að tilhugalífi, trúlofun og hjónabandi. Við gefum út biblíurit sem geta auðveldað einhleypu fólki að ákveða hvenær það sé viturlegt að leita sér að maka og búa sig undir trúlofun eða hjónaband.b Eitt meginatriði þessara ráðlegginga er það að kristið hjónaband er varanlegt. — 1. Mósebók 2:24; Markús 10:6-9.
Karl og kona ættu að kynnast vel áður en þau fara að hugsa um trúlofun. Þau gætu spurt sig: ‚Er ég búinn að fullvissa mig um að hlutaðeigandi sé andlega staðfastur og guðrækinn? Get ég séð sjálfa(n) mig fyrir mér þjóna Guði ásamt honum (henni) alla ævi? Erum við búin að kynnast persónueinkennum hvort annars nægilega vel? Er ég viss um að við eigum vel saman? Vitum við nóg um fyrri breytni og núverandi aðstæður hvort annars?‘
Þegar kristinn karl og kona eru trúlofuð er rétt af þeim og öðrum að búast við að hjónaband fylgi í kjölfarið. Jesús hvatti til þess að ‚já sé já og nei sé nei.‘ (Matteus 5:37) Kristnum karli og konu ætti að vera alvara þegar þau trúlofast. En í sjaldgæfu tilfelli gæti eitthvað alvarlegt komið í ljós í fari annars hvors sem ekki var nefnt fyrir trúlofun eða var jafnvel leynt. Þetta gæti verið eitthvað úr fortíðinni, jafnvel afbrot eða siðleysi. Ef eitthvað slíkt kemur í ljós þarf hitt að hugsa sinn gang. Kannski ræða hjónaefnin málið í þaula og kemur saman um að halda trúlofuninni áfram. Eins gæti svo farið að þau ákveði í sameiningu að slíta henni. Það er vissulega alvarleg ákvörðun en engu að síður einkamál þeirra svo að aðrir ættu ekki að skipta sér af því, dæma um það eða véfengja réttmæti þess. En svo gæti einnig farið að sá sem kemst á snoðir um eitthvað alvarlegt í fari eða fortíð hins finni sig knúinn til að slíta trúlofuninni, þó svo að hinn vilji halda henni áfram. — Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júní 1975.
Það er full ástæða til að leysa úr slíkum málum áður en stofnað er til hjónabands. Jesús sagði að kristinn maður hefði aðeins eina biblíulega ástæðu fyrir því að skilja til að mega giftast á ný og það væri gróft kynferðislegt siðleysi af hálfu hins, nefnt porneiʹa á grísku. (Matteus 5:32; 19:9) Hann sagði ekki að það væri hægt að slíta löglega frágengnu hjónabandi ef í ljós kæmi alvarlegt vandamál eða syndir frá því fyrir hjónabandið.
Tökum dæmi. Á dögum Jesú var alltaf einhver hætta á holdsveikismiti. Hafði eiginmaður meðal Gyðinga skilnaðarástæðu ef hann komst að raun um að eiginkonan var (vitandi eða óafvitandi) holdsveik þegar hún giftist honum? Meðan lögmálið var í gildi gat Gyðingur skilið á þeim forsendum en Jesús sagði ekki að fylgjendur sínir mættu gera það. Lítum á nokkur nútímadæmi. Maður þegir yfir því við tilvonandi maka sinn að hann sé smitaður af sýfílis, kynfæraáblæstri, HIV eða öðrum alvarlegum smitsjúkdómi og þau giftast. Hann smitaðist kannski við siðlaus kynmök fyrir eða eftir trúlofun. Þó svo að konan uppgötvi um síðir að hann er smitaður eða hafi gerst sekur um siðleysi áður en þau giftust (og sé jafnvel ófrjór eða getulaus) breytir það ekki því að þau eru gift. Ógeðfellt líferni fyrir hjónaband er ekki biblíuleg forsenda fyrir skilnaði. Hann hefði ekki heldur forsendu fyrir skilnaði þótt hún hefði smitast af einhverjum sjúkdómi fyrir hjónaband eða dyldi hann því að hún væri þunguð af völdum annars manns þegar þau giftust. Þau eru gift og hafa skuldbundist hvort öðru.
Það er auðvitað sjaldgæft að svona lagað gerist, en þessi dæmi undirstrika mikilvægt meginatriði: Trúlofun er alvörumál. Kristnar manneskjur í giftingarhugleiðingum ættu að leggja sig fram um að kynnast vel, bæði fyrir trúlofun og meðan á henni stendur. Þau ættu að segja tilvonandi maka sínum heiðarlega frá því sem hann vill fá að vita eða á rétt á að vita. (Í sumum löndum er krafist læknisskoðunar fyrir hjónaband, og sumir fara í læknisskoðun af sjálfsdáðum þótt þess sé ekki krafist lögum samkvæmt.) Trúlofunin þjónar þá heiðvirðum tilgangi og er undanfari þeirrar gleði og alvöru sem fylgir hjónabandi. — Orðskviðirnir 5:18, 19; Efesusbréfið 5:33.
[Neðanmáls]
a Í sumum þjóðfélögum tíðkast enn að foreldrar velji maka handa börnunum. Þetta er stundum gert löngu áður en börnin hafa aldur til að giftast. Þangað til eru þau álitin heitbundin en ekki gift.
b Sjá bækurnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 28.-32. kafla og The Secret of Family Happiness, 2. kafla, gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.