Brúðkaup sem er milljónum núlifandi manna til gagns
„[Jehóva] Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. . . . Gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins, og brúður hans hefur búið sig.“ — OPINBERUNARBÓKIN 19:6, 7.
1. Hvenær verður byrjað að syngja spádómssönginn í Opinberunarbókinni 19:6-8 og hvers vegna?
ÞESSI hrífandi orð eru tekin úr spádómlegum sigursöng. Hvenær verður byrjað að syngja hann? Eftir eyðingu hins aldagamla óvinar tilbeiðslunnar á Jehóva — ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ hinnar táknrænu ‚miklu skækju‘ sem táknar falstrúarbrögð í öllum sínum myndum. Fullnægja þarf dómi á henni vegna þess hversu ranga mynd hún hefur dregið upp af Guði og vegna þess að hún hefur leitt mannkynið á villigötur með íhlutun sinni í stjórnmál, efnishyggju og græðgi og hatri á sönnum tilbiðjendum Jehóva sem brotist hefur fram í morðfýsn! — Opinberunarbókin 17:1-6; 18:23, 24; 19:1, 2; Jakobsbréfið 4:4.
2. (a) Hvernig mun Jehóva gera Babýlon hina miklu að engu? (b) Hvað munu eyðendur falstrúarbragðanna gera í stað þess að lofa Jehóva?
2 Innan skamms mun Jehóva Guð leggja það stjórnmálaleiðtogum veraldar í brjóst að gereyða henni. (Opinberunarbókin 17:12, 16, 17) En eyðendur falstrúarbragðanna munu ekki taka undir sigursönginn. Þess í stað munu þeir, undir áhrifum Satans sem einnig er nefndur Góg, ráðast á þá sem iðka sanna trú, þá sem lifa í friði og halda sér aðgreindum frá illsku þessa heims. — Jesaja 2:2-4; Esekíel 38:2, 8-12; Jóhannes 17:14; Jakobsbréfið 1:27.
3. Hvers vegna munu þjónar Jehóva á jörð taka undir hinn himneska söng?
3 Er stjórnmálaleiðtogar ögra þannig Guði með árás sinni mun Harmagedónstríðið brjótast út og allar hinar andtrúarlegu þjóðir verða að engu gerðar. Þessu næst verða Satan og illir andar hans hindraðir í að hafa framar ill áhrif á jörðina. (Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21; 20:1, 2) Með þakklæti í hjörtum munu allir eftirlifandi menn taka undir með hinum himneska kór: „Halelúja, [Jehóva] Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn.“ (Opinberunarbókin 19:6) Með þessum miklu atburðum hefst nýtt skeið í sögu veraldar. Jehóva hefur þá upphafið drottinvald sitt og útrýmt af jörðinni öllum sem ögra stjórn hans. Loks verður runninn upp tími hins himneska brúðkaups. Eins og áfram segir í spádómssöngnum: „Gleðjumst og fögnum og gefum [Jehóva] dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.“ — Opinberunarbókin 19:7, 8.
4. (a) Hverja tákna lambið og „brúður“ hans? (b) Hvaða spurninga er spurt hér og hvernig getum við fundið svör við þeim?
4 Lambið er enginn annar en hinn dýrlega gerði Jesús Kristur og „brúður“ hans eru hinir 144.000 trúföstu, smurðu fylgjendur hans allir með tölu sem nú eru sameinaðir honum á himnum. Til samans mynda hin himnesku hjón ríki Guðs og stjórn þess alla með tölu sem mun lyfta mannkyninu, meðal annars hinum látnu sem hljóta upprisu, til mannlegs fullkomleika. (Opinberunarbókin 5:8-10; 14:1-4; 20:4, 12, 13; 21:3-5, 9, 10; 22:1-3) Mun allt ganga eins og áformað er fram að þessu blessunarríka brúðkaupi? Hvernig getur það verið þér til gagns? Til að leita svara við þessum spurningum skulum við skoða atburði tengda brúðkaupi Ísaks sem 24. kafli 1. Mósebókar segir frá.
Guð velur brúði handa Ísak
5, 6. Hvers vegna var Abraham mikið í mun að Ísak kvæntist ekki Kanverja og hverjir eiga að taka það til fyrirmyndar núna? (1. Korintubréf 7:39)
5 Frásagan hefst á því er Abraham gefur ráðsmanni sínum, trúlega Elíeser, fyrirmæli. (1. Mósebók 15:2; 24:2) „Vinn mér eið að því við [Jehóva],“ sagði Abraham, „að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal, heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns og taka konu handa Ísak syni mínum.“ — 1. Mósebók 24:3, 4.
6 Hvers vegna var Abraham svona mikið í mun að sonur hans gengi ekki að eiga Kanverja? Vegna þess að Kanverjar voru afkomendur Kanaans sem Nói hafði formælt. (1. Mósebók 9:25) Auk þess voru Kanverjar þekktir fyrir siðspillingu sína og síðast en ekki síst tilbáðu þeir ekki Jehóva. (1. Mósebók 3:13; 3. Mósebók 18:3, 17-28) Skiljanlegt er að Abraham vildi að sonur hans kvæntist einhverri af hans eigin ætt, afkomanda Sems sem hafði vegna innblásturs hlotið blessun Nóa. (1. Mósebók 9:26) Þetta eru góðar leiðbeiningar handa kristnum nútímamönnum sem ætla sér að ganga í hjónaband! — 5. Mósebók 7:3, 4.
7. Hvernig undirbjó Abraham Elíeser fyrir verkefni sitt?
7 Elíeser lagði af stað í för sína til Mesópótamíu, um 800 kílómetra leið. Hann bjó sig vel til fararinnar, með tíu úlfalda hlaðna gjöfum. (1. Mósebók 24:10) Auk þess gat hann ígrundað hin trústyrkjandi orð húsbónda síns: „[Jehóva], Guð himinsins, . . . mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu.“ — 1. Mósebók 24:7.
8, 9. (a) Hvað gerðist er Elíeser kom til borgar Nahors? (b) Með hvaða prófi var hægt að finna hæfandi brúði handa Ísak?
8 Loks kom Elíeser til borgar Nahors í norðurhluta Mesópótamíu. Hann lét þreytta úlfaldana leggjast til hvíldar við brunn utan borgarinnar. Þetta var um það leyti dags sem konur voru vanar að sækja vatn og kjörið tækifæri fyrir Elíeser til að leita væntanlegrar brúðar handa Ísak. En hvers konar kona átti það að vera? Sú fegursta? Nei. Elíeser var fyrst og fremst að leita að guðrækinni konu. Það má ráða af auðmjúkri trúarbæn hans sem hann bar nú fram: „[Jehóva], Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham. Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn. Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ‚Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,‘ svarar: ‚Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,‘ — hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum.“ — 1. Mósebók 24:11-14.
9 Þetta var góður prófsteinn. Að sögn The New Encyclopædia Britannica getur þyrstur úlfaldi drukkið ‚um 100 lítra af vatni á 10 mínútum.‘ Ekki er víst að úlfaldar Abrahams hafi verið svo þyrstir, en konur þess tíma vissu vafalaust hve mikið dýrin gátu drukkið ef því var að skipta. Það þurfti mjög vinsamlega, óeigingjarna og duglega konu til að bjóða sig fram til að ausa vatni handa tíu þreyttum úlföldum ókunnugs manns.
10, 11. (a) Á hvaða undraverðan hátt var bæn Elíesers svarað? (b) Hvernig sýndi Rebekka sína góðu eiginleika? (c) Hvernig brást Elíeser við?
10 Áður en Elíeser hafði lokið bæn sinni var henni svarað, því að frásagan segir: „Þá kom Rebekka . . . en stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni. Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: ‚Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni.‘ Og hún svaraði: ‚Drekk, herra minn!‘ Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka. Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: ‚Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína.‘ Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans.“ — 1. Mósebók 24:15-20.
11 Elíeser ‚starði þegjandi‘ á þetta undraverða svar við bæn sinni. Er hún hafði lokið verkinu launaði hann henni fyrir með nefhring úr gulli og tveim armböndum úr gulli og spurði: „Hvers dóttir ert þú?“ Er hann komst að því að hún var dóttir bróðursonar Abrahams kraup hann á kné frammi fyrir Jehóva í lotningarfullri bæn og sagði: „Lofaður sé [Jehóva], Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir [Jehóva] leitt veginn til húss frænda húsbónda míns.“ — 1. Mósebók 24:21-27.
12. Hvað gerðist á heimili Rebekku?
12 Rebekka hljóp heim til að segja fjölskyldu sinni hvað gerst hefði. Síðar, þegar faðir og bróðir Rebekku heyrðu af munni Elíesers sjálfs hver væri tilgangur fararinnar og hvernig Jehóva hefði svarað bæn hans, féllust þeir hiklaust á að Ísak mætti eiga Rebekku. „Og er þjónn Abrahams heyrði þessi orð, laut hann til jarðar fyrir [Jehóva]. Og þjónninn tók upp skartgripi af silfri og skartgripi af gulli og klæði, og gaf Rebekku, en bróður hennar og móður gaf hann gersemar.“ — 1. Mósebók 24:52, 53.
Viðbrögð Rebekku og þerna hennar
13. Hvernig var það staðfest að Jehóva hafði valið rétt?
13 Hvernig leit Rebekka á þau sérréttindi að vera valin af Guði sem brúður Ísaks? Það sýndi sig strax næsta dag hvaða tilfinningar bærðust með henni innst inni. Elíeser hafði nú lokið erindi sínu og vildi snúa tafarlaust heim aftur til húsbónda síns. En fjölskylda Rebekku vildi að brúðurin dveldi hjá þeim í að minnsta kosti tíu daga. Það var því lagt fyrir Rebekku að ákveða hvort hún væri reiðubúin að fara þegar í stað. „Ég vil fara,“ svaraði hún. Það bar vitni um sterka trú á handleiðslu Jehóva að hún skyldi fallast á að yfirgefa fjölskyldu sína þegar í stað og fara til fjarlægs lands til að giftast manni sem hún hafði aldrei séð. Það staðfesti að rétta konan hafði verið valin. — 1. Mósebók 24:54-58.
14. (a) Hverjir fylgdu Rebekku? (b) Hvers konar ferðalag áttu þær fyrir höndum?
14 Rebekka hafði félagsskap á leiðinni. Frásagan segir: „Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum.“ (1. Mósebók 24:61) Úlfaldalestin lagði því af stað í hættulega, 800 kílómetra för um ókunnug landssvæði. Klyfjaðir úlfaldar „komast að meðaltali um fjóra kílómetra á klukkustund,“ segir í Lademanns Dyreleksikon. Ef úlfaldar Abrahams fóru á þeim hraða átta stundir á dag hefur förin til Negeb tekið um 25 daga.
15. (a) Hvaða gott fordæmi eru Elíeser, Rebekka og þernur hennar? (b) Fyrir hvað er þessi frásaga spádómleg?
15 Elíeser, Rebekka og þernur hennar treystu fyllilega á handleiðslu Jehóva og eru gott fordæmi kristnum nútímamönnum! (Orðskviðirnir 3:5, 6) Auk þess er frásagan trústyrkjandi, spádómlegur sjónleikur. Eins og við höfum séð táknar Abraham Jehóva Guð sem fórnaði ástkærum syni sínum, hinum meiri Ísak, til að syndugir menn gætu öðlast eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Undirbúningurinn fyrir brúðkaup Ísaks átti sér stað allnokkru eftir að honum hafði verið þyrmt á fórnaraltarinu. Það táknaði undirbúninginn undir hið himneska brúðkaup sem hófst fyrir alvöru eftir upprisu Jesú.
Brúðkaup hins meiri Ísaks
16. (a) Hvernig er þjónn Abrahams góð táknmynd heilags anda Guðs? (b) Hvaða spurninga má spyrja varðandi andann og brúðina?
16 Nafnið Elíeser merkir „Guð minn er hjálpari.“ Bæði með nafni sínu og verkum er hann viðeigandi tákn heilags anda sem hinn meiri Abraham, Jehóva Guð, sendi til fjarlægs lands, til jarðar, til að velja sæmandi brúði handa hinum meiri Ísak, Jesú Kristi. (Jóhannes 14:26; 15:26) Brúðarhópurinn er ‚söfnuðurinn‘ myndaður af lærisveinum Jesú sem eru getnir með heilögum anda sem andasynir Guðs. (Efesusbréfið 5:25-27; Rómverjabréfið 8:15-17) Líkt og Rebekka fékk dýrar gjafir, eins fengu fyrstu meðlimir kristna safnaðarins á hvítasunnunni árið 33 undraverðar gjafir til tákns um himneska köllun sína. (Postulasagan 2:1-4) Líkt og Rebekka hafa þeir fúslega sagt skilið við öll veraldleg og holdleg sambönd til að geta um síðir sameinast himneskum brúðguma sínum. Frá þeim tíma er hinir einstöku meðlimir brúðarhópsins eru kallaðir fram til dauða þeirra, verða þeir að gæta andlegs meydóms síns á leið sinni um hinn hættulega og lokkandi heim Satans. (Jóhannes 15:18, 19; 2. Korintubréf 11:13; Jakobsbréfið 4:4) Fylltur heilögum anda býður brúðarhópurinn öðrum að eignast hlutdeild í hjálpræðisráðstöfun Jehóva. (Opinberunarbókin 22:17) Fylgir þú fordæmi brúðarinnar með því að fylgja einnig leiðsögn andans?
17. (a) Hvað tákna úlfaldarnir tíu? (b) Hvaða viðhorf ber okkur að hafa til Biblíunnar og þess biblíulega lesefnis sem brúðarhópurinn lætur í té? (Postulasagan 17:11)
17 Brúðarhópurinn metur mikils það sem úlfaldarnir tíu tákna. Talan tíu er notuð í Biblíunni til tákns um fullkomleika eða algerleika þess sem á jörðu er. Hægt er að líkja úlföldunum tíu við hið heila og fullkomna orð Guðs sem veitir brúðarhópnum andlega fæðu og andlegar gjafir. (Jóhannes 17:17; Efesusbréfið 1:13, 14; 1. Jóhannesarbréf 2:5) Í Varðturninum þann 1. nóvember 1948 er það að Rebekka skyldi brynna úlföldunum heimfært þannig á brúðarhópinn: „Þeir ígrunda í kærleika orð Guðs sem færir þeim mikið af anda hans. Þeir hafa áhuga á skráðu orði hans, bera það fram og gera það ferskt með því að þjóna því og sýna einlægan áhuga á boðskap þess og tilgangi, og þeir leitast við að trúa því.“ Sem dæmi um þetta hafa leifar brúðarhópsins í kærleika sínum veitt milljónum manna aðgang að hinni fersku, nútímalegu Nyheimsþýðingu heilagrar Ritningar. Þótt þessi ágæta þýðing sé ef til vill ekki fáanleg á móðurmáli þínu getur þú sýnt að þú kunnir að meta Biblíuna með því að nema hana reglulega með hjálp þeirra námsgagna sem brúðarhópurinn lætur í té. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Brúðkaup lambsins nálgast
18. Hvers vegna eru þernur Rebekku gott tákn um félaga brúðarhópsins nú á dögum?
18 Núna á síðustu dögum heims Satans hefur „mikill múgur“ manna, sambærilegur við „þernur“ Rebekku, gengið í lið með brúðarhópnum. Eins og var hjá Rebekku eru ‚þernurnar‘ langtum fleiri en brúðarhópurinn sem telur 144.000 meðlimi. Þær eru „mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ Jesú Krists. (Opinberunarbókin 7:4, 9; Jóhannes 10:16) Sem drottinhollar þernur brúðarinnar verða þeir einnig að halda sér óspilltum af illum heimi Satans. Þeir verða að fylgja leiðsögn anda Jehóva og orðs hans eins og brúðarhópurinn skýrir það fyrir þeim. En launin, sem þeir eiga í vændum, eru ólík. Ef þeir halda áfram að styðja brúður Krists dyggilega munu þeir lifa af endi heims Satans og hljóta það stórfenglega tækifæri að lifa að eilífu á jörð sem verður paradís. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
19. Hvað gerðist þegar Rebekka og þernur hennar komu á leiðarenda?
19 Tókst Rebekku og „þernum“ hennar að ná markmiði sínu? Já, Biblían skýrir svo frá: „Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma. Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum.“ Eftir að Elíeser hafði skýrt frá vel heppnaðri för sinni tók Ísak sér Rebekku fyrir konu og „elskaði hana.“ — 1. Mósebók 24:63-67.
20. Hvaða gleðilegur atburður er táknaður með brúðkaupi Ísaks?
20 Tilgangur Jehóva með brúði Krists getur ekki heldur brugðist. (Jesaja 55:11) Innan skamms, þegar Babýlon hin mikla hefur verið dæmd og að engu gerð, mun hinn síðasti af brúðarhópnum ljúka för sinni. Þá er kominn tími til að leiðir skilji með þeim og félögum þeirra og þeir sameinist hinum meiri Ísak á himnum í hjónabandi. Þá mun mikil gleði ríkja um alheim allan! — Opinberunarbókin 19:6-8.
21. Hvað ættum við öll að gera nú er hið himneska brúðkaup nálgast?
21 Uns það gerist eru milljónir manna að öðlast blessun með því að bregðast jákvætt við þjónustu þeirra fáu sem eftir eru af brúðinni. Áður en þeir hafa allir lokið jarðnesku skeiði sínu með dauða mun eyðing heimsveldis falstrúarbragðanna, sem líkt er skækju, marka upphaf ‚mikillar þrengingar sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims.‘ Nú er aðeins skammur tími eftir. Ef þú vilt lifa af er áríðandi að þú takir þátt í að framfylgja boðum Guðs! (Matteus 24:14, 21; Markús 13:10; Lúkas 21:15; Jóhannes 13:34) Þessi boð hafa sérstakt gildi á okkar örðugu tímum. Því skalt þú halda áfram, hvort heldur þú tilheyrir leifum brúðarinnar eða ‚miklum múgi‘ félaga hennar, að hlýða Jehóva, honum til dýrðar og sjálfum þér til eilífrar hamingju. Það verður stórfenglegt fyrir múginn mikla, sem þegar er talinn vinur Guðs, að halda áfram að lifa er Jehóva ‚gerir alla hluti nýja‘ og varanleg blessun streymir til milljóna manna í paradís á jörð! — Opinberunarbókin 21:5; 22:1, 2, 17.
Manst þú?
◻ Hvaða hrífandi atburðir munu eiga sér stað innan skamms?
◻ Hvað tryggir að hið himneska brúðkaup muni verða eins og áformað er?
◻ Við hvað má líkja Elíeser og úlföldunum tíu?
◻ Hverjir samsvara Rebekku og þernum hennar?
◻ Hvað getum við lært af þeim atburðum sem voru undanfari brúðkaups Ísaks?